Íbúðir 60+

Tilkynning vegna tölvuárásar á Grundarheimilin

Þessi tilkynning er send til núverandi og fyrrverandi íbúa Grundarheimilanna (Grund, Mörk og Ás), aðstandenda íbúa, skjólstæðinga, umsækjenda og íbúa í íbúðum 60+ í Mörkinni, starfsfólks Grundarheimilanna sem og verktaka sem starfa eða hafa starfað fyrir heimilin. Líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum urðu Grundarheimilin fyrir fjandsamlegri tölvuárás. Árásin fólst í því að tölvuþrjótar brutust inn á netþjóna og komust þannig inn í kerfi þar sem finna má upplýsingar um núverandi og fyrrverandi íbúa, aðstandendur, skjólstæðinga, starfsfólk og verktaka heimilanna. Búið er að loka fyrir aðgang tölvuþrjótanna og ljóst þykir að engum gögnum eða upplýsingum hefur verið eytt eða þeim breytt. Heimilin hafa áfram fullan aðgang að öllum upplýsingum sem kerfin innihalda og árásin hefur því takmörkuð áhrif haft á þá þjónustu sem heimilin veita íbúum og skjólstæðingum. Rannsókn hefur þó leitt í ljós að áður en að tölvuárásin uppgötvaðist tókst tölvuþrjótunum að afrita hluta af þeim upplýsingum sem finna mátti í kerfum heimilanna. Þær persónuupplýsingar sem vitað er á þessari stundu að afritaðar voru eru eftirfarandi, um eftirfarandi flokka einstaklinga: Skjólstæðingar, íbúar og aðstandendur • tengiliða- og samskiptaupplýsingar skjólstæðinga, íbúa og aðstandenda, • upplýsingar um greiðslur skjólstæðinga og íbúa, • heilsufarsupplýsingar sem tengjast umönnun, • upplýsingar sem tengjast veittri heilbrigðisþjónustu á heimilunum, s.s. vegna lyfjagjafa, skráningu á rannsóknarniðurstöðum, læknabréfum og viðtölum og • upplýsingar um óvænt atvik (eftir því sem við á). Íbúar og umsækjendur um íbúðir 60+ í Mörkinni og aðstandendur • tengiliða- og samskiptaupplýsingar og • upplýsingar um greiðslur íbúa. Starfsfólk og fyrrverandi starfsfólk • samskipta- og tengiliðaupplýsingar, • bankaupplýsingar, • upplýsingar um lífeyris- og stéttafélagsaðild og • launaupplýsingar. Verktakar • samskipta- og tengiliðaupplýsingar, • reikningsupplýsingar og • afrit af reikningum. Ekkert bendir til þess að þessar upplýsingar hafi verið birtar og tölvuþrjótarnir hafa ekki hótað slíkri birtingu. Rannsókn árásarinnar stendur enn yfir með aðstoð færustu sérfræðinga landsins á þessu sviði. Í ljósi viðkvæms eðlis þessara upplýsinga eru viðtakendur hvattir til að vera á varðbergi gagnvart mögulegri misnotkun á upplýsingunum af hálfu tölvuþrjótanna. Ef grunur vaknar um slíka misnotkun þá skal gæta fyllstu varúðar í samskiptum, bregðast ekki við, heldur láta okkur vita eða tilkynna um atvikið til CERT-IS netöryggissveitarinnar. Rétt er að árétta að Grundarheimilin munu ekki senda út neina pósta að fyrrabragði þar sem fólk er beðið um að senda upplýsingar eða ýta á hlekki. Rætt verður við alla íbúa Grundarheimilanna og þeir upplýstir um stöðu málsins. Við höfum opnað fyrir sérstakan upplýsingasíma ef einhverjar spurningar vakna. Fulltrúi Grundarheimilanna svarar í síma 530-6200 og í gegnum netfangið personuvernd@grund.is. Síminn er opinn frá kl. 10 til 14 næstu daga. Búið er að tilkynna um árásina til Persónuverndar, Landlæknis og CERT-IS netöryggissveitarinnar í samræmi við það sem áskilið er í lögum og starfsleyfi heimilanna. Einnig er verið að undirbúa kæru til lögregluyfirvalda. Grundarheimilin munu halda viðtakendum upplýstum eftir því sem málinu vindur fram. Við þökkum fyrir skilninginn á meðan við komumst til botns í málinu. Karl Óttar Einarsson, forstjóri Grundarheimilanna

Tölvuárás á Grundarheimilin

Takmarkað netaðgengi er á Grundarheimilunum í varúðarskyni vegna tölvuárásar sem uppgötvaðist síðdegis í gær. Áhrifa þessa gætir einnig á símkerfi og tölvupóst. Unnið er að því með færustu sérfræðingum að leita að uppruna árásarinnar og koma kerfunum upp að nýju í forgangsröð út frá mikilvægi. Reikna má með að áhrifin verði a.m.k. einhver næstu daga. Þá er unnið að því að tilkynna málið til opinberra aðila, s.s. Persónuverndar, Cert-IS og Embætti landlæknis. Við höfum sent aðstandendum upplýsingar á sms eins og við höfum getað, það kann að vera að einhverjir hafi fengið skilaboð sem að ekki eru lengur aðstandendur hjá okkur. Við biðjumst velvirðingar á því. Við munum halda aðstandendum upplýstum eftir því sem málið þróast.

