12.03.2021
Framkvæmdir Grundarheimilanna hafa gengið vel í vetur. Lokið er byggingu á nýjum matsal í Ási og breytingar á eldri matsal og eldhúsi eru mjög langt á veg komnar. Hönnun og smíði matsalarins hefur tekist með miklum ágætum. Salurinn er bjartur og rúmgóður auk þess sem hljóðvist er til mikillar fyrirmyndar. Þar er hægt að sitja og borða, spjalla við vinnufélaga og hlusta á fréttir án þess að nokkuð trufli. Óvenjulega góðar aðstæður. Og útsýnið út í garð til suðurs er dásamlegt, stórir gluggar og mikil birta.
Á Grund eru breytingar á A2 á lokametrunum og verður vonandi hægt að taka eininguna í notkun á næstu dögum. Til eru orðin sex eins manns herbergi, hvert með sér baðherbergi í stað þeirra 10 herbergja sem áður voru á ganginum. Og þá voru engin einkabaðherbergi. Þetta er nútíminn og framtíðin. Óljóst er hversu hratt bráðnauðsynlegar breytingar sem þessar eru mögulegar á Grund og í Ási og liggur það fyrst og fremst í miklum kostnaði. Þvergirðingur ríkisins að greiða okkur sanngjarna húsaleigu fyrir þessa 14 þúsund fermetra sem við leggjum til öldrunar- og hjúkrunarþjónustu, að hluta til án þess að fá greiddan sannanlegan kostnað við rekstur húsnæðisins, kemur í veg fyrir að við getum breytt húsnæðinu með þeim hætti og á þann hraða sem við kjósum helst. Það segir sig sjálft að þetta fyrirkomulag gengur ekki til lengdar.
Nú er verið að undirbúa breytingar á inngöngum á Grund og Litlu Grund ásamt því að merkja húsin. Einnig verður komið fyrir sorpskýli þar sem núverandi ljóti ruslagámurinn stendur í dag. Reikna með að þessum framkvæmdum verði lokið fyrir sumarið. Þá á eingöngu eftir að skipta um um það bil 30 glugga á Grund við Hringbraut af þeim verkefnum sem við fengum styrk til árið 2020 úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Það er mjög stórt verkefni sem hefur verið unnið að nær árlega í all mörg ár. Þrátt fyrir það eru nokkur ár í að því verki ljúki. Það eru margir gluggar á Grund. Allir þessir gluggar eru smíðaðir á trésmíðaverkstæði okkar í Ási í Hveragerði af okkar flinku smiðum og svo settir í af verktaka.
Allar þessar framkvæmdir gera líf heimilis- og starfsmanna Grundarheimilanna léttara og betra. En það er mikið eftir þannig að ég kvíði ekki verkefnaleysi næstu árin.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
09.03.2021
Nýlega auglýsti fjármálaráðuneytið eftir að leigja húsnæði fyrir skattinn. Um yrði að ræða 30 ára leigusamning og að greidd verði full leiga, eðlilega, sem myndi dekka byggingar- og viðhaldskostnað, vaxtakostnað af lánsfé og annan þann kostnað sem eðlilegt getur talist að greiða fyrir afnot af húsnæði, í siðuðu samfélagi. Áætlaðar leigugreiðslur nema um það bil 36 milljónum króna á mánuði eða samtals um 13 milljörðum króna á 30 ára tímabili. Líklega ekkert óeðlilegt endurgjald fyrir svo umfangsmikla starfsemi, safnast þegar saman kemur.
