11.07.2025
Alltaf er nóg um að vera og líf og fjör í sjúkraþjálfuninni hér í Mörk. Þar eru gerð æfingaplön eftir þörfum og getu hvers og eins.
11.07.2025
Hún er þriggja og hálfs árs og heillar alla uppúr skónum. Salka er heimsóknarvinur á vegum Rauða krossins og ætlar að koma framvegis hálfsmánaðarlega með henni Ellu Rögnvaldsdóttur og gleðja okkur með nærveru sinni. 🐕
Við hér á Grund bjóðum hana hjartanlega velkomna til okkar og ef þið vitið um heimilismenn sem myndu vilja hitta Sölku þá endilega látið starfsfólkið ií iðjuþjálfun vita. Starfsstöð iðjuþjálfunar er á 3 hæð á Grund fyrir miðju hússins.
Salka er að fara í sumarfrí en kemur næst í hús 12. ágúst
27.06.2025
Á vordögum var ákveðið að færa sumarferðina fram og hafa hana í júní. Sérstaklega með það fyrir augum að heimsækja uppsveitir Suðurlands í sól og blíðu. Eins og Forrest Gump sagði svo eftirminnilega: „Live is like a box of chocolate, you never know what you will get“. Við fengum rigningu og voru gestagjafar okkar allir á sama máli að við hefðum verið einstaklega óheppin að hafa lent á eina rigningardegi sumarsins.
Ferðin var dásamleg, litir gróðursins voru bjartir og fallegir, loftið hreint og skemmtilegur hópur saman kominn sem lét nokkra dropa ekki hafa áhrif á sig.
Leið okkar lá úr Mörkinni upp í Hrunamannahrepp þar sem Aldís Hafsteinsdóttir tók á móti okkur. Sýndi okkur fallega félagsheimili Hrunamanna, sagði sögu þess og frá fyrirhuguðum breytingum. Að því loknu ókum við Maríuhringinn sem var kryddaður með skemmtilum sögum og undurfögru landslagi. Að því loknu héldum við yfir í Reykholt þar sem Knútur tók á móti okkur, sagði okkur sögu Friðheima og þeirrar uppbyggingar sem þau fjölskyldan hafa staðið fyrir af krafti og bauð okkur upp á dásamlega tómatsúpu í Vínstofunni.
Það er verulega áhugavert að sjá hversu mikið er hægt að byggja upp með einkaframtaki og það fallega er að sjá að allt hefur þetta verið gert með góðu hjartalagi.
Ásborg Ósk Arnþórsdóttir fyrrum ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu fór með okkur hring um Reykholt og sagði okkur frá Bláskógabyggð og þá sérstaklega Reykolti með skemmtilegum sögum við tilheyrandi dillandi hlátur áheyrenda. Á heimleið var svo farin sögutúr um Hveragerði þar sem við fórum létt yfir bæjarbraginn og áframhaldandi uppbyggingu Grundarheimila í Ási.
Þessi dagur jók betur gleði í hjarta þeirra sem tóku þátt.
23.06.2025
Samvinna var lykilorðið þegar kom að því að setja niður sumarblómin í Bæjarási. Heimilisfólk ásamt starfsfólki úr iðjunni tók höndum saman og sá til þess að litrík sumarblómin blasa nú við þegar gengið er út á veröndina.
13.06.2025
Það er gaman að segja frá því að fulltrúar frá Nói Síríus höfðu samband og spurðu hvort ekki mætti gleðja heimilisfólk Grundarheimilanna með konfekti á 17. júní. 🌰
Því var að sjálfsögðu vel tekið og í morgun fengu öll heimilin þrjú svona sendingu, Grund, Mörk og Ás.
Takk kærlega fyrir að hugsa svona fallega til okkar og hér verður sko boðið upp á konfekt með kaffinu á þjóðhátíðardaginn, þökk sé Nóa Síríus. 🇮🇸
06.06.2025
Gárarnir okkar hér á Grund hafa verið duglegir við að fjölga sér en nú eru síðustu ungarnir að flytja að heiman. Við höfum aðeins verið í vandræðum með kisu í hverfinu sem hefur haft augastað á ungunum en vonandi tekst okkur að verja þá fyrir henni.
Hann Jón Ólafur er að minnsta kosti alltaf á vaktinni og passar að það sé lokað inn í herbergið þeirra þegar hætta steðjar að.
Það er alltaf líf og fjör hér á Grund
04.06.2025
Sumir gestir sem koma í Mörk eru sérlega skemmtilegir og ljúfir. Þannig var það einmitt í gær þegar heimalingurinn Loki frá Hraðastöðum í Mosfellsdal kom í heimsókn. 🐑
Hann fékk mikið klapp og marga kossa enda Loki einstaklega skemmtilegur, mjúkur og sætur. Það sem gerði þó útslagið er að hann var sko alveg til í knús.
03.06.2025
Sumarblómin voru sett niður í Mörk í síðustu viku, rétt áður en rokið skall á í gær. Heimilismenn og starfsfólk í Mörk sameinaðist um að gera svalirnar sem fallegastar. Seinna í sumar verður svo árlega svalasamkeppnin haldin þar sem verðlaun verða veitt fyrir þrjár fallegustu svalirnar.
21.05.2025
Grundarheimilin tryggðu sér sýningarrétt á myndinni Human Forever fyrir heimilisfólk, aðstandendur og starfsfólk.
Þetta er mögnuð heimildarmynd, einlæg og áhrifamikil sem fjallar um heilabilun. Markmið með gerð myndarinnar var að gera veröldina betri fyrir fólk sem þarf að takast á við alzheimer.
Teun Toebes vann á lokaðri heilabilunardeild á hjúkrunarheimili í Hollandi þegar hann fékk þá hugmynd að gera heimildamyndina Human Forever. Hann ferðaðist til ellefu landa á þremur árum og leitaði svara fyrir framtíð þessa hóps. „Okkur langaði að fjalla um heilabilun þar sem fólk sem lifir með henni segði sjálft söguna“ sagði Teun. Hann gerði myndina með vini sínum og kvikmyndagerðarmanninum Jonathan de Jong.
Myndin sýnir hvernig tekist er á við heilabilun í þessum ólíku löndum sem þeir heimsóttu.
Myndin var frumsýnd 2023 og hefur verið geysilega vel sótt þar sem hún hefur verið sýnd í kvikmyndahúsum.
Það er komið að því að bjóða upp á sýningu myndarinnar í Mörk en á næstunni verður hún einnig sýnd á Grund og í Ási. Eins og sést í auglýsingunni hér að neðan er boðið upp á tvo sýningartíma svo sem flestir hér í Mörk geti nýtt sér að sjá þessa mögnuðu mynd. Og það verður boðið upp á popp og kók.
20.05.2025
Síðasta harmonikkuball vetrarins var í síðustu viku og vel mætt á dansleikinn. Það var að venju Markarbandið sem lék fyrir dansi en það er hópur harmonikkuleikara sem heimsækir okkur í hverjum mánuði í sjálfboðavinnu. Við erum svo innilega þakklát fyrir þessa frábæru hljóðfæraleikara sem gefa sér tíma til að koma og gleðja fólkið okkar með þessum hætti