17.06.2023
Önnur orðuveiting ársins fór fram á Bessastöðum í dag, 17. júní. Fjórtán einstaklingar voru sæmdir fálkaorðunni að þessu sinni. Guðrún Birna Gísladóttir, fyrrverandi forstjóri Grundar, hlaut riddarakrossinn fyrir umönnun og þjónustu við aldraða.
16.06.2023
Starfsfólk eldhúss Grundarheimilanna, sem vinnur í Ás,i mætti í Mörk í morgun og aðstoðaði í eldhúsinu, m.a. stóð það í ströngu við bakstur. Á morgun 17. júní verður nefnilega boðið upp á rjómapönnukökur með kaffinu. Til að allir geti nú gætt sér á þessum þjóðlegu kræsingum, þurfti í morgun að baka 1.200 pönnukökur. Á þjóðhátíðardaginn verður svo boðið upp á hangikjöt með öllu tilheyrandi í hádeginu og ístertu í eftirmat.
15.06.2023
Nágrannar okkar í vesturbænum taka eftir því að það er mikið um að vera í miðjum suðurgarði Grundar. Heimilismenn og aðstandendur hafa heldur ekki komist hjá því að sjá og heyra í framkvæmdunum sem nú eiga sér þar stað.
Í garðinum á nú að rísa 100 fermetra kaffihús með skemmtilegu útisvæði, leiktækjum, göngustígum og fallegum gróðri.
Hlynur Rúnarsson sviðsstjóri fasteigna Grundarheimilanna segir að uppgreftri sé nú að verða lokið og verið að klára lagnaskurð fyrir þær lagnir sem koma til og frá húsinu. Næst á að slá upp sökklum fyrir stoðveggi í kringum svæðið sem skilur að leiksvæði, rampa og gangstétt.
Í næstu viku er áformað að moka ofan í sökklana og vinna í grunnlögnum. Kjartan Örn Júlíusson og Sigurlaug Bragadóttir hafa verið með myndavél á lofti í vinnunni og myndað framkvæmdirnar.
08.06.2023
Kórar Grundar og Markar komu saman og héldu vortónleika í hátíðasal Grundar nýverið. Það er frábært að sjá hvað heimilisfólkið nýtur þess að syngja saman í kór og lagavalið endurspeglaði sumarið sem framundan er. Starfsfólk og velunnarar skipa einnig kóra heimilanna og aðstandendur eru hjartanlega velkomnir. Eftir tónleikana var kórunum boðið í kaffisamsæti. Kristín Waage er kórstjóri Grundar og Markar kóranna.
22.05.2023
Við minnum á vormarkaðinn okkar sem verður opinn í dag, mánudaginn 22. maí. frá klukkan 11:00 til 15:00. Markaðurinn var opnaður fyrir helgi, síðasta föstudag og meðfylgjandi myndir voru teknar þá. Allur varningur er ókeypis en gott er að hafa með sér poka. Verið hjartanlega velkomin.
03.05.2023
Um tólf leikskólabörn af elstu deild á Sælukoti ætla að kíkja reglulega í heimsókn á Grund, spila, föndra, syngja og spjalla við heimilisfólkið. Þau komu í fyrsta sinn í síðustu viku og það er óhætt að segja að það hafi tekist með eindæmum vel. Það var ýmislegt brallað í hátíðasalnum þennan morgun, farið í boccia, vatnslitað, spjallað og svo var boðið upp á hressingu.
02.05.2023
Í dag, þriðjudaginn 2. maí, var fyrsta skóflustungan tekin að nýjum laufskála sem rísa á í suðurgarði Grundar við Hringbraut. Um er að ræða 100 fermetra kaffihús þar sem heimilismenn og aðrir gestir geta komið og keypt sér veitingar í notalegu umhverfi. Hægt verður að opna kaffihúsið út á sólríkum dögum og njóta veðurblíðu á útikaffihúsi. Þá verður einnig útbúin leikaðstaða fyrir börn.
Laufskálinn mun létta yfirbragð þessa fallega og reisulega húss sem Grund er og veita Vesturbæingum gleði en meiningin er að íbúar í hverfinu geti einnig nýtt sér þjónustu kaffihússins. Áformað er að taka kaffihúsið í notkun í kringum næstu áramót.
Skóflustunguna tóku frá vinstri Guðrún B. Gísladóttir fyrrverandi forstjóri Grundar til 25 ára, Sigmundur I. Júlíusson heimilismaður og Gísli Páll Pálsson stjórnarformaður Grundar.
28.04.2023
Það var að venju fjör í hátíðasal heimilisins þegar Grundarbandið mætti í heimsókn til að spila fyrir dansi í vikunni. Þetta eru dásemdar stundir sem allir njóta.