Vikupistlar forstjóra

Grindavík

Það hafa auðvitað ekki farið framhjá neinum hremmingarnar sem að dunið hafa á Grindvíkingum síðustu vikuna. Í jafn umfangsmikilli starfsemi og við störfum í eru tengsl til Grindavíkur úr ólíkum áttum. Ég sendi öllu samstarfsfólki, heimilisfólki og aðstandendum, með teningar til Grindavíkur mína bestu strauma. Einnig vil ég upplýsa að eins og komið hefur fram var leitað til okkar á Grundarheimilunum með að taka á móti hluta hópsins sem að þurfti að rýma hjúkrunarheimilið í Grindavík, Víðihlíð. síðastliðinn föstudag. Okkur var ljúft og skylt að bregðast við og útbúin var lítil hjúkrunardeild þar sem að okkar nýju íbúar dvelja nú í góðu yfirlæti. Auðvitað eru aðstæður þannig að ekki er mikið prívat rými þar sem að allir gista saman í einum sal en flestir bera sig samt vel miðað við aðstæður. Það var gott að taka á móti hópnum og vita af þeim öruggum hjá okkur þar til önnur og betri aðstaða býðst þeim. Ég þakka sérstaklega öllum þeim starfsmönnum sem að hafa komið að því að setja upp slíka deild sem og að manna hana, en við höfum fengið aðstoð nokkurra starfsmanna úr Mörk við verkefnið. Við erum tilbúin í Hveragerði að skoða hvort að við gætum komið af stað svipuðu fyrirkomulagi til styttri tíma ef á þarf að halda síðar og yfirvöld eru upplýst um þann möguleika. Við hjálpumst öll að sem samfélag við þetta allt saman, það er ljóst af viðbrögðum úr öllu samfélaginu. Kveðja og góða helgi, Karl Óttar Einarsson Forstjóri Grundarheimilanna

