27.08.2025
Í dag hafa Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Hveragerðisbær gert samning við Ás hjúkrunarheimili um samþætta heimaþjónustu við íbúa í Hveragerði frá 1. september nk. Verkefnið er tilraunaverkefni sem að byggist á aðgerðaráætlun Gott að eldast sem að er samstarfsverkefni milli Félags- og húsnæðismálaráðuneytis og Heilbrigðisráðuneytis. Ás mun þannig sinna heimahjúkrun og félagslegum heimastuðningi við íbúa Hveragerðisbæjar 60 ára og eldri sem sækja um og fá samþykkta slíka þjónustu. Áður hefur í Ási verið starfrækt dagdvöl ásamt því að þaðan hafa íbúar Hveragerðisbæjar sem óskað hafa eftir fengið mat sendan heim.
22.08.2025
Guðný Alma, sem er sumarstarfsmaður hér hjá okkur í Ási, söng fyrr í sumar fyrir heimilismenn í Bæjarási. Nýlega mætti hún aftur og söng við undirleik unnusta síns Péturs Nóa Stefánssonar. 🥰
Að þessu sinni söng hún fyrir heimilismenn í Ásskála. Viðtökurnar voru frábærar enda syngur Guðný Alma eins og engill. 👏
21.08.2025
Bingó er alltaf vinsælt og flestir spenntir að taka þátt. Heimilismenn á hjúkrunarheimilinu voru yfir sig hrifnir af tilbreytingunni þegar boðið var upp á tónlistarbingó. 🥰
Það er eflaust stutt í að aftur verði boðið upp á bingó þar sem tónlist kemur við sögu.
18.08.2025
Heilsustofnun í Hveragerði fagnaði 70 ára afmæli á dögunum. Forsvarsmenn Grundarheimilanna mættu í afmælishófið og færðu Heilsustofnun tvö eplatré að gjöf. Á myndinni eru frá
vinstri Ingi Þór Jónsson markaðsstjóri Heilsustofnunar, hjónin Gísli Páll Pálsson stjórnarformaður Grundarheimilanna og Alda Pálsdóttir framkvæmdastjóri Íbúða 60+ í Mörk, Þórir Haraldsson forstjóri Heilsustofnunar og Karl Óttar Einarsson forstjóri Grundarheimilanna.
24.07.2025
Guðný Alma er sumarstarfsmaður í Bæjarási. Í vikunni kom hún ásamt unnusta sínum, Pétri Nóa Stefánssyni, og hélt tónleika fyrir okkur.
Ljúfir og notalegir tónleikar. Takk innilega fyrir okkur
16.07.2025
Hér í Ási höfum við nýtt góða veðrið að undanförnu og bardúsað ýmislegt.
Einn daginn fórum við og tíndum falleg blóm í Hverahlíðinni og fórum svo í gegnum Ásbyrgi.
Við enduðum daginn á að fá okkur Gatorade til að fylla á söltin í hitanum og bjuggum til keilu úr flöskunum.
Virkilega góður dagur og allir sáttir í þessu dásamlega veðri.
23.06.2025
Samvinna var lykilorðið þegar kom að því að setja niður sumarblómin í Bæjarási. Heimilisfólk ásamt starfsfólki úr iðjunni tók höndum saman og sá til þess að litrík sumarblómin blasa nú við þegar gengið er út á veröndina.
13.06.2025
Það er gaman að segja frá því að fulltrúar frá Nói Síríus höfðu samband og spurðu hvort ekki mætti gleðja heimilisfólk Grundarheimilanna með konfekti á 17. júní. 🌰
Því var að sjálfsögðu vel tekið og í morgun fengu öll heimilin þrjú svona sendingu, Grund, Mörk og Ás.
Takk kærlega fyrir að hugsa svona fallega til okkar og hér verður sko boðið upp á konfekt með kaffinu á þjóðhátíðardaginn, þökk sé Nóa Síríus. 🇮🇸
20.05.2025
Mánudagsgöngurnar eru hafnar á ný í Ási og það var ekki amalegt að byrja á ný í átján gráðu hita og glampandi sól. Að þessu sinni var kíkt á framkvæmdirnar vegna nýja hjúkrunarheimilisins.
08.05.2025
Það var mikið um dýrðir í gær í Ási þegar heimilismaðurinn Guðjón Jónsson fagnaði aldar afmæli. Ættingjar og vinir komu færandi hendi með árnaðaróskir, blómvendi og gjafir og starfsfólk sem og Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Grundarheimilanna kom og heilsaði upp á afmælispiltinn. 🌹🌹
Rúsínan í pylsuendanum var svo þegar börn úr fjórða bekk í grunnskólanum í Hveragerði komu stormandi á hjúkrunarheimilið og sungu fyrir afmælisbarnið. 🥰
Til hamingju Guðjón. Það er merkur áfangi að fagna aldarafmæli.