Gott að eldast í Hveragerði

Í dag hafa Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Hveragerðisbær gert samning við Ás hjúkrunarheimili um samþætta heimaþjónustu við íbúa í Hveragerði frá 1. september nk. Verkefnið er tilraunaverkefni sem að byggist á aðgerðaráætlun Gott að eldast sem að er samstarfsverkefni milli Félags- og húsnæðismálaráðuneytis og Heilbrigðisráðuneytis. Ás mun þannig sinna heimahjúkrun og félagslegum heimastuðningi við íbúa Hveragerðisbæjar 60 ára og eldri sem sækja um og fá samþykkta slíka þjónustu. Áður hefur í Ási verið starfrækt dagdvöl ásamt því að þaðan hafa íbúar Hveragerðisbæjar sem óskað hafa eftir fengið mat sendan heim.

Hélt tónleika í Ásskála

Guðný Alma, sem er sumarstarfsmaður hér hjá okkur í Ási, söng fyrr í sumar fyrir heimilismenn í Bæjarási. Nýlega mætti hún aftur og söng við undirleik unnusta síns Péturs Nóa Stefánssonar. 🥰 Að þessu sinni söng hún fyrir heimilismenn í Ásskála. Viðtökurnar voru frábærar enda syngur Guðný Alma eins og engill. 👏

Sumarhátíð í Mörk

Í síðustu viku var haldin sumarhátíð í Mörk. Eins og vera ber þegar hátíð er annarsvegar var boðið upp á allskonar leiki, andlitsmálningu og blaðrarinn bjó til blöðrufígúrur. Edhúsið bauð upp á dýrindis veitingar og Guðrún Árný hélt uppi stuðinu og söng með heimilisfólki, starfsfólki, aðstandendum og íbúum hjá Íbúðum 60+.😍 Mikil gleði var í loftinu og sumrinu fagnað.😍

Sumri fagnað með hátíðahöldum

Sumri var fagnað með hátíð hér á Grund nýlega. 🥰 Andlitsmálning, blaðrarinn sem bjó til fígúrur fyrir börnin, söngur og fallegir tónar, sumarlegar veitingar, en fyrst og fremst gleði og samvera. Takk öll fyrir komuna. Þetta var frábær dagur.🌞

Tónlistarbingó sló í gegn

Bingó er alltaf vinsælt og flestir spenntir að taka þátt. Heimilismenn á hjúkrunarheimilinu voru yfir sig hrifnir af tilbreytingunni þegar boðið var upp á tónlistarbingó. 🥰 Það er eflaust stutt í að aftur verði boðið upp á bingó þar sem tónlist kemur við sögu.

Færðu Heilsustofnun tvö eplatré

Heilsustofnun í Hveragerði fagnaði 70 ára afmæli á dögunum. Forsvarsmenn Grundarheimilanna mættu í afmælishófið og færðu Heilsustofnun tvö eplatré að gjöf. Á myndinni eru frá vinstri Ingi Þór Jónsson markaðsstjóri Heilsustofnunar, hjónin Gísli Páll Pálsson stjórnarformaður Grundarheimilanna og Alda Pálsdóttir framkvæmdastjóri Íbúða 60+ í Mörk, Þórir Haraldsson forstjóri Heilsustofnunar og Karl Óttar Einarsson forstjóri Grundarheimilanna.

Vel mætt í sundleikfimi

Það er alltaf vel mætt í sundleikfimina hjá honum Daða Reyni sjúkraþjálfara. Daði býður upp á sundleikfimi í heilsulind Markar á mánudögum og föstudögum klukkan tíu og tímarnir standa yfir í hálftíma. Ekki að undra að íbúar fjölmenni í sundleikfimina því Daði er frábær kennari.

Færðu samfélaginu í Mörk rausnarlega peningagjöf

Aflinn, félag qi gong iðkenda færði samfélaginu í Mörk peningagjöf að upphæð ein milljón króna. Félagið hefur um árabil boðið upp á qi gong æfingar í Kaffi Mörk sem félagsmenn hafa nýtt sér sem og nokkrir íbúar hjá Íbúðum 60+. Vonandi verður æfingafyrirkomulagið með svipuðum hætti um ókomin ár. Fjármunirnir verða nýttir á einhvern hátt sem kemur íbúum íbúðanna og heimilismönnum hjúkrunarheimilisins sem best. Er Aflanum innilega þakkað fyrir þessa rausnarlegu gjöf. Á myndinni er Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Grundarheimilanna, að taka við þessari rausnarlegu gjöf frá forsvarsmönnum félagsins Birni Bjarnasyni og Viðari H. Eiríkssyni.

Notaleg samverustund

Suma morgna er bara best að vera í rólegheitum, lesa Moggann, grípa kannski í spil, lita smá en aðallega bara eiga notalega samverustund og spjalla.

Fjörugt blöðruball

Það er bryddað upp á ýmsu hér á Grund og í vikunni var haldið fjörugt blöðruball í hátíðasalnum. Nokkur tími fór í að blása upp blöðrurnar en það var alveg þess virði. Frábært ball og allir skemmtu sér konunglega.