29.08.2025
Við eigum þetta forláta hjól hér í Mörk sem tilvalið er að nota á sólríkum og fallegum dögum. María sjúkraþjálfari greip tækifærið og hjólaði í Elliðaárdalinn með heimilismann. 🚲
Á leiðinni sáu þau fossa, ár, dúfur og minka. Svo var auðvitað stoppað í ísbúð á leiðinni til baka
29.08.2025
Starfsfólkið í iðjunni hér í Mörk ákvað að nýta sólargeislana, opna dyrnar og færa starfið út. Rebekka tók upp gítarinn og það var boðið upp á söngstund í góðu veðri. 🥰
Reyndar fóru skýin af og til fyrir sólu en það var ágætt að fá smá golu inn á milli. Þá var bara sungið ennþá hærra til að hlýja sér. Nokkrir komu út á svalirnar á næstu hæðu og tóku þátt í söngnum.
Ljúf stund og gefandi fyrir alla.
29.08.2025
Það er sérstaklega dásamlegt þegar sólin skín skært síðsumars. Haustið á næsta leyti en smá framlenging á blessuðu sumrinu með þessum sólardögum. Heimilisfólk og starfsfólk var ekkert að tvínóna við hlutina og dreif sig út á svalir til að spjalla og njóta góða veðursins.
22.08.2025
Í síðustu viku var haldin sumarhátíð í Mörk.
Eins og vera ber þegar hátíð er annarsvegar var boðið upp á allskonar leiki, andlitsmálningu og blaðrarinn bjó til blöðrufígúrur. Edhúsið bauð upp á dýrindis veitingar og Guðrún Árný hélt uppi stuðinu og söng með heimilisfólki, starfsfólki, aðstandendum og íbúum hjá Íbúðum 60+.😍
Mikil gleði var í loftinu og sumrinu fagnað.😍
08.08.2025
Aflinn, félag qi gong iðkenda færði samfélaginu í Mörk peningagjöf að upphæð ein milljón króna. Félagið hefur um árabil boðið upp á qi gong æfingar í Kaffi Mörk sem félagsmenn hafa nýtt sér sem og nokkrir íbúar hjá Íbúðum 60+.
Vonandi verður æfingafyrirkomulagið með svipuðum hætti um ókomin ár.
Fjármunirnir verða nýttir á einhvern hátt sem kemur íbúum íbúðanna og heimilismönnum hjúkrunarheimilisins sem best.
Er Aflanum innilega þakkað fyrir þessa rausnarlegu gjöf.
Á myndinni er Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Grundarheimilanna, að taka við þessari rausnarlegu gjöf frá forsvarsmönnum félagsins Birni Bjarnasyni og Viðari H. Eiríkssyni.
28.07.2025
Suma morgna er bara best að vera í rólegheitum, lesa Moggann, grípa kannski í spil, lita smá en aðallega bara eiga notalega samverustund og spjalla.
11.07.2025
Alltaf er nóg um að vera og líf og fjör í sjúkraþjálfuninni hér í Mörk. Þar eru gerð æfingaplön eftir þörfum og getu hvers og eins.
13.06.2025
Það er gaman að segja frá því að fulltrúar frá Nói Síríus höfðu samband og spurðu hvort ekki mætti gleðja heimilisfólk Grundarheimilanna með konfekti á 17. júní. 🌰
Því var að sjálfsögðu vel tekið og í morgun fengu öll heimilin þrjú svona sendingu, Grund, Mörk og Ás.
Takk kærlega fyrir að hugsa svona fallega til okkar og hér verður sko boðið upp á konfekt með kaffinu á þjóðhátíðardaginn, þökk sé Nóa Síríus. 🇮🇸
04.06.2025
Sumir gestir sem koma í Mörk eru sérlega skemmtilegir og ljúfir. Þannig var það einmitt í gær þegar heimalingurinn Loki frá Hraðastöðum í Mosfellsdal kom í heimsókn. 🐑
Hann fékk mikið klapp og marga kossa enda Loki einstaklega skemmtilegur, mjúkur og sætur. Það sem gerði þó útslagið er að hann var sko alveg til í knús.
03.06.2025
Sumarblómin voru sett niður í Mörk í síðustu viku, rétt áður en rokið skall á í gær. Heimilismenn og starfsfólk í Mörk sameinaðist um að gera svalirnar sem fallegastar. Seinna í sumar verður svo árlega svalasamkeppnin haldin þar sem verðlaun verða veitt fyrir þrjár fallegustu svalirnar.