Allar fréttir

Söngur í morgunstund

Söngkonan Hafdís Huld heimsótti okkur í morgunstund í gær og sagði heimilisfólkinu frá sér og söng nokkur lög. Við þökkum henni kærlega fyrir komuna. Sr. Pétur Þorsteinsson, sá sem stendur við gluggann á myndinni, er sá sem í viku hverri fær til okkar fólk í sjálfboðavinnu sem kemur og gleður heimilisfólkið okkar á einn eða annan hátt með einsöng, kórsöng, hljóðfæraleik, upplestri, dansi, fræðslu eða hugleiðslu svo dæmi séu tekin. Dásamlegt að finna hvað fólk er tilbúið að koma og gefa vinnu sína við að gleðja heimilisfólkið og veita því tilbreytingu.

Blómarósir í sól og blíðu

Þegar veðrið leikur við okkur eins og um helgina eru svalirnar frábær staður til að njóta sólar. Ekki skemmir fyrir að geta notið litskrúðugu blómanna sem prýða nú potta og ker á svölum heimilanna hér í Mörk. Í ár ræktuðum við í gróðurhúsunum okkar í Ási um 11.000 sumarblóm sem prýða nú svalir og garða Grundarheimilanna og Íbúða 60+.

Strengjakvartett hélt tónleika í hátíðasal

Strengjakvartettinn Eyja hélt í gær tónleika í hátíðasal Grundar fyrir fullum sal. Það eru þær Sara Karin Kristinsdóttir, Elísabet Anna Dudziak, Diljá Finnsdóttir og Ágústa Bergrós Jakobsdóttir sem skipa kvartettinn. Þær komu á vegum Hins hússins og léku þjóðlagatónlist fyrir heimilismenn og tónlist með þjóðlegum áhrifum. Dásamlegir tónleikar og takk kærlega fyrir komuna

Heimilismenn skelltu sér á Kastalakaffihúsið

Það er stutt að fara á Kastalakaffihúsið héðan úr Mörk en veitir heimilisfólkinu okkar skemmtilega tilbreytingu. Fyrir skömmu gerðu heimilismenn sér glaðan dag og örkuðu yfir á kaffihúsið með aðstoð starfsfólks og aðstandenda. Yndisleg stund í góðum félagsskap.

Sumri fagnað í Ási

Í síðustu viku fögnuðum við sumri í Ási og veðrið lék við okkur. Regína Ósk söng eins og engill, börnin fengu blöðrur og boðið var upp á allskyns afþreyingu. Léttar og sumarlegar veitingar glöddu viðstadda og allir sáttir með daginn.

Í veðurblíðunni

Stundum gefst tækifæri til að bjóða heimilismönnum að njóta veðurblíðunnar og bregða sér af bæ og þannig var það nýlega þegar Gréta, Margrét, Vera og Hólmfríður fóru í smá ævintýraferð

Sumarhátíð Markar

Fjölmenn sumarhátíð var haldin í Mörk í vikunni og mikið um dýrðir. Hoppukastali, andlitsmálning, Regína Ósk söngkona heillaði alla uppúr skónum með dásamlegum söng og svo var boðið upp á sumarlegar veitingar.

Lautarferð í góða veðrinu

Það er verið að gera við hjúkrunarheimilið hér í Ási svo það var ákveðið að fara í lautarferð fyrir utan Vesturás í góða verðrinu. Nestinu var pakkað í poka og allir héldu af stað yfir götuna, loksins þegar sólin lét sjá sig.

Um 11.000 sumarblóm á Grundarheimilin

Það hefur ekki farið framhjá neinum sem leið á um Grundarheimilin að búið er að gróðursetja þúsundir plantna á heimilunum, í görðum, á svölum, við gangstíga og í sólstofum. Jónas Þór Sigurbjörnsson, garðyrkjustjóri Grundarehimilanna, segir að sáð hafi verið um fyrir um 10-11.000 sumarblómum, morgunfrúm, stjúpum, dalíum, tóbakshornum og svo mætti áfram telja. Auk þess segir Jónas að uppskeran sé ríkuleg af agúrkum og tómötum og kirsuberjatómötum og einnig er vex salat vel. Þegar búið er að fara með grænmetið í eldhús Grundarheimilanna gefst starfsfólki kostur á að kaupa á vægu verði agúrkur og tómata og það hefur mælst vel fyrir.

Kemur syngjandi í hús

Það er alltaf gleðilegt þegar Stefán Helgi Stefánsson kemur svífandi hingað í Mörk til að gleðja heimilisfólkið okkar með söng sínum. Hann kemur á vegum Elligleði sem hann og Margrét Sesselja Magnúsdóttir eru með saman og hefur það eitt að markmiði að gleðja aldraða með söng og þá sér í lagi þá sem komnir eru með minnissjúkdóma. Þau hafa verið með Elligleðina hátt á annan áratug og heimilin sem þau hafa heimsótt reglulega skipta mörgum tugum.