Persónumiðuð þjónusta

Á Grundarheimilunum er stefnan að aðlaga þjónustu að hverjum og einum. Markmiðið er að taka tillit til getu hvers og eins og styðja hann þar sem upp á vantar. Of oft gleymum við okkur og tökum fram fyrir hendur heimilismannsins afþví við erum að flýta okkur. Hraðinn er oft mikill og við gefum okkur ekki tíma. Ég hef áður fjallað um virðingu og að hafa hlutverk sem skiptir miklu máli. Hvernig myndum við vilja hafa hlutina ef við værum í þeirri stöðu að þurfa svona persónulega þjónustu? Leiðarljósið í okkar vinnu er Eden hugmyndafræðin. Tvö heimila okkar hafa í töluverðan tíma starfað eftir þessari hugmyndafræði, Ás og Mörk og fengið viðurkennda vottun þar að lútandi. Á Grund hefur lengi verið starfað í þessum anda og leiðarljósin höfð til hliðsjónar. Nýlega var sú ákvörðun tekin að fá vottun fyrir Grund. Engar stórvægilegar breytingar þarf að gera í starfseminni. Við höldum bara áfram að gera það sem að við höfum verið að gera þar, þ.e. að veita okkar heimilisfólki alúð og umhyggju, með það í huga hvað við sjálf myndum kjósa ef við værum í þessum sporum. Til að uppfylla formkröfur fyrir vottun er nauðsynlegt að stór hluti starfsmanna og stjórnenda fari á sérstök Eden námskeið, en þau verða haldin eftir áramót. Starfsmenn Markar og Áss sem að ekki hafa farið á slík námskeið gefst einnig kostur á að fara á námskeiðin á þeim tíma. Eden námskeiðin eru ekki aðeins fyrir starfsfólk í umönnun heldur eru allir starfsmenn sem að vinna í umhverfi heimilismanna hvattir til að fara á námskeið, hvort sem þeir sinna heimilismönnum beint eða óbeint. Lykillinn að því að geta veitt þessa persónumiðuðu þjónustu er að starfsfólk hafi tök á að kynnast heimilisfólkinu. Oft þegar fólk flytur til okkar hefur það misst færni í að tjá sig og segja frá sjálft hvað skipti þann einstakling máli, hvaðan hann kemur og hvað veitir honum ánægju. Lífssagan kemur þar sterk inn þar sem sagt er í myndum og texta frá þeim einstaklingi sem að býr hjá okkur. Lífssöguna má útfæra á mismunandi máta en á facebook síðum heimilanna má sjá nýlega frétt þar sem nokkrir stjórnenda Grundarheimilanna komu saman og bjuggu til sína lífssögu á mjög stuttum tíma. Þetta var skemmtilegt, að útbúa eigin lífssögu með það í huga að kynna hvað skiptir mann máli. Lífssögurnar voru eins ólíkar og þær voru margar. Ég vil því hvetja alla aðstandendur til að kynna sér lífssöguna en hún getur verið í allskonar formi. Við komum til með að bjóða aðstandendum og heimilisfólki á næstunni upp á samverustundir þar sem hægt verður að gera lífssöguna en einnig er hægt að fá frekari upplýsingar hjá deildarstjórum heimilanna. Persónumiðuð þjónusta, með Eden hugmyndafræðina að leiðarljósi er ákvörðun. Eden hugmyndafræði er ekki trúarbrögð eða bókstafur sem verður í einu og öllu að fylgja. Svo lengi sem grunnur Eden stefnunar er ríkjandi í menningunni og við minnum okkur á gildin í daglegum aðstæðum þá erum við á góðri leið. Öll okkar heimili hafa þetta Eden „hjarta“ , en við þurfum alltaf að vera á tánum og meta hvort við séum á réttri leið. Við höldum áfram okkar vinnu með þetta í huga og öll okkar heimili verða komin með formlega Eden vottun í vor. Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarsson Forstjóri Grundarheimilanna p.s. fyrir þá sem að vilja kynna sér Eden hugmyndafræðina betur er bent á heimasíðu Eden Ísland hér fyrir neðan. https://edenalticeland.org/

Sjúkraþjálfun á Grundarheimilunum

Á Grundarheimilunum erum við með starfandi sjúkraþjálfara og íþróttafræðinga. Þær Guðrún Geststdóttir og María Guðnadóttir eru sjúkraþjálfara starfandi annars vegar á Grund og hinsvegar í Mörk. Í nokkurn tíma núna hefur okkur vantað sjúkraþjálfara í Ási en það stendur heldur betur til bóta því um mánaðarmótin er væntanleg til starfa Christina Finke. Býð ég hana velkomna til starfa og hlakka til að sjá líf færast í starfsaðstöðu sjúkraþjálfunar í Ási eftir nokkurt hlé. Guðrún og María segja hér að neðan frá starfsemi sjúkraþjálfunar á Grund og í Mörk. Markmið sjúkraþjálfunar er að viðhalda og/eða auka virkni, hreyfifærni og göngugetu heimilismanna og stuðla þannig að aukinni sjálfsbjargargetu og vellíðan, bæði andlegri og líkamlegri. Einnig að finna leiðir til varnar byltum, kreppumyndun og myndun þrýstingssára. Sjúkraþjálfari og íþróttafræðingar vinna saman að þjálfun heimilisfólks Grundarheimilanna. Heimilisfólki býðst að mæta í þjálfun 2-3x í viku eða eftir samkomulagi, ýmist í æfingasal eða á heimili þess. Sjúkraþjálfari metur alla íbúa með tilliti til líkamlegrar færni og setur upp einstaklingsmiðaða æfingaáætlun í samráði við íþróttafræðinga og íbúann sjálfan. Áherslur í þjálfun eru á styrkjandi og liðkandi æfingar, göngu- og jafnvægisæfingar, auk úthaldsaukandi æfinga, allt eftir þörfum og áhuga hvers og eins. Sjúkraþjálfari veitir verkjameðferð eftir þörfum í þverfaglegri samvinnu við aðrar heilbrigðisstéttir, sinnir endurhæfingu eftir slys og veikindi, metur þörf fyrir og útvegar spelkur, hjólastóla og göngugrindur og er tengiliður við stoðtækjafyrirtækin varðandi viðhald og viðgerðir á þeim. Að auki fræðir sjúkraþjálfari starfsmenn og leiðbeinir um góðar vinnustellingar til að forðast álagsmeiðsli. Íþróttafræðingar stýra sitjandi hóptímum 1-2x í viku á hverri deild þar sem áherslan er fyrst og fremst á styrkjandi og liðkandi æfingar Kveðja og góða helgi, Karl Óttar Einarsson Forstjóri Grundarheimilanna

