02.05.2023
Í dag, þriðjudaginn 2. maí, var fyrsta skóflustungan tekin að nýjum laufskála sem rísa á í suðurgarði Grundar við Hringbraut. Um er að ræða 100 fermetra kaffihús þar sem heimilismenn og aðrir gestir geta komið og keypt sér veitingar í notalegu umhverfi. Hægt verður að opna kaffihúsið út á sólríkum dögum og njóta veðurblíðu á útikaffihúsi. Þá verður einnig útbúin leikaðstaða fyrir börn.
Laufskálinn mun létta yfirbragð þessa fallega og reisulega húss sem Grund er og veita Vesturbæingum gleði en meiningin er að íbúar í hverfinu geti einnig nýtt sér þjónustu kaffihússins. Áformað er að taka kaffihúsið í notkun í kringum næstu áramót.
Skóflustunguna tóku frá vinstri Guðrún B. Gísladóttir fyrrverandi forstjóri Grundar til 25 ára, Sigmundur I. Júlíusson heimilismaður og Gísli Páll Pálsson stjórnarformaður Grundar.
28.04.2023
Það var að venju fjör í hátíðasal heimilisins þegar Grundarbandið mætti í heimsókn til að spila fyrir dansi í vikunni. Þetta eru dásemdar stundir sem allir njóta.
26.04.2023
Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar kom í heimsókn í gær en hún er skipuð um 40 hljóðfæraleikurum á aldrinum 14 til 18 ára. Lék sveitin lög úr öllum áttum fyrir fullum hátíðasal.
21.04.2023
Stjórn Grundar hefur gengið frá ráðningu Karls Óttars Einarssonar í starf forstjóra Grundarheimilanna. Um leið var Gísli Páll Pálsson, fráfarandi forstjóri, ráðinn í hlutastarf sem stjórnarformaður Grundar frá sama tíma. Breytingarnar taka gildi þann 1. maí næstkomandi.
19.04.2023
Það er í nógu að snúast á Grundarheimilunum því auk hefðbundinna verka í eldhúsum heimilanna er verið að baka 800 pönnukökur sunnan heiða og 400 í Ási. Á morgun, sumardaginn fyrsta, verður síðan boðið upp á pönnukökurnar með kaffinu á Grund, Ási og í Mörk. Takið eftir að hún Rakel lætur sig ekki muna um að baka á fimm pönnum í einu.
02.04.2023
Ár hvert þegar peysufatadagurinn er haldinn hátíðlegur hjá Kvennaskólanum streyma til okkar á Grund prúðbúin ungmennin og gleðja heimilisfólk og starfsfólk með söng og gleði.
Takk fyrir heimsóknina, þið eruð skólanum ykkar til mikils sóma.
31.03.2023
Laugardaginn 11. mars var Söngsveitin 12 í takt með tónleika í hátíðasal Grundar. Tónleikarnir tókust vel og heimilisfólk söng með af innlifun. Þess má til gamans geta að einn úr sönghópnum, Magnús Halldórsson, er sonur Brandísar Steingrímsdóttur heimiliskonu á Grund.
07.03.2023
Mjög margar konur hafa verið í "saumaklúbbum" og stundum hafa hannyrðir verið uppi á borðum en oft líka talað um saumaklúbba án þess að nokkuð sé gert með höndum annað en lyfta bolla og öðrum veitingum að munni. Það er hinsvegar mikið skrafað um allt milli himins og jarðar. Og það er líka gert þegar boðið er í dömukaffi á Grund. Þá er spjallað og notið.
24.02.2023
Það var hattaball á Grund á öskudag. Eins og venjulega þegar Grundarbandið mætir var mikið fjör í hátíðarsalnum og rúsínan í pylsuendanum var svo að hafa dásemdar söngkonuna Hjördísi Geirs með í hópnum. Frábær stund.
23.02.2023
Á miðvikudögum er boðið upp á morgunstund í hátíðarsal Grundar. Í gær mætti söngkonan Ásta Kristín Pétursdóttir og gladdi okkur með söng. Eftir hádegi kom leikhópur Kvennaskólans í heimsókn, Fúría og söng lög úr sýningunni Ó Ásthildur sem þau eru að setja upp í mars. Takk kærlega fyrir komuna.