12.02.2025
Grundarheimilin eru í samvinnu við nokkra skóla í Danmörku sem bjóða upp á nám í félags- og heilbrigðisþjálfun. Dönsku nemendurnir hafa komið í starfsþjálfunina í Mörk. Þeir eru á Erasmus styrk sem skólarnir sækja um. Nemendur sjá um að finna sér húsnæði í Reykjavík og eru oftast í fjórar vikur í Mörk. Þeir taka þátt í öllum daglegum umönnunarstörfum og fá leiðsögn og vinna þeirra er þá hluti af verklegri þjálfun hjá þeim.
Undanfarin misseri hafa verið að koma nemendur alla vetrarmánuðina hingað í Mörk eða um átta til tíu nemendur á ári.
Í dag kveðja þrjár danskar stúlkur okkur, þær Nina Sørensen
Sabrina Navne Ølund og Emma Myrén en þær eru nemendur við Social og sundhedsskolen á Fjóni. Við hittum Nínu og Sabrínu stuttlega í gær. Þær eru afskaplega ánægðar með dvölina og hefðu alveg getað hugsað sér að vinna hjá okkur lengur. Glöggt er gests augað svo við spurðum hvernig þeim líkaði að vinna hér.
"Það er svo notalegt og afslappað andrúmsloftið hér í Mörk. Það eru viðbrigði frá því sem við eigum að venjast þar sem streita einkennir meira vinnuumhverfið. Í Danmörku þarf að koma öllum fram í morgunmat á réttum tíma og vinna verkin hratt en hér ræður heimilisfólkið meira ferðinni sjálft og fer á fætur þegar því hentar", segir Nína. Sabrína tekur undir og segir að morgunvaktir séu líka miklu betur mannaðar hér, þrír til fjórir sem sinna hverri heimiliseiningu á meðan það eru tveir í Danmörku sem sinna sama fjölda. "Heima eru starfsmenn yfirleitt í einkennisbúningi og má ekki slettast á þá bleyta þá þarf að skipta um föt og það verður allt stofnanalegra þannig. Það er þetta heimilislega andrúmsloft sem er svo notalegt og gefandi", segir Sabrina. Að lokum benda þær á að heimilisfólk sé yfirleitt miklu hressara hér en í Danmörku. "Það eru margir heimilismenn hérna sem geta tekið þátt í ýmsu og gert hluti á meðan fólk sem fer á hjúkrunarheimili í Danmörku er orðið mjög veikt þegar það kemur á hjúkrunarheimili."
12.02.2025
Lionsklúbburinn Njörður gaf nýlega hjúkrunarheimilinu Mörk breiðan meðferðarbekk í sjúkraþjálfun. Bekkurinn er sérstaklega breiður og bólstraður til að gera hann mýkri svo hann henti vel fyrir þá sem þurfa á mýktinni að halda við æfingar. Félagar í Lions afhentu bekkinn formlega og myndirnar voru teknar við það tækifæri.
03.02.2025
Síðastliðinn fimmtudag vorum við með fatamarkað í anddyri hjúkrunarheimilisins. Þar var fatnaður og annar varningur úr verslunum Grundarheimilanna til sölu á góðu verði. Margir gerðu sér ferð til að skoða, versla og spjalla og úr varð skemmtilegur dagur.
19.12.2024
Undanfarin ár hefur verið efnt til skemmtilegrar samkeppni á Grundarheimilunum um flottasta piparkökuhúsið. Ekki endilega bara það hús sem er fallegast heldur tekið mið af allskonar þáttum eins og samvinnu heimilisfólks og starfsfólks, móttökum þegar dómnefnd mætti, veitingum og frumleika.
Það ríkti eftirvænting þegar dómnefndin fór um Grundarheimilin og á öllum heimilum var henni tekið fagnandi.
Peningaverðlaun voru veitt fyrir efstu þrjú sætin á öllum heimilunum þremur.
Sjá fleiri myndir af húsunum á facebook síðum heimilanna.
10.12.2024
Jólaball Markar var haldið í gær fyrir heimilisfólk, íbúa 60+, starfsfólk, börn, barnabörn og barnabarnabörn. Skjóða kom og sagði jólasögu ásamt jólasveinum og það var svo dansað og sungið í kringum jólatréð. Allir krakkar fengu í lokin jólanammi frá jólasveinunum. Takk allir fyrir komuna og skemmtilega jólastund.
26.11.2024
Það styttist í aðventuna og við hér í Mörk hlökkum til að skreyta og undirbúa komu jólanna. 🌲
Þær Fanney jólaálfur og Rakel jólastrumpur þjófstörtuðu aðventunni með jólatónlist, dansi og glensi og færðu heimilunum jólaglögg🍷
18.11.2024
Minnum á að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna kosninga til alþingis fer fram í sjúkraþjálfun á fyrstu hæð í Mörk í dag, mánudaginn 18. nóvember frá klukkan 15:00 til 18:00. Aðstandendur eru beðnir um að fylgja þeim heimilismönnum sem fylgd þurfa.
14.11.2024
Í gær var Eden hringnum okkar lokað á Grund en þá fékk heimilið formlega viðurkenningu sem Eden heimili. Þar með eru öll Grundarheimilin þrjú orðin Eden heimili. 👏👏
Á sama tíma var endurnýjuð vottunin fyrir Mörk og Ás.
Af þessu tilefni var boðið upp á marsípantertu með kaffinu á öllum heimilunum.
Það var Karl Óttar Einarsson, forstjóri Grundarheimilanna, sem tók formlega við viðurkenningunni fyrir Grund frá Rannveigu Guðnadóttur forsvarsmanni Eden á Íslandi,
https://edenalticeland.org/
01.11.2024
Hér í Mörk gerðum við okkur dagamun á hrekkjavöku, skreyttum hátt og lágt og skárum út skraut og grasker. Margir gengu skrefinu lengra og settu upp grímur eða fóru jafnvel í búning. Skemmtileg tilbreytni sem lífgar upp á lífið og tilveruna