Fréttir

Grundarkórinn kom saman á ný

Það var ánægjuleg stund þegar allur Grundarkórinn kom saman á æfingu í vikunni en hann hefur ekki hist saman í ár vegna Covid. Kórnum hefur verið skipt niður eftir svokölluðum sóttvarnarhólfum og þeir æft saman sem búa nálægt hver öðrum. Sannkölluð gleðistund.

Rósabingó á Grund

Rósabingó. Hversu skemmtilegt. Það er nákvæmlega það sem þær Valdís og Þórhalla hafa verið að bjóða uppá víðsvegar um Grundina undanfarið. Ilmandi rós í verðlaun þegar maður kallar bingó. Til að toppa stundina hefur Nonni nikka, eins og við köllum hann Jón Ólaf hér á Grund, verið nálægt, með sína ljúfu nærveru og þanið nikkuna við söng heimilisfólksins. Það var svo auðvitað sungið um rósir... nema hvað.

Bollukaffi í góðum selskap

Á bolludaginn hittust nokkrar heimiliskonur í vinnustofunni hjá Þórhöllu, sr. Auði Ingu og Valdísi, gæddu sér á nýbökuðum bollum, kaffisopa og sérrí og ræddu lífsins gang og nauðsynjar eins og gerist ávallt í góðra kvenna hópi. Notaleg stund í skemmtilegum félagsskap.

Ilmurinn er svo lokkandi

Þegar ilmurinn af nýbökuðum vöfflum læðist um gangana á Grund lifnar yfir öllum. Heimilisfólkið á V-2 kunni svo sannarlega að meta það í gær þegar hún sr. Auður Inga mætti með vöfflujárnið og deigið og bakaði með kaffinu.

Fallegar töskur úr afgöngum

Unnur Jónsdóttir sem býr á Frúargangi hér á Grund hefur verið að dunda sér við að búa til töskur úr afgöngum með aðstoð Valdísar Viðarsdóttur sem starfar í vinnustofunni. Svo fallegar töskur og ekki amalegt ef einhver heppinn fær svona gersemi í afmælis- eða jólagjöf.

Nýárskveðja

Ég óska heimilisfólki og starfsfólki Grundarheimilanna gleðilegs árs og farsældar á nýju ári. Ég þakka af alhug þá þrautseigju, fórnfýsi, hlýju og kærleika sem þið hafið öll sýnt á þessu sérstaka ári sem nú er liðið. Við horfum bjartsýn til nýs árs. Hugheilar kveðjur. Gísli Páll Pálsson forstjóri Grundarheimilanna.

Fyrsti heimilismaðurinn sem var bólusettur

Það var bros undir grímum á andlitum starfsfólksins sem var nálægt í morgun þegar heimiliskonan Guðrún Magnúsdóttir hlaut fyrstu bólusetninguna hér á Grund

Stór dagur á Grund

Í morgun hófust bólusetningar hér á Grund og það verður ekki staðar numið fyrr en allir heimilismenn hafa fengið bólusetningu. Síðari bólusetning verður svo að u.þ.b. þremur vikum liðnum. Hátíð í bæ hér á heimilinu og auðvitað var flaggað í tilefni dagsins.

Skata og hamsar á Grund

Eins og venja er var boðið upp á skötu með hömsum, rófum og kartöflum á Þorláksmessu og það var ekki annað að sjá en heimilisfólkið kynni því vel að fá þennan herramannsmat.

Hátíðaguðsþjónusta aðfangadag