Mörk

Sumarhátíð í Mörk

Í síðustu viku var haldin sumarhátíð í Mörk. Eins og vera ber þegar hátíð er annarsvegar var boðið upp á allskonar leiki, andlitsmálningu og blaðrarinn bjó til blöðrufígúrur. Edhúsið bauð upp á dýrindis veitingar og Guðrún Árný hélt uppi stuðinu og söng með heimilisfólki, starfsfólki, aðstandendum og íbúum hjá Íbúðum 60+.😍 Mikil gleði var í loftinu og sumrinu fagnað.😍

Færðu samfélaginu í Mörk rausnarlega peningagjöf

Aflinn, félag qi gong iðkenda færði samfélaginu í Mörk peningagjöf að upphæð ein milljón króna. Félagið hefur um árabil boðið upp á qi gong æfingar í Kaffi Mörk sem félagsmenn hafa nýtt sér sem og nokkrir íbúar hjá Íbúðum 60+. Vonandi verður æfingafyrirkomulagið með svipuðum hætti um ókomin ár. Fjármunirnir verða nýttir á einhvern hátt sem kemur íbúum íbúðanna og heimilismönnum hjúkrunarheimilisins sem best. Er Aflanum innilega þakkað fyrir þessa rausnarlegu gjöf. Á myndinni er Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Grundarheimilanna, að taka við þessari rausnarlegu gjöf frá forsvarsmönnum félagsins Birni Bjarnasyni og Viðari H. Eiríkssyni.

Notaleg samverustund

Suma morgna er bara best að vera í rólegheitum, lesa Moggann, grípa kannski í spil, lita smá en aðallega bara eiga notalega samverustund og spjalla.

Líf og fjör í sjúkraþjálfun

Alltaf er nóg um að vera og líf og fjör í sjúkraþjálfuninni hér í Mörk. Þar eru gerð æfingaplön eftir þörfum og getu hvers og eins.

Gáfu heimilisfólki Grundarheimilanna konfekt fyrir 17. júní

Það er gaman að segja frá því að fulltrúar frá Nói Síríus höfðu samband og spurðu hvort ekki mætti gleðja heimilisfólk Grundarheimilanna með konfekti á 17. júní. 🌰 Því var að sjálfsögðu vel tekið og í morgun fengu öll heimilin þrjú svona sendingu, Grund, Mörk og Ás. Takk kærlega fyrir að hugsa svona fallega til okkar og hér verður sko boðið upp á konfekt með kaffinu á þjóðhátíðardaginn, þökk sé Nóa Síríus. 🇮🇸

Loki heillaði alla uppúr skónum

Sumir gestir sem koma í Mörk eru sérlega skemmtilegir og ljúfir. Þannig var það einmitt í gær þegar heimalingurinn Loki frá Hraðastöðum í Mosfellsdal kom í heimsókn. 🐑 Hann fékk mikið klapp og marga kossa enda Loki einstaklega skemmtilegur, mjúkur og sætur. Það sem gerði þó útslagið er að hann var sko alveg til í knús.

Svalirnar í Mörk orðnar sumarlegar

Sumarblómin voru sett niður í Mörk í síðustu viku, rétt áður en rokið skall á í gær. Heimilismenn og starfsfólk í Mörk sameinaðist um að gera svalirnar sem fallegastar. Seinna í sumar verður svo árlega svalasamkeppnin haldin þar sem verðlaun verða veitt fyrir þrjár fallegustu svalirnar.

Grundarheimilin bjóða í bíó

Grundarheimilin tryggðu sér sýningarrétt á myndinni Human Forever fyrir heimilisfólk, aðstandendur og starfsfólk. Þetta er mögnuð heimildarmynd, einlæg og áhrifamikil sem fjallar um heilabilun. Markmið með gerð myndarinnar var að gera veröldina betri fyrir fólk sem þarf að takast á við alzheimer. Teun Toebes vann á lokaðri heilabilunardeild á hjúkrunarheimili í Hollandi þegar hann fékk þá hugmynd að gera heimildamyndina Human Forever. Hann ferðaðist til ellefu landa á þremur árum og leitaði svara fyrir framtíð þessa hóps. „Okkur langaði að fjalla um heilabilun þar sem fólk sem lifir með henni segði sjálft söguna“ sagði Teun. Hann gerði myndina með vini sínum og kvikmyndagerðarmanninum Jonathan de Jong. Myndin sýnir hvernig tekist er á við heilabilun í þessum ólíku löndum sem þeir heimsóttu. Myndin var frumsýnd 2023 og hefur verið geysilega vel sótt þar sem hún hefur verið sýnd í kvikmyndahúsum. Það er komið að því að bjóða upp á sýningu myndarinnar í Mörk en á næstunni verður hún einnig sýnd á Grund og í Ási. Eins og sést í auglýsingunni hér að neðan er boðið upp á tvo sýningartíma svo sem flestir hér í Mörk geti nýtt sér að sjá þessa mögnuðu mynd. Og það verður boðið upp á popp og kók.

Síðasta ball fyrir sumarfrí

Síðasta harmonikkuball vetrarins var í síðustu viku og vel mætt á dansleikinn. Það var að venju Markarbandið sem lék fyrir dansi en það er hópur harmonikkuleikara sem heimsækir okkur í hverjum mánuði í sjálfboðavinnu. Við erum svo innilega þakklát fyrir þessa frábæru hljóðfæraleikara sem gefa sér tíma til að koma og gleðja fólkið okkar með þessum hætti

Upplestur nýtur vinsælda

Þó að sólin skíni skært þessa dagana og gott sé að sitja úti á svölum þá getur stundum verið notalegt að hvíla sig aðeins á sólskininu, setjast niður og rifja upp gamla tíma. Á annarri hæðinni í Mörk er mikill áhugi fyrir upplestri. Rebekka les þessa dagana fyrir heimilisfólk upp úr bókinni Þar sem djöflaeyjan rís.