Heimilispósturinn - september 2023

Fiskidagurinn litli 2023 - Íbúar 60+

Fiskidagurinn litli var haldinn hátíðlegur í gær hér í Mörk. Er þetta í sjötta sinn sem hátíðin fer fram og þökkum við forsvarsfólki Fiskidagsins mikla á Dalvík fyrir stuðninginn og áhugann. Karl Óttar Einarsson, forstjóri Grundarheimilanna, setti hátíðina. Júlíus Júlíusson framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla á Dalvík flutti vináttukveðju, Friðrik fimmti yfirkokkur matseðils Fiskidagsins mikla á Dalvík fór yfir matseðilinn og tónlistarmaðurinn KK söng nokkur vel valin lög. Dalvíkingar, nærsveitungar og velunnarar bjúggu til vináttubönd til að dreifa á hátíðinni í ár. Júlíus kom með slík armbönd og dreifði til íbúa til að undirstrika vináttuna við Mörkina. Viljum við þakka öllum kærlega fyrir komuna. Hlökkum til Fiskidagsins litla á næsta ári.

Mikilvæg störf

Eitt af því sem er jákvætt í vinnustaðamenningu Grundarheimilanna er að við virðum störf hvors annars og áttum okkur á að vinnan okkar er mikilvæg og við hjálpumst að þegar á þarf að halda. Auðvitað kemur fyrir að einhver gleymir sér og finnst sitt starf mikilvægara en annarra en það er mikilvægt að hafa í huga að við finnum fyrir því öll þegar vantar einhverja hlekki í keðjuna. Við höfum okkar styrkleika og veljumst til starfa sem henta okkar styrkleikum. Í svona umfangsmikilli starfsemi er fjöldinn allur af fjölbreyttum störfum, alveg eins og á öllum heimilum. Það er eldhús, það er þvottahús, það þarf að þrífa, það þarf að skipta um perur, það þarf að sinna heilsurækt og heilsueflingu, hafa eitthvað fyrir stafni, það þarf að sinna fjölbreyttum líkamlegum þörfum og svo framvegis. Við erum góð í því sem að við gerum og ekkert gengi upp ef það væri ekki farið út með ruslið eða skipt um ljósaperur. Hvert verkefni hjá okkur getur, ef því er ekki sinnt, komið í veg fyrir að við hin getum sinnt okkar hlutverkum. Við reynum líka að horfa út fyrir hlutverk okkar og aðstoðum samstarfsfólkið í öðrum verkefnum ef á þarf að halda. Það er mikilvægt að við höldum í þennan góða anda, berum virðingu hvert fyrir öðru og störfum hvers annars og léttum undir með vinnufélögunum þegar þarf þannig að allir hlutir gangi sem best. Þannig búum við til jákvætt starfsumhverfi og getum hlakkað til að mæta í vinnuna á hverjum degi. Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarsson Forstjóri Grundarheimilanna

Sumarhátíðir

Í vikunni var veðrið dásamlegt og óhætt að segja að við höfum náð að nýta það á Grundarheimilunum. Sumarhátíðir voru haldnar en það er skemmtilegt að halda áfram að njóta sumarsins þrátt fyrir að margir haldi að sumarið sé búið um verslunarmannahelgi. Við vonum að þessar sumarhátíðir framlengi sumrinu og að við taki milt og gott haust. Framkvæmdin var í höndunum starfsfólks iðjuþjálfunar og félagsstarfs sem og eldhúss sem fengu svo til liðs við sig frábæra listamenn. Takk kærlega fyrir okkur. Að halda svona viðburði getur verið heilmikið átak en við erum með fjöldan allan af starfsfólki sem kom að þessumeð einum eða öðrum hætti. t.d. að fylgja okkar heimilisfólki og vera því innan handar og gleðjast saman. Það var líka frábært að sjá að margir aðstandendur náðu að njóta með okkur. Kærar þakkir öll fyrir vikuna. Á facebook síðum heimilanna má sjá myndir af hátíðunum. Við stefnum inn í haustið með frábærann hóp af starfsfólki. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem að komu til starfa í sumar á okkar heimilum. Sumir halda áfram að hluta með skóla, einhverjir halda áfram í hærra starfshlutfalli og aðrir hverfa til annarra verka. Kærar þakkir fyrir sumarið, og vonandi haldið þið sem flest áfram hjá okkur næsta sumar. Facebook Grundar: https://www.facebook.com/GrundReykjavik Facebook Áss: https://www.facebook.com/dvalaras Facebook Markar: https://www.facebook.com/morkhjukrunarheimili Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarsson Forstjóri Grundarheimilanna.

