19.12.2024
Starfsfólk á Grund tók jólapeysudaginn með trompi og mætti til vinnu í allskonar litríkum og fallegum peysum. Heimilisfólkið hafði gaman af uppátækinu og það sköpuðust skemmtilegar umræður víða um hús um jólafatnað og jólahald.
Uppákomur eins og þessar veita tilbreytingu og stuðla að jákvæðum samskiptum.
13.12.2024
Páfagaukarnir Kókó og Kíki sem búa á Grund eignuðust nýverið unga. Hann dafnar vel en heldur sig ennþá inni í varpkassanum. Gera má ráð fyrir að hann fari að blaka litlum vængjum nú fyrir jól og koma fram í búrið.
Hann er að fá bláar fjaðrir eins og pabbinn en en enn er óljóst hvers kyns hann er. Allir á Grund fylgjast vel með framvindunni og hlakka til að fá að fylgjast með þessari litlu fjölskyldu.
06.12.2024
Heimilisfólk og aðstandendur kunnu vel að meta markaðsdaginn sem boðið var uppá hér á Grund í byrjun viku. Fatnaður og fylgihlutir, allt á 40% afslætti. Markaðurinn verður aftur settur upp þriðjudaginn í næstu viku og fer síðan í Mörk.
Endilega kíkið við. Þarna leynast jólagjafir, jólafatnaður og ýmislegt sem kannski heimilifólk hefur not fyrir. Svo er bara alltaf svo gaman að skoða og máta
04.12.2024
Til að fagna aðventunni var ákveðið að hafa rauðan dag á Grund. Ekki stór viðburður en nóg til þess að laða fram bros á varir og veita tilbreytingu. 💄
Margir tóku þátt og sumir skörtuðu bara eldrauðu naglalakki eða rauðum varalit. Það var að sjálfsögðu tekið með
02.12.2024
Það er orðið jólalegt hjá okkur á Grund og nú í desember verða jólalögin allsráðandi í söngstundunum hjá Jóni Ólafi. Hvetjum ykkur aðstandendur góðir til að mæta með fólkinu ykkar en söngstundirnar eru á föstudögum klukkan 13.30 í hátíðasal heimilisins. Dásamlegt að taka þar jólalögin með sínu fólki
18.11.2024
Minnum á að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna kosninga til alþingis fer fram á Grund í dag, mánudaginn 18. nóvember frá klukkan 15:00 til 18:00. Aðstandendur eru beðnir um að fylgja þeim heimilismönnum sem fylgd þurfa.
14.11.2024
Í gær var Eden hringnum okkar lokað á Grund en þá fékk heimilið formlega viðurkenningu sem Eden heimili. Þar með eru öll Grundarheimilin þrjú orðin Eden heimili. 👏👏
Á sama tíma var endurnýjuð vottunin fyrir Mörk og Ás.
Af þessu tilefni var boðið upp á marsípantertu með kaffinu á öllum heimilunum.
Það var Karl Óttar Einarsson, forstjóri Grundarheimilanna, sem tók formlega við viðurkenningunni fyrir Grund frá Rannveigu Guðnadóttur forsvarsmanni Eden á Íslandi,
https://edenalticeland.org/
08.11.2024
Það er komin hefð fyrir því að hafa setningarathöfn tónlistarhátíðarinnar Iceland airwaves á Grund. Í gær var komið að þeim árlega viðburði. Eftir að Lilja Alfreðsdóttir ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra hafði lýst því yfir að hátíðin væri hafin stigu á stokk Elín Hall söng- og leikkona og hljómsveitin Hjálmar. Það er alveg sérstakt andrúmsloft þegar þessi viðburður er á heimilinu. Heimilisfólk lætur sig ekki vanta en svo koma líka leikskólabörn sem og gestir sem hafa keypt sig inn á hátíðina. Allir sitja saman í sátt og samlyndi og hlýða á listamennina sem fram koma.
01.11.2024
Starfsfólk og heimilisfólk hefur undanfarna daga sameinast í því að skera út grasker og skemmta sér við að skoða útkomuna í húsinu. Á sumum stöðum er metnaðurinn meiri en annarsstaðar og bæði köngulóarvefir komnir upp, leðurblökur og allskyns skraut sem minnir á hrekkjavökuna, sem er í dag. 🍑
Það er eitthvað um að bæði starfsfólk og heimilisfólk fussi og sveii yfir þessum nýja sið á meðan aðrir hafa mjög gaman af umstanginu og skrautinu. Það er bara svona eins og er í lífinu sjálfu og þannig á það að vera þegar fólk býr á heimili eins og Grund. Það skapast líflegar umræður og sitt sýnist hverjum.
Skoðið endilega þessi skrautlegu grasker ef þið eigið leið um Grund næstu daga.
01.11.2024
Thorvaldsensfélagið gaf Grundarheimilunum nýlega frábæra gjöf, þrjá svokallaða kúlustóla sem koma með skammelum og fer einn stóll á hvert heimili, á Grund, í Mörk og í Ás.
Vængir leggjast yfir herð og bringu og lítil grjón eru í hálsstuðningi. Stólarnir umvefja og bæta líkamsvitund, auka vellíðan og öryggiskennd. Þyngdin, þrýstingur og hreyfing frá kúlum örvar vöðvaskyn. Grundarheimilin þakka af alhug þessa rausnarlegu gjöf og þann hlýhug sem Thorvaldsensfélagið hefur sýnt Grundarheimilunum um árin.
Á myndinni er Karl Óttar Einarsson, forstjóri Grundarheimilanna, að taka við stólunum frá fulltrúum Thorvaldsensfélagsins, Kristínu Fjólmundsdóttur og Dóru Garðarsdóttur. Sigrún Faulk, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Grund, situr í stólnum góða og sýnir hvernig hann virkar..... og gerir tilraun til að slaka á