21.08.2025
Bingó er alltaf vinsælt og flestir spenntir að taka þátt. Heimilismenn á hjúkrunarheimilinu voru yfir sig hrifnir af tilbreytingunni þegar boðið var upp á tónlistarbingó. 🥰
Það er eflaust stutt í að aftur verði boðið upp á bingó þar sem tónlist kemur við sögu.
18.08.2025
Heilsustofnun í Hveragerði fagnaði 70 ára afmæli á dögunum. Forsvarsmenn Grundarheimilanna mættu í afmælishófið og færðu Heilsustofnun tvö eplatré að gjöf. Á myndinni eru frá
vinstri Ingi Þór Jónsson markaðsstjóri Heilsustofnunar, hjónin Gísli Páll Pálsson stjórnarformaður Grundarheimilanna og Alda Pálsdóttir framkvæmdastjóri Íbúða 60+ í Mörk, Þórir Haraldsson forstjóri Heilsustofnunar og Karl Óttar Einarsson forstjóri Grundarheimilanna.
11.08.2025
Það er alltaf vel mætt í sundleikfimina hjá honum Daða Reyni sjúkraþjálfara.
Daði býður upp á sundleikfimi í heilsulind Markar á mánudögum og föstudögum klukkan tíu og tímarnir standa yfir í hálftíma.
Ekki að undra að íbúar fjölmenni í sundleikfimina því Daði er frábær kennari.
08.08.2025
Aflinn, félag qi gong iðkenda færði samfélaginu í Mörk peningagjöf að upphæð ein milljón króna. Félagið hefur um árabil boðið upp á qi gong æfingar í Kaffi Mörk sem félagsmenn hafa nýtt sér sem og nokkrir íbúar hjá Íbúðum 60+.
Vonandi verður æfingafyrirkomulagið með svipuðum hætti um ókomin ár.
Fjármunirnir verða nýttir á einhvern hátt sem kemur íbúum íbúðanna og heimilismönnum hjúkrunarheimilisins sem best.
Er Aflanum innilega þakkað fyrir þessa rausnarlegu gjöf.
Á myndinni er Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Grundarheimilanna, að taka við þessari rausnarlegu gjöf frá forsvarsmönnum félagsins Birni Bjarnasyni og Viðari H. Eiríkssyni.
28.07.2025
Suma morgna er bara best að vera í rólegheitum, lesa Moggann, grípa kannski í spil, lita smá en aðallega bara eiga notalega samverustund og spjalla.
24.07.2025
Það er bryddað upp á ýmsu hér á Grund og í vikunni var haldið fjörugt blöðruball í hátíðasalnum.
Nokkur tími fór í að blása upp blöðrurnar en það var alveg þess virði. Frábært ball og allir skemmtu sér konunglega.
24.07.2025
Guðný Alma er sumarstarfsmaður í Bæjarási. Í vikunni kom hún ásamt unnusta sínum, Pétri Nóa Stefánssyni, og hélt tónleika fyrir okkur.
Ljúfir og notalegir tónleikar. Takk innilega fyrir okkur
16.07.2025
Hér í Ási höfum við nýtt góða veðrið að undanförnu og bardúsað ýmislegt.
Einn daginn fórum við og tíndum falleg blóm í Hverahlíðinni og fórum svo í gegnum Ásbyrgi.
Við enduðum daginn á að fá okkur Gatorade til að fylla á söltin í hitanum og bjuggum til keilu úr flöskunum.
Virkilega góður dagur og allir sáttir í þessu dásamlega veðri.
15.07.2025
Í blíðviðrinu í gær var notalegt að vera í sjúkraþjálfun utandyra. Ekki amalegt hér á Grund að gera liðkandi og styrkjandi æfingar í þessu dásamlega veðri.
15.07.2025
Það var svo sannarlega líf og fjör í portinu okkar í gær milli Grundar og Litlu Grundar enda veðurblíðan þar einstök þegar sólin skín.
Baddi mætti með gítarinn og heimlisfólk tók lagið og gæddi sér á ís. Þetta var notalegur dagur.