Fyrsta skóflustungan tekin að nýju hjúkrunarheimili í Ási

Það eru Grundarheimilin sem byggja hjúkrunarheimilið og leigja ríkinu með leigusamningi til 20 ára. Grund hefur rekið Ás frá árinu 1952 og sinnt öldrunarþjónustu í Hveragerði og nágrenni í yfir sjötíu ár. Það voru Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, Birna Sif Atladóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar í Ási, og Grétar Aðalsteinsson, heimilismaður í Ási, sem tóku skóflustungu að nýja heimilinu sem mun rúma 44 manns. Í dag eru heimilismenn í Ási 111 talsins en verða 138 þegar nýja hjúkrunarheimilið verður tekið í notkun. Til að koma byggingunni fyrir þarf að fjarlægja nokkur minni hús á staðnum með eldri rýmum og sameiginlegum baðherbergjum. Öll herbergin á nýja hjúkrunarheimilinu verða einbýli með baðherbergjum. Byggingin verður 2.680 fermetrar og heildarkostnaður um 2,8 milljarðar króna. „Það er mér sönn ánægja að taka fyrstu skóflustunguna að nýju hjúkrunarheimili í því ágæta sveitarfélagi Hveragerði. Þessi framkvæmd bæði fjölgar hjúkrunarrýmum og leysir af hólmi eldri rými sem voru komin til ára sinna. Ég óska Hvergerðingum innilega til hamingju með þetta og við munum halda áfram á sömu braut á landsvísu eins og ríkisstjórnin hefur lofað,“ sagði Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra. „Þessi framkvæmd er mjög mikilvæg til að koma til móts við breyttar og auknar þarfir og kröfur þeirra sem dvelja nú og munu dvelja framvegis á hjúkrunarheimilum landsins. Allir verða með sitt eigið herbergi og sér baðherbergi. Húsið samanstendur af fjórum 11 manna einningum og er skjólsæll garður á milli austureininganna annars vegar og einnig á milli vestureininganna. Aðalinngangur er í miðju og tengjast einingarnar fjórar um gang að norðanverðu þar sem einnig verða ýmis stoðrými. Við á Grundarheimilunum erum afar þakklát félags- og húsnæðismálaráðherra að treysta okkur fyrir þessu góða verkefni,“ sagði Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Grundarheimilanna. „Starfsemin í Ási er ein af perlum bæjarins og er sannarlega hluti af einstökum gæðum Hveragerðis. Nýtt hjúkrunarheimili er hluti af metnaðarfullri framtíðarvegferð Áss, sögulegri uppbyggingu Hveragerðisbæjar og mun auka við gæði og velferð í bæjarfélaginu,“ sagði Pétur Georg Markan, bæjarstjóri í Hveragerði.