Ljúfir tónar og heitt súkkulaði

Grund fagnar um þessar mundir 101 árs afmæli og býður jafnframt í foreldrakaffi sem hefur verið boðið í frá árinu 1925 með eintaka undantekningum. Það kom til þannig að Sveinn Jónsson í Völundi kom að máli við forsvarsmenn heimilisins og gaf í byggingarsjóð með þeim formerkjum að ávallt yrði haldið upp á brúðkaupsdag foreldra hans Guðrúnar Sveinsdóttur og Jóns Helgasonar frá Steinum. Við höfum heiðrað þetta samkomulag og sameinum það nú afmæliskaffinu og finnst þetta fallegur siður. Eftir ávarp Gísla Páls Pálssonar stjórnarformanns Grundarheimilanna í gær söng Sigríður Thorlacius við undirleik Guðmundar Óskars Guðmundssonar. Að endingu kom Grundarkórinn fram og söng nokkur lög. Í gær voru það heimilismenn í vesturhúsi Grundar sem mættu í fögnuðinn með sínu fólki og í dag eru það heimilismenn frá Litlu og MInni Grund sem mæta. Á mánudaginn næsta eru það heimilismenn í austurhúsi Grundar sem koma í afmælis- og foreldrakaffi. Boðið er m.a. upp á heitt súkkulaði og hnallþórur.