Karlakór Kjalnesinga söng jólalögin

Það var troðfullur salur af fólki sem beið með eftirvæntingu eftir Karlakór Kjalnesinga sem kom og söng fyrir heimilisfólk og íbúa Íbúða 60+ síðasta mánudagskvöld. Einn íbúanna, Hafliði Hjartarson, tók meðfylgjandi mynd fyrir okkur. Kórinn undir stjórn Láru Hrannar Pétursdóttur söng jólalög í bland við hefðbundin lög karlakórsins. Frábærir tónleikar. Þakka ykkur hjartanlega fyrir komuna Karlakór Kjalnesinga. Hlökkum til að fá ykkur aftur í heimsókn á næsta ári.

Konurnar perluðu armbönd fyrir Kraft

Í gær hittust konur sem búa hjá Íbúðum 60+ í Mörk og perluðu saman armbönd til styrktar Krafti, sem er félag ungs fólks sem hefur greinst með krabbamein. Það er ekki leiðinlegt að segja frá því en þessar duglegu konur náðu að perla 114 armbönd, hvorki meira né minna. Söluandvirðið nemur 330.600 krónum Ekki amalegt það. Þær voru svo áhugasamar og skemmtu sér konunglega og tilkynntu að þær væru alveg til í að endurtaka þessa ljúfu stund.

Bleikir tónar á konukvöldi

Það voru prúðbúnar konur sem mættu á Kaffi Mörk í síðustu viku þegar blásið var til konukvölds hjá Íbúðum 60+. Bleik lýsing, bleikt í glasi, ljúfir tónar og ostabakkar biðu þeirra á kaffihúsinu og dagskrá kvöldsins var skemmtileg. Það var Fanney Björg sem sá um að kynna dagskrána og hún hófst með tískusýningu. Fyrirsæturnar Lilja, Súsanna, Fanney Lára og Weronika gengu um og sýndu danskan tískufatnað sem hentar skvísum á öllum aldri. Stöllurnar Solla, Elva og Erla frá hársnyrtistofunni og fótaaðgerðar- og snyrtistofunni kynntu vörur sínar og svo var happdrætti þar sem vinningarnir voru gjafabréf frá Heilsulind Markar, hársnyrtistofunni sem og frá fótaaðgerðar og snyrtistofu Markarinnar. Að sjálfsögðu voru þær mættar líka Laila frá Heilsulindinni og Alda frá Íbúðum 60+ sem gengu úr skugga um að allt væri eins og það á að vera á svona dásamlegu kvöldi. Kjóll úr kaffipokum Rúsínan í pysluendanum var tískusýningin hennar Unu Stefaníu sem er íbúi hjá Íbúðum 60+. Stefanía rak saumastofu í mörg ár, gerði gjarnan við leðurflíkur. Hún lærði hattasaum af vinkonu sinni og saumaði í mörg ár búninga t.d. fyrir dimmisjónir og síðar vann hún einnig á saumastofu sjónvarpsins. Tískusýningin hennar Stefaníu var með öðruvísi sniði því hún sýndi okkur hvernig hægt er að nýta plastpoka, kaffipoka og jafnvel gardínur í fatasaum. Þegar peningar voru af skornum skammti dóu konur ekki ráðalausar og þá var hægt að nýta það sem hendi var næst. Stórkostlegar flíkur úr þessum efnum sem vöktu mikla athygli á konukvöldinu.

Uppskeruhátíð haustpúttmótaraðarinnar í Mörkinni

Það ríkti kátína á verðlaunaafhendingu haustpúttmótaraðarinnar í Mörkinni. Alls voru sex umferðir spilaðar og þrjár bestu umferðirnar töldu þegar komið var að verðlaunaafhendingu. 🏆🥇 Mótsstjóri var Júlíus Rafnsson og íbúarnir Edda Svavarsdóttir og Birgir Hólm Björgvinsson sáu um að afhenda verðlaunin. Það var naumt hjá konunum sem spiluðu um fyrsta og annað sæti. Í fyrsta sæti var Herdís, í öðru sæti Edda og Margrét í því þriðja. Hjá herrunum varð Sturlaugur í fyrsta sæti, Guðmundur í öðru sæti og Sigurður vermdi þriðja sætið. Þó haustmótaröðinni sé lokið þá halda íbúar áfram að pútta í vetur en meira um tímasetningar og fyrirkomulag síðar

