12.12.2025
Þessi tilkynning er send til núverandi og fyrrverandi íbúa Grundarheimilanna (Grund, Mörk og Ás), aðstandenda íbúa, skjólstæðinga, umsækjenda og íbúa í íbúðum 60+ í Mörkinni, starfsfólks Grundarheimilanna sem og verktaka sem starfa eða hafa starfað fyrir heimilin.
Líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum urðu Grundarheimilin fyrir fjandsamlegri tölvuárás. Árásin fólst í því að tölvuþrjótar brutust inn á netþjóna og komust þannig inn í kerfi þar sem finna má upplýsingar um núverandi og fyrrverandi íbúa, aðstandendur, skjólstæðinga, starfsfólk og verktaka heimilanna.
Búið er að loka fyrir aðgang tölvuþrjótanna og ljóst þykir að engum gögnum eða upplýsingum hefur verið eytt eða þeim breytt. Heimilin hafa áfram fullan aðgang að öllum upplýsingum sem kerfin innihalda og árásin hefur því takmörkuð áhrif haft á þá þjónustu sem heimilin veita íbúum og skjólstæðingum. Rannsókn hefur þó leitt í ljós að áður en að tölvuárásin uppgötvaðist tókst tölvuþrjótunum að afrita hluta af þeim upplýsingum sem finna mátti í kerfum heimilanna.
Þær persónuupplýsingar sem vitað er á þessari stundu að afritaðar voru eru eftirfarandi, um eftirfarandi flokka einstaklinga:
Skjólstæðingar, íbúar og aðstandendur
• tengiliða- og samskiptaupplýsingar skjólstæðinga, íbúa og aðstandenda,
• upplýsingar um greiðslur skjólstæðinga og íbúa,
• heilsufarsupplýsingar sem tengjast umönnun,
• upplýsingar sem tengjast veittri heilbrigðisþjónustu á heimilunum, s.s. vegna lyfjagjafa, skráningu á rannsóknarniðurstöðum, læknabréfum og viðtölum og
• upplýsingar um óvænt atvik (eftir því sem við á).
Íbúar og umsækjendur um íbúðir 60+ í Mörkinni og aðstandendur
• tengiliða- og samskiptaupplýsingar og
• upplýsingar um greiðslur íbúa.
Starfsfólk og fyrrverandi starfsfólk
• samskipta- og tengiliðaupplýsingar,
• bankaupplýsingar,
• upplýsingar um lífeyris- og stéttafélagsaðild og
• launaupplýsingar.
Verktakar
• samskipta- og tengiliðaupplýsingar,
• reikningsupplýsingar og
• afrit af reikningum.
Ekkert bendir til þess að þessar upplýsingar hafi verið birtar og tölvuþrjótarnir hafa ekki hótað slíkri birtingu.
Rannsókn árásarinnar stendur enn yfir með aðstoð færustu sérfræðinga landsins á þessu sviði.
Í ljósi viðkvæms eðlis þessara upplýsinga eru viðtakendur hvattir til að vera á varðbergi gagnvart mögulegri misnotkun á upplýsingunum af hálfu tölvuþrjótanna. Ef grunur vaknar um slíka misnotkun þá skal gæta fyllstu varúðar í samskiptum, bregðast ekki við, heldur láta okkur vita eða tilkynna um atvikið til CERT-IS netöryggissveitarinnar. Rétt er að árétta að Grundarheimilin munu ekki senda út neina pósta að fyrrabragði þar sem fólk er beðið um að senda upplýsingar eða ýta á hlekki.
Rætt verður við alla íbúa Grundarheimilanna og þeir upplýstir um stöðu málsins.
Við höfum opnað fyrir sérstakan upplýsingasíma ef einhverjar spurningar vakna. Fulltrúi Grundarheimilanna svarar í síma 530-6200 og í gegnum netfangið personuvernd@grund.is. Síminn er opinn frá kl. 10 til 14 næstu daga.
Búið er að tilkynna um árásina til Persónuverndar, Landlæknis og CERT-IS netöryggissveitarinnar í samræmi við það sem áskilið er í lögum og starfsleyfi heimilanna. Einnig er verið að undirbúa kæru til lögregluyfirvalda.
Grundarheimilin munu halda viðtakendum upplýstum eftir því sem málinu vindur fram.
Við þökkum fyrir skilninginn á meðan við komumst til botns í málinu.