Sumarhátíð Markar

Þvílíkur dásemdardagur í Mörk. Héldum sumarhátið í bongóblíðu. Fengum frábæra listamenn til liðs við okkur. Stúlknabandið Tónafljóð söng sígildu gömlu dægurlögin, ungviðið lék sér í hoppukastala og fékk blöðru hjá Daníel blaðrara og síðan var Ingunn með andlitsmálningu fyrir þá sem vildu. Boðið var upp á melónur, sætindi, flatkökur, gos og sumarlegar veitingar. Þökkum öllum fyrir komuna, heimilisfólkið okkar alsælt með daginn, starfsfólkið líka og frábært að fá aðstandendur í heimsókn og öll börnin. Takk fyrir frábæran dag og fyrir komuna

Sumarhátíðin í Ási

Í blíðskaparveðri var Sumarhátíðin í Ási haldin í gær. Heimilisfólk, aðstandendur, starfsfólk og aðrir gestir skemmtu sér konunglega, hlustuðu á fagra tóna frá litskrúðuga stúlknabandinu Tónafljóð, Ingunn bauð upp fallega andlitsmálun og “blaðrarinn” Daníel galdrað í fram flottar fígúrur úr blöðrum. Nokkrir heimilismenn nýttu tækifærið og seldu eigið handverk, t.d. sokka, vettlinga, peysur, málverk og vatnslitamyndir. Eldhúsið sá um veitingarnar sem voru glæsilegar að vanda.

Sumarhátíð á Grund

Það var kátt yfir mannskapnum þegar blásið var til sumarhátíðar á Grund. Afþví verið er að reisa kaffihús í suðurgarði heimilsins var hátíðin í portinu bakvið heimilið. Melónur, ís, gos, sætindi og flatkökur með hangikjöti var meðal þess sem boðið var uppá, Jón Ólafur mætti með harmonikkuna og svo tróð stúlknabandið Tónafljóð upp og lék sígild gömul dægurlög sem allir gátu tekið undir með. Blaðrarinn var mættur og gladdi ungviðið og síðan var boðið upp á andlitsmálun líka. Flottur og sólríkur dagur hér á Grund og kæru aðstandendur, starfsfólk og kæru börn sem glödduð okkur í dag. Takk fyrir komuna. Það var gaman að fá ykkur í heimsókn. Heimilisfólk virtist alsælt með daginn.

Þetta hefur alltaf verið svona

Við festumst oft í viðjum vanans og einblínum stundum um of á hvernig við höfum alltaf gert hlutina. Við göngum inn í það sem okkur er kennt og höldum því áfram, verðum vélræn í leik og starfi og gerum eins og okkur er sagt. Dæmi um þetta er sagan af konunni sem eldaði alltaf kjötsúpu í tveimur pottum, af því að mamma gerði það alltaf þannig. Þegar mamman var spurð hvers vegna hún eldaði alltaf kjötsúpuna í tveimur pottum var svarið ósköp einfalt, hún átti bara aldrei nógu stóran pott. Við könnumst örugglega við þetta öll, að einhvern tíma hafi runnið upp fyrir okkur að við séum kannski að gera einhverja hluti undarlega „af því bara“. Að íhuguðu máli sjáum við ef til vill einfaldari leiðir til að ná sama markmiði, nú eða jafnvel er eitthvað sem að við gerum bara algjör óþarfi. Mér finnst svo frábært þegar að ég heyri pælingar í þessa veru þ.e. af hverju? Það fylgir því líka vellíðan að komast að niðurstöðu um að gera eitthvað öðruvísi og getur létt af okkur einhverjum kvöðum. Við þurfum á sama tíma að bera virðingu fyrir ákveðnum hefðum og venjum hvar sem við komum, þetta er því oft fín lína. Við skulum samt reyna að halda í gagnrýna hugsun og nýta tækifærið sem t.d. kemur með nýju fólki sem spyr um skrýtna hluti, að okkur finnst, og velta fyrir okkur hvort að það geti verið eitthvað til í því. Þegar spurt er spurninga er frábært að fá tækifæri til að útskýra hvers vegna hlutir eru með ákveðnum hætti. Allt samtal um hvernig og hvers vegna við gerum hlutina getur líka verið svo skemmtilegt og oft koma frábærar hugmyndir að breytingum þegar að leggjumst á eitt og kannski einföldum okkur vinnuna Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarssoon forstjóri Grundarheimilanna

Sumarhátíð í Mörk

Sumarhátíð í Ási