Réttardagur í Mörk

Í síðustu viku var réttardagur í Mörkinni. Íbúar komu saman í hádeginu þar sem íslensku sauðkindinni var hampað, snæddu kjöt og kjötsúpu og fengu sér snafs með. Ekki spillti fyrir að í heimsókn komu Eyjabræður og sungu. Þetta eru félagarnir Þorbjörn Geir Ólafsson og Daði Heiðar Sigurþórsson en þeir eru báðir ættaðir frá Flatey á Breiðafirði og þræl vanir bæði söng og spila á gítar. Guðni Ágústsson gladdi íbúa með skemmtilegri frásögn um ágæti íslensku sauðkindarinnar sem hefur haldið okkur Íslendingum á lífi mann fram af manni. Hann komst skemmtilega að orði eins og jafnan og er vel að sér þegar kemur að réttum. Honum var tíðrætt um Skeiðarréttir og sagði frá því þegar Höskuldur bruggari færði þeim réttarvinið Höskuld en svo hét landinn og bætti við að eitt haustð hefðu komið 18 börn undir, slíkt var fjörið. Hann var sannfærandi þegar hann sagðist hafa verið besti landbúnaðarráðherra á Íslandi og í Evrópu og þó víðar væri leitað og fór svo með vísu sem Jóhannes á Gunnarsstöðum kvað: Allt sem vinum okkar brást Allt sem mátti klaga. Allt sem Drottni yfirsást Ætlar Guðni að laga.

Vel mætt í sundleikfimi

Það er alltaf vel mætt í sundleikfimina hjá honum Daða Reyni sjúkraþjálfara. Daði býður upp á sundleikfimi í heilsulind Markar á mánudögum og föstudögum klukkan tíu og tímarnir standa yfir í hálftíma. Ekki að undra að íbúar fjölmenni í sundleikfimina því Daði er frábær kennari.

Færðu samfélaginu í Mörk rausnarlega peningagjöf

Aflinn, félag qi gong iðkenda færði samfélaginu í Mörk peningagjöf að upphæð ein milljón króna. Félagið hefur um árabil boðið upp á qi gong æfingar í Kaffi Mörk sem félagsmenn hafa nýtt sér sem og nokkrir íbúar hjá Íbúðum 60+. Vonandi verður æfingafyrirkomulagið með svipuðum hætti um ókomin ár. Fjármunirnir verða nýttir á einhvern hátt sem kemur íbúum íbúðanna og heimilismönnum hjúkrunarheimilisins sem best. Er Aflanum innilega þakkað fyrir þessa rausnarlegu gjöf. Á myndinni er Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Grundarheimilanna, að taka við þessari rausnarlegu gjöf frá forsvarsmönnum félagsins Birni Bjarnasyni og Viðari H. Eiríkssyni.

Sumarferð íbúa 60+

Á vordögum var ákveðið að færa sumarferðina fram og hafa hana í júní. Sérstaklega með það fyrir augum að heimsækja uppsveitir Suðurlands í sól og blíðu. Eins og Forrest Gump sagði svo eftirminnilega: „Live is like a box of chocolate, you never know what you will get“. Við fengum rigningu og voru gestagjafar okkar allir á sama máli að við hefðum verið einstaklega óheppin að hafa lent á eina rigningardegi sumarsins. Ferðin var dásamleg, litir gróðursins voru bjartir og fallegir, loftið hreint og skemmtilegur hópur saman kominn sem lét nokkra dropa ekki hafa áhrif á sig. Leið okkar lá úr Mörkinni upp í Hrunamannahrepp þar sem Aldís Hafsteinsdóttir tók á móti okkur. Sýndi okkur fallega félagsheimili Hrunamanna, sagði sögu þess og frá fyrirhuguðum breytingum. Að því loknu ókum við Maríuhringinn sem var kryddaður með skemmtilum sögum og undurfögru landslagi. Að því loknu héldum við yfir í Reykholt þar sem Knútur tók á móti okkur, sagði okkur sögu Friðheima og þeirrar uppbyggingar sem þau fjölskyldan hafa staðið fyrir af krafti og bauð okkur upp á dásamlega tómatsúpu í Vínstofunni. Það er verulega áhugavert að sjá hversu mikið er hægt að byggja upp með einkaframtaki og það fallega er að sjá að allt hefur þetta verið gert með góðu hjartalagi. Ásborg Ósk Arnþórsdóttir fyrrum ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu fór með okkur hring um Reykholt og sagði okkur frá Bláskógabyggð og þá sérstaklega Reykolti með skemmtilegum sögum við tilheyrandi dillandi hlátur áheyrenda. Á heimleið var svo farin sögutúr um Hveragerði þar sem við fórum létt yfir bæjarbraginn og áframhaldandi uppbyggingu Grundarheimila í Ási. Þessi dagur jók betur gleði í hjarta þeirra sem tóku þátt.