25.11.2025
Íslenskuáfanga þrjú lauk nýlega á Grund en það eru þrír áfangar í boði fyrir starfsfólk Grundarheimilanna ár hvert, áfangi 1,2 og 3.
Það verður að segjast að nemendur eru fróðleiksfúsir og gaman að fylgjast með og upplifa hvernig erlenda starfsfólkinu okkar fer fram í málinu.
Á næsta ári byrjum við aftur á áfanga eitt og svo koll af kolli. Grundarheimilin leggja áherslu á að allir erlendir starfsmenn sæki alla íslenskuáfangana þrjá sem boðið er upp á.
Það er Mímir sem stendur að baki námskeiðshaldinu en Hrefna Clausen sem skipuleggur og kennir áfangana.
20.11.2025
Í tilefni af degi mannréttinda barna þann 20.nóvember voru nemendur í Álfhólsskóla með góðgerðarviku núna 17.-21.nóvember.
Og við nutum góðs af því hér á Grund því hingað komu fjallhressir strákar úr 10. bekk stormandi með fimm sortir af nýbökuðum smákökum sem þeir höfðu bakað. Allar nema piparkökurnar sögðu þeir.
Heimilismenn voru himinlifandi með þessa skemmtilegu heimsókn og gerðu kökunum góð skil.
Takk strákar fyrir frábæra heimsókn
20.11.2025
Jónasarstofa var opnuð á Vegamótum á Grund í vikunni. Peningagjöf barst til heimilisins frá heimilismanni og aðstandendum hans. Henni var varið til að útbúa stofu þar sem hægt væri að hlusta á tónlist, slaka á og eiga samverustundir sem örva líkama og sál.
Stofan verður kölluð Jónasarstofa, í höfuðið á heimilismanninum.
Fjölskylda Jónasar og starfsfólk unnu sameiginlega að þessu verkefni sem gefur gjöfinni enn meira gildi.
Fjölskyldunni er innilega þakkað fyrir þessa rausnarlegu gjöf
05.11.2025
Í morgun var tónlistarhátíðin Iceland Airwaves að venju sett hér á Grund. Það er alltaf tilhlökkunarefni þegar líður að þessum degi enda ávallt frábærir listamenn sem koma fram.
Heimilisfólk mætti á viðburðinn, leikskólabörn frá Tjarnarborg komu í heimsokn og svo komu gestir hátíðarinnar einnig í hátíðasalinn.
Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Senu, bauð gesti velkomna og bað forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur að setja hátíðina. Eftir að hún hafði flutt ávarp stigu listamenn á stokk, m.a. GDRN og Bríet og flutningur þeirra dásamlegur á þessum ljúfu lögum sem þær sungu.
Hafið kæra þökk fyrir eftirminnilegan morgun og velkomin að ári Iceland Airwaves
31.10.2025
Það er frábært að sjá hvernig starfsfólkið í vinnustofunni hugsar út fyrir rammann hér á Grund. Það er næstum ógjörningur fyrir heimilisfólk að skera út grasker, erfiðisvinna fyrir lúnar hendur sem oft eru þjakaðar af gigt og kvillum.
Starfsfólkið leggur sig í líma við að finna út hvernig hægt er að virkja heimilisfólkið með og skapa notalegt og skemmtilegt andrúmsloft.
Þetta árið datt því í hug að það væri bara heillaráð að mála graskerin, spjalla og fræðast um hrekkjavöku og lita grasker ef fólk vildi.
Gefandi stund, gleði og kátína
30.10.2025
Heimilið fagnaði 103 ára afmæli sínu í gær, 29. október og því er fagnað þessa dagana hér á Grund. Samhliða afmælinu hefur svo áratugum skiptir verið haldið svokallað foreldrakaffi.🎂
Hefðin á á bakvið það á sér langa sögu. Grund var stofnuð með almennum samskotum sumarið 1922 og í byrjun september það ár var Grund keypt sem var steinhús við Kaplaskjólsveg. Húsið varð fljótt alltof lítið því þörfin á húsnæði fyrir aldraða var brýn. Framtíðarsýn stjórnar Grundar var að ráðast í byggingu stærra heimilis.
Sveinn Jónsson kaupmaður í Reykjavík, oft nefndur Sveinn í Völundi, kom á fund stjórnar Grundar þann 10. desember árið 1924 og tilkynnti að hann og systkini hans vildu gefa þúsund krónur í húsbyggingarsjóð heimilisins til minningar um foreldra þeirra Jón Helgason og Guðrúnu Sveinsdóttur frá Steinum undir Eyjafjöllum. Eina skilyrðið sem fylgdi gjöfinni var að jafnan skyldi á heimilinu haldið upp á brúðkaupsdag þeirra hjóna 26. október ár hvert.
