16.12.2022
Las fantagóða bók um daginn sem fóstursonur minn Bárður Jens lánaði mér. Við skiptumst dálítið á góðum bókum. Hún heitir „The Stoic Challange, a Philosopher´s guide to becoming tougher, calmer and more resilient.“ Fjallar í stuttu máli hvernig skynsamlegast er að bregðast við áföllum í lífinu. Stórum sem smáum. Höfundurinn, William B. Irvine, er prófessor í heimspeki í Wright háskólanum í Dayton Ohio. Hann hefur stúderað heimspekistefnu sem nefnist Stóustefnan. Sú stefna mótaðist í Aþenu undir lok 4. aldar fyrir Krist.
Ætla ekki út í smáatriði en eins og ég las og skildi bókina þá finnst mér hún vera að hluta til í það minnsta, nánari útfærsla á Æðruleysisbæninni. Hvernig maður tæklar þau áföll og aðstæður sem þeim fylgja dags daglega. Irvine skilgreinir áföllin sem próf Stóaguðanna sem okkur er falið að leysa. Hann tekur reyndar fram að Stóuguðirnir séu ekki til, frekar en aðrir guðir. Það mikilvægasta, til að leysa hvert próf með hæstu einkunn, er hvernig við bregðumst við áfallinu. Margir leita að sökudólgum, öðrum en sjálfum sér. Það sem kom fyrir er öðrum að kenna, ekki mér. Að tapa körfuboltaleik er dómaranum að kenna, ekki að liðið mitt hafi verið lélegra. Þekki þetta sem fyrrum körfuboltadómari.
Með því að líta á öll áföll, allar áskoranir sem verkefni eða próf, og leysa þau af bestu getu, með stóískri ró, líður okkur miklu betur en ella. Það að reiðast eða fara í fýlu ef á móti blæs er auðvitað tóm vitleysa. Auðvelt að segja, en erfiðara að framkvæma. Mér fannst ég þó vera heldur á þessari leið Stóumanna en ekki, áður en ég las bókina góðu. Og lífið verður ennþá skemmtilegra og auðveldara að lifa ef maður nálgast þessi lífsviðhorf og fer eftir þeim.
Eitt vakti sérstaka athygli mína við lestur bókarinnar en það er umfjöllun höfundar um sorgarviðbrögð. Elisabeth Kübler-Ross geðlæknir setti fram kenningu um fimm stig sorgar, afneitun, reiði, viðræðuferli, þunglyndi og sátt. Eflaust margar þýðingar og skilgreiningar til á þessum stigum en læt þessar duga. Stóaheimspekingarnir segja að maður eigi að fara beint í sáttina. Við getum ekkert breytt því að einhver okkur náinn er látinn, við eigum ekki að eyða tíma og orku í hin stigin fjögur. Finnst þetta vera dálítið útópískt og líklega fæstir sem fara beint þangað. En ætla engu að síður að velta þessu aðeins fyrir mér.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
09.12.2022
Í tilefni af aldarafmæli Grundar fengum við nokkrar fallegar gjafir. Blóm, myndir, veglega peningagjöf og ýmislegt fleira. Það sem stóð upp úr, þó maður eigi nú kannski ekki að gera upp á milli afmælisgjafa lærði ég reyndar sem ungur maður, voru tónleikar sem tryggingafélagið VÍS færði heimilismönnum Grundar.
Tengiliður okkar hjá VÍS hafði samband við mig nokkru fyrir afmælið og spurði hvað okkur finndist um að fá í afmælisgjöf tónleika fyrir heimilisfólk Grundar með góðu tónlistarfólki. Mér leist mjög vel á hugmyndina og enn glaðari varð ég þegar ég heyrði að það var hljómsveitin GÓSS sem spiluðu og sungu fyrir heimilisfólkið þriðjudaginn í síðustu viku. GÓSS skipa þau Guðmundur Óskar, Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson.
Fullur hátíðarsalur af heimilisfólki, aðstandendum og starfsmönnum nutu stundarinnar til fullnustu og það var mikið brosað og klappað. Fyrir hönd okkar allra á Grund þakka ég VÍS kærlega fyrir fallega, rausnarlega og nytsamlega gjöf.