Kvennaverkfall

Á þriðjudag í næstu viku, 24. október er boðað kvennaverkfall þar sem að konur og kvár eru hvött til að leggja niður störf þann dag. Grundarheimilin eru stór vinnustaður þar sem að konur starfa í miklum meirihluta. Það er ekki hægt annað en styðja við og sýna því skilning að við þurfum að ná lengra í jafnréttisátt, þá hvað okkar geira varðar að ná fram réttlátari launum fyrir okkar störf til samræmis við jafnverðmæt hefðbundin karlastörf. Að vinna á hjúkrunarheimili er erfið vinna og reynir mikið á það frábæra fólk sem að þar starfar bæði líkamlega og ekki síður andlega, óháð kyni. Mældur launamunur kynjana á Grundarheimilunum er nánast enginn og mælingar sýna til skiptis að launamunur sé konum og körlum í vil, en munurinn er það lítill að hann telst ekki marktækur. Launasetning á okkar heimilum byggist að lang mestu leiti á taxtalaunum skv. gildandi kjarasamningum hverju sinni. Vandamálið er því ekki innanhús hjá okkur heldur er verðmætamat starfanna í samfélaginu ekki réttlátt. Kjarasamningar þeir sem að við störfum eftir fylgja kjarasamningum ríkisins við sömu stéttir, enda fáum við fjármögnun á fjárlögum á grundvelli kostnaðarmats kjarasamninga ríkisins. Við myndum gjarnan vilja sjá hækkanir á þessum launum sem að endurspeglar raunverulegt verðmæti starfanna fyrir samfélagið. Mikilvægi starfanna hjá okkur er okkur öllum augljós. Einmitt þess vegna er ekki hægt að leggja niður störf allra kvenna og kvára í heilan dag á hjúkrunarheimili, það er óumdeilt og aðstandendur átaksins sýna því skilning. Á okkar heimilum stöndum við öll saman vaktina til klukkan 13 nk. þriðjudag og sýnum samstöðu með þeim sem að geta ekki lagt niður störf allan daginn án þess að stefna öryggi okkar heimilisfólks í hættu. Frá klukkan 13 förum við niður í skilgreinda öryggismönnun á hjúkrunardeildum til þess að gefa sem flestum tækifæri til að taka þátt í skipulagðri dagskrá dagsins. Kvöld- og næturvaktir verða fullmannaðar enda er þar um að ræða öryggismönnun. Reikna má með þjónustuskerðingu að einhverju leiti að þessum sökum en reiknað er með að það náist að tryggja öryggi með lágmarksmannskap. Við öll á Grundarheimilunum styðjum baráttuna og hvetjum stjórnvöld til þess að tryggja það að nauðsynlegar kjarabætur náist fram sem að endurspeglar verðmæti starfanna. Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarsson Forstjóri Grundarheimilanna

Hvað er sóun?

