Fréttir

Fimm kennarar í herrakaffinu

Áfram heldur herrakaffið á Grund og nú var slíkt samsæti á boðstólum í austurhúsi Grundar, á vinnustofunni. Heimilismenn byrjuðu á því að segja aðeins frá sér og þá kom á daginn að í þessum litla hópi voru fimm fyrrverandi kennarar, tveir grunnskólakennarar og þrír framhaldsskólakennarar. Var mikið hlegið yfir þessari skemmtilegu tilviljum. Einn þeirra er giftur presti og einn prestur í hópnum, sr. Auður Inga var að aðstoða herrana í samsætinu og kom á daginn að eiginkonan sem var prestur heitir líka Auður. Meðlætið var einstaklega þjóðlegt, flatkökur og kleinur sem rann ljúflega ofan í mannskapinn.

Haustæfingar hafnar hjá Grundarkórnum

Það ríkti ánægja í hátíðasalnum nú fyrir helgi þegar Grundarkórinn hittist loksins allur saman á ný eftir að hafa verið hólfaskiptur vegna Covid. Kórfélagar hittast nú vikulega og æfa saman og það má rifja upp að auk heimilismanna þá eru starfsmenn og aðstandendur líka velkomnir.

Það er gott að hafa hlutverk og fá tækifæri til að gefa af sér

Þó árin færist yfir og fólk búi á hjúkrunarheimili þá breytist ekki þörfin fyrir að hafa hlutverk og fá að gefa af sér. Það styttir líka daginn að hafa eitthvað fyrir stafni og vera í góðum félagsskap. Þetta var nákvæmlega það sem heimilisfólkið gerði í dag þegar það pakkaði Heimilispóstinum sem síðan er sendur í pósti til aðstandenda og velunnara Grundarheimilanna. Það var hrein unun að fylgjast með heimilisfólki og starfsfólki hlið við hlið að vinna, ljúfir tónar bárust um matsal Litlu Grundar og síðan var boðið upp á gos og sætindi. Notaleg stund.

Réttardagur á Grund

Það er kominn föstudagur og það er réttardagur á Grund. Við sýnum myndina Fjallkónga og bjóðum upp á þjóðlegar veitingar meðan á sýningu stendur. Hér er það Jón Ólafur sem hitar upp með þjóðlegum tónum áður en farið verður í kjötsúpu nú í hádeginu.

Rollur í forgrunni

Rollur voru í forgrunni á þematorgi sem haldið var á þriðju hæð Grundar í gær fyrir heimilisfólk í vesturhúsi. Þema dagsins var kindarlegar sögur en í því fólst ýmis fróðleikur og spjall um nýtingu á kindum og kindarlegheit í mállýskunni. Sagðar voru sögur af útilegukindum og sveitasöngvar með harmonikkuleik.

Kosning utan kjörfundar á Grund

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna kosninga til Alþingis fer fram hér á heimilinu laugardaginn 11. september nk. og fer fram í aðstöðu sjúkraþjálfunar á V-1. Atkvæðagreiðsla þessi er ætluð heimilismönnum á Grund. Heimsóknargestur þann daginn má gjarnan fylgja sínum aðstandanda, en þarf að bera grímu og gæta að sóttvörnum. Heimilisfólki í austurhúsi er boðið að kjósa frá kl. 11-12 Heimilisfólki á Litlu og Minni Grund er boðið að kjósa frá kl. 12-14 Heimilisfólki í vesturhúsi er boðið að kjósa 14-15

Gaf Grund standlyftara

Thorvaldsensfélagið ákvað að styrkja starfsemi Grundar með standlyftara af tegundinni Sara Flex. Standlyftarinn mun koma sér ákaflega vel fyrir heimilisfólkið okkar, hann er rafknúinn, mjög öflugur og stöðugur og auðveldar starfsfólkinu störfin svo um munar. Thorvaldsensfélaginu er innilega þakkað fyrir þessa höfðinglegu gjöf. Það var Kristín Ruth Fjólmundsdóttir formaður Thorvaldsensfélagsins sem afhenti Sigrúnu Faulk hjúkrunarframkvæmdastjóra Grundar standlyftarann.

Fiskidagurinn litli á Grund

Það ríkti tilhlökkun alla vikuna fyrir Fiskideginum litla sem haldinn var nú í fyrsta sinn á Grund. Heimilismenn og starfsfólk skreyttu með úrklippum, blöðrum, veifum, kúlum og baujum. Deildir hér á Grund fengu ný nöfn eins og Lýsuhólar, Síldargata, Rauðmagastræti og svo framvegis. Þá fengum við fiskmeti frá Dalvík, upptökur af tónleikum sem haldnir hafa verið á Fiskideginum mikla á Dalvík og bókina um þessa árlegu skemmtun á Dalvík sem við lásum uppúr.

Sól í garði Grundar

Það er um að gera að nýta góða veðrið og heimilismenn á A-2 hér á Grund ákváðu að bregða sér út í garð í gær og þá var auðvitað boðið upp á ís.

Kæru aðstandendur

Við viljum skerpa hérna á nokkrum atriðum vegna smita í samfélaginu. Hjúkrunarheimilið er áfram opið en við hvetjum ykkur til að gæta ítrustu árvekni og hafa sóttvarnaráðstafanir í heiðri. Ekki er ráðlegt að börn og ungmenni komi í heimsókn á þessum tímapunkti. Undanþágur má gera ef barn/ungmenni er nánasti aðstandandi. Að öllu jöfnu mæti aðeins tveir gestir í heimsókn til íbúa á hverjum tíma nema að höfðu samráði við starfsfólk deildar. Gestir fara rakleiðis að herbergi íbúa og aftur að útidyrum að heimsókn lokinni. Gestir mega ekki staldra við í sameiginlegum rýmum heimilis. Gestir þvo hendur með sápu og spritta áður en gengið er inn á heimili og einnig við brottför. Gestir mega ekki koma í heimsókn ef þeir: a. Eru í sóttkví. b. Eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu úr sýnatöku). c. Hafa dvalið erlendis undanfarna daga. d. Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift. e. Eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang).