Framvinda byggingar hjúkrunarheimilisins í Ási gengur vel og er verkið á áætlun en hjúkrunarheimilið í Ási er eitt þriggja heimilanna sem er undir hatti Grundarheimilanna.
Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Grundarheimilanna, segir að þessa dagana sé verið að reisa veggi fjórða og síðasta hlutans sem er að austanverðu.
"Búið er að steypa þakplötu á hina þrjá hlutana og hiti kominn á þá. Frágangi þaks á fyrsta húsi að vestanverðu er lokið að fullu og þar með talið að hífa úthagatorf á þakið. Það hefur hjálpað verulega til hversu tíðarfarið hefur verið gott í vetur en ekki síður að Húsvirki sem er verktaki verksins hefur staðið sig mjög vel.
Forsteyptar einingar eins og húsið er byggt úr hefur stytt byggingartímann verulega og hefur húsið risið á undrafljótan hátt."