Þá vil ég nota tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu kórum, tónlistarmönnum og hverjum öðrum þeim sem hafa gefið sér tíma og heimsótt Grundarheimilin með sína fallegu afþreyingu. Má þar meðal annars nefna nýleg dæmi eins og Jólakórinn, Laufáskórinn, skólahljómsveit Vesturbæjar, Lúðrasveitina Svan og svo mætti lengi telja. Við á Grundarheimilunum höfum notið menningar- og skemmtiframlags þúsunda í gegnum tíðina og vonandi heldur slíkt áfram um ókomna tíð.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
25.11.2022
Lokapunkturinn á vel heppnuðu aldarafmæli Grundar verður settur yfir i – ið næstkomandi sunnudagskvöld. Kl. 20.15 verður sýnd á RÚV heimildamynd um aðdragandann að stofnun Grundar og starf Grundarheimilanna í Reykjavík og Hveragerði í heila öld.
Stjórn Grundar ákvað snemma á síðasta ári að fá Jón Þór Hannesson til að gera framangreinda heimildamynd í tilefni af afmælinu og semja við RÚV um sýningu hennar. Afraksturinn kemur fyrir augu landsmanna strax á eftir Landanum og eflaust verða margir við viðtækin. Jón Þór er mikill reynslubolti í gerð heimildamynda og vann lengi hjá Saga film en hann var einn af stofnendum og starfsmönnum þess góða fyrirtækis.
Myndin byggir að hluta til á 100 ára sögu Grundar sem var gefin út í tilefni afmælisins en þar að auki eru viðtöl við fjölmarga einstaklinga, bæði sem vinna á Grund, búa á Grund eða tengjast Grund með ýmiskonar hætti.
Ég ákvað strax í upphafi að skipta mér ekkert af gerð myndarinnar og fela Jóni Þór alfarið að sjá um gerð hennar. Og er afar ánægður með þá ákvörðun mína og sé að hún var hárrétt. Maður er sjálfur líklega of nálægt þeirri daglegu starfsemi Grundarheimilanna til að geta áttað sig á samhengi hlutanna. Jóni Þór tókst að draga upp hlutlausa mynd af öldinni sem liðin er frá því að hugmyndin um stofnun og rekstur öldrunarheimilis kom upp hjá langafa mínum og fleiri góðum mönnum.
Ég hvet ykkur til að poppa, kæla gosið og setjast við sjónvarpsskjáinn næstkomandi sunnudagskvöld kl 20.15. Njótið.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
11.11.2022
Eins og hefur áður komið fram á þessum vettvangi gáfum við út 100 ára sögu Grundar í tilefni af aldarafmæli heimilisins nú í október síðastliðnum. Framúrskarandi vel rituð af þeim feðginum Guðmundi Óskari Ólafssyni (fyrstu 75 árin) og svo dóttur hans Guðbjörgu Guðmundsdóttur (síðustu 25 árin).
Bókin var prentuð í nokkur þúsund eintökum og strax ákveðið að gefa öllum heimilis- og starfsmönnum Grundarheimilanna eintak. Starfsmenn hafa sótt sér eintak á undanförnum dögum og stendur hún þeim endurgjaldslaus til boða í verslunum Grundarheimilanna til áramóta. Ég aftur á móti ákvað að færa öllum heimilismönnunum Grundarheimilanna þriggja bókina ásamt gamadags borðdagatali með myndum úr starfsemi Grundar á fyrri hluta og upp úr miðri síðustu öld. Sú gjafaferð hefur staðið yfir undanfarna daga og hefur gefið mér mikið. Ég er ekki spjalltýpan, að rölta um heimilin þrjú, setjast niður með heimilisfólki og taka það tali. Ég þarf að hafa „tilgang“ með spjallinu, ef þannig má að orði komast. Kannski finnst lesendum þetta skrýtið, en svona er ég bara. Mamma var, og er reyndar enn, þessi góða manneskja sem röltir um Grund og spjallar og tekur kaffibolla með heimilis- og starfsfólki. Sem er bara fínt.
