Þessi tilkynning er send til núverandi og fyrrverandi íbúa Grundarheimilanna (Grund, Mörk og Ás), aðstandenda íbúa, skjólstæðinga, umsækjenda og íbúa í íbúðum 60+ í Mörkinni, starfsfólks Grundarheimilanna sem og verktaka sem starfa eða hafa starfað fyrir heimilin.
Líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum urðu Grundarheimilin fyrir fjandsamlegri tölvuárás. Árásin fólst í því að tölvuþrjótar brutust inn á netþjóna og komust þannig inn í kerfi þar sem finna má upplýsingar um núverandi og fyrrverandi íbúa, aðstandendur, skjólstæðinga, starfsfólk og verktaka heimilanna.
Búið er að loka fyrir aðgang tölvuþrjótanna og ljóst þykir að engum gögnum eða upplýsingum hefur verið eytt eða þeim breytt. Heimilin hafa áfram fullan aðgang að öllum upplýsingum sem kerfin innihalda og árásin hefur því takmörkuð áhrif haft á þá þjónustu sem heimilin veita íbúum og skjólstæðingum. Rannsókn hefur þó leitt í ljós að áður en að tölvuárásin uppgötvaðist tókst tölvuþrjótunum að afrita hluta af þeim upplýsingum sem finna mátti í kerfum heimilanna.
Þær persónuupplýsingar sem vitað er á þessari stundu að afritaðar voru eru eftirfarandi, um eftirfarandi flokka einstaklinga:
Skjólstæðingar, íbúar og aðstandendur
Íbúar og umsækjendur um íbúðir 60+ í Mörkinni og aðstandendur
Starfsfólk og fyrrverandi starfsfólk
Verktakar
Ekkert bendir til þess að þessar upplýsingar hafi verið birtar og tölvuþrjótarnir hafa ekki hótað slíkri birtingu.
Rannsókn árásarinnar stendur enn yfir með aðstoð færustu sérfræðinga landsins á þessu sviði.
Í ljósi viðkvæms eðlis þessara upplýsinga eru viðtakendur hvattir til að vera á varðbergi gagnvart mögulegri misnotkun á upplýsingunum af hálfu tölvuþrjótanna. Ef grunur vaknar um slíka misnotkun þá skal gæta fyllstu varúðar í samskiptum, bregðast ekki við, heldur láta okkur vita eða tilkynna um atvikið til CERT-IS netöryggissveitarinnar. Rétt er að árétta að Grundarheimilin munu ekki senda út neina pósta að fyrra bragði þar sem fólk er beðið um að senda upplýsingar eða ýta á hlekki.
Rætt verður við alla íbúa Grundarheimilanna og þeir upplýstir um stöðu málsins.
Við höfum opnað fyrir sérstakan upplýsingasíma ef einhverjar spurningar vakna. Fulltrúi Grundarheimilanna svarar í síma 530-6200 og í gegnum netfangið personuvernd@grund.is. Síminn er opinn frá kl. 10 til 14 næstu daga.
Búið er að tilkynna um árásina til Persónuverndar, Landlæknis og CERT-IS netöryggissveitarinnar í samræmi við það sem áskilið er í lögum og starfsleyfi heimilanna. Einnig er verið að undirbúa kæru til lögregluyfirvalda.
Grundarheimilin munu halda viðtakendum upplýstum eftir því sem málinu vindur fram.
Við þökkum fyrir skilninginn á meðan við komumst til botns í málinu.
Karl Óttar Einarsson, forstjóri Grundarheimilanna