Fréttir

Hátíðartónleikar í tilefni 100 ára afmælis Grundar

Það var svo sannarlega hátíðlegt á Grundarheimilunum í síðustu viku þegar Guðrún Gunnarsdóttir, Jógvan og Sigga Beinteins mættu og héldu tónleika í tilefni 100 ára afmælis Grundar sem er þann 29. október næstkomandi. Þetta frábæra tónlistarfólk söng lögin hans Fúsa við undirleik Gunnars Gunnarssonar, allt lög sem heimilisfólkið kannaðist svo vel við, Litla flugan, Dagný og Ég vil að börnin fái að fæðast stærri svo dæmi séu tekin. Margir sungu hástöfum með þeim þessi fallegu gömlu dægurlög og það sást líka glitta í gleðitár. Takk fyrir einstaka tónleika, hlýju og fallega nærveru.

Nýr framkvæmdastjóori hjúkrunar í Mörk

Theodóra Hauksdóttir hefur tekið við sem framkvæmdarstjóri hjúkrunar á Mörk hjúkrunarheimili. Hún hefur starfað þar áður sem deildarstjóri og á húsvöktum. Theodóra tók við starfinu af Ragnhildi Hjartardóttur sem starfar nú sem deildarstjóri á Mörk. Theodóra lauk námi í hjúkrunarfræði frá HÍ 1995 og er með diploma gráður í bæði stjórnun og rekstri í heilbrigðisþjónustu frá EHÍ og endurhæfingu frá HA. Hún hefur víðtæka klíníska og stjórnunarreynslu af störfum sínum bæði hérlendis og frá Norðurlöndunum.

Veitir heimilisfólki og aðstandendum stuðning

Grundarheimilin fengu nýlega til liðs við sig nýjan starfsmann, Þorbjörgu Árnadóttur, sem er ráðin sem félagsráðgjafi heimilanna þriggja. Þorbjörg veitir heimilismönnum sálfélagslegan stuðning og ættingjum þeirra og hægt er að leita til hennar og fá ráðgjöf og leiðbeiningar um ýmiskonar réttindamál. Þorbjörg mun skipta viðveru sinni milli heimila en auðveldast að ná sambandi við hana með tölvupósti eða síma. Netfangið er thorbjorg.arnadottir@morkin.is og sími 8302041.

Sumarhátíð í Mörk

Sumarhátíðin í Mörk var haldin í síðustu viku í ekta íslenskum stormi og rigningu! Létum veðrið alls ekki stoppa okkur þar sem við erum alltaf með sól í hjarta Regína Ósk og Svenni komu, spiluðu á gítar og sungu. Þau hjónin geisluðu af gleði og skemmtu okkur af sinni einskæru snilld. Andlitsmálun Ingunnar kom einnig og allir sem vildu fengu andlitsmálun og vá hvað hún er flink að mála og nota glimmer. Blaðrarinn kom líka til okkar og sýndi listir sínar með blöðrur og gerði alls konar fígúrur fyrir okkur, fiðrildi og sverð voru mjög vinsæl. Dásamlegar veitingar voru bornar á borð og enginn fór svangur heim. Takk allir sem komu og glöddust með okkur, þetta var dásemdar dagur

Sumarhátíð Markar

Sumarhátíð Markar

Kæru, heimilismenn og aðstandendur Við blásum til sumarhátíðar í Mörk miðvikudaginn 17. ágúst næstkomandi. Sjá nánari upplýsingar í auglýsingu. Hlökkum til að sjá sem flesta.

Hinsegin dögum fagnað á Grundarheimilunum

Það var mikið um dýrðir á öllum heimilumum þremur þegar fjölbreytileikanum var fagnað. Fræðsla og fjör og svo var skreytt, fánar dregnir að húni og meira að segja kökurnar litskrúðugar.

Skemmtileg heimsókn í Mörk

Stundum fáum við einstaklega skemmtilega gesti í heimsókn og þannig var það þegar Fífill litli gæsastrákur kom í heimsókn á 2. hæð Markar fyrir nokkru. Hann hlaut hlýjar móttökur og komst svo á dásamlegt heimili á Mýrunum en ekki fyrr en eftir að hafa heilsað upp á heimilismenn og þegið strokur og góðan viðurgjörning.

Uppskeruhátíð hjá kórum Grundarheimilanna

Nýverið var sannkölluð uppskeruhátíð hjá kórunum í Mörk og á Grund en kórarnir sameinuðust og héldu í vorferð. Ferðinni var heitið í Ás í Hveragerði þar sem sungið var fyrir heimilismenn og lífsins notið í sól og blíðu. Frábær ferð þar sem tónleikagestir nutu sem og kórarnir.

Grill og gaman

Einn góðviðrisdaginn fyrir skömmu var blásið til grillveislu á þriðju hæðinni í Mörk. Andrúmsloftið dásamlegt og allir lögðust á eitt með að hafa daginn litríkan og skemmtilegan.