Ég var því mjög ánægður með að hafa fengið tilefni til spjalls við heimilisfólkið við það að gefa þeim sögu Grundar. Margir voru afar þakklátir og skildu hreinlega ekki af hverju afmælisbarnið sjálft væri að gefa afmælisgjöf en þáðu bókina með miklum þökkum. Ýmislegt kom til tals. Meðal annars þökkuðu mjög margir fyrir aðbúnaðinn, starfsfólkið og öryggið sem þau upplifðu við það að búa á Grundarheimilunum. Það var notalegt að finna hversu mörgum líður mjög vel hjá okkur. Við erum sennilega að gera eitthvað rétt. Nokkrir spurðu hvort þau mættu taka í hendina á mér og þakka fyrir. Upplifði mig eitt augnablik eins og „fræga rokkstjörnu“, sem ég er alls ekki en fannst þetta nokkuð skondið. Ein heimiliskona bað mig um áritun, sem mér þótti mjög vænt um.
Ef aðstandendur eða einhverjir aðrir vilja eintak af bókinni þá er það sjálfsagt mál. Datt í hug að leggja til, að þeir sem myndu þiggja eintak, aðrir en heimilis- og starfsmenn Grundarheimilanna, myndu leggja eins og þrjú þúsund krónur inn á eitthvað það líknarfélag sem þeim hugnast. Eitthvað sem afi minn Gísli Sigurbjörnsson hefði líklega gert við tímamót sem þessi og ég er sennilega að stela hugmyndinni frá honum. Þannig að ef einhver vill eintak, sendið línu á mig eða grund@grund.is, bókin verður send til ykkar og þið ráðið þá hvert þrjúþúsundkallinn fer.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
04.11.2022
Í síðustu viku héldum við á Grundarheimilunum upp á 100 ára afmæli Grundar sem var þann 29. október. Með margskonar viðburðum í þeirri viku en auk þess höfðum við til dæmis boðið heimilismönnum upp á tónleika með Guðrúnu Gunnars, Jögvan Hansen og Siggu Beinteins og gefið öllum starfsmönnum heimilanna þriggja vandaða flíspeysu frá 66° norður. Þá erum við þessa dagana að færa öllum heimilis- og starfsmönnum Grundarheimilanna 100 ára sögu heimilisins sem Guðbjörg Guðmundsdóttir starfsmaður á skrifstofu ritaði.
Í sjálfri afmælisvikunni voru haldin kaffisamsæti með heimilisfólkinu sem bauð aðstandenda með sér í boðið. Reyndar boðið upp á heitt súkkulaði, ekki kaffi. Og dýrindis bakkelsi með rjóma og tilheyrandi. Ég náði að flytja stutt ávarp í öllum boðunum, alls 18 sinnum. Þetta voru skemmtilegar og hátíðlegar samkomur. Allir brosandi, ánægðir og þakklátir fyrir að við skyldum halda upp á afmælið með þessum hætti.
Á sjálfan afmælisdaginn, síðastliðinn laugardag, var boð á Grund fyrir boðsgesti. Afar vel heppnað, góð mæting, fínar og mátulega langar ræður og góður andi meðal gestanna. Fengum góðar gjafir, styttu, málverk, umtalsverða peningagjöf, söngskemmtun fyrir heimilismenn og blómvendi. Og um kvöldið var svo öllum starfsmönnum boðið til glæsilegrar árshátíðar og mættu tæplega 600 manns. Það var svo gaman að sjá og upplifa gleði, þakklæti og stuð í mannskapnum.
Með pistli þessum vil ég þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessu stórkostlega afmæli okkar, bæði með vönduðum undirbúningi sínum og ekki síður þeim sem heimsóttu okkur í kaffiboðin, laugardagsboðið og djömmuðu með okkur á árshátíðinni. Einnig hjartans þakkir fyrir allar góðar gjafir og hlý orð í okkar garð, sem hafa verið fjölmörg undanfarið, bæði í tölvupósti, símtölum, við hitting og í raun við hvaða tækifæri sem gafst.
Ég hefði aldrei trúað því að þetta yrði svona skemmtileg og fjölbreytt afmælisvika. Vissulega búið að undirbúa hana vel en ég var ekki alveg rólegur vikuna þar á undan. Óþarfa áhyggjur og svefnleysi til dæmis vegna þess að ég hélt kannski að við kæmumst ekki öll fyrir í hátíðarsalnum í boðinu á laugardeginum. Sá þann dag að það var þvílík þvæla í mér.