Á sama tíma neitar ríkið að greiða eðlilega húsaleigu fyrir húsnæði það sem notað er fyrir okkar viðkvæmasta aldurshóp, þá sem dvelja á hjúkrunarheimilum landsins. Þó ekki alveg, til dæmis fær Sóltún greidda fulla húsaleigu fyrir það húsnæði sem félagið leggur til starfseminnar, sem er til mikillar fyrirmyndar. Vel gert Sóltún. En greinilega ekki til nægjanlega mikillar fyrirmyndar, því ríkið gerir upp á milli heimilanna. Grund og Ás leggja ríkinu til um það bil 14 þúsund fermetra húsnæði fyrir tæplega 300 manns sem dvelja þar í hjúkrunarrýmum. Ríkið greiðir hluta þess húsnæðiskostnaður sem til fellur við rekstur heimilanna, en alls ekki fyrir fjármagns/fjármögnunarhluta bygginganna. Sem er um það bil tveir þriðju hlutar alls húsnæðiskostnaðarins. Þessar fjárhæðir nema nokkur hundruð milljónum króna árlega sem yrðu, hver einasta króna, nýttar til endurbóta og eftir atvikum byggingu nýrra hjúkrunarrýma, enda veitir ekki af, mörg hundruð manns á biðlista eftir hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu þessi misserin.
En nei, meira að segja Hæstiréttur Íslands er sammála þessari afstöðu ríkisvaldsins og hefur dæmt ríkinu í vil, þannig að það fari nú ekki óþarflega margar krónur frá ríki til þeirra sem hafa sinnt öldrunarþjónustu hér á land í rétt tæp 100 ár. Fer ekki út í röksemdir dómsins en samanburður við aðra sem fá greidda húsaleigu, til dæmis Sóltún og þá sem byggja fyrir skattinn, finnst mér einhvern veginn á þá leið að þetta gengur ekki upp.
Það er ekki sama hvort verið að byggja húsnæði fyrir peninga, eða fólk sem þarf umönnun og aðstoð í lok lífs. Kannski finnst heilbrigðisráðherra og Sjúkratryggingum Íslands þetta vera bara alveg eðlilegt. Og fjármálaráðherra. Ásamt Hæstarétti Íslands. Ekki mér.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
19.02.2021
Á dögunum auglýstu Sjúkratryggingar Íslands eftir áhugasömum aðilum til að reka fimm hjúkrunarheimili. Hlíð og Lögmannshlíð á Akureyri, Uppsali á Fáskrúðsfirði, Hulduhlíð á Eskifirði og Hraunbúðir í Vestmannaeyjum. Þessi heimili eiga það sameiginlegt að sveitarstjórnirnar sem hafa staðið að rekstri þeirra hafa gefist upp. Gefist upp á endalausum taprekstri undanfarinna ára og hafa ákveðið að hætta að greiða með rekstri þeirra. Enda er rekstur hjúkrunarheimila á ábyrgð ríkisins samkvæmt lögum, ekki sveitarfélaga.
Nú er það svo að rekstur nær allra hjúkrunarheimila landsins hefur verið erfiður undanfarin ár og ekki bætti covid 19 úr skák. Aukinn kostnaður vegna faraldursins og minnkaðar tekjur sumra hjúkrunarheimila hefur gert vonda stöðu enn verri. Staða sveitarfélagaheimilanna, ef þannig má að orði komast, er enn verri en þeirra sem eru rekin sem sjálfseignarstofnanir, þar sem launakostnaður þeirra er hærri að meðaltali en sjálfseignarstofnananna.
Í auglýsingunni segir: „Æskilegt er að rekstraraðilar séu reknir á grundvelli fyrirkomulags um sjálfseignarstofnanir eða þar sem hagnaður er endurfjárfestur í þágu starfseminnar.“ Göfugt og skynsamlegt markmið. En ekki líklegt að á þetta reyni. Samanlagður hallarekstur þessara heimila undanfarin þrjú ár nemur rúmlega 1.450 milljónum króna. Tæpum einum og hálfum milljarði. Það er talsvert í að þau komi til með að skila hagnaði, held barasta alveg sama hver rekstraraðilinn verður. Stjórnendur SÍ ættu því að geta sofið rólegir þó að það komi að þessu einhver aðili sem uppfyllir ekki framangreint markmið. Áhyggjur af því að væntur hagnaður fari út úr rekstrinum eru að mínu mati óþarfar.
