Fréttir

Stuð á harmonikkuballi

Fyrsti harmonikkudansleikur vetrarins var haldinn nýlega í hátíðasal heimilisins. Grundarbandið lék fyrir dansi og það var kátt yfir mannskapnum enda fjörugt ball, mikið tjúttað, sprellað og hlegið

Grund á 95 ára vígsluafmæli

Grund við Hringbraut var vígð við hátíðlega athöfn 28. september árið 1930. Heimilið á því 95 ára vígsluafmæli á sunnudaginn og við munum að sjálfsögðu fagna og draga fána að húni. Umskiptin voru mikil fyrir heimilismenn því þeir höfðu fram að þessu búið þröngt í litlu húsi við Sauðagerðistún sem er í nágrenni við Kaplaskjólsveg í vesturbænum. Húsið þótti afar reisulegt og flott. Haft er eftir einum heimilismanni að húsið væri reisulegt og fjarska fínt en gallin væri að það væri nær ómögulegt að rata út. Gömul kona gekk um húsið og skoðaði en spurði svo: Hvar eigumvið að vera? Hún varð orðlaus þegar henni var sagt að hún mætti velja sér herbergi þar sem hún stóð. Á þessu tíma voru 125 herbergi í húsinu, þrjú sjúkraherbergi, 7 baðherbergi, 7 salerni og 5 kaffieldhús. Þvottahus og eldhús búin allra bestu nútímatækjum. Húsið kostaði ásamt öllu innanstokks 650 þúsund krónur. Fyrstu heimilismennirnir voru 56. Í áranna rás hefur verið byggt við aðalbygginguna og á bakvið Grund reis Litla Grund og Minni Grund. Þegar neyðin var hvað mest í þjóðfélaginu og vantaði úrræði fyrir aldraða bjuggu á heimilinu 380 heimilismenn. Það var samt áður en Litla Grund kom til. Í dag búa á Grund um 160 heimilismenn og hefur því fækkað á heimilinu um 200 manns. Markvisst hefur verið unnið að því á undanförnum árum að nútímavæða heimilið og breyta húsnæðinu þannig að boðið sé upp á einbýli með baðherbergi fyrir alla. Skemmtilegasta og nýlegasta viðbótin hér á Grund er fallega kaffihúsið okkar í suðurgarði heimilisins, Kaffi Grund.

Mynd sem gerist á Grund hlaut verðlaun

Yrsa Roca Fannberg hefur í mörg ár unnið við umönnun og sem sjúkraliði á Grund en hun er einnig kvikmyndaframleiðandi. Undanfarin ár hefur hún unnið að gerð myndarinnar Jörðin undir fótum okkar sem öll gerist hér á Grund. Heimilismenn eru aðalleikararnir og þeir eru á þriðja tug. Myndin hlaut í gær aðalverðlaun dómnefndar á einni virtustu heimildamyndahátíð i Asíu sem haldin var í Suður_Kóreu. Það var Yrsa sem sjálf tók við verðlaununum. Myndin verður frumsýnd á Riff kvikmyndahátíðinni þann 2. október næstkomandi og sýnd síðan í Bíó Paradís frá 6. október. Heimilismenn Grundar fá tækifæri til að sjá myndina áður en hún fer í almenna sýning. Verður myndin sýnd þann 3. október í hátíðasal heimilisins. Við óskum Yrsu hjartanlega til hamingju með þessa viðurkenningu.

Sumri fagnað með hátíðahöldum

Sumri var fagnað með hátíð hér á Grund nýlega. 🥰 Andlitsmálning, blaðrarinn sem bjó til fígúrur fyrir börnin, söngur og fallegir tónar, sumarlegar veitingar, en fyrst og fremst gleði og samvera. Takk öll fyrir komuna. Þetta var frábær dagur.🌞

Fjörugt blöðruball

Það er bryddað upp á ýmsu hér á Grund og í vikunni var haldið fjörugt blöðruball í hátíðasalnum. Nokkur tími fór í að blása upp blöðrurnar en það var alveg þess virði. Frábært ball og allir skemmtu sér konunglega.

Sjúkraþjálfun í sólinni

Í blíðviðrinu í gær var notalegt að vera í sjúkraþjálfun utandyra. Ekki amalegt hér á Grund að gera liðkandi og styrkjandi æfingar í þessu dásamlega veðri.

Söngur og sól

Það var svo sannarlega líf og fjör í portinu okkar í gær milli Grundar og Litlu Grundar enda veðurblíðan þar einstök þegar sólin skín. Baddi mætti með gítarinn og heimlisfólk tók lagið og gæddi sér á ís. Þetta var notalegur dagur.

Salka er heimsóknarvinur á Grund

Hún er þriggja og hálfs árs og heillar alla uppúr skónum. Salka er heimsóknarvinur á vegum Rauða krossins og ætlar að koma framvegis hálfsmánaðarlega með henni Ellu Rögnvaldsdóttur og gleðja okkur með nærveru sinni. 🐕 Við hér á Grund bjóðum hana hjartanlega velkomna til okkar og ef þið vitið um heimilismenn sem myndu vilja hitta Sölku þá endilega látið starfsfólkið ií iðjuþjálfun vita. Starfsstöð iðjuþjálfunar er á 3 hæð á Grund fyrir miðju hússins. Salka er að fara í sumarfrí en kemur næst í hús 12. ágúst

Gáfu heimilisfólki Grundarheimilanna konfekt fyrir 17. júní

Það er gaman að segja frá því að fulltrúar frá Nói Síríus höfðu samband og spurðu hvort ekki mætti gleðja heimilisfólk Grundarheimilanna með konfekti á 17. júní. 🌰 Því var að sjálfsögðu vel tekið og í morgun fengu öll heimilin þrjú svona sendingu, Grund, Mörk og Ás. Takk kærlega fyrir að hugsa svona fallega til okkar og hér verður sko boðið upp á konfekt með kaffinu á þjóðhátíðardaginn, þökk sé Nóa Síríus. 🇮🇸

Ungarnir fluttir að heiman

Gárarnir okkar hér á Grund hafa verið duglegir við að fjölga sér en nú eru síðustu ungarnir að flytja að heiman. Við höfum aðeins verið í vandræðum með kisu í hverfinu sem hefur haft augastað á ungunum en vonandi tekst okkur að verja þá fyrir henni. Hann Jón Ólafur er að minnsta kosti alltaf á vaktinni og passar að það sé lokað inn í herbergið þeirra þegar hætta steðjar að. Það er alltaf líf og fjör hér á Grund