Fréttir

Kaffi Grund formlega vígt

Í vikunni var kaffihúsið Kaffi Grund formlega vígt Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Grundarheimilanna, segir að aðstaða til að hittast og spjalla á Grund hafi verið ágæt en verði með þessari viðbót framúrskarandi góð. Það að eiga samskipti við annað fólk er einn mikilvægasti þáttur í góðri heilsu hvers og eins. „Okkur á Grund finnst hafa tekist feikn vel til með þessa aðstöðu, bæði inni og úti og kemur hún til með að gagnast heimilisfólki, aðstandendum þeirra, starfsmönnum og öðrum gestum um ókomna tíð. Þó að við séum að vígja þessa fallegu aðstöðu í dag er þannig málum háttað að við getum ekki hafið rekstur kaffihússins strax. Að fá rekstrarleyfi fyrir svona tiltölulega hógværri starfsemi er meira en að segja það. Við höfum um all langt skeið unnið að því að afla viðeigandi leyfa en þau eru því miður ekki komin í hús. Til að byrja með verður því aðstaðan einungis opin heimilisfólki og aðstandendum þeirra og boðið verður upp á kaffi og kleinur. ☕Vonandi styttist í að við getum opnað kaffihúsið og selt veitingar og þá eru nágrannar okkar í Vesturbænum líka hjartanlega velkomnir.“ Fljótlega í undirbúningsferlinu var ákveðið að fá listaverk í garðinn sem gestir kaffihússins gætu notið. Helgi Gíslason myndhöggvari tók verkið að sér og tengist listaverkið vatni og stendur við kaffihúsið í lítilli tjörn. Minningarsjóður Grundar greiddi fyrir verkið og vill þannig minnast allra þeirra heimilismanna sem dvalið hafa á Grund í 102 ár. Hönnun var í höndum ASK arkitekta og hönnun garðsins og umhverfis í höndum Landslags. Kjartan Örn Júlíusson tók myndir við þetta tækifæri.

Afmælis- og foreldrakaffi á Grund

Grund fagnaði 102 ára afmæli þann 29. október og af því tilefni var haldið afmælis- og foreldrakaffi í hátíðasal heimilisins tvo daga í röð, í gær og í fyrradag. Reyndar er talað um afmælis- og foreldrakaffi. Ástæðan er sú að þegar Grund var í byggingu kom Sveinn Jónsson í Völundi á fund stjórnarinnar og gaf peninga í byggingarsjóð en bað um að ávallt yrði haldið upp á brúðkaupsdag foreldra hans. Það hefur verið gert æ síðan og er nú gert í tengslum við afmælið

Góður gestur í heimsókn

Stundum koma ferfætlingar í heimsókn á Grund og hún Fanney iðjuþjálfi tók tíkina sína Mýru með í vinnuna nýlega. Heimilisfólkið var yfir sig hrifið og móttökurnar eftir því. Það klappaði henni og knúsaði og svo fékk hún meira að segja volgan prjónapúða á mallakútinn sinn. 🐕 Næst þegar hún kemur í heimsókn og nálgast Grundina hér á Hringbraut hlýtur hún að dilla skottinu fáránlega hratt af gleð og tilhlökkun.

Hattadagur á Grund

Í síðustu viku var kominn galsi í fólk hér í húsinu og ákveðið að vera með hattadag á föstudag. Starfsfólk mætti með hattana sína til vinnu og heimilisfólk skartaði höfuðfötum sem það annaðhvort fékk lánað úr safni iðjuþjálfunar heimilisins eða bara átti sjálft. Það fylgdi deginum mikil kátína enda sumir hattarnir frekar skondnir og skemmtilegir. Það má líka geta þess að á Grund er núna búsett hattagerðarkonan Ásthildur Vilhjálmsdóttir sem vann lengi við hattagerð á Laugavegi. Henni fannst ekki leiðinlegt að skoða öll þessi höfuðföt sem fólk skartaði.

Deildi með heimilisfólki sögum af veru sinni á Grænlandi

Björg Sigurðardóttir ljósmóðir gladdi heimilisfólk með nærveru sinni í morgunstund í gær. Hún sagði frá störfum sínum og veru í Grænlandi. Það er stórkostlegt að upplifa hvað tónlistarfólk, rithöfundar, dansarar, fólk með áhugaverða sögu, fyrirlesarar og fræðimenn eru til í að koma í sjálfboðavinnu og deila með heimilisfólkinu okkar því sem það hefur fram að færa. Kærar þakkir öll sem gefið af tíma ykkar og veitið þannig tilbreytingu í líf fólksins okkar

Gulur dagur á Grund

September er gulur mánuður þ.e. hann er tileinkaður geðrækt og sjálfsvígsforvörnum. Við á Grund vildum minna á málstaðinn og styðja við málefnið með því að klæðast gulu í gær

Vöffluilmurinn dásamlegur

Nýbakaðar vöfflur með rjóma og sultu eru dásamlegar en ilmurinn meðan á bakstri stendur er nefnilega ekkert síður dásamlegur. Nokkrar heimiliskonur voru meira en til í vöfflubakstur einn eftirmiðdaginn og þegar þær voru komnar af stað með baksturinn fór heimilisfólkið að renna á lyktina og koma til að fylgjast með bakstrinum

Boccia í góða veðrinu

Það er gott að komast út undir bert loft þegar vel viðrar. Aðstandendur eru duglegir að bjóða fólkinu sínu í göngutúra og alltaf hægt, nú þegar haustar, að fá lánuð teppi í hjólastól ef heimilismaður þarf á að halda. Það er stutt í ísbúðina á Hagamel, á kaffihús, á svæðið vð Landakot og sumir arka niður að tjörn eða jafnvel niður að sjó. En stundum er líka bara gott að viðra sig í portinu hér á Grund og það gerðu heimilismenn um daginn þegar bocciatíminn var fluttur þangað.

Fögnuðu hálfrar aldar vígsluafmæli á Grund

Félag fyrrum þjónandi presta sá um messuhald á Grund síðastliðinn sunnudag. Sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir predikaði og sr. Jón Þorsteinsson og sr. Kristján Valur Ingólfsson þjónuðu fyrir altari í tilefni af 50 ára vígsluafmæli þeirra. Félagar úr Grundarkórnum leiddu söng undir stjórn Kristínar Waage organista.

Verslunin flutt að nýja kaffihúsinu

Verslun Grundar hefur nú verið flutt að nýja kaffihúsinu og er hún opin alla virka daga frá klukkan 12.30-15.30 eða þar til kaffihúsið verður opnað. Kaffihúsið er í raun tilbúið en þessar vikurnar standa yfir leyfisveitingar og lokaúttektir og er beðið eftir að öll tilskilin leyfi séu komin. Vonandi á næstu vikum. Það ríkir mikil eftirvænting meðal allra hér í húsinu og aðstandendur hafa einnig sýnt kaffihúsinu áhuga svo það verður gaman þegar loksins verður hægt að opna dyrnar fyrir kaffihúsagestum. Á meðfylgjandi mynd er fyrsti viðskiptavinurinn, starfsmaðurinn Rúnar, að kaupa sér orkudrykk hjá henni Rut í nýja verslunarhúsnæðinu.