Fréttir

Lúsía og þernur hennar sungu jólalögin

Fyrir löngu var til siðs hér á Grund að fá í heimsókn lúsíu og þernur hennar á aðventunni. Þær gengu um húsið og sungu sænsk og íslensk jólalög með lifandi kertaljós í hendi og lúsían sjálf með kertakrans á höfði. Í ár var ákveðið að endurvekja þennan gamla sið. Lúsía og þernur hennar mættu og gengu um húsið og sungu jólalög undir stjórn Mariu Cederborg

Margir glöddu heimilisfólk á aðventu

Það komu ótrúlega margir gestir til okkar á Grund nú fyrir jólin, sungu jólalögin, léku á hljóðfæri, lásu og styttu fólkinu okkar stundir með ýmsum hætti. Þar á meðal var t.d. sönghópurinn Spectrum, félagar sem spila með lúðrasveitinni Svan, Grundarbandið, Skólahljómsveit Vestur,- og miðbæjar, börnin í Landakotsskóla, Laufáskórinn og ekki má gleyma Senu sem gaf öllum okkar heimilismönnum aðgang að jólagestum Björgvins. Við þökkum ykkur öllum af alhug. Þið glödduð heimilisfólkið okkar svo sannarlega. Takk kærlega.

Gleðileg jól

Gleðileg jól

Tjúttað við jólatóna

Grundarbandið kom nýlega til okkar og lék fyrir dansi. Það er alltaf gaman þegar þau gleðja okkur með dúndrandi stuði og notalegri nærveru. Heimilisfólk og starfsfólk hrífst með og svífur um hátíðarsalinn í ljúfum dansi.

Jólatónleikar á Grund

Jólakórinn undir stjórn Hildigunnar Einarsdóttur hélt tónleika í hátíðarsal Grundar í gær, laugardaginn 3. desember. Sungin voru jólalög fyrir fullum sal og í lokin voru gestir hvattir til að syngja með Heims um ból. Hátíðleg stund og Jólakórnum er innilega þakkað fyrir frábæra tónleika og að gefa sér tíma til að koma og gleðja fólkið okkar með þessum yndislegu jólatónum.

Íslandsbanki gaf Grund hjólastólagalla

Fyrir skömmu kom Ólöf Árnadóttir fulltrúi frá Íslandsbanka færandi hendi, þegar hún afhenti Grund Hlýtt úti hjólastólagalla að gjöf. Hjólastólagallinn er frumkvöðlaverkefni sem Íslandsbanki styður, en gallinn er hlýr og einfaldur í notkun, og gerir heimilisfólki kleift að njóta betur útivistar allan ársins hring. Við á Grund þökkum Íslandsbanka innilega fyrir þessa hugulsömu gjöf sem mun nýtast heimilisfólki vel í vetur. Gallann má nálgast hjá húsvaktinni.

Baka hátt í 400 pönnukökur

Til margra ára hefur það verið til siðs að kalla 1. desember rauðan dag á Grund. Heimilisfólk og starfsfólk skarta einhverju rauðu og þegar Raggi Bjarna var á lífi kom hann og söng fyrir fullum sal. Í dag er rauður dagur á öllum Grundarheimilunum þremur. Hér á Grund byrjaði dagurinn eldsnemma með því að þær Chutima og Palika bökuðu pönnukökur. Fyrst hrærði Chutima í deigið og svo eru þær stöllur núna í nokkrar klukkustundir að baka hátt í 400 pönnukökur á fjórum til fimm pönnum. Í hádeginu gæðir fólk sér á kjötsúpu og fær sér svo pönnuköku með kaffinu.

VÍS gaf Grund tónleika í afmælisgjöf

Hljómsveitin GÓSS mætti á Grund í gær og hélt hátíðatónleika, tók jólalög í bland við önnur falleg lög. Tónleikarnir eru gjöf frá VÍS til Grundar í tilefni 100 ára afmælis heimilisins sem var þann 29. október síðastliðinn. Hljómsveitina skipa Guðmundur Óskar Guðmundsson, Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðundsson

Tjúttað á Grund

Grundarbandið heldur uppi fjöri þessa stundina í hátíðasalnum og dásamlegt að sjá starfsfólk og heimilisfólk skella sér í sveiflu. Grundarbandið kemur til okkar reglulega og við erum afskaplega þakklát fyrir þessa einstaklinga sem mæta til okkar í sjálfboðavinnu til að gleðja heimilisfólk. Takk kærlega