Allar fréttir

Minni karla og þorramatur

Á bóndadaginn var efnt til söngstundar í setustofu á þriðju hæð Grundar þar sem heimilisfólk söng minni karla og ýmis lög sem tengjast þorranum. Að sjálfsögðu var svo boðið upp á þorramat á Grund.

Bóndadagurinn í Mörk

Það var aldeilis huggulegt á 2. hæðinni í Mörk á bóndadaginn. Þorramaturinn rann ljúflega niður og andrúmsloftið að venju létt og notalegt.

Spjallað og bjástrað

Það þarf ekkert endilega skipulagða skemmtidagskrá til að brjóta upp daginn. Stundum nægir bara samvera og sumir kjósa að dunda sér á meðan við prjónaskap, mála kannski, teikna eða lesa. Svo gerir náttúrulega útslagið að fá heitan bakstur á axlirnar.

Þegar úti er hráslagalegt

Þegar veðrið er ekkert ýkja gott er yndislegt að hlusta á góða sögu og kannski kúra undir teppi líka. Svoleiðis stund á annarri hæðinni í Mörk.

Samvera og spjall

Reglulega er blásið til samverustundar í setustofunni á þriðju hæð Grundar. Það er engin dagskrá, bara samvera. Sumir prjóna, aðrir lita eða mála, leysa krossgátur eða spjalla bara við sessunauta. Jón Ólafur mætir svo oft með nikkuna og tekur nokkur lög og oftar en ekki fer heimilisfólk að raula með þegar lögin eru kunnugleg. Virkilega notalegar samverustundir.

Heimilismenn bólusettir

Kæru aðstandendur Heilbrigðisyfirvöld mæla með Covid örvunarbólusetningu fyrir alla 60 ára og eldri og þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma ef liðnir eru 4 mánuðir eða meira frá síðustu bólusetningu. Í janúar munum við bjóða þeim sem þar sem liðið er meira en 4 mánuðir frá síðustu bólsetningu upp á Covid örvunarbólusetningu. Við biðjum ykkur um að láta okkur vita eins fljótt og þið getið ef þið eruð alfarið á móti því að ykkar aðstandandi fái örvunarskammt. Best að láta viðkomandi deildarstjóra vita eða senda póst á sigridur@grund.is

Jólin kvödd með dansi

Að venju voru jólin kvödd með pompi og prakt á Ási á þrettándanum. Kristján og félagar héldu uppi fjörinu með harmonikkutónum, jólasveinarnir kíktu í heimsókn og eldhúsið bauð upp góðar veitingar.

Þrettándaball

Það er aldrei lognmolla þegar hún Hjördís Geirsdóttir leiðir söng og skemmtir. Hún er líka með frábæra hljómsveit með sér, fjölmarga úrvals harmonikkuleikara úr Grundarbandinu og píanistann Sigmund Indriða Júlíusson. Þetta er alvöru þrettándaball sem nú stendur yfir í hátíðasal heimilisins þar sem heimilisfólk, aðstandendur og starfsfólk skemmta sér hið besta.

Áramótamatseðill Grundarheimilanna 2022-2023

Lúsía og þernur hennar sungu jólalögin

Fyrir löngu var til siðs hér á Grund að fá í heimsókn lúsíu og þernur hennar á aðventunni. Þær gengu um húsið og sungu sænsk og íslensk jólalög með lifandi kertaljós í hendi og lúsían sjálf með kertakrans á höfði. Í ár var ákveðið að endurvekja þennan gamla sið. Lúsía og þernur hennar mættu og gengu um húsið og sungu jólalög undir stjórn Mariu Cederborg