Takk fyrir okkur 😊
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
28.10.2022
Á morgun laugardaginn 29. október á Grund 100 ára afmæli. Upphafið má rekja til líknarfélagsins Samverjans sem Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason langafi minn hafði forgöngu um ásamt fleiri góðum mönnum. Félagið hélt skemmtisamkomur og safnaði þannig fé auk þess að fá gjafafé frá Reykvíkingum.
Býlið Grund við Sauðagerðistún var keypt og tekið í notkun þann 29. október árið 1922. Grund við Hringbraut var síðan byggð og tekin í notkun í september 1930. Haraldur Sigurðsson ráðsmaður Grundar féll frá haustið 1934 eftir skammvinn veikindi og í hans stað var ráðinn tímabundið afi minn Gísli Sigurbjörnsson til að stýra Grund. Það gerði hann í 60 ár en hann féll frá í janúar 1994. Mjög löng tímabundin ráðning. Móðir mín Guðrún Birna tók við Grund og var forstjóri heimilisins í 25 ár eða til 1. júlí 2019.
Grund var lengi eina hjúkrunarheimili landsins og leiðandi í slíkri þjónustu um áratugaskeið. Afi heitinn byggði Grund upp, stofnaði til elliheimilisrekstrar í Hveragerði árið 1952 í samstarfi við Árnesinga og byggði við og bætti þar í bæ auk þess að auka verulega við húsakost við Hringbrautina.
Grundarheimilin í dag eru þrjú, Grund, Ás og Mörk. Starfsemi í Mörkinni hófst árið 2010 þegar við tókum að okkur rekstur 113 rúma hjúkrunarheimilis við Suðurlandsbraut 66 auk þess að kaupa af Landsbankanum 78 íbúðir og leigja þær út til 60 ára og eldri. Sú starfsemi stækkaði verulega að umfangi árið 2018 þegar við byggðum 74 slíkar íbúðir til viðbótar þeim sem fyrir eru.
Á Grund stendur til að halda áfram breytingum herbergja þannig að allir heimilismenn eigi kost á eins manns herbergi með sér baðherbergi. Þá stendur til að byggja kaffihús í suðurgarði Grundar þar sem gengið verður út frá núverandi matsal starfsmanna. Hægt verður að ganga út úr kaffihúsinu út í garð þar sem verða bekkir, runnar, blóm og tré og hægt að eiga þar notalega stund með kaffi og kleinu eða léttvínsglas.
Framtíð Grundarheimilanna er björt. Það er góður bisniss að sinna öldrunarþjónustu hér á landi. Aldurssamsetning þjóðarinnar er með þeim hætti að við okkur blasa óþrjótandi tækifæri til að veita margskonar öldrunarþjónustu, jafnt á vegum hins opinbera sem og á einkamarkaði.
Ég óska okkur öllum innilega til hamingju með árin eitt hundrað.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
21.10.2022
Grundarheimilin vilja stuðla að bættri heilsu starfsmanna með greiðsluþátttöku í heilsurækt og hreyfingu þeirra. Grundarheimilin greiða öllum starfsmönnum heilsustyrk eftir ákveðnum reglum þar sem hverjum starfsmanni býðst styrkur upp á 20.000 krónur á ári. Til að fá þennan styrk þurfa starfsmenn að skila inn kvittun vegna aðgangs að líkamsrækt, sundlaug eða einhverri annarri heilsueflandi hreyfingu. Þessum kvittunum þarf að skila til launafulltrúa á netfangið laun@grund.is. Einnig er hægt að hafa samband við mannauðsdeildina á mannaudur@grund.is ef einhverjar spurningar vakna.
Styrkurinn er fyrst veittur eftir sex mánuði í starfi og er veittur í samræmi við starfshlutfall. Styrkinn er einnig hægt að nýta til að greiða fyrir sálfræðiþjónustu og hafa nokkrir starfsmenn þegar nýtt sér þennan nýja möguleika, sem er vel. Starfsmönnum sem alla jafna notast við almenningssamgöngur til og frá vinnu býðst að láta styrkinn ganga upp í strætókort.
Ég hvet alla starfsmenn Grundarheimilanna til að nýta sér þennan styrk og sækja árlega þessar 20 þúsund krónur sem bíða. Langflestir stunda einhverskonar hreyfingu sem kostar peninga og þetta er kjörin leið til að minnka þann kostnað.