Þaðan kemur semsagt nafnið foreldrakaffi og þessi skemmtilega hefð sem við enn í dag höldum á lofti.
Hér á árum áður komu systkinin í heimsókn þennan dag meðan þeim entist líf og heilsa og gáfu þá um leið heimilinu meira en afmælisveislan kostaði hverju sinni.
Afmælisgestir gæddu sér á heitu súkkulaði og ljúffengar veitingar voru á borð bornar nú sem endranær. Að þessu sinni söng Grundarkórinn í hátíðasalnum og Sefán Helgi Stefánsson óperusöngvari söng nokkur lög. Karl Óttar Einarsson forstjóri flutti stutta tölu og Guðrún B Gísladóttir, fyrrverandi forstjóri, rakti sögu heimilisins og sagði frá tilurð hefðarinnar með foreldrakaffið.
28.10.2025
Það er alltaf gaman að dansa og ekki bara gott að hreyfa sig heldur lyftir tónlistin og dansinn andanum líka.
Grundarbandið okkar mætti nýlega og lék fyrir dansi við mikinn fögnuð okkar hér á Grund.
Það er alltaf tilhlökkunarefni þegar þetta vaska lið harmonikkuleikara kemur til okkar og spilar fyrir dansi.
Takk kærlega fyrir okkur nú sem endranær kæru félagar.
17.10.2025
Það er alltaf tilhlökkunarefni að sjá hvaða gestir heiðra morgunstundina hér á Grund með nærveru sinni. Í þessari viku voru það hjónin Óttar Guðmundsson læknir og Jóhanna Þórhallsdóttir söngkona. Þau kváðu rímur eftir Sigurð Breiðfjörð við fögnuð heimilisfólks. 🥰
Vikulega koma gestir í morgunstundina, sem er á miðvikudagsmorgnum, og gefa vinnu sína. Það er ómetanlegt og dýrmætt að sjá og finna hvað fólk er tilbúið að koma í sjálfboðavinnu og veita tilbreytingu í líf heimilisfólksins með þessum hætti. 😍
Kærar þakkir fyrir frábæra heimsókn Óttar og Jóhanna.
30.09.2025
Fyrsti harmonikkudansleikur vetrarins var haldinn nýlega í hátíðasal heimilisins.
Grundarbandið lék fyrir dansi og það var kátt yfir mannskapnum enda fjörugt ball, mikið tjúttað, sprellað og hlegið
26.09.2025
Grund við Hringbraut var vígð við hátíðlega athöfn 28. september árið 1930. Heimilið á því 95 ára vígsluafmæli á sunnudaginn og við munum að sjálfsögðu fagna og draga fána að húni.
Umskiptin voru mikil fyrir heimilismenn því þeir höfðu fram að þessu búið þröngt í litlu húsi við Sauðagerðistún sem er í nágrenni við Kaplaskjólsveg í vesturbænum. Húsið þótti afar reisulegt og flott. Haft er eftir einum heimilismanni að húsið væri reisulegt og fjarska fínt en gallin væri að það væri nær ómögulegt að rata út. Gömul kona gekk um húsið og skoðaði en spurði svo: Hvar eigumvið að vera? Hún varð orðlaus þegar henni var sagt að hún mætti velja sér herbergi þar sem hún stóð.
Á þessu tíma voru 125 herbergi í húsinu, þrjú sjúkraherbergi, 7 baðherbergi, 7 salerni og 5 kaffieldhús. Þvottahus og eldhús búin allra bestu nútímatækjum. Húsið kostaði ásamt öllu innanstokks 650 þúsund krónur. Fyrstu heimilismennirnir voru 56.
Í áranna rás hefur verið byggt við aðalbygginguna og á bakvið Grund reis Litla Grund og Minni Grund. Þegar neyðin var hvað mest í þjóðfélaginu og vantaði úrræði fyrir aldraða bjuggu á heimilinu 380 heimilismenn. Það var samt áður en Litla Grund kom til. Í dag búa á Grund um 160 heimilismenn og hefur því fækkað á heimilinu um 200 manns.
Markvisst hefur verið unnið að því á undanförnum árum að nútímavæða heimilið og breyta húsnæðinu þannig að boðið sé upp á einbýli með baðherbergi fyrir alla.
Skemmtilegasta og nýlegasta viðbótin hér á Grund er fallega kaffihúsið okkar í suðurgarði heimilisins, Kaffi Grund.