Áhugavert verður að fylgjast með rekstri Skjólgarðs, hjúkrunarheimilinu á Höfn í Hornafirði en sveitarfélagið hefur ákveðið að skila rekstri þess einnig til ríkisins. Forstjóri SÍ tilkynnti á dögunum að búið væri að semja um rekstur þess við ótilgreindan aðila, sem er reyndar ekki einkaaðili, heldur ríkisheimili sem SÍ fékk til verkefnisins. Ég hef áður bent á að Skjólgarður greiðir húsaleigu í beinhörðum peningum til Ríkiseigna vegna þess húsnæðis sem hjúkrunarheimilið er rekið í. Engar tekjur koma frá SÍ til greiðslna þeirra tæpu 20 milljóna sem renna þannig út úr rekstri Skjólgarðs til Ríkiseigna. Geri frekar ráð fyrir því að nýr rekstraraðili komi til með að þurfa að greiða þessar húsaleigugreiðslur áfram til Ríkiseigna. Og fái þá til þess auknar tekjur frá SÍ til þeirra greiðslna, nú eða samið verði um að hætta þeim greiðslum. Að halda áfram óbreyttum húsaleigugreiðslum án aukinna tekna er líklega ávísun á áframhaldandi taprekstur. Hvaða leið sem verður farin í þessum húsaleigumálum Skjólgarðs, þá mun ég fylgjast með af áhuga og sýnist að það stefni í einhvers konar nýjungar og stefnubreytingar hjá ríkinu í þeim efnum.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
12.02.2021
Þessa dagana er að hefjast bólusetning allra starfsmanna Grundarheimilanna. Ánægjulegt í alla staði og ber að þakka fyrir af heilum hug. Bóluefnið mun hafa fulla virkni þegar seinni sprautan er gefin í maí mánuði en virknin er eftir fyrstu sprautu engu að síður um það bil 70%. Þessi bólusetningarhrina innifelur í sér eins og áður segir, alla starfsmenn heimilanna þriggja sem eru fæddir frá 1957 – 2002. Eldri en 65 ára fá annað bóluefni síðar og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins áttaði sig ekki á því að yngri en fæddir 2002 væru í vinnu hjá okkur, og þeir fá því heldur ekki boð um bólusetningu. Það verður vonandi fljótlega.
Við stjórnendur Grundarheimilanna mælum eindregið með því að allir fari í bólusetningu og hjálpist þannig að við útrýmingu veirunnar í okkar góða samfélagi. Ef einhver getur ekki eða kýs að fara ekki í bólusetningu (enginn skyldaður í það) þá er viðkomandi beðinn um að nota andlitsgrímu þangað til að faraldurinn verður yfirstaðinn, sem verður vonandi í byrjun næsta vetrar, ef til vill síðar.
Ef einhver starfsmaður efast um að hann megi, þá oftast vegna einhverra heilsutengdra mála, fara í bólusetningu þá er eðlilegast að ræða það við starfsmenn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, þau vita allt um málið. Það gæti misskilist ef ég, allsendis ómenntaður maðurinn í heilbrigðisfræðum, færi að úttala mig um það allt saman.
Ítreka þakkir mínar til þeirra sem stjórna þessum málaflokki og aðgerðum þeirra við útvegun á bóluefni sem mér sýnist geta leitt til þess að sumarið verði okkur barasta nokkuð hagstætt.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
05.02.2021
Næst mikilvægasta fjáröflun björgunarsveita og slysavarnarfélaga landsins fer fram í dag og um helgina. Neyðarkallasalan. Hún hefur hingað til verið fyrstu helgina í nóvember en vegna covid 19 var henni frestað fram í febrúar. Við seldum þó stóra kallinn til fyrirtækja í nóvember sl., enda krefst sú sala ekki nálægðar og því smithætta afar lítil. Sú sala gekk vel og vonandi verður okkur vel tekið nú um helgina.
Flugeldasalan um síðastliðin áramót gekk einnig vel en líkur eru á því að á næstu árum muni eitthvað draga úr henni. Skiljanleg umhverfissjónarmið skýra það. Það er því áskorun til okkar í björgunarsveitunum og vonandi kemur ríkisvaldið að því með opnum hug, að finna aðrar leiðir til að standa undir því mikilvæga starfi sem björgunarsveitir landsins sinna ár hvert.