Hreyfum okkur, styrkjum heilsuna og látum okkur líða vel.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
14.10.2022
Nýlega fengum við á Grundarheimilunum mjög svo síðbúin svör frá stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra um styrk sjóðins til ýmissa brýnna framkvæmda á heimilunum þremur. Oft hafa svörin komið í seinna fallinu en aldrei eins og nú. Þetta eru framkvæmdir yfirstandandi árs sem við fáum svo sein svör við. Skýring; það var skipuð ný stjórn í byrjun árs vegna ráðherraskipta og sú stjórn var ekkert mikið að funda. Hvers vegna veit ég ekki og skiptir engu máli. Aðalatriði er að svörin eru komin hús og 13 af 14 voru jákvæð.
Þar ber hæst að nefna tvö verkefni. Breyting á hluta af annarri hæð í austurhúsinu á Grund á þá leið að þar verða til fimm einbýli með baðherbergi í stað núverandi sex rýma sem ekki eru með sér baðherbergi. Þetta næst með því að taka norðurhluta borðstofunnar á annarri hæðinni og koma þar fyrir tveimur eins manns herbergjum, hvort með sitt baðherbergið. Þetta eru hænuskref í rétta átt, það er að það verði hægt að bjóða ÖLLUM heimilismönnum Grundar, og Grundarheimilanna reyndar allra, einbýli með sér baðherbergi. Forsenda fyrir því að ljúka þessum breytingum á næstu árum er að ríkið greiði sanngjarna húsaleigu fyrir það húsnæði sem Grundarheimilin við Hringbraut og í Hveragerði útvega ríkinu til reksturs hjúkrunarheimila, lögbundinnar þjónustu sem ríkið ber ábyrgð á. Meira um húsaleiguna síðar.
Hitt stóra verkefnið, sem er alveg risastórt, er bygging veitingaskála í suðurgarði Grundar, í u-inu. Þangað verður innangengt úr núverandi matsal starfsmanna á jarðhæð. Skálinn verður í vesturhluta garðsins með útisvæði austan megin, setbekki, leiktæki, gróður og fallegt umhverfi. Þar verður hægt að kaupa sér eitthvað létt í hádeginu, kaffiveitingar og svo bjór eða léttvínsglas seinni part dags. Þessi aðstaða verður fyrsta flokks og tilvalið fyrir heimilismenn að bjóða aðstandendum sínum upp á kaffi og kruðerí eða einn ískaldan öl. Þessar framkvæmdir fara af stað næsta vor og lýkur vonandi seinni hluta næsta árs.
Fyrir hönd Grundarheimilanna þakka ég stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra og heilbrigðisráðherra kærlega fyrir framlögin góðu til að bæta aðstöðu heimilismanna okkar. Þessi ákvörðun um framlögin er þeim til mikils sóma.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
10.06.2022
Þarsíðasti föstudagspistill minn fjallaði langt í frá um málefni Grundarheimilanna heldur úrslit sveitarstjórnarkosninganna í Hveragerði. Sem auðvitað er hápólitískt mál í orðsins fyllstu merkingu. Efnið fór greinilega fyrir brjóstið á einhverjum viðtakandanum og sá hinn sami hafði sambandið við Fréttablaðið, kvartaði þar yfir að pistlarnir mínir væru stundum einhverjum viðtakenda þungbær lesning og úr varð talsverð frétt sem auðvitað hefur vakið athygli í nærsamfélagi mínu.
Ég hef í gegnum þessa 360 pistla sem ég hef samið og sent vikulega síðustu níu árin, fengið ýmiskonar viðbrögð. Oftast ánægjuleg, sem er gott, eða a.m.k. skoðanaskipti sem mér finnst oft jafnvel enn betra. Einstaka kvartanir um efnistök hafa einnig borist mér í gegnum tíðina og auðvitað þykir mér það miður. Ég hef svarað slíkum athugasemdum eftir bestu getu en stundum hef ég í kjölfarið tekið viðkomandi af viðtakendalistanum svo honum berist ekki fleiri póstar sem mögulega valda óþægindum.
