15.12.2021
Þó komið sé fram í desember erum við enn að taka upp gulrætur í gróðurhúsum okkar í Ási í Hveragerði. Það eru því glænýjar gulrætur sem heimilismenn á Grundarheimilunum eru að fá með matnum þessa dagana.
15.12.2021
Það var jólapeysudagur á Grundarheimilunum í gær og mikið stuð. Heimilismenn dáðust að litskrúðugum peysunum og einstaka áttu sjálfir eitthvað rautt sem þeir skörtuðu starfsfólkinu til samlætis. Góður dagur á Grundarheimilunum þremur, Grund, Mörk og í Ási.
16.11.2021
Hrafnkell Kárason sem bjó á Miðbæ á 2-hæð, lést þann 29. október síðastliðinn. Ekkja hans, Dröfn Jónsdóttir og dóttir hans Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, komu nýlega og gáfu heimilinu þennan yndislega gleðigjafa sem malar og mjálmar. Það er búið að gefa honum nafnið Keli og við hlökkum mikið til að njóta samveru hans. Við færum mæðgunum hjartans þakkir.
09.11.2021
Fyrir skömmu var haldið árlegt starfsmannakvöld í Mörk þar sem veittar voru starfsaldursviðurkenningar og fyrrum starsmenn heiðraðir. Það er einnig venja að bjóða starfsmönnum að borða saman kvöldverð og spila síðan að lokum um glæsilega bingóvinninga.
01.11.2021
Þetta er það sem blasir við þegar fólk kemur í anddyri Markar í dag. Fatnaðurinn í Boggubúð meira að segja með drungalegu ívafi
29.10.2021
Ragna Ragnars þýðandi og túlkur er heimiliskona í Mörk. Hún var í Frakklandi og lærði ýmsar hliðar á málinu svo sem þýðingar og lauk þar prófi frá Sorbonne háskóla. Það er skemmtilegt að segja frá því að hún er sú sem kom með íslenska nafnið yfir halloween eða hrekkjavöku. „Ég þýddi í fjöldamörg ár bíómyndir fyrir sjónvarpið og þar var þetta orð, halloween, ítrekað að koma fyrir og mér fannst bara að ég þyrfti að finna eitthvað íslenskt orð sem ætti við. Ég hugsaði málið um stund og þegar ég var komin með orðið hrekkjavaka hringdi ég í vin minn sem var prófessor við íslenskudeild háskólans og spurði hvernig honum litist á. Hann sagði að hrekkjavaka væri fínt orð og þá var farið að nota það í kjölfarið.“
26.10.2021
Í Covid hefur heimilisráð Markar legið niðri en nýlega var ákveðið að hefja fundi á ný. Heimilismenn sitja í ráðinu og koma meðal annars með ábendingar um það sem vel er gert
22.10.2021
Anna Lilja Jónsdóttir er dóttir heimiliskonunnar Steinunnar B. Sigurðardóttur sem býr á annarri hæð í Mörk. Hún kom til okkar í vikunni með upplestur á smásögu sem móðir hennar skrifaði. Sagan byggist á atburðum sem áttu sér stað árið 1362 í Örævasveit en þá hafði átt sér stað eldgos og sagt að ein kona hafi komist lífs af á hesti.
Heimilisfólk af allri hæðinni kom til að hlusta og njóta.
19.10.2021
Ólafur Sveinberg, heimilismaður á 2. hæð í Mörk, er með sýningu á verkum sínum og er þegar búinn að selja fjögur verk af fjórtán. Sýningin, er í tengigangi Markar milli hjúkrunarheimilis og heilsulindarinnar.
19.10.2021
Bleikur klæðnaður, bleikar kökur, bleik blóm, bleikt naglalakk og svo mætti áfram telja. Starfsfólk og heimilisfólk á annarri hæðinni í Mörk lét svo sannarlega ekki sitt eftir liggja í að gera bleika daginn eftirminnilegan og sýna samstöðu með þeim konum sem hafa þurft að takast á við krabbamein.