23.01.2026
Það var notalegt andrúmsloftið á Grund í vikunni þegar þær Anne og Guðbjörg buðu upp á boccia einn morguninn.
Boccia hefur fyrir löngu sannað gildi sitt. Leikurinn eykur hreyfigetu í höndum, örmum og efri hluta líkamans.
Boccia bætir samhæfingu og jafnvægi, jafnvel þegar setið er og hjálpar til við að viðhalda styrk og liðleika án álags.
Boccia þjálfar einbeitingu og stuðlar að því að halda heilanum virkum með taktík og útreikningum.
23.01.2026
Magnea Tómasdóttir og nemendur hennar í Listaháskóla Íslands sem eru að læra um tónlist og minnissjúkdóma bjóða upp á vikulegar stundir fram að páskum.
Þetta eru dásamlegar stundir og ekki bara fyrir heimilisfólk heldur líka gefandi fyrir starfsfólk sem sér áhrifin sem tónlist hefur á heimilisfólk.
22.01.2026
Nýlega stóð til að sýna bíómynd í matsalnum í Mörk en sökum tæknilegra örðugleika var það ekki hægt. Hún Rebekka átti ráð við því, náði í gítarinn og blés til söngstundar í staðinn.
Við fengum góðan gest í söngstundina, Emblu Rós. Hún er sex ára og söng hástöfum með okkur lagið Heyr mína bæn.
Þvílík dásemdar stund
21.01.2026
Framvinda byggingar hjúkrunarheimilisins í Ási gengur vel og er verkið á áætlun en hjúkrunarheimilið í Ási er eitt þriggja heimilanna sem er undir hatti Grundarheimilanna.
Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Grundarheimilanna, segir að þessa dagana sé verið að reisa veggi fjórða og síðasta hlutans sem er að austanverðu.
"Búið er að steypa þakplötu á hina þrjá hlutana og hiti kominn á þá. Frágangi þaks á fyrsta húsi að vestanverðu er lokið að fullu og þar með talið að hífa úthagatorf á þakið. Það hefur hjálpað verulega til hversu tíðarfarið hefur verið gott í vetur en ekki síður að Húsvirki sem er verktaki verksins hefur staðið sig mjög vel.
Forsteyptar einingar eins og húsið er byggt úr hefur stytt byggingartímann verulega og hefur húsið risið á undrafljótan hátt."
16.01.2026
Það eru notalegir föstudagsmorgnarnir í Heilsulind Markar.
Sundleikfimin er vel sótt.
Mörgum finnst alveg nauðsynlegt að skella sér fyrir eða eftir leikfimina í heita pottinn og kryfja heimsmálin og annað sem á hugann sækir.
Laila, sem er "húsmóðirin" í Heilsulind Markar bíður svo með bros á vör þegar komið er úr sundinu og býður upp á ferska ávexti, kaffi og konfekt.
Og auðvitað er haldið áfram að spjalla um lífið og tilveruna.
22.12.2025
Nýlega hittust hópstjórar Grundar og Markar og áttu saman góðan dag. Boðið var upp á allskonar fræðslu og starfsfólk sammála um að gaman væri að hittast með þessum hætti og kynnast.
12.12.2025
Þessi tilkynning er send til núverandi og fyrrverandi íbúa Grundarheimilanna (Grund, Mörk og Ás), aðstandenda íbúa, skjólstæðinga, umsækjenda og íbúa í íbúðum 60+ í Mörkinni, starfsfólks Grundarheimilanna sem og verktaka sem starfa eða hafa starfað fyrir heimilin.
Líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum urðu Grundarheimilin fyrir fjandsamlegri tölvuárás. Árásin fólst í því að tölvuþrjótar brutust inn á netþjóna og komust þannig inn í kerfi þar sem finna má upplýsingar um núverandi og fyrrverandi íbúa, aðstandendur, skjólstæðinga, starfsfólk og verktaka heimilanna.
Búið er að loka fyrir aðgang tölvuþrjótanna og ljóst þykir að engum gögnum eða upplýsingum hefur verið eytt eða þeim breytt. Heimilin hafa áfram fullan aðgang að öllum upplýsingum sem kerfin innihalda og árásin hefur því takmörkuð áhrif haft á þá þjónustu sem heimilin veita íbúum og skjólstæðingum. Rannsókn hefur þó leitt í ljós að áður en að tölvuárásin uppgötvaðist tókst tölvuþrjótunum að afrita hluta af þeim upplýsingum sem finna mátti í kerfum heimilanna.
