Fréttir

Hvað ungur nemur

Þessir menn tóku daginn snemma með skák. Magnús Þór 8 ára, sonur Thelmu iðjuþjálfa, kíkti við og lék skák við Björn í Glaumbæ á 2. hæðinni. Þá tók Doddi íþróttafræðingur við og þá var það hraðskák, takk fyrir.

Jólaball í Mörk

Jólasveinar kíktu í heimsókn í Mörk í gær og Skjóða kom með þeim. Það var dansað í kringum jólatré og Skjóða sagði skemmtilega sögu. Auðvitað mættu jólasveinarnir með poka og glöddu ungviðið með límmiðum og ávaxtanammi.

Rauður dagur í Mörk

Það var rauður dagur í Mörk í gær og dagurinn tekinn með trompi eins og annað á þeim bæ. Myndirnar sem teknar voru á annarri hæðinni í gær endurspegla gleðina í húsinu.

Jólatré úr gömlum bókum

Þessa dagana eru heimilismenn í Mörk að búa til skemmtileg jólaré úr gömlum bókum. Heimilisfólk er áhugasamt um þetta verkefni en finnst sárt þegar gömlu bækurnar eur rifnar og tættar niður. Það eru breyttir tímar.

Afhenti heimilismönnum afmælisgjöf frá Grund

Í tilefni aldarafmælis Grundar var gefið út afmælisrit um heimilið, saga Grundar í 100 ár. Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna, fór um heimilið og færði heimilismönnum bókina að gjöf auka borðdagatals með gömlum myndum frá Grund. Gísli Páll segir þessar heimsóknir hafa veitt sér gleði og hann er mjög ánægður með að hafa fengið tilefni til að spjalla við heimilisfólkið við það að gefa þeim sögu Grundar. Hann segir að margir hafi verið afar þakklátir og skildu hreinlega ekki af hverju afmælisbarnið sjálft væri að gefa afmælisgjöf en þáðu bókina með miklum þökkum. Ýmislegt kom til tals. Meðal annars þökkuðu mjög margir fyrir aðbúnaðinn, starfsfólkið og öryggið sem þau upplifðu við það að búa á Grundarheimilunum. Gísli Páll segir að það hafi verið notalegt að finna hversu mörgum líður mjög vel á heimilunum. Það voru feðginin sr. Guðmundur Óskar Ólafsson og Guðbjörg R Guðmundsdóttir sem rituðu bókina, Guðmundur Óskar sá um að rita 75 ára sögu heimilisins fyrir aldarfjórðungi og síðan bætti dóttir hans Guðbjörg við 25 árum svo úr varð 100 ára saga heimilisins.

Bleik Grundarheimili

Öll Grundarheimilin skarta bleiku í ár, í afmælismánuði Grundar sem fagnar aldarafmæli á morgun, laugardaginn 29. október.

Fólk og fjársjóðir

Thelma Hafþórsdóttir Byrd er iðjuþjálfi í Mörk og hér skrifar hún fallega hugleiðingu um fólk og fjársjóði.

Fræðsla fyrir starfsfólk Grundarheimilanna

Um þrjátíu starfsmenn Grundarheimilanna sóttu fræðslu sem líknarteymi LSH hélt í síðustu viku í hátíðarsal Grundar. Að auki voru 19 starfsmenn í fjartengingu. Gagnleg og góð fræðsla.

Fagnar aldarafmæli eins og Grund

Það var hátíð á öllum Grundarheimilunum í gær þegar heimiliskonan Sigrún Þorsteinsdóttir fagnaði aldarafmæli sínu. Hún býr á Ási í Hveragerði. Sigrún er einmitt á sama aldri og Grund sem fagnar 100 ára afmæli þann 29. október næstkomandi. Í tilefni dagsins var flaggað á öllum heimilunum, bornar fram marsípantertur og boðið upp á heitt súkkulaði. Gísli Páll Pálsson forstjóri Grundarheimilanna heimsótti Sigrúnu, færði henni blómvönd og spjallaði við afmælisbarnið. Til hamingju elsku Sigrún.

Heimilismenn líta á Grundarheimilin sem sitt heimili

Heimilismenn á Grundarheimilunum eru ánægðir með hjúkrunarheimilið sem þeir búa á og meta lífsgæði sín betri þar en ef þeir byggju enn heima. Aðstandendur eru sömu skoðunar. Heimilismenn telja sig örugga á heimilinu sem þeir búa á og 78% þeirra segjast líta á Grundarheimilið sem sitt eigið. Aðstandendur eru ánægðir með samskipti sín við starfsfólkið sem og með læknis- og hjúkrunarþjónustu. Þeim finnst heimilislegt á Grundarheimilunum og heimilismenn finna umhyggju hjá starfsfólki. Um 40% aðstandenda telur að heimilismenn hafi flutt á réttum tíma á hjúkrunarheimilið en álíka stórt hlutfall telur að þeir hefðu mátt flytja fyrr. Þetta kemur m.a. fram í þjónustukönnun sem framkvæmd var meðal heimilismanna og aðstandenda fyrir Grundarheimilin síðastliðið vor af þekkingarfyrirtækinu Prósent. Könnunin meðal heimilismanna var framkvæmd með einkaviðtölum og var þátttaka tæp 90% af úrtakinu. Könnunin meðal aðstandenda fór fram með netkönnun sem send var í tölvupósti og var svarhlutfall 48% af úrtakinu. Að auki var framkvæmd viðhorfskönnun meðal almennings um viðhorf þeirra til hjúkrunarheimila og heilbrigðismála þeim tengt sem fór fram með netkönnun. Þá kom í ljós að 56% landsmanna eru jákvæðir gagnvart hjúkrunarheimilum en telja að ríkið þurfi að standa sig betur þegar kemur að málefnum hjúkrunarheimila og að auka þurfi fjárframlög til þeirra. Tilgangurinn með þjónustukönnuninni var að gefa stjórnendum og starfsmönnum innsýn í líðan og upplifun heimilisfólks og átta sig þannig á því hvað vel er gert og hvar má gera enn betur. Auk þess var talið gott að fá fram viðhorf aðstandenda og almennings til hjúkrunarheimila og þeirrar þjónustu sem þar er veitt. Álíka viðamikil viðhorfs- og þjónustukönnun hefur ekki áður verið gerð á hjúkrunarheimilum hér á landi og eru þær upplýsingar sem fengust með henni mikilvægar í gæða- og umbótastarfi Grundar. Könnunin gaf til kynna að ástæða sé til að bæta upplýsingagjöf um það sem heimilismönnum stendur til boða hvað varðar til dæmis afþreyingu og einnig þarf að finna leiðir sem auðvelda aðstandendum samskiptin við heimilin. Niðurstöðurnar eru afar ánægjulegar fyrir Grundarheimilin og hvetjandi fyrir stjórnendur og starfsfólk. Í kjölfarið verður nú rýnt i hvar hægt er að bæta um betur.