16.08.2021
Hún Margrét sem býr hér á fjórðu hæðinni í Mörk prjónar gjarnan þegar hún kemur niður í vinnustofu heimilisins. Nýlega varð þessi skemmtilegi ormur til á prjónunum hjá henni.
15.07.2021
Við viljum skerpa hérna á nokkrum atriðum vegna smita í samfélaginu.
Hjúkrunarheimilið er áfram opið en við hvetjum ykkur til að gæta ítrustu árvekni og hafa sóttvarnaráðstafanir í heiðri.
Ekki er ráðlegt að börn og ungmenni komi í heimsókn á þessum tímapunkti. Undanþágur má gera ef barn/ungmenni er nánasti aðstandandi.
Að öllu jöfnu mæti aðeins tveir gestir í heimsókn til íbúa á hverjum tíma nema að höfðu samráði við starfsfólk deildar.
Gestir fara rakleiðis að herbergi íbúa og aftur að útidyrum að heimsókn lokinni.
Gestir mega ekki staldra við í sameiginlegum rýmum heimilis.
Gestir þvo hendur með sápu og spritta áður en gengið er inn á heimili og einnig við brottför.
Gestir mega ekki koma í heimsókn ef þeir:
a. Eru í sóttkví.
b. Eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu úr sýnatöku).
c. Hafa dvalið erlendis undanfarna daga.
d. Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
e. Eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang).
12.07.2021
Heimilisfólkið á 2. hæð í Mörk fékk aldeilis skemmtilega heimsókn í vikunni þegar aðstandandi kíkti við með kettlinga, sem vöktu að sjálfsögðu mikla gleði.
30.06.2021
Það ríkti kátína í Mörk í síðustu viku þegar haldin var sumarhátíð í garðinum.Heimilisfólk og aðstandendur gerðu sér glaðan dag með ýmsum hætti. Barnabörnin og barnabarnabörnin skemmtu sér í hoppukastala, boðið var upp á andlitsmálningu, sumir púttuðu og svo bauð heimilisfólkið upp á ís í tilefni dagsins.
10.06.2021
Hella heimilismaður var að fá þetta krútt sem herbergisfélaga. Hún heitir Naomi og er pínu feimin en alveg yndisleg.
03.06.2021
Í mai var haldið hjólanámskeið á vegum Hjólað óháð aldri. Ólafur eiginmaður Hönnu Maju hér í Mörk bauð eiginkonunni í skemmtilega hjólaferð í rigningunni.
María og Alda fóru einnig rúnt í garðinum.
Áhugasamir aðstandendur um hjólaferðir með heimilisfólki geta nálgast nánari upplýsingar hjá sjúkraþjálfuninni eða í vinnustofu heimilisins.
27.05.2021
Markarliðið í Hjólað í vinnuna lenti í 62.sæti í kílómetrakeppninni
Lið Markar hjólaði alls 47 daga og var heildarvegalengd hjá Mörkinni 738.8 km. Markarliðið skipuðu Ragnhildur, Sigríður og Guðrún sem eru á myndinni en á myndina vantar tvo liðsfélaga Líney og Einar.
27.04.2021
Stundum mætir Húni í vinnuna með Barböru Ösp Ómarsdóttur og þá er nú hátíð í bæ. Heimilisfólkið elskar Húna og það er svosem gagnkvæmt, hann kann sannarlega að meta athyglina sem hann fær frá heimilisfólki og sýnir sínar bestu hliðar.
22.04.2021
Heimilisfólkið í Mörk hefur unnið hörðum höndum að þessu fallega sumartré í vinnustofu iðjuþjálfunar. Við þökkum kærlega fyrir veturinn og förum brosandi inn í sumarið.