Sjálfur fæ ég í innhólfið mitt á hverjum degi allskonar tölvupósta. Misáhugaverða. Þegar ég sé að efnið á ekki erindi til mín ýti ég á delete takkann og pósturinn fer beina leið í ruslið. Ég les aldrei pósta sem ég hef ekki áhuga á og ennþá síður ef efni þeirra veldur mér ónotum. Fékk símtal frá góðum vini mínum og guðsmanni um daginn, í framhaldi af umfjöllun Fréttablaðsins, og hann sagðist nú bara slökkva til dæmis á sjónvarpinu ef það væri eitthvað í því sem honum líkaði ekki. Eða skipti bara um stöð - sem sagt ekki flókið í hans huga.
Mér sýndist ég geta lesið úr fréttinni að sumir íbúar Grundarheimilanna eða aðstandendur þeirra vildu gjarnan lesa og fylgjast með pistlum sem tengjast rekstri Grundarheimilanna en helst ekki neitt annað, til dæmis ekkert persónulegt frá mér. Sem ég virði. Þess vegna mun ég héðan í frá tilgreina efni póstanna í „subject“ línu þeirra þannig að vel sjáist hvort þeir fjalla um „innanhússmál“ eða eitthvað allt annað. Þannig geta þeir sem það vilja forðast að kíkja á innihaldið, þ.e. pistilinn sjálfan, ef hann snýst um óskyld mál. Þeim hinum sömu er þannig auðveldað að henda ritsmíðinni óskoðaðri beint út í hafsauga. Líka er sjálfsagt, og raunar bara vel þegið, ef fólk vill senda mér beiðni um að taka sig af póstlista pistlanna. Sjálfur mun ég hins vegar halda mínu striki með áframhaldandi skrif, bæði um málefni Grundarheimilanna og einnig á persónulegum nótum ef andinn blæs mér þeim í brjóst, enda eru pistlarnir fyrir löngu orðnir stór partur af minni rútínu. Ég mun hins vegar reyna að halda mig á mottunni og ganga hægt og varlega um þessar gleðinnar dyr.
Svo lengi lærir sem lifir 😊
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
07.06.2022
Þessa dagana er sól hvað hæst á lofti og nær hámarki eftir þrjár vikur. Einnig hefur verið þokkalega hlýtt undanfarna daga. Mikilli sól og hlýindum utandyra fylgja oftast nær mikill hiti og birta innandyra. Auðvitað aðeins háð húsnæði, gluggum og þess háttar. Orkunotkun á þessum tíma er meiri en okkur grunar. Þetta benti stjórnarformaður Grundar mér réttilega á fyrir all nokkrum árum. Við hugsum ekki mikið út í orkusóun í góðviðri. Á köldum vetrardögum pössum við upp á að vera með flesta glugga lokaða og að hafa hurðir ekki opnar út að óþörfu.
En á sumrin vilja þessir hlutir gleymast. Okkur finnst heitt í herberginu og opnum gluggann til að laga málið. En gleymum ef til vill að skoða hvort ofninn sé stilltur á fjóra eða fimm. Og um leið og við hleypum kaldara lofti inn í herbergið skynjar ofninn það og hitinn hækkar. Augljós sóun eins og hún gerist best - eða reyndar verst. Þetta finnst mér miður. Og svo ægilega tilgangslaust að hita upp herbergi bara til að hleypa hitanum út, bruðla með orku og kasta peningum, nánast bókstaflega, út um gluggann.
Svipað gildir um ljósin. Við erum vanaföst og líklega kveikjum við oft á tíðum ljósin frekar af vana en þörf. Maður tekur stundum ekkert eftir því hvort það er kveikt eða slökkt á björtum sumardegi og þá erum við enn og aftur að sóa orku og fjármunum með óþarfa lýsingu.
Mér þætti vænt um ef við tækjum okkur saman um að minnka orkusóun Grundarheimilanna, jafnt nú í sumar sem til lengri framtíðar. Með því spörum við í senn takmarkaða orku heimsins og talsverða fjármuni í rekstri heimilanna. Byrjum á því að athuga hvort lækka megi í ofninum áður en við opnum gluggann. Áður en við kveikjum ljósin væri gott að við sannfærðum okkur um að það sé nauðsynlegt. Saman getum við áorkað heilmiklu í sparnaði fyrir umhverfi okkar og budduna.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna