12.12.2025
Þessi tilkynning er send til núverandi og fyrrverandi íbúa Grundarheimilanna (Grund, Mörk og Ás), aðstandenda íbúa, skjólstæðinga, umsækjenda og íbúa í íbúðum 60+ í Mörkinni, starfsfólks Grundarheimilanna sem og verktaka sem starfa eða hafa starfað fyrir heimilin.
Líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum urðu Grundarheimilin fyrir fjandsamlegri tölvuárás. Árásin fólst í því að tölvuþrjótar brutust inn á netþjóna og komust þannig inn í kerfi þar sem finna má upplýsingar um núverandi og fyrrverandi íbúa, aðstandendur, skjólstæðinga, starfsfólk og verktaka heimilanna.
Búið er að loka fyrir aðgang tölvuþrjótanna og ljóst þykir að engum gögnum eða upplýsingum hefur verið eytt eða þeim breytt. Heimilin hafa áfram fullan aðgang að öllum upplýsingum sem kerfin innihalda og árásin hefur því takmörkuð áhrif haft á þá þjónustu sem heimilin veita íbúum og skjólstæðingum. Rannsókn hefur þó leitt í ljós að áður en að tölvuárásin uppgötvaðist tókst tölvuþrjótunum að afrita hluta af þeim upplýsingum sem finna mátti í kerfum heimilanna.
Þær persónuupplýsingar sem vitað er á þessari stundu að afritaðar voru eru eftirfarandi, um eftirfarandi flokka einstaklinga:
Skjólstæðingar, íbúar og aðstandendur
• tengiliða- og samskiptaupplýsingar skjólstæðinga, íbúa og aðstandenda,
• upplýsingar um greiðslur skjólstæðinga og íbúa,
• heilsufarsupplýsingar sem tengjast umönnun,
• upplýsingar sem tengjast veittri heilbrigðisþjónustu á heimilunum, s.s. vegna lyfjagjafa, skráningu á rannsóknarniðurstöðum, læknabréfum og viðtölum og
• upplýsingar um óvænt atvik (eftir því sem við á).
Íbúar og umsækjendur um íbúðir 60+ í Mörkinni og aðstandendur
• tengiliða- og samskiptaupplýsingar og
• upplýsingar um greiðslur íbúa.
Starfsfólk og fyrrverandi starfsfólk
• samskipta- og tengiliðaupplýsingar,
• bankaupplýsingar,
• upplýsingar um lífeyris- og stéttafélagsaðild og
• launaupplýsingar.
Verktakar
• samskipta- og tengiliðaupplýsingar,
• reikningsupplýsingar og
• afrit af reikningum.
Ekkert bendir til þess að þessar upplýsingar hafi verið birtar og tölvuþrjótarnir hafa ekki hótað slíkri birtingu.
Rannsókn árásarinnar stendur enn yfir með aðstoð færustu sérfræðinga landsins á þessu sviði.
Í ljósi viðkvæms eðlis þessara upplýsinga eru viðtakendur hvattir til að vera á varðbergi gagnvart mögulegri misnotkun á upplýsingunum af hálfu tölvuþrjótanna. Ef grunur vaknar um slíka misnotkun þá skal gæta fyllstu varúðar í samskiptum, bregðast ekki við, heldur láta okkur vita eða tilkynna um atvikið til CERT-IS netöryggissveitarinnar. Rétt er að árétta að Grundarheimilin munu ekki senda út neina pósta að fyrrabragði þar sem fólk er beðið um að senda upplýsingar eða ýta á hlekki.
Rætt verður við alla íbúa Grundarheimilanna og þeir upplýstir um stöðu málsins.
Við höfum opnað fyrir sérstakan upplýsingasíma ef einhverjar spurningar vakna. Fulltrúi Grundarheimilanna svarar í síma 530-6200 og í gegnum netfangið personuvernd@grund.is. Síminn er opinn frá kl. 10 til 14 næstu daga.
Búið er að tilkynna um árásina til Persónuverndar, Landlæknis og CERT-IS netöryggissveitarinnar í samræmi við það sem áskilið er í lögum og starfsleyfi heimilanna. Einnig er verið að undirbúa kæru til lögregluyfirvalda.
Grundarheimilin munu halda viðtakendum upplýstum eftir því sem málinu vindur fram.
Við þökkum fyrir skilninginn á meðan við komumst til botns í málinu.
Karl Óttar Einarsson, forstjóri Grundarheimilanna
10.12.2025
Takmarkað netaðgengi er á Grundarheimilunum í varúðarskyni vegna tölvuárásar sem uppgötvaðist síðdegis í gær. Áhrifa þessa gætir einnig á símkerfi og tölvupóst. Unnið er að því með færustu sérfræðingum að leita að uppruna árásarinnar og koma kerfunum upp að nýju í forgangsröð út frá mikilvægi. Reikna má með að áhrifin verði a.m.k. einhver næstu daga. Þá er unnið að því að tilkynna málið til opinberra aðila, s.s. Persónuverndar, Cert-IS og Embætti landlæknis.