Eitt af því sem að við þurfum stöðugt að vera með í huga á heimilunum okkar er sóun. Manneskjan virðist eiga það sameiginlegt nánast hvar sem er í heiminum að ganga illa um og ekki vera sérlega nýtin. Öll þessi sóun kostar fjármuni sem að gaman væri að nýta í að gera eitthvað skemmtilegt. Við þekkjum öll þetta orð, sóun, en hugsum kannski minna um hvað það nákvæmlega er. Að hafa skrúfað frá öllum ofnum og opna glugga er sóun. Að hafa kveikt ljós í björtu er sóun. Við getum líka sóað tíma. Tíma einhvers getur verið betur varið í önnur verk og verkefni en hann er akkúrat að sinna. Við getum líka sóað tíma með því að vera föst í ákveðnu verklagi sem að væri hægt að eindfalda. Þetta eru dæmi um sóun sem að við sjáum ekki endilega lenda í ruslinu. Úrgangur og sorp er svo önnur tegund sóunar. Magn sorps frá heimilunum okkar er um 3 kíló fyrir hvern heimilismann á dag, alla daga ársins. Það eru tæplega 400 þúsund kíló á ári sem að samsvarar um það bil 350 stykkjum af Toyota Aygo bílum, næstum því einn á dag. Því miður þá er það þannig að sorpið sem að kemur úr okkar starfsemi er að miklu leyti óhjákvæmlilegt vegna eðlis starfseminnar. Við þurfum þó að skoða ýmislegt sem að endar í ruslinu. Við hendum t.d. of miklum mat á Grundarheimilunum sem er eitthvað sem að við þurfum að skoða og ég kalla eftir aðstoð samstarfsfólksins míns við að finna hvar við getum gert betur þar. Sérfræðingarnir í dags daglegum störfum innan heimilanna sjá þetta lang best. Sýnum samfélagslega ábyrgð og tökum þátt, ég held að það gæti bara verið skemmtilegt líka ef að við fáum einhverjar góðar hugmyndir. Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarsson Forstjóri Grundarheimilanna

Að vera í sambandi

Það skiptir máli að vera í góðu sambandi og við höfum heyrt að aðstandendur almennt kalla eftir upplýsingagjöf um viðburði og annað sem í boði er fyrir heimilisfólk. Við viljum endilega hvetja aðstandendur til að taka þátt í viðburðum stórum og smáum, það er velkomið að líta við í opin hús í iðjuþjálfun með sínu fólki, stólaleikfimi eða hvað sem er, það er bara skemmtilegt að taka þátt í formlegum og óformlegum viðburðum, samveran gefur alltaf mikið. Til þess að við getum miðlað þessum upplýsingum þurfum við að vera með upplýsingar um aðstandendur og upplýsingarnar þurfa að vera réttar. Við hvetjum alla aðstandendur til þess að skrá inn upplýsingar um sig á hlekknum hér fyrir neðan. Við hvetjum líka þá sem að eru núna skráðir til þess að fylla út upplýsingar um sig, og mögulega þannig uppfæra gamlar upplýsingar. Vinsamlegast deilið þessum hlekk innan fjölskyldu þannig að fleiri geti skráð sig. Þeir sem að eru skráðir með þessum hætti fá þó ekki sjálfkrafa upplýsingar um heilsufar og viðkvæmar upplýsingar. Slíkt er alltaf metið í hverju tilfelli fyrir sig. Að hafa þessar upplýsingar skráðar hjálpar okkur líka að þekkja betur þá einstaklinga sem að við erum að aðstoða. Við viljum halda góðu sambandi og hvetjum aðstandendur til að hafa samband ef að eitthvað er, stórt eða smátt. Skráning upplýsinga hér: https://forms.office.com/e/Jjgc7VQk8b Kveðja og góða helgi, Karl Óttar Einarsson forstjóri Grundarheimilanna

