23.01.2025
Það var notalegt í sjúkraþjálfuninni okkar í vikunni. Heimiliskonurnar Rúna og Eyrún kom saman einu sinni í viku og gera styrktaræfingar. Að þessu sinni voru þær að gera æfingar með uppáhaldsdótinu hans Pongó, stórum appelsínugulum boltum. Hann fylgdist að sjálfsögðu spenntur með og passaði að allt færi vel fram.
17.01.2025
Við vekjum athygli á því að nú hefur kaffihúsið Kaffi Grund verið opnað. Það er nú opið alla daga vikunnar frá klukkan 13:00 til 17:00. Gestir geta keypt smurt brauð og kökur, kaffi og gosdrykki en enn er þó beðið eftir vínveitingaleyfi og því ekki að svo stöddu hægt að kaupa sér léttvínsglas eða bjór.
Vekjum athygli á fallegu listaverki við kaffihúsið sem er eftir Helga Gíslason myndhöggvara. Í sumar á eftir að vera notalegt að sitja í suðurgarðinum og njóta sólar og skjóls. Gengið er inn um aðalinngang bakvið Grund og allir hjartanlega velkomnir
07.01.2025
Það var haldin þrettándagleði í hátíðasal Grundar í gær. Grundarbandið mætti með harmonikkurnar og lék fyrir dansi i kringum jólatréð. Hjördís Geirsdóttir, söngkona, mætti með gítar og leiddi sönginn. Virkilega ljúf og notaleg stund.
23.12.2024
Boðið var upp á skötuveislu í hádeginu í dag, líkt og venja er á Þorláksmessu. Einnig var boðið upp á saltfisk og auðvitað Brennivín. Borðað var í tveimur hollum og mættu yfir 150 íbúar og gestir. Skötuilmurinn náði um allt hús og voru gestir ánægðir með hversu vel kæst skatan var.
Gleðilega hátíð.
20.12.2024
Snemma í gærmorgun gerðust undur og stórmerki á Grund.
Litli unginn sem Grundarparið Kókó og Kíkí eignuðust fyrir nokkrum vikum kom út úr kassanum. Heimilisfólk og starfsfólk hefur fylgst með unganum og beðið með eftirvæntngu að hann léti sjá sig frammi i búrinu en undanfarið hefur hann verið að stinga höfðinu út um gatið á kassanum sem er áfastur búrinu.
Í gær kom hann semsagt fram og foreldrarnir hafa verið að bera í hann æti. Hann er líkur pabba sínum, blár en eins og sést á einni myndinni er móðirin fagurgræn. Ekki er vitað um kynið ennþá
20.12.2024
Fallega tréð sem prýðir sjúkraþjálfunina í Ási hefur tekið á sig jólalegan blæ
19.12.2024
Undanfarin ár hefur verið efnt til skemmtilegrar samkeppni á Grundarheimilunum um flottasta piparkökuhúsið. Ekki endilega bara það hús sem er fallegast heldur tekið mið af allskonar þáttum eins og samvinnu heimilisfólks og starfsfólks, móttökum þegar dómnefnd mætti, veitingum og frumleika.
Það ríkti eftirvænting þegar dómnefndin fór um Grundarheimilin og á öllum heimilum var henni tekið fagnandi.
Peningaverðlaun voru veitt fyrir efstu þrjú sætin á öllum heimilunum þremur.
Sjá fleiri myndir af húsunum á facebook síðum heimilanna.
19.12.2024
Starfsfólk á Grund tók jólapeysudaginn með trompi og mætti til vinnu í allskonar litríkum og fallegum peysum. Heimilisfólkið hafði gaman af uppátækinu og það sköpuðust skemmtilegar umræður víða um hús um jólafatnað og jólahald.
Uppákomur eins og þessar veita tilbreytingu og stuðla að jákvæðum samskiptum.
13.12.2024
Páfagaukarnir Kókó og Kíki sem búa á Grund eignuðust nýverið unga. Hann dafnar vel en heldur sig ennþá inni í varpkassanum. Gera má ráð fyrir að hann fari að blaka litlum vængjum nú fyrir jól og koma fram í búrið.
Hann er að fá bláar fjaðrir eins og pabbinn en en enn er óljóst hvers kyns hann er. Allir á Grund fylgjast vel með framvindunni og hlakka til að fá að fylgjast með þessari litlu fjölskyldu.