21.05.2025
Grundarheimilin tryggðu sér sýningarrétt á myndinni Human Forever fyrir heimilisfólk, aðstandendur og starfsfólk.
Þetta er mögnuð heimildarmynd, einlæg og áhrifamikil sem fjallar um heilabilun. Markmið með gerð myndarinnar var að gera veröldina betri fyrir fólk sem þarf að takast á við alzheimer.
Teun Toebes vann á lokaðri heilabilunardeild á hjúkrunarheimili í Hollandi þegar hann fékk þá hugmynd að gera heimildamyndina Human Forever. Hann ferðaðist til ellefu landa á þremur árum og leitaði svara fyrir framtíð þessa hóps. „Okkur langaði að fjalla um heilabilun þar sem fólk sem lifir með henni segði sjálft söguna“ sagði Teun. Hann gerði myndina með vini sínum og kvikmyndagerðarmanninum Jonathan de Jong.
Myndin sýnir hvernig tekist er á við heilabilun í þessum ólíku löndum sem þeir heimsóttu.
Myndin var frumsýnd 2023 og hefur verið geysilega vel sótt þar sem hún hefur verið sýnd í kvikmyndahúsum.
Það er komið að því að bjóða upp á sýningu myndarinnar í Mörk en á næstunni verður hún einnig sýnd á Grund og í Ási. Eins og sést í auglýsingunni hér að neðan er boðið upp á tvo sýningartíma svo sem flestir hér í Mörk geti nýtt sér að sjá þessa mögnuðu mynd. Og það verður boðið upp á popp og kók.
20.05.2025
Síðasta harmonikkuball vetrarins var í síðustu viku og vel mætt á dansleikinn. Það var að venju Markarbandið sem lék fyrir dansi en það er hópur harmonikkuleikara sem heimsækir okkur í hverjum mánuði í sjálfboðavinnu. Við erum svo innilega þakklát fyrir þessa frábæru hljóðfæraleikara sem gefa sér tíma til að koma og gleðja fólkið okkar með þessum hætti
20.05.2025
Þó að sólin skíni skært þessa dagana og gott sé að sitja úti á svölum þá getur stundum verið notalegt að hvíla sig aðeins á sólskininu, setjast niður og rifja upp gamla tíma.
Á annarri hæðinni í Mörk er mikill áhugi fyrir upplestri. Rebekka les þessa dagana fyrir heimilisfólk upp úr bókinni Þar sem djöflaeyjan rís.
02.05.2025
Það eru Grundarheimilin sem byggja hjúkrunarheimilið og leigja ríkinu með leigusamningi til 20 ára. Grund hefur rekið Ás frá árinu 1952 og sinnt öldrunarþjónustu í Hveragerði og nágrenni í yfir sjötíu ár.
Það voru Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, Birna Sif Atladóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar í Ási, og Grétar Aðalsteinsson, heimilismaður í Ási, sem tóku skóflustungu að nýja heimilinu sem mun rúma 44 manns.
Í dag eru heimilismenn í Ási 111 talsins en verða 138 þegar nýja hjúkrunarheimilið verður tekið í notkun. Til að koma byggingunni fyrir þarf að fjarlægja nokkur minni hús á staðnum með eldri rýmum og sameiginlegum baðherbergjum. Öll herbergin á nýja hjúkrunarheimilinu verða einbýli með baðherbergjum. Byggingin verður 2.680 fermetrar og heildarkostnaður um 2,8 milljarðar króna.
„Það er mér sönn ánægja að taka fyrstu skóflustunguna að nýju hjúkrunarheimili í því ágæta sveitarfélagi Hveragerði. Þessi framkvæmd bæði fjölgar hjúkrunarrýmum og leysir af hólmi eldri rými sem voru komin til ára sinna. Ég óska Hvergerðingum innilega til hamingju með þetta og við munum halda áfram á sömu braut á landsvísu eins og ríkisstjórnin hefur lofað,“ sagði Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.
„Þessi framkvæmd er mjög mikilvæg til að koma til móts við breyttar og auknar þarfir og kröfur þeirra sem dvelja nú og munu dvelja framvegis á hjúkrunarheimilum landsins. Allir verða með sitt eigið herbergi og sér baðherbergi. Húsið samanstendur af fjórum 11 manna einningum og er skjólsæll garður á milli austureininganna annars vegar og einnig á milli vestureininganna. Aðalinngangur er í miðju og tengjast einingarnar fjórar um gang að norðanverðu þar sem einnig verða ýmis stoðrými. Við á Grundarheimilunum erum afar þakklát félags- og húsnæðismálaráðherra að treysta okkur fyrir þessu góða verkefni,“ sagði Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Grundarheimilanna.
„Starfsemin í Ási er ein af perlum bæjarins og er sannarlega hluti af einstökum gæðum Hveragerðis. Nýtt hjúkrunarheimili er hluti af metnaðarfullri framtíðarvegferð Áss, sögulegri uppbyggingu Hveragerðisbæjar og mun auka við gæði og velferð í bæjarfélaginu,“ sagði Pétur Georg Markan, bæjarstjóri í Hveragerði.
