Mörk

Jólaglögg og jólatónar

Það styttist í aðventuna og við hér í Mörk hlökkum til að skreyta og undirbúa komu jólanna. 🌲 Þær Fanney jólaálfur og Rakel jólastrumpur þjófstörtuðu aðventunni með jólatónlist, dansi og glensi og færðu heimilunum jólaglögg🍷

Kosið í Mörk í dag

Minnum á að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna kosninga til alþingis fer fram í sjúkraþjálfun á fyrstu hæð í Mörk í dag, mánudaginn 18. nóvember frá klukkan 15:00 til 18:00. Aðstandendur eru beðnir um að fylgja þeim heimilismönnum sem fylgd þurfa.

Öll Grundarheimilin eru nú Eden heimili

Í gær var Eden hringnum okkar lokað á Grund en þá fékk heimilið formlega viðurkenningu sem Eden heimili. Þar með eru öll Grundarheimilin þrjú orðin Eden heimili. 👏👏 Á sama tíma var endurnýjuð vottunin fyrir Mörk og Ás. Af þessu tilefni var boðið upp á marsípantertu með kaffinu á öllum heimilunum. Það var Karl Óttar Einarsson, forstjóri Grundarheimilanna, sem tók formlega við viðurkenningunni fyrir Grund frá Rannveigu Guðnadóttur forsvarsmanni Eden á Íslandi, https://edenalticeland.org/

Hrekkjavaka í Mörk

Hér í Mörk gerðum við okkur dagamun á hrekkjavöku, skreyttum hátt og lágt og skárum út skraut og grasker. Margir gengu skrefinu lengra og settu upp grímur eða fóru jafnvel í búning. Skemmtileg tilbreytni sem lífgar upp á lífið og tilveruna

Grundheimilin fengu þrjá kúlustóla að gjöf

Thorvaldsensfélagið gaf Grundarheimilunum nýlega frábæra gjöf, þrjá svokallaða kúlustóla sem koma með skammelum og fer einn stóll á hvert heimili, á Grund, í Mörk og í Ás. Vængir leggjast yfir herð og bringu og lítil grjón eru í hálsstuðningi. Stólarnir umvefja og bæta líkamsvitund, auka vellíðan og öryggiskennd. Þyngdin, þrýstingur og hreyfing frá kúlum örvar vöðvaskyn. Grundarheimilin þakka af alhug þessa rausnarlegu gjöf og þann hlýhug sem Thorvaldsensfélagið hefur sýnt Grundarheimilunum um árin. Á myndinni er Karl Óttar Einarsson, forstjóri Grundarheimilanna, að taka við stólunum frá fulltrúum Thorvaldsensfélagsins, Kristínu Fjólmundsdóttur og Dóru Garðarsdóttur. Sigrún Faulk, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Grund, situr í stólnum góða og sýnir hvernig hann virkar..... og gerir tilraun til að slaka á

Tónleikar á vegum Óperudaga

Síðasta föstudag fengum við að njóta yndislegra tónleika á vegum Óperudaga í Reykjavík. Þær Bryndís Guðjónsdóttir sópran og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari komu til okkar fluttu lög og ljóð eftir íslenskar konur. Dásamlegir tónleikar og þökkum við þeim kærlega fyrir komuna.

Bleikur dagur í Mörk

Það var bleikur dagur í Mörk í gær og það fór sko ekkert á milli mála. Víða um húsið voru bleikar skreytingar. Bleik kaka var borin fram með kaffinu, heimilisfólk skartaði bleiku og meira að segja ferfætlingur hjá okkur var með bleika ól. Það er gaman að segja frá því að hér í Mörk býr Halldóra Árnadóttir en hún starfaði hjá Krabbameinsfélaginu og tók þá í því að stofna bleikan október.

Konukvöld

Í síðustu viku héldum við í fyrsta skipti konukvöld. Boðið var upp á konfekt og skálað í gleðidrykk. Þær Lilja, Súsanna, Edda, Bára og Sjöfn íbúar í 60+ ásamt Ástu á hárgreiðslustofunni voru með tískusýningu fyrir gesti með fötum úr verslunum Grundarheimilanna. Karl Óttar forstjóri kom og skenkti í glös hjá dömunum og Fanney iðjuþjálfi var kynnir kvöldsins. Mikil gleði og stuð og þökkum við fyrir skemmtilega kvöldstund.

Það koma til mín setningar sem verða að ljóðum

Þegar forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, var sett í embætti forseta Íslands flutti hún í lok ræðu sinnar ljóðið Leitum. Það sem færri vita kannski er að ljóðskáldið, Hólmfríður Sigurðardóttir, býr í Mörk. Guðbjörg R. Guðmundsdóttir heimsótti Hólmfríði einn bjartan haustmorgun og spurði hvort hún væri til í að spjalla um ljóðin sín og leyfa mér að birta nokkur þeirra hér á heimasíðu Grundarheimilanna.

Lopapeysudagur á Grundarheimilunum

Það var haldinn lopapeysudagur á Grundarheimilunum síðastliðinn miðvikudag. Hér eru það starfsfólk og heimilisfólk á 2. hæð Markar sem skarta lopanum.