25.09.2024
Í síðustu viku héldum við í fyrsta skipti konukvöld. Boðið var upp á konfekt og skálað í gleðidrykk. Þær Lilja, Súsanna, Edda, Bára og Sjöfn íbúar í 60+ ásamt Ástu á hárgreiðslustofunni voru með tískusýningu fyrir gesti með fötum úr verslunum Grundarheimilanna. Karl Óttar forstjóri kom og skenkti í glös hjá dömunum og Fanney iðjuþjálfi var kynnir kvöldsins.
Mikil gleði og stuð og þökkum við fyrir skemmtilega kvöldstund.
23.09.2024
Síðastliðinn fimmtudag var réttardagur Markar. Íbúar 60+ fengu dýrindis kjötsúpu og bessastaðatertu í eftirrétt í hádeginu. Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir og eiginmaðurinn hennar Björn Skúlason komu í heimsókn og nutu dagskránnar sem var í boði með íbúum. Gísli Páll stjórnarformaður Grundarheimilanna sagði frá smölun norðan og austan heiða, Halla Tómasdóttir ávarpaði gesti og í lokin var tekinn fjöldasöngur undir leiðsögn Rebekku Magnúsdóttur.
Við erum þakklát Höllu og Birni fyrir yndislega heimsókn. Takk allir sem komu og nutu réttardagarins með okkur.
17.09.2024
Bókavinir í Mörk koma saman vikulega frá því snemma að hausti til vors. Nú er hafið fjórtánda starfsár hópsins og er lesefnið fyrra hluta vetrar Brekkukotsannáll eftir Halldór Laxness. Hlustað er á lestur höfundar sjálfs og í kjölfarið umræður um efnið, Ólafur Pálmason íbúi leiðir hópinn. Bókavinir í Mörk eru alla miðvikudaga kl.13 í Mýrinni og eru allir íbúar 60+ velkomnir.
29.08.2024
Þá er vöfflukaffið byrjað aftur eftir sumarfrí. Á mánudögum kl. 14:30 er vöfflukaffi í Kaffi Mörk fyrir íbúa í íbúðum 60+, en þá stendur íbúum til boða að kaupa vöfflu og kaffi. Notaleg samvera og er öllum íbúum 60+ velkomið að koma.
15.08.2024
Það var mikil gleði og mikið stuð síðasta þriðjudag en þá héldum við upp á Fiskidaginn litla. Er þetta í sjöunda sinn sem við í Mörk 60+ höldum upp á daginn og þökkum við forsvarsfólki Fiskidagsins mikla á Dalvík fyrir stuðninginn og áhugann. Boðið var upp á fiskrétt, fiskisúpu, fiskiklatta og meðlæti. Gísli Páll stjórnarformaður Grundarheimilanna setti hátíðina og Friðrik Ómar söngvari tók nokkur vel valin lög. Viljum við þakka öllum kærlega fyrir komuna.
16.06.2024
Bara svo þið séuð með það alveg á hreinu þá eru það þessi fjögur fræknu sem pakka inn grænmetinu okkar í Ási og passa að það komist í eldhús Grundarheimilanna og í sölu í verslanirnar okkar þrjár. Frá vinstri Alyssa Rós, Rakel Rós, Siggi sæti og Viktor Berg.
14.06.2024
Blómaklúbbur Mörk 60+ fékk að sjálfsögðu líka blóm úr garðyrkjustöðinni í Ási. Þær Sigrún Hjartardóttir, Una Stefanía Sigurðardóttir, Aðalbjörg Ingvarsdóttir og Björg Skarphéðinsdóttir settu niður blóm við garðskálann með góðri hjálp frá Jónasi í Ási og sumarstarfsfólkinu.
11.06.2024
Þá eru sumarblómin komin til okkar beint frá Hveragerði úr gróðurhúsunum okkar. Stúlkurnar í ræstingunni sjá alltaf um að planta blómunum í beðin fyrir framan hjúkrunarheimilið. Það er orðið blómlegt og fallegt í beðunum.
23.05.2024
Síðastliðið föstudagskvöld hélt tónlistarhópurinn Músík í Mörk sumarlega gleðistund í Kaffi Mörk fyrir íbúa 60+. Karen Lind Ingudóttir kom og söng í upphafi kvölds og með henni var Jóhannes Guðjónsson á píanó en þau voru bæði að ljúka brottfararprófi frá FÍH og ætla áfram í Listaháskólann í haust. Síðla kvölds voru spilaðir ljúfir tónar á tjaldinu og íbúar gæddu sér á léttum veitingum.
07.05.2024
Síðasta innipúttmót vetrarins var haldið i lok apríl og að venju var það Júlíus G. Rafnsson, fyrrverandi forseti Golfsambands Íslands, sem hélt utan um og stýrði mótinu. Eins og í fyrri mótum í vetur voru teknir tveir 9 holu hringir og að því loknu fór pútthópurinn í Kaffi Mörk og gæddi sér á guðaveigum og góðgæti. Það er hugur í fólki að byrja að pútta utandyra og taka þátt í púttmótum undir beru lofti en Júlíus hyggst einnig stýra mótum sumarsins.
Í þessu síðasta innanhússmóti vetrarins var tilkynnt um sigurvegara vetrarins, samtalan tekin úr mótum vetrarins.