Þær persónuupplýsingar sem vitað er á þessari stundu að afritaðar voru eru eftirfarandi, um eftirfarandi flokka einstaklinga:
Skjólstæðingar, íbúar og aðstandendur
• tengiliða- og samskiptaupplýsingar skjólstæðinga, íbúa og aðstandenda,
• upplýsingar um greiðslur skjólstæðinga og íbúa,
• heilsufarsupplýsingar sem tengjast umönnun,
• upplýsingar sem tengjast veittri heilbrigðisþjónustu á heimilunum, s.s. vegna lyfjagjafa, skráningu á rannsóknarniðurstöðum, læknabréfum og viðtölum og
• upplýsingar um óvænt atvik (eftir því sem við á).
Íbúar og umsækjendur um íbúðir 60+ í Mörkinni og aðstandendur
• tengiliða- og samskiptaupplýsingar og
• upplýsingar um greiðslur íbúa.
Starfsfólk og fyrrverandi starfsfólk
• samskipta- og tengiliðaupplýsingar,
• bankaupplýsingar,
• upplýsingar um lífeyris- og stéttafélagsaðild og
• launaupplýsingar.
Verktakar
• samskipta- og tengiliðaupplýsingar,
• reikningsupplýsingar og
• afrit af reikningum.
Ekkert bendir til þess að þessar upplýsingar hafi verið birtar og tölvuþrjótarnir hafa ekki hótað slíkri birtingu.
Rannsókn árásarinnar stendur enn yfir með aðstoð færustu sérfræðinga landsins á þessu sviði.
Í ljósi viðkvæms eðlis þessara upplýsinga eru viðtakendur hvattir til að vera á varðbergi gagnvart mögulegri misnotkun á upplýsingunum af hálfu tölvuþrjótanna. Ef grunur vaknar um slíka misnotkun þá skal gæta fyllstu varúðar í samskiptum, bregðast ekki við, heldur láta okkur vita eða tilkynna um atvikið til CERT-IS netöryggissveitarinnar. Rétt er að árétta að Grundarheimilin munu ekki senda út neina pósta að fyrrabragði þar sem fólk er beðið um að senda upplýsingar eða ýta á hlekki.
Rætt verður við alla íbúa Grundarheimilanna og þeir upplýstir um stöðu málsins.
Við höfum opnað fyrir sérstakan upplýsingasíma ef einhverjar spurningar vakna. Fulltrúi Grundarheimilanna svarar í síma 530-6200 og í gegnum netfangið personuvernd@grund.is. Síminn er opinn frá kl. 10 til 14 næstu daga.
Búið er að tilkynna um árásina til Persónuverndar, Landlæknis og CERT-IS netöryggissveitarinnar í samræmi við það sem áskilið er í lögum og starfsleyfi heimilanna. Einnig er verið að undirbúa kæru til lögregluyfirvalda.
Grundarheimilin munu halda viðtakendum upplýstum eftir því sem málinu vindur fram.
Við þökkum fyrir skilninginn á meðan við komumst til botns í málinu.
Karl Óttar Einarsson, forstjóri Grundarheimilanna
10.12.2025
Takmarkað netaðgengi er á Grundarheimilunum í varúðarskyni vegna tölvuárásar sem uppgötvaðist síðdegis í gær. Áhrifa þessa gætir einnig á símkerfi og tölvupóst. Unnið er að því með færustu sérfræðingum að leita að uppruna árásarinnar og koma kerfunum upp að nýju í forgangsröð út frá mikilvægi. Reikna má með að áhrifin verði a.m.k. einhver næstu daga. Þá er unnið að því að tilkynna málið til opinberra aðila, s.s. Persónuverndar, Cert-IS og Embætti landlæknis.
Við höfum sent aðstandendum upplýsingar á sms eins og við höfum getað, það kann að vera að einhverjir hafi fengið skilaboð sem að ekki eru lengur aðstandendur hjá okkur. Við biðjumst velvirðingar á því.
Við munum halda aðstandendum upplýstum eftir því sem málið þróast.
08.12.2025
Það var yndislegur bökunarilmur í húsinu í dag enda heimilisfólk í óðaönn að baka smákökur með kaffinu. Hvað er yndislegra á aðventunni en að sitja saman, fletja út og forma smákökur og segja allskonar sögur sem koma upp í hugann þegar hugsað er til bernskujóla
03.12.2025
Það var troðfullur salur af fólki sem beið með eftirvæntingu eftir Karlakór Kjalnesinga sem kom og söng fyrir heimilisfólk og íbúa Íbúða 60+ síðasta mánudagskvöld. Einn íbúanna, Hafliði Hjartarson, tók meðfylgjandi mynd fyrir okkur.
Kórinn undir stjórn Láru Hrannar Pétursdóttur söng jólalög í bland við hefðbundin lög karlakórsins.
Frábærir tónleikar. Þakka ykkur hjartanlega fyrir komuna Karlakór Kjalnesinga.
Hlökkum til að fá ykkur aftur í heimsókn á næsta ári.