Samskipti

Í flóknu umhverfi reynir oft á samskiptin og samskiptahæfnina. Það eru allskonar tilfinningar í spilinu þegar að kemur að umönnun ástvina okkar og ljóst að við getum ýmist verið sátt eða ósátt með margt sem að þar fer fram. Eitt er alveg ljóst að lang flestir þeirra sem að vinna þessi störf, gera það eftir sinni allra bestu getu og leggja sig margir fram um að gera þetta eins og þeir sjálfir myndu kjósa. Mikið heyri ég af samverustundum og uppbroti sem að einstaka starfsmenn eða hópur starfsmanna tekur sig saman um að gera og engar starfslýsingar komast yfir að lýsa. Ég verð alltaf ákaflega stoltur af samstarfsfólki mínu þegar að ég heyri slíkar sögur. Tökum okkur saman og verum dugleg að hrósa og þakka fyrir dagleg störf þessa frábæra fólks sem að starfar of oft í vanþakklátum störfum. Þegar að hlutirnir eru hins vegar, að okkar mati, ekki eins og þeir eiga að vera er rétt að beina þeim ábendingum til stjórnenda því að okkar er ábyrgðin. Eru upplýsingar nógu aðgengilegar? Eru þær nógu skýrar? Vita starfsmenn hvers er ætlast? Er skipulagið að virka? Þegar að eitthvað af þessu er að klikka þá þarf að skoða þessa hluti og það er í höndum okkar stjórnenda. Því miður gerist það stundum að við fáum fregnir af því að almennir starfsmenn fái yfir sig skammir og öskur að þeirra mati og það er ekki undir neinum kringumstæðum ásættanlegt. Við sýnum því fullan skilning að þetta er allt saman mjög flókið og allskonar tilfinningar í spilinu. Upplifun er líka ólík milli aðila og getur verið að sá sem að er talinn vera að öskra á einhvern upplifi það ekki þannig. Ég vil því endilega hvetja alla sem að hafa einhverjar umkvartanir að koma með þær endilega til deildarstjóra, hjúkrunarframkvæmdastjóra eða forstjóra, eftir atvikum. Ég er tilbúinn í spjall hvenær sem er. Einnig bendi ég á að á heimasíðu heimilanna (www.grundarheimilin.is) er að finna ábendingarhnapp sem að má gjarnan nota til að koma ábendingum til okkar. Sem sagt, vöndum samskiptin, hrósum þegar að við sjáum tilefni til við hvern sem er, ábendingar, ósætti og kvartanir skulu berast þeim sem að hafa ábyrgð og völd til að bregðast við þeim. Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarsson Forstjóri Grundarheimilanna

Mikilvæg störf

Eitt af því sem er jákvætt í vinnustaðamenningu Grundarheimilanna er að við virðum störf hvors annars og áttum okkur á að vinnan okkar er mikilvæg og við hjálpumst að þegar á þarf að halda. Auðvitað kemur fyrir að einhver gleymir sér og finnst sitt starf mikilvægara en annarra en það er mikilvægt að hafa í huga að við finnum fyrir því öll þegar vantar einhverja hlekki í keðjuna. Við höfum okkar styrkleika og veljumst til starfa sem henta okkar styrkleikum. Í svona umfangsmikilli starfsemi er fjöldinn allur af fjölbreyttum störfum, alveg eins og á öllum heimilum. Það er eldhús, það er þvottahús, það þarf að þrífa, það þarf að skipta um perur, það þarf að sinna heilsurækt og heilsueflingu, hafa eitthvað fyrir stafni, það þarf að sinna fjölbreyttum líkamlegum þörfum og svo framvegis. Við erum góð í því sem að við gerum og ekkert gengi upp ef það væri ekki farið út með ruslið eða skipt um ljósaperur. Hvert verkefni hjá okkur getur, ef því er ekki sinnt, komið í veg fyrir að við hin getum sinnt okkar hlutverkum. Við reynum líka að horfa út fyrir hlutverk okkar og aðstoðum samstarfsfólkið í öðrum verkefnum ef á þarf að halda. Það er mikilvægt að við höldum í þennan góða anda, berum virðingu hvert fyrir öðru og störfum hvers annars og léttum undir með vinnufélögunum þegar þarf þannig að allir hlutir gangi sem best. Þannig búum við til jákvætt starfsumhverfi og getum hlakkað til að mæta í vinnuna á hverjum degi. Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarsson Forstjóri Grundarheimilanna

