Grund

Söngur í morgunstund

Söngkonan Hafdís Huld heimsótti okkur í morgunstund í gær og sagði heimilisfólkinu frá sér og söng nokkur lög. Við þökkum henni kærlega fyrir komuna. Sr. Pétur Þorsteinsson, sá sem stendur við gluggann á myndinni, er sá sem í viku hverri fær til okkar fólk í sjálfboðavinnu sem kemur og gleður heimilisfólkið okkar á einn eða annan hátt með einsöng, kórsöng, hljóðfæraleik, upplestri, dansi, fræðslu eða hugleiðslu svo dæmi séu tekin. Dásamlegt að finna hvað fólk er tilbúið að koma og gefa vinnu sína við að gleðja heimilisfólkið og veita því tilbreytingu.

Strengjakvartett hélt tónleika í hátíðasal

Strengjakvartettinn Eyja hélt í gær tónleika í hátíðasal Grundar fyrir fullum sal. Það eru þær Sara Karin Kristinsdóttir, Elísabet Anna Dudziak, Diljá Finnsdóttir og Ágústa Bergrós Jakobsdóttir sem skipa kvartettinn. Þær komu á vegum Hins hússins og léku þjóðlagatónlist fyrir heimilismenn og tónlist með þjóðlegum áhrifum. Dásamlegir tónleikar og takk kærlega fyrir komuna

Um 11.000 sumarblóm á Grundarheimilin

Það hefur ekki farið framhjá neinum sem leið á um Grundarheimilin að búið er að gróðursetja þúsundir plantna á heimilunum, í görðum, á svölum, við gangstíga og í sólstofum. Jónas Þór Sigurbjörnsson, garðyrkjustjóri Grundarehimilanna, segir að sáð hafi verið um fyrir um 10-11.000 sumarblómum, morgunfrúm, stjúpum, dalíum, tóbakshornum og svo mætti áfram telja. Auk þess segir Jónas að uppskeran sé ríkuleg af agúrkum og tómötum og kirsuberjatómötum og einnig er vex salat vel. Þegar búið er að fara með grænmetið í eldhús Grundarheimilanna gefst starfsfólki kostur á að kaupa á vægu verði agúrkur og tómata og það hefur mælst vel fyrir.

Fjögur fræknu og grænmetið í Ási

Bara svo þið séuð með það alveg á hreinu þá eru það þessi fjögur fræknu sem pakka inn grænmetinu okkar í Ási og passa að það komist í eldhús Grundarheimilanna og í sölu í verslanirnar okkar þrjár. Frá vinstri Alyssa Rós, Rakel Rós, Siggi sæti og Viktor Berg.

Sumartónleikar á Grund

Árlegir sumartónleikar Grundar og Markarkórsins voru haldnir í hátíðasal heimilisins nú í vikunni. Það var vel mætt á þessa notalegu tónleika kóranna en þá skipar heimilisfólk á Grund og í Mörk sem og íbúar hjá Íbúðum 60+. Þá eru nokkrir starfsmenn einnig í kórunum og það má geta þess að aðstandendur eru einnig velkomnir. Kórastarfið hefst að nýju í haust.

Heimildarmynd eftir starfsmann Grundar

Heimildarmynd sem starfsmaður Grundar og kvikmyndagerðarkonan, Yrsa Þurí Roca Fannberg, á heiðurinn af. Það verður spennandi að sjá hana þegar hún kemur af klippiborðinu og úr hljóðvinnslu.

Síðasti dansleikur fyrir sumarfrí

Síðasti dansleikurinn fyrir sumarfrí var haldinn í hátíðasalnum í lok síðustu viku. Grundarbandið okkar vinsæla lék að venju fyrir dansi. Það er dásamlegt að sjá hvað margir mæta á dansleikina nú orðið og alltaf sérstaklega ánægjulegt þegar aðstandendur mæta til að dansa við fólkið sitt. Það jafnast nefnilega enginn á við nánustu ættingja í augum heimilisfólksins.

Diskó í hátíðasalnum

Diskó, diskó friskó er viðlagið í einu þekktu diskólagi sem eflaust hljómaði á diskótekinu sem haldið var í hátíðasal Grundar í síðustu viku. Það var létt og kátt andrúmsloftið og margir sungu með hástöfum þegar Abba hljómaði í salnum. Það voru allir á einu máli um að það yrði stutt í næsta diskó.

Fóstbræður sungu fyrir heimilisfólk Grundar

Karlakórinn Fóstbræður kom í sína óviðjafnanlegu heimsókn hingað á Grund um síðustu helgi og hélt tónleika. Þetta var að venju mögnuð stund og húsið ómaði af þessum stórkostlega söng. Takk kæru Fóstbræður fyrir að muna alltaf eftir okkur hér á Grund, ár eftir ár.

Gömlu góðu dægurlögin

Það var föstudags"fílingur" á Litlu Grund rétt fyrir hádegið þegar þeir Jón Ólafur Þorsteinsson og Jose Luis Anderson Esquivel léku á harmonikku og gítar og sungu vinsæl gömul dægurlög. Það er nóg um tónlist á heimilinu í dag því eftir hádegi eru síðan tónleikar í hátíðasal heimilsins.