Karl Óttar Einarsson, forstjóri Grundarheimilanna
10.12.2025
Takmarkað netaðgengi er á Grundarheimilunum í varúðarskyni vegna tölvuárásar sem uppgötvaðist síðdegis í gær. Áhrifa þessa gætir einnig á símkerfi og tölvupóst. Unnið er að því með færustu sérfræðingum að leita að uppruna árásarinnar og koma kerfunum upp að nýju í forgangsröð út frá mikilvægi. Reikna má með að áhrifin verði a.m.k. einhver næstu daga. Þá er unnið að því að tilkynna málið til opinberra aðila, s.s. Persónuverndar, Cert-IS og Embætti landlæknis.
Við höfum sent aðstandendum upplýsingar á sms eins og við höfum getað, það kann að vera að einhverjir hafi fengið skilaboð sem að ekki eru lengur aðstandendur hjá okkur. Við biðjumst velvirðingar á því.
Við munum halda aðstandendum upplýstum eftir því sem málið þróast.
03.12.2025
Það er hefð fyrir þvi að útbúa fallega jólakransa á aðventunni hér í Ási. Heimilismenn hittust nýlega til að útbúa kransa og ýmiskonar jólaskraut til að skreyta með hér í Ási.
Eins og alltaf var andrúmsloftið létt og kátt
21.10.2025
Það er alltaf gaman þegar tónlistarbingó er á dagskrá hér hjá okkur í Ási.
Eins og ávallt var vel mætt og andrúmsloftið létt og skemmtilegt.
27.08.2025
Í dag hafa Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Hveragerðisbær gert samning við Ás hjúkrunarheimili um samþætta heimaþjónustu við íbúa í Hveragerði frá 1. september nk. Verkefnið er tilraunaverkefni sem að byggist á aðgerðaráætlun Gott að eldast sem að er samstarfsverkefni milli Félags- og húsnæðismálaráðuneytis og Heilbrigðisráðuneytis. Ás mun þannig sinna heimahjúkrun og félagslegum heimastuðningi við íbúa Hveragerðisbæjar 60 ára og eldri sem sækja um og fá samþykkta slíka þjónustu. Áður hefur í Ási verið starfrækt dagdvöl ásamt því að þaðan hafa íbúar Hveragerðisbæjar sem óskað hafa eftir fengið mat sendan heim.
22.08.2025
Guðný Alma, sem er sumarstarfsmaður hér hjá okkur í Ási, söng fyrr í sumar fyrir heimilismenn í Bæjarási. Nýlega mætti hún aftur og söng við undirleik unnusta síns Péturs Nóa Stefánssonar. 🥰
Að þessu sinni söng hún fyrir heimilismenn í Ásskála. Viðtökurnar voru frábærar enda syngur Guðný Alma eins og engill. 👏
21.08.2025
Bingó er alltaf vinsælt og flestir spenntir að taka þátt. Heimilismenn á hjúkrunarheimilinu voru yfir sig hrifnir af tilbreytingunni þegar boðið var upp á tónlistarbingó. 🥰
Það er eflaust stutt í að aftur verði boðið upp á bingó þar sem tónlist kemur við sögu.
18.08.2025
Heilsustofnun í Hveragerði fagnaði 70 ára afmæli á dögunum. Forsvarsmenn Grundarheimilanna mættu í afmælishófið og færðu Heilsustofnun tvö eplatré að gjöf. Á myndinni eru frá
vinstri Ingi Þór Jónsson markaðsstjóri Heilsustofnunar, hjónin Gísli Páll Pálsson stjórnarformaður Grundarheimilanna og Alda Pálsdóttir framkvæmdastjóri Íbúða 60+ í Mörk, Þórir Haraldsson forstjóri Heilsustofnunar og Karl Óttar Einarsson forstjóri Grundarheimilanna.
24.07.2025
Guðný Alma er sumarstarfsmaður í Bæjarási. Í vikunni kom hún ásamt unnusta sínum, Pétri Nóa Stefánssyni, og hélt tónleika fyrir okkur.
Ljúfir og notalegir tónleikar. Takk innilega fyrir okkur
16.07.2025
Hér í Ási höfum við nýtt góða veðrið að undanförnu og bardúsað ýmislegt.
Einn daginn fórum við og tíndum falleg blóm í Hverahlíðinni og fórum svo í gegnum Ásbyrgi.
Við enduðum daginn á að fá okkur Gatorade til að fylla á söltin í hitanum og bjuggum til keilu úr flöskunum.
Virkilega góður dagur og allir sáttir í þessu dásamlega veðri.