Við í Hveragerði förum í um það bil 50 útköll á ári, eitt á viku. Sækja slasaða ferðamenn upp í Reykjadal, loka Hellisheiðinni og stundum að bjarga fólki af heiðinni, leitum að týndum einstaklingum og margt fleira. Í sveitinni okkar er góður kjarni af áhugasömu og duglegu fólki sem er tilbúið að stökkva til um leið og neyðarkallið kemur. Í sjálfboðnu starfi þar sem enginn fær greitt fyrir þátttöku. Tel að þetta myndi kosta samfélagið (ríki og sveitafélög) ansi marga milljarða króna á ári ef ekki kæmi til þessi góði áhugi þessara einstaklinga.
Ég verð sjálfur í verslunarmiðstöðinni (mollinu okkar) í Hveragerði í dag eftir hádegið og nýt aðstoðar okkar góða bæjarstjóra, Aldísar, sem hefur lagt okkur gott lið í þessu mikilvæga verkefni. Sjáumst kannski þar. Ef einhvern vantar Neyðarkall, get ég auðvitað líka póstlagt þá til viðkomandi gegn millifærslu 😊
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna og
gjaldkeri Hjálparsveitar skáta í Hveragerði
22.01.2021
Í vikunni lauk bólusetningu heimilismanna Grundarheimilanna. Til að vörn sé til staðar þurfa að líða um það bil 10 dagar frá seinni bólusetningu, þannig að eftir næstu viku, væntanlega frá og með mánudeginum 1. febrúar verður hægt að minnka þær takmarkanir sem hafa verið á heimsóknum aðstandenda til heimilismanna. Þær breytingar verða kynntar rækilega í lok næstu viku. Ekki verður hægt að hafa allt eins og áður var, því eftir er að bólusetja starfsfólkið. Vonandi verður það gert í apríl eða maí mánuði og þannig fáum við eðlilegt líf á heimilin okkar þrjú í byrjun sumars.
Við sem rekum hjúkrunarheimili hér á landi höfum í gegnum covid 19 öldusjóinn notið öruggrar forystu þríeykisins góða og starfsmanna þeirra embætta sem þau veita forstöðu og fyrir það ber að þakka með bros á vör. Einnig ber að þakka kærlega fyrir þær bólusetningar sem þegar hafa átt sér stað auk þeirra sem væntanlegar eru út árið. Fumlaus og markviss vinnubrögð heilbrigðisráðherra í nánu samstarfi við Evrópusambandið hefur tryggt okkur yfir milljón skammta af bóluefninu góða, sem dugar til að bólusetja vel rúmlega þjóðina alla. Og sýnist að það verði komið þokkalegt ástand í þjóðfélaginu næsta haust, miðað við fréttir af afhendingu bóluefnisins, sem breytast reyndar dálítið eins og íslenska veðrið. Kannski verður búið að bólusetja meirihluta þjóðarinnar fyrr. Vonandi.
Talandi um Evrópusambandið, þá las ég það í fréttum um daginn að allar þær þjóðir sem ættu aðild að því innkaupafyrirkomulagi sem hjá þeim/okkur gildir, mættu ekki reyna að útvega sér bóluefni fram hjá því samkomulagi. Svo sér maður einnig í fréttum að Þjóðverjar, sem ku vera nokkuð stór þjóð innan Evrópusambandsins og dulítið í forystu þess, hafi engu að síður gert slíka framhjásamninga og tryggt sér bóluefni umfram það sem Evrópusambandið var búið að semja um. Hvurslags græðgi er þetta eiginlega. Svei þeim.
Ég horfi bjartsýnn fram á veginn og vorið og vona að við komum til með að eiga saman ánægjulegt sumar, líklegast með litlum sem engum takmörkunum á heimsóknir til heimilismanna heimilanna okkar þriggja. Það verður nú munur 😊
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
15.01.2021
Í dag verður tekið fyrir í Hæstarétti málshöfðun Gundarheimilanna og Hrafnistu gegn ríkinu til greiðslu húsaleigu. Við höfum þegar tapað málinu í héraðsdómi og fyrir Landsrétti en Hæstiréttur féllst á að taka málið fyrir. Sem er í sjálfu sér gott fyrsta skref í að við vonandi höfum sigur að lokum. Ég er þó mátulega bjartsýnn.