Sumarhátíðir

Í vikunni var veðrið dásamlegt og óhætt að segja að við höfum náð að nýta það á Grundarheimilunum. Sumarhátíðir voru haldnar en það er skemmtilegt að halda áfram að njóta sumarsins þrátt fyrir að margir haldi að sumarið sé búið um verslunarmannahelgi. Við vonum að þessar sumarhátíðir framlengi sumrinu og að við taki milt og gott haust. Framkvæmdin var í höndunum starfsfólks iðjuþjálfunar og félagsstarfs sem og eldhúss sem fengu svo til liðs við sig frábæra listamenn. Takk kærlega fyrir okkur. Að halda svona viðburði getur verið heilmikið átak en við erum með fjöldan allan af starfsfólki sem kom að þessumeð einum eða öðrum hætti. t.d. að fylgja okkar heimilisfólki og vera því innan handar og gleðjast saman. Það var líka frábært að sjá að margir aðstandendur náðu að njóta með okkur. Kærar þakkir öll fyrir vikuna. Á facebook síðum heimilanna má sjá myndir af hátíðunum. Við stefnum inn í haustið með frábærann hóp af starfsfólki. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem að komu til starfa í sumar á okkar heimilum. Sumir halda áfram að hluta með skóla, einhverjir halda áfram í hærra starfshlutfalli og aðrir hverfa til annarra verka. Kærar þakkir fyrir sumarið, og vonandi haldið þið sem flest áfram hjá okkur næsta sumar. Facebook Grundar: https://www.facebook.com/GrundReykjavik Facebook Áss: https://www.facebook.com/dvalaras Facebook Markar: https://www.facebook.com/morkhjukrunarheimili Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarsson Forstjóri Grundarheimilanna.

Þetta hefur alltaf verið svona

Við festumst oft í viðjum vanans og einblínum stundum um of á hvernig við höfum alltaf gert hlutina. Við göngum inn í það sem okkur er kennt og höldum því áfram, verðum vélræn í leik og starfi og gerum eins og okkur er sagt. Dæmi um þetta er sagan af konunni sem eldaði alltaf kjötsúpu í tveimur pottum, af því að mamma gerði það alltaf þannig. Þegar mamman var spurð hvers vegna hún eldaði alltaf kjötsúpuna í tveimur pottum var svarið ósköp einfalt, hún átti bara aldrei nógu stóran pott. Við könnumst örugglega við þetta öll, að einhvern tíma hafi runnið upp fyrir okkur að við séum kannski að gera einhverja hluti undarlega „af því bara“. Að íhuguðu máli sjáum við ef til vill einfaldari leiðir til að ná sama markmiði, nú eða jafnvel er eitthvað sem að við gerum bara algjör óþarfi. Mér finnst svo frábært þegar að ég heyri pælingar í þessa veru þ.e. af hverju? Það fylgir því líka vellíðan að komast að niðurstöðu um að gera eitthvað öðruvísi og getur létt af okkur einhverjum kvöðum. Við þurfum á sama tíma að bera virðingu fyrir ákveðnum hefðum og venjum hvar sem við komum, þetta er því oft fín lína. Við skulum samt reyna að halda í gagnrýna hugsun og nýta tækifærið sem t.d. kemur með nýju fólki sem spyr um skrýtna hluti, að okkur finnst, og velta fyrir okkur hvort að það geti verið eitthvað til í því. Þegar spurt er spurninga er frábært að fá tækifæri til að útskýra hvers vegna hlutir eru með ákveðnum hætti. Allt samtal um hvernig og hvers vegna við gerum hlutina getur líka verið svo skemmtilegt og oft koma frábærar hugmyndir að breytingum þegar að leggjumst á eitt og kannski einföldum okkur vinnuna Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarssoon forstjóri Grundarheimilanna