Allar fréttir

Gulur dagur á Grund

September er gulur mánuður þ.e. hann er tileinkaður geðrækt og sjálfsvígsforvörnum. Við á Grund vildum minna á málstaðinn og styðja við málefnið með því að klæðast gulu í gær

Pongó er í hálfu starfi í Ási

Border Collie/labrador blendingurinn Pongó er í hálfu starfi í sjúkraþjálfuninni í Ási. Hann mætir galvaskur snemma á morgnana og fer svo heim í hádeginu til að safna kröftum og hvíla lúin bein. Eigandi hans Christina Finke er sjúkraþjálfari í Ási og segir að allir elski Pongó og hann laði að sér fólk bæði unga sem aldna.

Dásamlegt tré í sjúkraþjálfuninni í Ási

Þær leyna á sér Christina Finke og Ása Sóley Svavarsdóttir sem vinna í sjúkraþjálfuninni í Ási. Þar er stór veggur sem var svo tómlegur fannst Christinu og hún sá fyrir sér að skreyta hann með einhverju hlýlegu og fallegu. Hún rakst á þetta dásamlega tré á netinu og hún og Ása notuðu skjávarpa til að koma því á vegginn. Þær teiknuðu útlínurnar á vegginn. Síðan kom Christina eitt kvöldið í vinnuna og málaði. Í gær var opið hús hjá sjúkraþjálfuninni og þá var heimilisfólkið hvatt til að skreyta tréð með fallegum orðum. Frábær hugmynd og enn betra að koma henni í framkvæmd. Ekkert smá flott.

Lopapeysudagur á Grundarheimilunum

Það var haldinn lopapeysudagur á Grundarheimilunum síðastliðinn miðvikudag. Hér eru það starfsfólk og heimilisfólk á 2. hæð Markar sem skarta lopanum.

Vöffluilmurinn dásamlegur

Nýbakaðar vöfflur með rjóma og sultu eru dásamlegar en ilmurinn meðan á bakstri stendur er nefnilega ekkert síður dásamlegur. Nokkrar heimiliskonur voru meira en til í vöfflubakstur einn eftirmiðdaginn og þegar þær voru komnar af stað með baksturinn fór heimilisfólkið að renna á lyktina og koma til að fylgjast með bakstrinum

Boccia í góða veðrinu

Það er gott að komast út undir bert loft þegar vel viðrar. Aðstandendur eru duglegir að bjóða fólkinu sínu í göngutúra og alltaf hægt, nú þegar haustar, að fá lánuð teppi í hjólastól ef heimilismaður þarf á að halda. Það er stutt í ísbúðina á Hagamel, á kaffihús, á svæðið vð Landakot og sumir arka niður að tjörn eða jafnvel niður að sjó. En stundum er líka bara gott að viðra sig í portinu hér á Grund og það gerðu heimilismenn um daginn þegar bocciatíminn var fluttur þangað.

Fögnuðu hálfrar aldar vígsluafmæli á Grund

Félag fyrrum þjónandi presta sá um messuhald á Grund síðastliðinn sunnudag. Sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir predikaði og sr. Jón Þorsteinsson og sr. Kristján Valur Ingólfsson þjónuðu fyrir altari í tilefni af 50 ára vígsluafmæli þeirra. Félagar úr Grundarkórnum leiddu söng undir stjórn Kristínar Waage organista.

Verslunin flutt að nýja kaffihúsinu

Verslun Grundar hefur nú verið flutt að nýja kaffihúsinu og er hún opin alla virka daga frá klukkan 12.30-15.30 eða þar til kaffihúsið verður opnað. Kaffihúsið er í raun tilbúið en þessar vikurnar standa yfir leyfisveitingar og lokaúttektir og er beðið eftir að öll tilskilin leyfi séu komin. Vonandi á næstu vikum. Það ríkir mikil eftirvænting meðal allra hér í húsinu og aðstandendur hafa einnig sýnt kaffihúsinu áhuga svo það verður gaman þegar loksins verður hægt að opna dyrnar fyrir kaffihúsagestum. Á meðfylgjandi mynd er fyrsti viðskiptavinurinn, starfsmaðurinn Rúnar, að kaupa sér orkudrykk hjá henni Rut í nýja verslunarhúsnæðinu.

Blómstrandi dagar

Það lögðu allir sitt af mörkum dagana fyrir Blómstrandi daga hér í Ási og föndruðu og skreyttu. Útkoman var skemmtileg og litrík. Kærar þakkir til allra sem lögðu leið sína í Ás á Blómstrandi dögum.

Trén föðmuð og gengið á grasi

Á mánudögum er boðið upp á gönguferðir hér í Ási og að þessu sinni var gengið á grasi. Blómin voru dásömuð, trén föðmuð og svo rætt um náttúruna og hamingjuna sem felst að geta verið innan um gróðurinn.