Málið snýst um að fyrir húsnæði Grundar og Áss sem er nýtt undir öldrunarþjónustu hefur ríkið neitað að greiða húsaleigu, um það bil 15.000 fermetrar. Í rúmlega 15 ár höfum við reynt að fá ríkið til að greiða sanngjarna leigu án árangurs. Það var því árið 2016 sem við ákváðum að höfða mál á hendur ríkinu, sem eins og áður segir við höfum tapað í tvígang. Fer ekki djúpt í röksemd fyrir þeim dómum en má til með að nefna eina röksemd; að þar sem að við á Grund höfum fengið gjafafé og Hrafnista haft arð af happadrætti, þá sé það í raun í lagi að nýta húsnæðið (allan sólarhringinn, allan ársins hring) af hálfu ríkisins án leigugreiðslna. Það væri svona svipað og ef einhver einstaklingur út í bæ fengi hús í arf frá foreldrum sínum, að þá gæti ríkið nýtt húsnæðið til almannaþjónustu af því að hann hefði ekki þurft að borga fyrir það.
Á sama tíma og ríkið neitar að greiða húsaleigu þá rukkar það einstaka sveitarfélög fyrir afnot þeirra af húsnæði í eigu ríkisins sem sveitarfélagið notar til að veita öldrunarþjónustu. Öldrunarþjónustu sem ríkisvaldið hefur sett lög um að það (ríkisvaldið) skuli veita. Það húsnæði höfum við öll í sameiningu greitt fyrir með sköttunum okkar. Hef á tilfinningunni að jafnræði aðila sé ekki að fullu virt.
Þar sem við höfum þegar tapað málinu tvisvar finnst mér líklegra en ekki að við töpum í þriðja skiptið. En maður veit aldrei. Fari svo ólíklega að við vinnum, þá munu Grundarheimilin hafa úr talsverðu fjármagni að moða við endurbætur húsnæðisins við Hringbrautina og í Hveragerði. Fari aftur svo að við töpum málinu endanlega, þurfum við líklega að endurskoða not húsnæðisins. Það gengur ekki til lengdar að fá ekki greidda húsaleigu til að halda húsnæðinu við og endurbæta það eftir því sem kröfur nútímans segja til um.
Krosslegg fingur.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
08.01.2021
Gleðilegt nýtt ár !!
Síðasti pistill minn um að vera í vinnunni, ekki símanum, vakti nokkur viðbrögð. Blendin. Sem er ánægjulegt.
Nokkrir voru umræðunni fegnir og tóku heils hugar undir ábendingar þess efnis um nauðsyn þess að taka á málinu. Aðrir voru ósáttir við mínar hugleiðingar og að ég ætti nú barasta ekki að vera með þær á þessum vettvangi. Hvoru tveggja gagnlegar og skemmtilegar ábendingar sem ég fagna og tek til skoðunar ásamt mínu samstarfsfólki.
Ég er svo feginn að við erum ekki öll sammála og þegar ég fæ frá lesendum pistlanna rökstuddar hugleiðingar í framhaldi af pistlasendingunum, verður oft eitthvað gott til úr því. Það væri lítið gagn af skrifum mínum ef ég fengi aldrei viðbrögð og ef allir væru sammála mér. Skiptar skoðanir eru okkur öllum mjög mikilvægar. Dettur í hug ummæli Víðis (hins eina sanna) að hann tæki alla gagnrýni og ábendingar sem betur mætti fara hjá þríeykinu vel. Og þau skoðuðu það allt saman af kostgæfni og skiptu stundum um skoðun ef þeim fannst það rökrétt.
Ég hef einstaka sinnum fengið beiðnir frá einstaklingum um að vera teknir af póstlistanum, sem er alveg sjálfsagt mál og ég læt græja það strax. Önnur leið, ef svo ólíklega vill til að viðkomandi hefur kannski áhuga á innihaldi einhvers pistils síðar, er að eyða honum hið snarasta, tekur um það bil tvær sekúndur.
Heiðarleg skoðanaskipti eru okkur öllum til góðs og hlakka til þeirra á þessu bjarta og fallega ári.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna