Fréttir

Sól í garði Grundar

Það er um að gera að nýta góða veðrið og heimilismenn á A-2 hér á Grund ákváðu að bregða sér út í garð í gær og þá var auðvitað boðið upp á ís.

Kæru aðstandendur

Við viljum skerpa hérna á nokkrum atriðum vegna smita í samfélaginu. Hjúkrunarheimilið er áfram opið en við hvetjum ykkur til að gæta ítrustu árvekni og hafa sóttvarnaráðstafanir í heiðri. Ekki er ráðlegt að börn og ungmenni komi í heimsókn á þessum tímapunkti. Undanþágur má gera ef barn/ungmenni er nánasti aðstandandi. Að öllu jöfnu mæti aðeins tveir gestir í heimsókn til íbúa á hverjum tíma nema að höfðu samráði við starfsfólk deildar. Gestir fara rakleiðis að herbergi íbúa og aftur að útidyrum að heimsókn lokinni. Gestir mega ekki staldra við í sameiginlegum rýmum heimilis. Gestir þvo hendur með sápu og spritta áður en gengið er inn á heimili og einnig við brottför. Gestir mega ekki koma í heimsókn ef þeir: a. Eru í sóttkví. b. Eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu úr sýnatöku). c. Hafa dvalið erlendis undanfarna daga. d. Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift. e. Eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang).

Sumarhátíð í garði Grundar

Það var bjart yfir heimilisfólki og aðstandendum í gær þegar sumarhátíð var haldin í garði Grundar. Veðrið lék við okkur. Hoppukastalar, húllahopp og allskyns skemmtun fyrir ömmu-, og afabörn sem og langömmu-, og langafabörnin. Heimilisfólk bauð ungviðinu íspinna og Jón Ólafur gekk um með nikkuna og gladdi með nærveru sinni. Það sannaðist að Grund á sannkallaðan gimstein í þessum stóra garði sem snýr í suður.

Sumarhátíð á Grund

Má bjóða þér í saumaklúbb?

Það er alltaf jafn gaman í saumaklúbbunum hér á Grund. Það lifnar yfir heimiliskonunum og umræðuefnin eru jafn fjölbreytt og konurnar eru margar. Dásamlegar stundir sem þær bjóða uppá Auður og Valdís hér í vinnustofunni á Grund.

Vel mætt á kóræfingu

Heimilisfólk er svo sannarlega ánægt með að allur Grundarkórinn megi nú koma saman á ný

Gaf Grund aldagamla bók

Ásgeir Jóhannesson forystumaður í Sunnuhlíð færði Grund á dögunum bók að gjöf en hann er einn af upphafs- og ábyrgðarmönnum þess að Sunnuhlíð var reist og tekin í notkun árið 1982. Gísli Sigurbjörnsson, þáverandi forstjóri Grundar og sonur sr. Sigurbjörns Á Gíslasonar eins stofnenda Grundar, studdi uppbyggingu Sunnuhlíðar með góðum ráðum og verulegum fjárframlögum.

Margar hugmyndir sem koma upp á heimilisráðsfundum

Í mörg ár höfum við verið með heimilismannaráðsfundi hér á Grund .En vegna Covid hafa þeir legið niðri. Það var ánægjulegt þegar heimilismenn komu saman á ný og ræddu um ýmislegt sem má betur fara en líka annað sem er gott. Fjörugar umræður spunnust um hundrað ára afmæli heimilisins sem er á næsta ári og allskonar hugmyndir sem komu upp. Svo eru heimilismenn oft með sterkar skoðanir á matnum og afþreyingunni sem þeim stendur til boða. Semsagt frábærir fundir og skemmtilegir og iðulega hafa heimilismenn komið með gagnlegar ábendingar sem við þökkum kærlega fyrir og förum eftir.

Gleðilegt sumar frábæra starfsfólk

Gleðilegt sumar - þið eruð frábær er tilefnið nú þegar forstjóri Grundarheimilanna, Gísli Páll Pálsson, fer á milli heimila og deilda og óskar starfsfólki sínu gleðilegs sumar og býður upp á hressingu. "Það er ekki sjálfgefið að hafa á að skipa jafn frábæru starfsfólki og við höfum á okkar heimilum og svo er komið sumar og sólin skín. Ekki hægt að hugsa sér betra tilefni til að fá sér köku og fagna; segir hann og brosir. Hér er hann ásamt starfsmönnunum Ingibjörgu, Jóhönnu og Dennis.

Breytingum á A-2 fagnað

Í síðustu viku var haldið upp á breytingar sem gerðar hafa verið á annari hæð í austurhúsi Grundar, Þar eru nú komin sex ný einbýli með sér baðherbergjum og búið að rýmka í setustofu og á gangi. Frábærar breytingar sem miða að sjálfsögðu að því að betur fari um heimilismennina.