Það voru prúðbúnar konur sem mættu á Kaffi Mörk í síðustu viku þegar blásið var til konukvölds hjá Íbúðum 60+.
Bleik lýsing, bleikt í glasi, ljúfir tónar og ostabakkar biðu þeirra á kaffihúsinu og dagskrá kvöldsins var skemmtileg. Það var Fanney Björg sem sá um að kynna dagskrána og hún hófst með tískusýningu. Fyrirsæturnar Lilja, Súsanna, Fanney Lára og Weronika gengu um og sýndu danskan tískufatnað sem hentar skvísum á öllum aldri.
Stöllurnar Solla, Elva og Erla frá hársnyrtistofunni og fótaaðgerðar- og snyrtistofunni kynntu vörur sínar og svo var happdrætti þar sem vinningarnir voru gjafabréf frá Heilsulind Markar, hársnyrtistofunni sem og frá fótaaðgerðar og snyrtistofu Markarinnar. Að sjálfsögðu voru þær mættar líka Laila frá Heilsulindinni og Alda frá Íbúðum 60+ sem gengu úr skugga um að allt væri eins og það á að vera á svona dásamlegu kvöldi.
Rúsínan í pysluendanum var tískusýningin hennar Unu Stefaníu sem er íbúi hjá Íbúðum 60+. Stefanía rak saumastofu í mörg ár, gerði gjarnan við leðurflíkur. Hún lærði hattasaum af vinkonu sinni og saumaði í mörg ár búninga t.d. fyrir dimmisjónir og síðar vann hún einnig á saumastofu sjónvarpsins. Tískusýningin hennar Stefaníu var með öðruvísi sniði því hún sýndi okkur hvernig hægt er að nýta plastpoka, kaffipoka og jafnvel gardínur í fatasaum. Þegar peningar voru af skornum skammti dóu konur ekki ráðalausar og þá var hægt að nýta það sem hendi var næst. Stórkostlegar flíkur úr þessum efnum sem vöktu mikla athygli á konukvöldinu.