Fréttir

Um að gera að liðka sig eftir morgunmatinn

Það er notalegt að byrja daginn með stólaleikfimi til að liðka sig aðeins fyrir daginn eða það finnst að minnsta kosti mörgum heimilismönnum sem búa á Litlu og Minni Grund. Þessi mynd var tekin í morgun þegar fólk dreif sig í leikfimina eftir morgunmatinn

Dásamlegt dömukaffi

Það er alltaf gaman þegar konur koma saman og spjalla og svo ekki sé nú talað um ef boðið er upp á góðar veitingar líka. Þannig var það hjá heimiliskonum sem búa í vesturhúsi Grundar í síðustu viku. Frábær félagsskapur og dýrindis veitingar.

Fyrrum starfsmenn heiðraðir

Eins og venja er á starfsmannakvöldum Grundarheimilanna eru fyrrum starfsmenn heiðraðir. Þessi mynd var tekin af fyrrverandi starfsfólki Grundar þegar Gísli Páll Pálsson þakkaði þeim vel unnin störf og færði þeim blómvönd sem þakklætisvott.

A-1 með flottustu skreytingarnar

Nú er búið að veita verðlaun fyrir flottustu skreytingarnar á hrekkjavöku hér á Grund.

Afmælis- og foreldrakaffi á Grund

Í síðustu viku var haldið afmælis- og foreldrakaffi á Grund. Heimilið fagnaði 99 ára afmæli sínu þann 29. október síðastliðinn en einnig hefur svo áratugum skiptir verið haldið um svipað leyti og nú samtímis afmælinu svokallað foreldrakaffi. Hefðin á á bakvið það á sér langa sögu. Grund var stofnuð með almennum samskotum sumarið 1922 og í byrjun september það ár var Grund keypt sem var steinhús við Kaplaskjólsveg. Húsið varð fljótt alltof lítið því þörfin á húsnæði fyrir aldraða var brýn. Framtíðarsýn stjórnar Grundar var að ráðast í byggingu stærra heimilis. Sveinn Jónsson kaupmaður í Reykjavík, oft nefndur Sveinn í Völundi, kom á fund stjórnar Grundar þann 10. desember árið 1924 og tilkynnti að hann og systkini hans vildu gefa þúsund krónur í húsbyggingarsjóð heimilisins til minningar um foreldra þeirra Jón Helgason og Guðrúnu Sveinsdóttur frá Steinum undir Eyjafjöllum. Þetta var myndarleg upphæð á þessum tíma og eina skilyrðið sem fylgdi gjöfinni var að jafnan skyldi á heimilinu haldið upp á brúðkaupsdag þeirra hjóna 26. október ár hvert. Þaðan kemur semsagt nafnið foreldrakaffi og þessi skemmtilega hefð sem við enn í dag höldum á lofti. Systkinin komu þennan dag á hverju ári á heimilið eftir þetta, meðan þeim entist líf og heilsa og gáfu þá um leið heimilinu meira en afmælisveislan kostaði hverju sinni.

Skreytt fyrir hrekkjavöku

Maður lærir svo lengi sem maður lifir á vel við hérna því eflaust hafa fæstir heimilismenn alist upp við hrekkjavöku en nutu þess virkilega að taka þátt í að skreyta hér á Grund. Það er mikil stemning í kringum hrekkjavöku á heimilinu og keppni í gangi þar sem verðlaun verða veitt fyrir best skreytta graskerið og skreytingar. Þessar myndir eru teknar í vesturhúsinu þar sem starfsfólk og heimilifólk hjálpaðist að við að skreyta og á meðan var saga hrekkjavöku lesin upp. Þess má geta að graskerið sem myndin er af er á þriðju hæð í vesturhúsi Grundar og heimiliskonan Klara gaf því nafnið Elegant.

Dömukaffi

Það er alltaf gleði þegar heimiliskonur koma saman í dömukaffi á Grund. Í vikunni var dekkað borð í turnherberginu á Minni Grund og boðið upp á kaffi, kruðerí og sérrý.

Bleiki dagurinn á Grund

Það er bleikur dagur á Grund eins og á öðrum stöðum í samfélaginu en með því að klæðast bleiku erum við að sýna þeim konum samstöðu sem hafa þurft að kljást við krabbamein. Margir tóku þetta með trompi eins og myndir sýna.

Dömukaffi á Minni Grund

Það er alltaf notalegt þegar saumaklúbbar eða dömukaffi er á dagskrá hér á Grund. Og allir hlakka til. Hlý og notaleg stund á Minni Grund þar sem spjallað var um heima og geima. Með spjallinu var boðið upp á góðar veitingar.

Uppfæra netföngin

Til stendur að senda rafræna þjónustukönnun til aðstandenda heimilisfólks á Grundarheimilunum nú í október og mikilvægt að hún komist til skila. Aðstandendur eru því beðnir um að senda á netfangið hér að neðan ef einhverjar breytingar hafa orðið á tölvupóstfangi. Aðstandendur fylla út könnunina og senda rafrænt. Einnig er könnun fyrir heimilisfólkið í sama tölvupósti sem aðstandendur eru beðnir um að fylla út með heimilisfólkinu. Sigríður Sigurðardóttir sviðsstjóri fræðslu- og gæðasviðs Grundarheimilanna gefur allar frekari upplýsingar og tekur við upplýsingum um netföng. Netfang Sigríðar er sigridur@grund.is