Við höfum sent aðstandendum upplýsingar á sms eins og við höfum getað, það kann að vera að einhverjir hafi fengið skilaboð sem að ekki eru lengur aðstandendur hjá okkur. Við biðjumst velvirðingar á því.
Við munum halda aðstandendum upplýstum eftir því sem málið þróast.
08.12.2025
Það var yndislegur bökunarilmur í húsinu í dag enda heimilisfólk í óðaönn að baka smákökur með kaffinu. Hvað er yndislegra á aðventunni en að sitja saman, fletja út og forma smákökur og segja allskonar sögur sem koma upp í hugann þegar hugsað er til bernskujóla
03.12.2025
Það var troðfullur salur af fólki sem beið með eftirvæntingu eftir Karlakór Kjalnesinga sem kom og söng fyrir heimilisfólk og íbúa Íbúða 60+ síðasta mánudagskvöld. Einn íbúanna, Hafliði Hjartarson, tók meðfylgjandi mynd fyrir okkur.
Kórinn undir stjórn Láru Hrannar Pétursdóttur söng jólalög í bland við hefðbundin lög karlakórsins.
Frábærir tónleikar. Þakka ykkur hjartanlega fyrir komuna Karlakór Kjalnesinga.
Hlökkum til að fá ykkur aftur í heimsókn á næsta ári.
03.12.2025
Það er hefð fyrir þvi að útbúa fallega jólakransa á aðventunni hér í Ási. Heimilismenn hittust nýlega til að útbúa kransa og ýmiskonar jólaskraut til að skreyta með hér í Ási.
Eins og alltaf var andrúmsloftið létt og kátt
28.11.2025
Í gær hittust konur sem búa hjá Íbúðum 60+ í Mörk og perluðu saman armbönd til styrktar Krafti, sem er félag ungs fólks sem hefur greinst með krabbamein.
Það er ekki leiðinlegt að segja frá því en þessar duglegu konur náðu að perla 114 armbönd, hvorki meira né minna.
Söluandvirðið nemur 330.600 krónum
Ekki amalegt það.
Þær voru svo áhugasamar og skemmtu sér konunglega og tilkynntu að þær væru alveg til í að endurtaka þessa ljúfu stund.
25.11.2025
Það var svo sannarlega stuð í Mörk í dag þegar félagarnir Gunnar og Þórður í hljómsveitinni Tvíund komu og héldu uppi fjöri. Þeir fóru um víðan völl í tónlistinni, sungu mörg lög sem allir þekktu og gátu raulað með. 😍
Það var fullur salurinn á fyrstu hæð og mikil gleði í húsinu með þessa fjörugu og góðu heimsókn.
25.11.2025
Íslenskuáfanga þrjú lauk nýlega á Grund en það eru þrír áfangar í boði fyrir starfsfólk Grundarheimilanna ár hvert, áfangi 1,2 og 3.
Það verður að segjast að nemendur eru fróðleiksfúsir og gaman að fylgjast með og upplifa hvernig erlenda starfsfólkinu okkar fer fram í málinu.
Á næsta ári byrjum við aftur á áfanga eitt og svo koll af kolli. Grundarheimilin leggja áherslu á að allir erlendir starfsmenn sæki alla íslenskuáfangana þrjá sem boðið er upp á.
Það er Mímir sem stendur að baki námskeiðshaldinu en Hrefna Clausen sem skipuleggur og kennir áfangana.
20.11.2025
Í tilefni af degi mannréttinda barna þann 20.nóvember voru nemendur í Álfhólsskóla með góðgerðarviku núna 17.-21.nóvember.
Og við nutum góðs af því hér á Grund því hingað komu fjallhressir strákar úr 10. bekk stormandi með fimm sortir af nýbökuðum smákökum sem þeir höfðu bakað. Allar nema piparkökurnar sögðu þeir.
Heimilismenn voru himinlifandi með þessa skemmtilegu heimsókn og gerðu kökunum góð skil.
Takk strákar fyrir frábæra heimsókn
20.11.2025
Jónasarstofa var opnuð á Vegamótum á Grund í vikunni. Peningagjöf barst til heimilisins frá heimilismanni og aðstandendum hans. Henni var varið til að útbúa stofu þar sem hægt væri að hlusta á tónlist, slaka á og eiga samverustundir sem örva líkama og sál.
Stofan verður kölluð Jónasarstofa, í höfuðið á heimilismanninum.
Fjölskylda Jónasar og starfsfólk unnu sameiginlega að þessu verkefni sem gefur gjöfinni enn meira gildi.
Fjölskyldunni er innilega þakkað fyrir þessa rausnarlegu gjöf