Allar fréttir

Eurovision stemning

Það var Eurovision stemning í Ási fyrir helgina og vakti kátínu þegar boðið var upp á tónlistar bingó með Eurovison lögum. Heimilisfólk söng og dansaði með. Bingóvinningarnir voru í anda dagsins, sætindi og gos.

Leikskólabörn á Grund

Um tólf leikskólabörn af elstu deild á Sælukoti ætla að kíkja reglulega í heimsókn á Grund, spila, föndra, syngja og spjalla við heimilisfólkið. Þau komu í fyrsta sinn í síðustu viku og það er óhætt að segja að það hafi tekist með eindæmum vel. Það var ýmislegt brallað í hátíðasalnum þennan morgun, farið í boccia, vatnslitað, spjallað og svo var boðið upp á hressingu.

Fyrsta skóflustungan tekin að nýju kaffihúsi

Í dag, þriðjudaginn 2. maí, var fyrsta skóflustungan tekin að nýjum laufskála sem rísa á í suðurgarði Grundar við Hringbraut. Um er að ræða 100 fermetra kaffihús þar sem heimilismenn og aðrir gestir geta komið og keypt sér veitingar í notalegu umhverfi. Hægt verður að opna kaffihúsið út á sólríkum dögum og njóta veðurblíðu á útikaffihúsi. Þá verður einnig útbúin leikaðstaða fyrir börn. Laufskálinn mun létta yfirbragð þessa fallega og reisulega húss sem Grund er og veita Vesturbæingum gleði en meiningin er að íbúar í hverfinu geti einnig nýtt sér þjónustu kaffihússins. Áformað er að taka kaffihúsið í notkun í kringum næstu áramót. Skóflustunguna tóku frá vinstri Guðrún B. Gísladóttir fyrrverandi forstjóri Grundar til 25 ára, Sigmundur I. Júlíusson heimilismaður og Gísli Páll Pálsson stjórnarformaður Grundar.

Stiginn dans í hátíðasal

Það var að venju fjör í hátíðasal heimilisins þegar Grundarbandið mætti í heimsókn til að spila fyrir dansi í vikunni. Þetta eru dásemdar stundir sem allir njóta.

Skólahljómsveitin tók lög úr öllum áttum

Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar kom í heimsókn í gær en hún er skipuð um 40 hljóðfæraleikurum á aldrinum 14 til 18 ára. Lék sveitin lög úr öllum áttum fyrir fullum hátíðasal.

Vinir í sviðaveislu

Það er viss kjarni í Íbúðum 60+ sem kemur alltaf síðdegis í heilsulindina og fær sér hressingu um leið og spjallað er um heimsmálin og lífið og tilveruna. Sumir skreppa áður í sund, skella sér í gufu eða líkamsrækt en aðrir koma bara til að setjast niður og spjalla við vini. Þessi hópur hittist í síðustu viku og borðaði saman svið og rófustöppu. "Dásamlegur félagsskapur og ekki skemmdu þessar frábæru veitingar fyrir", segir Laila Margrét Arnþórsdóttir sem er hjartað í heilsulind Markar en hún rekur heilsulindina ásamt Daða Hreinssyni

Breytingar við stjórnvöl Grundarheimilanna

Stjórn Grundar hefur gengið frá ráðningu Karls Óttars Einarssonar í starf forstjóra Grundarheimilanna. Um leið var Gísli Páll Pálsson, fráfarandi forstjóri, ráðinn í hlutastarf sem stjórnarformaður Grundar frá sama tíma. Breytingarnar taka gildi þann 1. maí næstkomandi.

Bakar 1.200 pönnukökur með kaffinu

Það er í nógu að snúast á Grundarheimilunum því auk hefðbundinna verka í eldhúsum heimilanna er verið að baka 800 pönnukökur sunnan heiða og 400 í Ási. Á morgun, sumardaginn fyrsta, verður síðan boðið upp á pönnukökurnar með kaffinu á Grund, Ási og í Mörk. Takið eftir að hún Rakel lætur sig ekki muna um að baka á fimm pönnum í einu.

Samningur um þjónustu Landspítala

Mörk hjúkrunarheimili og LSH hafa gert með sér samning um aðstoð við geðeiningar Markar. Er það geðsvið Landspítala sem veitir þjónustuna sem lýtur að markvíslegri fræðslu og ráðgjöf. Á myndinni undirrita Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna og Nanna Briem forstöðumaður geðheilbrigðisþjónustu Landspítala samninginn, sem gildir í þrjú ár.

Ball með Geirmundi Valtýs vakti lukku

Það var svo sannarlega stuð í Mörk þegar hinn eini sanni Geirmundur Valtýsson kom og skemmti heimilisfólkinu okkar. Það var ekki hægt að sitja kyrr og hlusta því stuðið var svo mikið svo margir þustu út á gólf og tóku nokkur spor. Takk kærlega fyrir komuna og frábæra skemmtun.