19.10.2021
Þegar það blæs úti og rignir hvað er þá notalegra en finna ilm af nýbökuðu brauði? Svava, heimiliskona á 3 hæð í Mörk, var meira en til í að baka bananabrauð með stelpunum í gær.
12.10.2021
Vetrarstarf Markarkórsins er farið af stað af fullum krafti og vel mætt á æfingar. Kristín Waage er kórstjóri Markarkórsins og heimilisfólk og starfsfólk hjartanlega velkomið að taka þátt. Æfingar eru haldnar einu sinni í viku, á þriðjudögum, frá 10.30 til 11.30..
08.10.2021
Til stendur að senda rafræna þjónustukönnun til aðstandenda heimilisfólks á Grundarheimilunum nú í október og mikilvægt að hún komist til skila. Aðstandendur eru því beðnir um að senda á netfangið hér að neðan ef einhverjar breytingar hafa orðið á tölvupóstfangi.
Aðstandendur fylla út könnunina og senda rafrænt. Einnig er könnun fyrir heimilisfólkið í sama tölvupósti sem aðstandendur eru beðnir um að fylla út með heimilisfólkinu.
Sigríður Sigurðardóttir sviðsstjóri fræðslu- og gæðasviðs Grundarheimilanna gefur allar frekari upplýsingar og tekur við upplýsingum um netföng. Netfang Sigríðar er sigridur@grund.is
04.10.2021
Þegar laus stund gefst hvað er þá notalegra en að bjóða upp á dekurstund. Einn morguninn nýlega gengum við fram á þessa tvo starfsmenn sem ákváðu að nú væri tími til að bjóða heimiliskonum hárgreiðslu.
10.09.2021
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna kosninga til Alþingis fer fram hér í Mörk sunnudaginn
12. september nk. kl. 11:00-14:00.
Atkvæðagreiðslan fer fram í aðstöðu sjúkraþjálfunar á fyrstu hæð og er eingöngu ætluð heimilismönnum. Aðstandendur eru beðnir að fylgja þeim heimilismönnum sem fylgd þurfa og gæta jafnframt vel að sóttvörnum s.s. vera með grímu, spritta hendur og gæta fjarlægðar.
10.09.2021
Fura er tæplega tveggja ára labrador tík sem mætir oft til vinnu í sjúkraþjálfun Markar með Heiðrúnu Helgu Snæbjörnsdóttur sjúkraþjálfara. Hún segir að Fura sé enn mikill fjörkálfur og því þurfi að passa vel upp á að hún haldi smá fjarlægð en hún er falleg og róleg ef hún fær ekki of mikla athygli. Heimilisfólkið er hrifið af henni og finnst notalegt að vita af henni.
20.08.2021
Fiskidagurinn litli var haldinn með pomp og prakt í Mörk. Boðið var upp á dýrindis hráefni frá Dalvík sem kokkarnir okkar matreiddu síðan. Fréttakona frá RÚV mætti og var með beina útsendingu frá viðburðinum og einnig mætti ljósmyndari Morgunblaðsins. Búið var að skreyta allt hátt og lágt með netum, netakúlum, teikningum og allskyns skrauti og tónleikar frá Fiskideginum mikla á Dalvík hljómuðu víða um hús.
16.08.2021
Hún Margrét sem býr hér á fjórðu hæðinni í Mörk prjónar gjarnan þegar hún kemur niður í vinnustofu heimilisins. Nýlega varð þessi skemmtilegi ormur til á prjónunum hjá henni.
15.07.2021
Við viljum skerpa hérna á nokkrum atriðum vegna smita í samfélaginu.
Hjúkrunarheimilið er áfram opið en við hvetjum ykkur til að gæta ítrustu árvekni og hafa sóttvarnaráðstafanir í heiðri.
Ekki er ráðlegt að börn og ungmenni komi í heimsókn á þessum tímapunkti. Undanþágur má gera ef barn/ungmenni er nánasti aðstandandi.
Að öllu jöfnu mæti aðeins tveir gestir í heimsókn til íbúa á hverjum tíma nema að höfðu samráði við starfsfólk deildar.
Gestir fara rakleiðis að herbergi íbúa og aftur að útidyrum að heimsókn lokinni.
Gestir mega ekki staldra við í sameiginlegum rýmum heimilis.
Gestir þvo hendur með sápu og spritta áður en gengið er inn á heimili og einnig við brottför.
Gestir mega ekki koma í heimsókn ef þeir:
a. Eru í sóttkví.
b. Eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu úr sýnatöku).
c. Hafa dvalið erlendis undanfarna daga.
d. Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
e. Eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang).
12.07.2021
Heimilisfólkið á 2. hæð í Mörk fékk aldeilis skemmtilega heimsókn í vikunni þegar aðstandandi kíkti við með kettlinga, sem vöktu að sjálfsögðu mikla gleði.