Fréttir

Páskalegt á Grund

Það er orðið páskalegt um að litast hér hjá okkur á Grund enda komu þessi mektarhjón með tugi blóma úr Hveragerði sem prýða nú heimilið. Að auki eru páskalegar uppákomur daglegt brauð þessa dagana, páskaeggjabingó, páskaföndur og svo eru heilu stæðurnar af páskaeggjum komnar í hús.

Óvæntur gestur á stjórnarfundi

Það er algengt að kisur geri sig heimakomnar á Grund. Á síðasta stjórnarfundi heimilisins linnti þessi fallega kisa ekki látum fyrr en hún komst inn á fundinn. Hún lagði ekki mikið til málanna en hlustaði með eyrun vel sperrt. Þegar sækja átti mjólk fyrir þennan óvænta gest ákvað hann að hoppa upp í gluggakistuna á ný og halda för sinni áfram þar sem hann fengi kannski eitthvað meira krassandi til að hlusta á og ef til vill rjóma til að lepja.

Nemendur Kvennaskólans mættu á Grund

Á ári hverju mæta nemendur úr Kvennaskólanum hingað á Grund þegar það er peysufatadagur hjá þeim. Þvílík gleði þegar allur hópurinn kemur í portið á Grund og dansar og syngur. Takk kæru nemendur fyrir skemmtunina og takk kæru forráðamenn Kvennaskólans fyrir að muna eftir fólkinu okkar ár eftir ár

Kókó og Kíkí komin með tvo unga

Eins og margir vita búa Kókó og Kíki á Grund. Parið fékk nýtt og stærra búr á dögunum og skömmu síðar voru komin egg í litla kassann sem er áfastur búrinu. Nú hafa tveir ungar litið dagsins ljós og mikil lukka meðal heimlisfólks að fylgjast með þessari litlu fjölskyldu. Það er dekrað við þau með sérfæði og þeir sem kíkja í heimsókn passa að það séu engin læti. Reyndar er Kókó kominn í frí langþráð frí frá Kíkí sem hafði gert honum lífið leitt um skeið. En þau eru í sama herberginu, þurftu bara hvíld frá hvort öðru um sinn. Það gerist á bestu bæjum.

Kisa unir sér vel á Grund

Það þarf ekki mikið til að laða fram bros á varir heimilisfólks á Litlu og Minni Grund. Tófú er heimilisvinur og honum finnst ekki leiðinlegt að leika sér með afgangsgarn. Hann lifir líka eins og blóm í eggi þegar hann kemur á Grund, fær næga athygli og strokur ef hann vill og jafnvel eitthvað að lepja.

Skipt um nærri 300 glugga

Þeir sem búa á Grund og þeir sem eiga leið framhjá þessari fallegu byggingu við Hringbraut hafa tekið eftir að síðustu ár hafa staðið yfir gluggaskipti á heimilinu. Hátt í þrjú hundruð gluggar eru á byggingunni og nú fer að síga á seinni hlutann með þessar framkvæmdir. Vonandi verður búið að skipta um alla gluggana á árinu.

Eden könnun á leið til aðstandenda

Kæru aðstandendur Á næstunni mun berast til ykkar vefslóð á könnun sem við biðjum ykkur um að svara með ykkar heimilismanni. Könnunin byggir á staðlaðri og þýddri könnun frá Edensamtökunum og hjálpar okkur við innra starf á heimilunum. Það er mikilvægt að heyra hvað við erum að gera vel en ekki síðu hvar við getum bætt okkur. Því vonumst við til að þú getir gefið þér tíma tilað svara könnuninni með heimilismanni. Eftir nokkrar vikur mun svipuð könnun berast en hún er fyrir aðstandendur einvörðungu og þegar hún berst þá biðjum við ykkur um að svara henni líka.

Bíó í hátíðasal

Í gær var boðið upp á bíósýningu í hátíðasal Grundar þar sem sýnd var heimildamyndin sem gerð var um Grund á hundrað ára afmæli heimilisins árið 2022. Heimiismenn voru áhugasemir og boðið var upp á hressingu í hléi eins og vera ber.

Æfingar í sundlauginni á Grund

Sumarið 1954 var tekin í notkun sundlaug á Grund og enn er hún í notkun. Hún er ekki stór en hún er heit og notaleg. Það er dásamlegt að gera æfingar í sundlauginni sem opin er tvisvar í viku. Áhugasamir heimilismenn eða aðstandendur þeirra hafi samband við sjúkraþjálfunina eða í gegnum deildarstjóra til að fá tíma í lauginni. Það er lyfta ofan í laugina fyrir þá sem þurfa

Hattaball Grundar

Það var fjör á hattaballi Grundar á öskudag. Allir sem vettlingi gátu valdið skörtuðu skrautlegum höfuðfötum og sumir fóru meira að segja í búning til að lífga upp á tilveruna. Við erum svo heppin hér á Grund að eiga orðið myndarlegt safn af höttum sem við lánum þeim heimlismönnum og starfsfólki sem ekki á. Hið vinsæla Grundarband lék fyrir dansi en harmonikkuleikararnir koma til okkar í sjálfboðavinnu í hverjum mánuði og gleðja okkur með harmonikkuleik.