26.09.2025
Grund við Hringbraut var vígð við hátíðlega athöfn 28. september árið 1930. Heimilið á því 95 ára vígsluafmæli á sunnudaginn og við munum að sjálfsögðu fagna og draga fána að húni.
Umskiptin voru mikil fyrir heimilismenn því þeir höfðu fram að þessu búið þröngt í litlu húsi við Sauðagerðistún sem er í nágrenni við Kaplaskjólsveg í vesturbænum. Húsið þótti afar reisulegt og flott. Haft er eftir einum heimilismanni að húsið væri reisulegt og fjarska fínt en gallin væri að það væri nær ómögulegt að rata út. Gömul kona gekk um húsið og skoðaði en spurði svo: Hvar eigumvið að vera? Hún varð orðlaus þegar henni var sagt að hún mætti velja sér herbergi þar sem hún stóð.
Á þessu tíma voru 125 herbergi í húsinu, þrjú sjúkraherbergi, 7 baðherbergi, 7 salerni og 5 kaffieldhús. Þvottahus og eldhús búin allra bestu nútímatækjum. Húsið kostaði ásamt öllu innanstokks 650 þúsund krónur. Fyrstu heimilismennirnir voru 56.
Í áranna rás hefur verið byggt við aðalbygginguna og á bakvið Grund reis Litla Grund og Minni Grund. Þegar neyðin var hvað mest í þjóðfélaginu og vantaði úrræði fyrir aldraða bjuggu á heimilinu 380 heimilismenn. Það var samt áður en Litla Grund kom til. Í dag búa á Grund um 160 heimilismenn og hefur því fækkað á heimilinu um 200 manns.
Markvisst hefur verið unnið að því á undanförnum árum að nútímavæða heimilið og breyta húsnæðinu þannig að boðið sé upp á einbýli með baðherbergi fyrir alla.
Skemmtilegasta og nýlegasta viðbótin hér á Grund er fallega kaffihúsið okkar í suðurgarði heimilisins, Kaffi Grund.
25.09.2025
Það ríkti kátína á verðlaunaafhendingu haustpúttmótaraðarinnar í Mörkinni. Alls voru sex umferðir spilaðar og þrjár bestu umferðirnar töldu þegar komið var að verðlaunaafhendingu. 🏆🥇
Mótsstjóri var Júlíus Rafnsson og íbúarnir Edda Svavarsdóttir og Birgir Hólm Björgvinsson sáu um að afhenda verðlaunin.
Það var naumt hjá konunum sem spiluðu um fyrsta og annað sæti. Í fyrsta sæti var Herdís, í öðru sæti Edda og Margrét í því þriðja. Hjá herrunum varð Sturlaugur í fyrsta sæti, Guðmundur í öðru sæti og Sigurður vermdi þriðja sætið.
Þó haustmótaröðinni sé lokið þá halda íbúar áfram að pútta í vetur en meira um tímasetningar og fyrirkomulag síðar
21.09.2025
Í síðustu viku var réttardagur í Mörkinni. Íbúar komu saman í hádeginu þar sem íslensku sauðkindinni var hampað, snæddu kjöt og kjötsúpu og fengu sér snafs með.
Ekki spillti fyrir að í heimsókn komu Eyjabræður og sungu. Þetta eru félagarnir Þorbjörn Geir Ólafsson og Daði Heiðar Sigurþórsson en þeir eru báðir ættaðir frá Flatey á Breiðafirði og þræl vanir bæði söng og spila á gítar.
Guðni Ágústsson gladdi íbúa með skemmtilegri frásögn um ágæti íslensku sauðkindarinnar sem hefur haldið okkur Íslendingum á lífi mann fram af manni. Hann komst skemmtilega að orði eins og jafnan og er vel að sér þegar kemur að réttum. Honum var tíðrætt um Skeiðarréttir og sagði frá því þegar Höskuldur bruggari færði þeim réttarvinið Höskuld en svo hét landinn og bætti við að eitt haustð hefðu komið 18 börn undir, slíkt var fjörið.
Hann var sannfærandi þegar hann sagðist hafa verið besti landbúnaðarráðherra á Íslandi og í Evrópu og þó víðar væri leitað og fór svo með vísu sem Jóhannes á Gunnarsstöðum kvað:
Allt sem vinum okkar brást
Allt sem mátti klaga.