18.03.2025
Kæru aðstandendur
Á næstunni mun berast til ykkar vefslóð á könnun sem við biðjum ykkur um að svara með ykkar heimilismanni.
Könnunin byggir á staðlaðri og þýddri könnun frá Edensamtökunum og hjálpar okkur við innra starf á heimilunum. Það er mikilvægt að heyra hvað við erum að gera vel en ekki síðu hvar við getum bætt okkur.
Því vonumst við til að þú getir gefið þér tíma tilað svara könnuninni með heimilismanni.
Eftir nokkrar vikur mun svipuð könnun berast en hún er fyrir aðstandendur einvörðungu og þegar hún berst þá biðjum við ykkur um að svara henni líka.
07.03.2025
Öskudagurinn var tekinn með trompi í Mörk og bæði starfsfólk og heimilisfólk lífguðu upp á daginn með að skarta búningum.
Börn frá leikskólanum Steinahlíð komu svo í heimsókn og slógu köttinn úr tunnunni og þá færðist fjör í leikinn í húsinu hjá okkur.
24.02.2025
Í tilefni konudags í gær fengu allar heimiliskonur á Grundarheimilunum rós að gjöf. 🥰
Tæplega þrjú hundruð rósir sem heimiliskonur fengu eru gjöf frá Ræktunarstöðinni í Hveragerði og að sögn Jóhanns Ísleifssonar blómabónda var ljúft að geta glatt heimiliskonurnar með þessari rósasendingu. Í fyrra gáfu þeir líka rósir á heimilin á konudaginn.
Grundarheimilin þakka Ræktunarstöðinni fyrir þessa hlýju og fallegu gjöf.🌹
21.02.2025
Það standa yfir heilsudagar í Mörk þessa dagana. Heimilisfólkið hefur tekið þátt í ýmsum óhefðbundnum æfingum og haft gaman af. Það er dansað, blöðrur gegna hlutverki og svo eru ýmsir boltaleikir vinsælir. Það er ekki annað að sjá en heimilisfólkið elski þessa tilbreytingu.
12.02.2025
Grundarheimilin eru í samvinnu við nokkra skóla í Danmörku sem bjóða upp á nám í félags- og heilbrigðisþjálfun. Dönsku nemendurnir hafa komið í starfsþjálfunina í Mörk. Þeir eru á Erasmus styrk sem skólarnir sækja um. Nemendur sjá um að finna sér húsnæði í Reykjavík og eru oftast í fjórar vikur í Mörk. Þeir taka þátt í öllum daglegum umönnunarstörfum og fá leiðsögn og vinna þeirra er þá hluti af verklegri þjálfun hjá þeim.
Undanfarin misseri hafa verið að koma nemendur alla vetrarmánuðina hingað í Mörk eða um átta til tíu nemendur á ári.
Í dag kveðja þrjár danskar stúlkur okkur, þær Nina Sørensen
Sabrina Navne Ølund og Emma Myrén en þær eru nemendur við Social og sundhedsskolen á Fjóni. Við hittum Nínu og Sabrínu stuttlega í gær. Þær eru afskaplega ánægðar með dvölina og hefðu alveg getað hugsað sér að vinna hjá okkur lengur. Glöggt er gests augað svo við spurðum hvernig þeim líkaði að vinna hér.
"Það er svo notalegt og afslappað andrúmsloftið hér í Mörk. Það eru viðbrigði frá því sem við eigum að venjast þar sem streita einkennir meira vinnuumhverfið. Í Danmörku þarf að koma öllum fram í morgunmat á réttum tíma og vinna verkin hratt en hér ræður heimilisfólkið meira ferðinni sjálft og fer á fætur þegar því hentar", segir Nína. Sabrína tekur undir og segir að morgunvaktir séu líka miklu betur mannaðar hér, þrír til fjórir sem sinna hverri heimiliseiningu á meðan það eru tveir í Danmörku sem sinna sama fjölda. "Heima eru starfsmenn yfirleitt í einkennisbúningi og má ekki slettast á þá bleyta þá þarf að skipta um föt og það verður allt stofnanalegra þannig. Það er þetta heimilislega andrúmsloft sem er svo notalegt og gefandi", segir Sabrina. Að lokum benda þær á að heimilisfólk sé yfirleitt miklu hressara hér en í Danmörku. "Það eru margir heimilismenn hérna sem geta tekið þátt í ýmsu og gert hluti á meðan fólk sem fer á hjúkrunarheimili í Danmörku er orðið mjög veikt þegar það kemur á hjúkrunarheimili."
12.02.2025
Lionsklúbburinn Njörður gaf nýlega hjúkrunarheimilinu Mörk breiðan meðferðarbekk í sjúkraþjálfun. Bekkurinn er sérstaklega breiður og bólstraður til að gera hann mýkri svo hann henti vel fyrir þá sem þurfa á mýktinni að halda við æfingar. Félagar í Lions afhentu bekkinn formlega og myndirnar voru teknar við það tækifæri.