21.05.2025
Grundarheimilin tryggðu sér sýningarrétt á myndinni Human Forever fyrir heimilisfólk, aðstandendur og starfsfólk.
Þetta er mögnuð heimildarmynd, einlæg og áhrifamikil sem fjallar um heilabilun. Markmið með gerð myndarinnar var að gera veröldina betri fyrir fólk sem þarf að takast á við alzheimer.
Teun Toebes vann á lokaðri heilabilunardeild á hjúkrunarheimili í Hollandi þegar hann fékk þá hugmynd að gera heimildamyndina Human Forever. Hann ferðaðist til ellefu landa á þremur árum og leitaði svara fyrir framtíð þessa hóps. „Okkur langaði að fjalla um heilabilun þar sem fólk sem lifir með henni segði sjálft söguna“ sagði Teun. Hann gerði myndina með vini sínum og kvikmyndagerðarmanninum Jonathan de Jong.
Myndin sýnir hvernig tekist er á við heilabilun í þessum ólíku löndum sem þeir heimsóttu.
Myndin var frumsýnd 2023 og hefur verið geysilega vel sótt þar sem hún hefur verið sýnd í kvikmyndahúsum.
Það er komið að því að bjóða upp á sýningu myndarinnar í Mörk en á næstunni verður hún einnig sýnd á Grund og í Ási. Eins og sést í auglýsingunni hér að neðan er boðið upp á tvo sýningartíma svo sem flestir hér í Mörk geti nýtt sér að sjá þessa mögnuðu mynd. Og það verður boðið upp á popp og kók.
20.05.2025
Síðasta harmonikkuball vetrarins var í síðustu viku og vel mætt á dansleikinn. Það var að venju Markarbandið sem lék fyrir dansi en það er hópur harmonikkuleikara sem heimsækir okkur í hverjum mánuði í sjálfboðavinnu. Við erum svo innilega þakklát fyrir þessa frábæru hljóðfæraleikara sem gefa sér tíma til að koma og gleðja fólkið okkar með þessum hætti
20.05.2025
Þó að sólin skíni skært þessa dagana og gott sé að sitja úti á svölum þá getur stundum verið notalegt að hvíla sig aðeins á sólskininu, setjast niður og rifja upp gamla tíma.
Á annarri hæðinni í Mörk er mikill áhugi fyrir upplestri. Rebekka les þessa dagana fyrir heimilisfólk upp úr bókinni Þar sem djöflaeyjan rís.
20.05.2025
Mánudagsgöngurnar eru hafnar á ný í Ási og það var ekki amalegt að byrja á ný í átján gráðu hita og glampandi sól. Að þessu sinni var kíkt á framkvæmdirnar vegna nýja hjúkrunarheimilisins.
12.05.2025
Karlakórinn Fóstbræður hefur svo áratugum skiptir komið árlega í heimsókn á Grund og haldið tónleika fyrir heimilismenn. Um áttatíu kjólfataklæddir herramenn mættu síðasta laugardag í hátíðasalinn með kórstjóranum sínum Árna Harðaundirtók í öllu húsinu. 😍
Ótrúlega magnað að fá þennan einstæða kór í heimsókn ár eftir ár sem hefur það eitt að markmiði að gleðja heimilisfólkið okkar. ❤️
Við erum full þakklætis og getum ekki beðið eftir að fá ykkur aftur í heimsókn. Takk fyrir einstaka tónleika og takk fyrir að gefa ykkur ár eftir ár tíma til að gleðja okkur.
09.05.2025
Það er ekki amalegt á Grund því í húsinu dvelja um þessar mundir þrír afburða góðir harmonikkuleikarar. 🥰
Þetta eru þeir Pétur Bjarnason, Reynir Jónasson og Jón Ólafur Þorsteinsson. Það skortir ekki glensinn og gamanið hjá þessum lífsglöðu köppum og þeir eru meira en til í að taka í nikkuna þegar svo ber undir.
08.05.2025
Það var mikið um dýrðir í gær í Ási þegar heimilismaðurinn Guðjón Jónsson fagnaði aldar afmæli. Ættingjar og vinir komu færandi hendi með árnaðaróskir, blómvendi og gjafir og starfsfólk sem og Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Grundarheimilanna kom og heilsaði upp á afmælispiltinn. 🌹🌹
Rúsínan í pylsuendanum var svo þegar börn úr fjórða bekk í grunnskólanum í Hveragerði komu stormandi á hjúkrunarheimilið og sungu fyrir afmælisbarnið. 🥰
Til hamingju Guðjón. Það er merkur áfangi að fagna aldarafmæli.
08.05.2025
Séu hendur heimilismanna lúnar og þurrar þá er boðið upp á handavex í vinnustofu Grundar og hitadekur.
Á eftir er bara að skella sér í kúlustólinn og finna hlýjan faðm stólsins umvefja sig
02.05.2025
Það eru Grundarheimilin sem byggja hjúkrunarheimilið og leigja ríkinu með leigusamningi til 20 ára. Grund hefur rekið Ás frá árinu 1952 og sinnt öldrunarþjónustu í Hveragerði og nágrenni í yfir sjötíu ár.
Það voru Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, Birna Sif Atladóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar í Ási, og Grétar Aðalsteinsson, heimilismaður í Ási, sem tóku skóflustungu að nýja heimilinu sem mun rúma 44 manns.
Í dag eru heimilismenn í Ási 111 talsins en verða 138 þegar nýja hjúkrunarheimilið verður tekið í notkun. Til að koma byggingunni fyrir þarf að fjarlægja nokkur minni hús á staðnum með eldri rýmum og sameiginlegum baðherbergjum. Öll herbergin á nýja hjúkrunarheimilinu verða einbýli með baðherbergjum. Byggingin verður 2.680 fermetrar og heildarkostnaður um 2,8 milljarðar króna.
„Það er mér sönn ánægja að taka fyrstu skóflustunguna að nýju hjúkrunarheimili í því ágæta sveitarfélagi Hveragerði. Þessi framkvæmd bæði fjölgar hjúkrunarrýmum og leysir af hólmi eldri rými sem voru komin til ára sinna. Ég óska Hvergerðingum innilega til hamingju með þetta og við munum halda áfram á sömu braut á landsvísu eins og ríkisstjórnin hefur lofað,“ sagði Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.
„Þessi framkvæmd er mjög mikilvæg til að koma til móts við breyttar og auknar þarfir og kröfur þeirra sem dvelja nú og munu dvelja framvegis á hjúkrunarheimilum landsins. Allir verða með sitt eigið herbergi og sér baðherbergi. Húsið samanstendur af fjórum 11 manna einningum og er skjólsæll garður á milli austureininganna annars vegar og einnig á milli vestureininganna. Aðalinngangur er í miðju og tengjast einingarnar fjórar um gang að norðanverðu þar sem einnig verða ýmis stoðrými. Við á Grundarheimilunum erum afar þakklát félags- og húsnæðismálaráðherra að treysta okkur fyrir þessu góða verkefni,“ sagði Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Grundarheimilanna.
„Starfsemin í Ási er ein af perlum bæjarins og er sannarlega hluti af einstökum gæðum Hveragerðis. Nýtt hjúkrunarheimili er hluti af metnaðarfullri framtíðarvegferð Áss, sögulegri uppbyggingu Hveragerðisbæjar og mun auka við gæði og velferð í bæjarfélaginu,“ sagði Pétur Georg Markan, bæjarstjóri í Hveragerði.