Allt sem Drottni yfirsást
Ætlar Guðni að laga.
18.09.2025
Yrsa Roca Fannberg hefur í mörg ár unnið við umönnun og sem sjúkraliði á Grund en hun er einnig kvikmyndaframleiðandi. Undanfarin ár hefur hún unnið að gerð myndarinnar Jörðin undir fótum okkar sem öll gerist hér á Grund. Heimilismenn eru aðalleikararnir og þeir eru á þriðja tug.
Myndin hlaut í gær aðalverðlaun dómnefndar á einni virtustu heimildamyndahátíð i Asíu sem haldin var í Suður_Kóreu. Það var Yrsa sem sjálf tók við verðlaununum. Myndin verður frumsýnd á Riff kvikmyndahátíðinni þann 2. október næstkomandi og sýnd síðan í Bíó Paradís frá 6. október. Heimilismenn Grundar fá tækifæri til að sjá myndina áður en hún fer í almenna sýning. Verður myndin sýnd þann 3. október í hátíðasal heimilisins.
Við óskum Yrsu hjartanlega til hamingju með þessa viðurkenningu.
29.08.2025
Við eigum þetta forláta hjól hér í Mörk sem tilvalið er að nota á sólríkum og fallegum dögum. María sjúkraþjálfari greip tækifærið og hjólaði í Elliðaárdalinn með heimilismann. 🚲
Á leiðinni sáu þau fossa, ár, dúfur og minka. Svo var auðvitað stoppað í ísbúð á leiðinni til baka
29.08.2025
Starfsfólkið í iðjunni hér í Mörk ákvað að nýta sólargeislana, opna dyrnar og færa starfið út. Rebekka tók upp gítarinn og það var boðið upp á söngstund í góðu veðri. 🥰
Reyndar fóru skýin af og til fyrir sólu en það var ágætt að fá smá golu inn á milli. Þá var bara sungið ennþá hærra til að hlýja sér. Nokkrir komu út á svalirnar á næstu hæðu og tóku þátt í söngnum.
Ljúf stund og gefandi fyrir alla.
29.08.2025
Það er sérstaklega dásamlegt þegar sólin skín skært síðsumars. Haustið á næsta leyti en smá framlenging á blessuðu sumrinu með þessum sólardögum. Heimilisfólk og starfsfólk var ekkert að tvínóna við hlutina og dreif sig út á svalir til að spjalla og njóta góða veðursins.
27.08.2025
Í dag hafa Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Hveragerðisbær gert samning við Ás hjúkrunarheimili um samþætta heimaþjónustu við íbúa í Hveragerði frá 1. september nk. Verkefnið er tilraunaverkefni sem að byggist á aðgerðaráætlun Gott að eldast sem að er samstarfsverkefni milli Félags- og húsnæðismálaráðuneytis og Heilbrigðisráðuneytis. Ás mun þannig sinna heimahjúkrun og félagslegum heimastuðningi við íbúa Hveragerðisbæjar 60 ára og eldri sem sækja um og fá samþykkta slíka þjónustu. Áður hefur í Ási verið starfrækt dagdvöl ásamt því að þaðan hafa íbúar Hveragerðisbæjar sem óskað hafa eftir fengið mat sendan heim.
22.08.2025
Guðný Alma, sem er sumarstarfsmaður hér hjá okkur í Ási, söng fyrr í sumar fyrir heimilismenn í Bæjarási. Nýlega mætti hún aftur og söng við undirleik unnusta síns Péturs Nóa Stefánssonar. 🥰
Að þessu sinni söng hún fyrir heimilismenn í Ásskála. Viðtökurnar voru frábærar enda syngur Guðný Alma eins og engill. 👏
22.08.2025
Í síðustu viku var haldin sumarhátíð í Mörk.
Eins og vera ber þegar hátíð er annarsvegar var boðið upp á allskonar leiki, andlitsmálningu og blaðrarinn bjó til blöðrufígúrur. Edhúsið bauð upp á dýrindis veitingar og Guðrún Árný hélt uppi stuðinu og söng með heimilisfólki, starfsfólki, aðstandendum og íbúum hjá Íbúðum 60+.😍
Mikil gleði var í loftinu og sumrinu fagnað.😍