Fréttir

Sumarhátíðin í Ási

Í blíðskaparveðri var Sumarhátíðin í Ási haldin í gær. Heimilisfólk, aðstandendur, starfsfólk og aðrir gestir skemmtu sér konunglega, hlustuðu á fagra tóna frá litskrúðuga stúlknabandinu Tónafljóð, Ingunn bauð upp fallega andlitsmálun og “blaðrarinn” Daníel galdrað í fram flottar fígúrur úr blöðrum. Nokkrir heimilismenn nýttu tækifærið og seldu eigið handverk, t.d. sokka, vettlinga, peysur, málverk og vatnslitamyndir. Eldhúsið sá um veitingarnar sem voru glæsilegar að vanda.

Sumarhátíð í Ási

Verður þú á Blómstrandi dögum um helgina?

Völlurinn nýsleginn

Púttvöllurinn í Ási er nýsleginn og bíður þess að áhugasamir komi og pútti.

Blómarósir

Þær eru víða hjá okkur blómarósirnar hér í Ási sem eru með græna fingur og hlú að plöntunum úti sem inni.

Afþökkuðu útileikfimi vegna hita

Það stóð til í vikunni að bjóða upp á stólaleikfimi í sólinni sem leikið hefur við okkur undanfarið. En heimilisfólkið afþakkaði pent. Því fannst of heitt úti. Svo leikfimin var færð inn í hús og sumir höfðu bara sólhattana á sér áfram.

Göngutúr í blíðunni

Morgungangan síðasta mánudag var farin í bongóblíðu hér í Ási, alltaf gott að bæta smá D vítamíni í kroppinn.

Fólkið okkar kann að njóta

Það var "hamingjustund" fyrir lengra komna í Bæjarási í dag. Þar gæddi fólk sér á girnilegum veitingum bæði í fljótandi og föstu formi 🥂 Boðið var upp á dekur í formi andlitsmaska, andlitsnudd og handanudd 🤗… það er óhætt að segja að fólkið okkar kunni að njóta lífsins ❤️

Söngstund í Ásbúð

Tónlistarmaðurinn Bjarni Hall mætti í Ásbúð nú fyrir helgina og tók nokkur skemmtileg lög með heimilisfólki. Hann tók bæði gömul og nýleg lög og sagði svo skemmtilega frá milli laga. Frábær byrjun á helginni. Takk Bjarni fyrir komuna.

Bökuðu 1.200 pönnukökur með bros á vör

Starfsfólk eldhúss Grundarheimilanna, sem vinnur í Ás,i mætti í Mörk í morgun og aðstoðaði í eldhúsinu, m.a. stóð það í ströngu við bakstur. Á morgun 17. júní verður nefnilega boðið upp á rjómapönnukökur með kaffinu. Til að allir geti nú gætt sér á þessum þjóðlegu kræsingum, þurfti í morgun að baka 1.200 pönnukökur. Á þjóðhátíðardaginn verður svo boðið upp á hangikjöt með öllu tilheyrandi í hádeginu og ístertu í eftirmat.