Saga húsanna

Í Mörk eru 152 íbúðir í sjö fjölbýlishúsum. Íbúðum fjölgaði um næstum helming árið 2018 er lokið var byggingu fjögurra húsa austan við hjúkrunarheimilið Mörk sem við köllum austurhús. Vestan við hjúkrunarheimilið eru þrjú eldri hús sem eru kölluð vesturhús. Saga þeirra tengist sögu hjúkrunarheimilisins.

Íbúar og lóðir

Lóðirnar Suðurlandsbraut 58-62 og 68-70 eru leigulóðir í eigu Reykjavíkurborgar. Sú kvöð er í samningi að íbúar húsanna skuli vera 60 ára eða eldri. Markarstofnanir við Suðurlandsbraut 58-70 standa nú á lóðum sem eru samtals 39.236 m2. Íbúar fjölbýlishúsanna og heimilisfólk í hjúkrunarheimilinu eru nú hátt á þriðja hundrað. Að viðbættu starfsliði er því orðið hér til samfélag á við lítinn kaupstað.

Vesturhús

Sögu fjölbýlishúsa og hjúkrunarheimilis við Suðurlandsbraut 58-66 má rekja aftur til ársins 1997 þegar hópur einstaklinga stofnaði félagið Markarholt. Félagið fékk úthlutað nefndum lóðum, og hófust framkvæmdir á þeim árið 2005. Upp¬hafleg hugmynd var að tengja saman rekstur hjúkrunarheimilis og íbúða ásamt því að byggja þjónustumiðstöð. Erfiðleikar urðu í rekstri félagsins, og lauk því svo að fyrirtækið Nýsir tók við framkvæmdum. Um leið ákvað heilbrigðisráðuneytið að skilja að rekstur hjúkrunarheimilis¬ og íbúðarbygginganna.

Áform Nýsis voru metnaðarfull. Fyrirhugað var að reisa íbúðarbyggingu og veglega þjónustumiðstöð á lóð númer 64 (þar sem nú er tengigangur og lágbygging undir vesturhúsum), en úr því varð ekki. Nýsir náði að ljúka framkvæmdum að mestu leyti, og voru íbúðir settar í sölu á miðju ári 2007. Þær þóttu dýrar, og eftirspurn varð ekki mikil. Nýsi þraut erindið, og eignaðist þá Landsbanki Íslands allar íbúðirnar.

Dvalar- og hjúkrunarheimilið Grund, elsta hjúkrunarheimili aldraðra hér á landi, stofnað 1922, festi snemma árs 2010 kaup á þessum íbúðum af Landsbankanum og falaðist um leið eftir rekstri hjúkrunarheimilisins með það í huga að tengja hvort tveggja saman eins og upphafleg áform voru um. Eftir útboð á rekstri hjúkrunarheimilisins fékk Grund hann í hendur, og var skrifað undir samning þess efnis í júní 2010. Rekstur hjúkrunarheimilisins hófst síðan 16. ágúst sama ár.

Fyrstu íbúar á vegum nýrra eigenda fluttust í húsin vorið 2010. Í lok árs 2012 hafði nær öllum íbúðum verið ráðstafað og langur biðlisti orðið til.

Vesturhús eru fjórar hæðir auk jarðhæðar. Við norðausturhorn hvers húss er tveggja hæða útbygging. Undir húsunum er bílageymsla. Í húsunum eru 78 íbúðir. Þær eru ólíkar að stærð, 2ja, 3ja og 4ra herbergja, allt frá 80 m2 upp í 139 m2 og eru af sjö mismunandi grunngerðum. Húsin eru byggð eftir teikningum frá Yrki arkitektum, Ásdísi H. Ágústsdóttur og Sólveigu Berg Björnsdóttur.

Austurhús

Þegar sýnt var hver eftirspurn var eftir íbúðum og þjónustu eins og þeirri sem bauðst í vesturhúsum var tekið að huga að því hvort unnt mundi að bæta við hliðstæðum húsakosti austan hjúkrunarheimilisins. Þar voru tvær lóðir, nr. 68 og 70 við Suðurlandsbraut, sem úthlutað hafði verið annars vegar Skógræktarfélagi Reykjavíkur, er stóð þar að vöxtulegri tilraunarækt, og hins vegar félaginu Akoges. Viðræður við þessi félög árið 2012 leiddu til þess að lóðirnar voru látnar eftir og sameinaðar til byggingar þjónustuíbúða.

Markmið með auknum íbúðakosti var að efla samfélagið í Markarbyggð og nýta sem best alla þá þjónustu- og félagsaðstöðu sem þar var fyrir. Nýju íbúðirnar skyldu um efnislegan frágang standast samanburð við eldri húsin.Árið 2013 var arkitektastofan Gláma/Kím ráðin til að teikna hin nýju fjölbýlishús, arkitektarnir Sigbjörn Kjartansson og Bjarni Kristinsson. Útgerðarfyrirtækið Stálskip ehf. og Landsbanki Íslands lögðu fram lánsfé til að hefja framkvæmdir, en langtímafjármögnun annaðist síðan lífeyrissjóðurinn Lífsverk. Snemma árs 2015 hófust viðræður við fyrirtæki Þorvalds H. Gissurarsonar, ÞG verktaka ehf., um að það tæki að sér byggingu húsanna. Það réðst svo og reyndist vel. Áætlanir stóðust að fullu.

Fyrsta skóflustunga að húsunum var tekin 15. júlí 2016, og framkvæmdir hófust í framhaldi af því. Eftirlit með þeim annaðist Kjartan Rafnsson tæknifræðingur.

Fyrstu íbúar fluttust inn í austurhús í apríl 2018, og í lok október voru húsin fullsetin. Byggingarframkvæmdum lauk í nóvember sama ár.

Í austurhúsum eru tvær húsaraðir, fremri og aftari frá götu með garði á milli. Fremri húsaröð er nær öll fjögurra hæða, en að litlum hluta þriggja hæða; hin aftari er öll þriggja hæða. Í húsunum eru 74 íbúðir, 2ja, 3ja og 4ra herbergja, en stærð þeirra er minni og umfram allt jafnari en í vesturhúsum, frá 73,9 m2 upp í 101,8 m2 í níu ólíkum grunngerðum.

Eftir að austurhús komu til má nú ganga 356 m leið undir samfelldu þaki í Mörk milli fjarlægustu veggja þeirra.