20.05.2022
Síðastliðinn laugardag tapaði D-listinn í Hveragerði helmingi bæjarfulltrúa sinna í bæjarstjórn Hveragerðis og þar með þeim hreina meirihluta sem hann hefur haft undanfarin 16 ár. Fengum tvo af sjö. Eins og síðastliðnar fimm kosningabaráttur, frá árinu 2002, var ég kosningastjóri þessa flotta fólks nú í vor sem bauð fram krafta sína til að stýra bænum. Á sunnudeginum var ég aðeins beygður, fannst ég ekki hafa staðið mig og langaði einhvern veginn ekki að fylgjast með fjöl- og samfélagsmiðlum (sem séra Pétur vinur minn kallar reyndar sundurfélagsmiðla, nokkuð til í því) þann daginn. Og líðanin varð smám saman betri.
Eftir því sem fleiri dagar liðu í þessu bindindi hefur mér áskotnast talsvert meiri tími til allskonar. Maður gerir sér ekki grein fyrir því hversu ávanabindandi öll þessi netnotkun er, fylgjast með á facebook, mbl.is, visir.is og hvað þeir heita nú allir þessir netmiðlar. Áhugi á eða áhyggjur af því hvort Dagur, Einar eða Hildur (í stafrófsröð til að gæta fyllsta hlutleysis) verði borgarstjóri í Reykjavík eða hver verður ráðinn bæjarstjóri í Árborg. Kannski verður nafni minn þar áfram.
Veit vel að bindindi sem þetta mun ekki halda hjá mér um ókomna tíð, en ég hefði ekki trúað því hversu góð tilfinningin er og ég mun eflaust fara í samskonar „afvötnun“ einhvern tíma seinna á lífsleiðinni. Vinnu minnar vegna þykir mér líklegt að ég neyðist til að kíkja eitthvað á fréttir í næstu viku, kannski ekki fyrr en í þar næstu. Tel líklegt að það muni einhver segja mér, jafnvel aðeins gegn vilja mínum, hver verði næsti borgarstjóri þegar það liggur fyrir. Kemur í ljós.
D-listinn kemur ekki að stjórn bæjarins næstu fjögur árin og Alda, eiginkona mín sem er í öðru sæti listans og í minnihluta, kemur þar með til með að hafa meiri tíma fyrir okkur hjónin, meira golf, meiri frítíma, meiri samveru og miklu betra líf. Það er nefnilega þannig að það geta falist sigrar í ósigrum. Og þannig lít ég á úrslitin um síðastliðna helgi. Ég græði persónulega heilmikið á því að við í D-listanum töpuðum meirihlutanum.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
13.05.2022
Í ár sækja Grundarheimilin í Framkvæmdasjóð aldraðra um framlag upp á 152 milljónir vegna framkvæmda upp á 380 milljónir. Sjóðurinn styrkir framkvæmdir sem bæta aðstöðu heimilismanna á hjúkrunarheimilum um 40%. Stærsta einstaka framkvæmdin er suðurgarður Grundar. Þar er fyrirhugað að opna leið úr núverandi starfsmannaborðstofu á jarðhæð út í garðinn og reisa þar rúmlega 100 fermetra veitingaskála. Þar verður hægt að kaupa veitingar og njóta skálans og garðsins sem verður útbúinn fallegum bekkjum, leiktækjum og gróðri. Einnig verður rýmið þannig úr garði gert að það verður „mannhelt“ þeim sem eru með minnisglöp og eru ekki alveg með á nótunum. Áætlaður kostnaður við breytingarnar á garðinum er um það bil 150 milljónir.
Næst stærsta framkvæmdin er breyting á svokölluðum stubbi frá þeim breytingum sem síðast voru í gangi frá A2 til vesturs að borðstofunni á annarri hæð. Þar að auki verður norðurhluta borðstofunnar breytt í tvö einsmanns herbergi, hvort með sínu baðherbergi. Þetta kostar 106 milljónir. Með þessu bætist enn í eins manns herbergin á Grund með sér baðherbergi. Þriðja í röðinni er endurnýjun á lyftu á Minni Grund sem er kominn til ára sinna. 33 millur þar. Árlega er síðan skipt um nokkra tugi glugga á Hringbraut 50 og í ár er gert ráð fyrir 27 milljónum í þá framkvæmd. Níu aðrar framkvæmdir eru ráðgerðar á Grund, Mörk og Ási.
Framkvæmdir sem þessar eru allar til þess fallnar að bæta aðstöðu heimilismanna Grundarheimilanna. Í gegnum árin hafa þessar framkvæmdir numið mörg hundruð milljónum króna og hverri krónu er vel varið. Með þessu erum við reyndar að fækka rýmum á Grund þar sem hvert herbergi fær sér baðherbergi, og slíkt kostar pláss.
Vonandi sér stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra þessi mál í sama ljósi og stjórn Grundar og veitir öllum þessum brýnu framkvæmdum styrk og þar með brautargengi. Við þurfum svo sannarlega á því að halda.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
29.04.2022
Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (þá heilbrigðisþjónustu) voru stofnuð þann 24. apríl 2002. Fyrir rétt rúmlega 20 árum. Þessara tímamóta var minnst síðastliðinn þriðjudag með stuttu málþingi um framtíð velferðarþjónustunnar þar sem heilbrigðisráðherra var með ávarp og í framhaldi þrjú erindi um málefnið frá mismunandi sjónarhornum.
SFH, eins og það hét í upphafi, átti uppruna sinn í Félagi stjórnenda í öldrunarþjónustu en það félag var í upphafi félag æðstu stjórnenda í öldrunarþjónustu. Þegar leið nær aldamótum hafði bæst verulega mikið af millistjórnendum í FSÍÖ. Þannig var í raun búið að „þynna“ út félagið og forstjórar og framkvæmdastjórar heimilanna leituðu sér að nýjum samstarfsvettvangi. Sem endaði svo með stofnun hinna nýju samtaka og hafa eingöngu átt aðild að því æðstu stjórnendur hjúkrunarheimila og svo æðstu stjórnendur nokkurra annarra fyrirtækja og félaga sem veita velferðarþjónustu. Má þar meðal annars nefna SÁÁ, Krabbameinsfélagið og Reykjalund.
Markmið samtakanna hefur alla tíð verið fyrst og fremst að sinna hagsmunagæslu og koma fram fyrir aðildarfélögin gagnvart hinu opinbera ásamt því að sjá um gerð kjarasamninga við stéttarfélög. Upphaflega var enginn starfsmaður hjá samtökunum en fyrir um það bil átta árum, minnir mig, var fyrsti starfsmaðurinn ráðinn, Eybjörg Helga Hauksdóttir lögfræðingur. Það var mikið gæfuspor fyrir samtökin og efldust þau jafnt og þétt undir styrkri stjórn hennar. Hún lét af störfum í fyrra og í hennar stað var ráðinn Sigurjón Norberg Kjærnested verkfræðingur. Annað gæfuspor. Auk hans starfa í dag hjá samtökunum tveir lögfræðingar, þær Gunnhildur Erla Kristjánsdóttir og Heiða Vignisdóttir. Þær sinna margvíslegum verkefnum fyrir samtökin og gera það mjög vel.
Eins og fyrr segir hafa samtökin eflst og dafnað þessa tvo áratugi. Til að byrja með vissu mjög fáir hver samtökin voru en í dag er tekið mark á því sem þau senda frá sér, leitað til þeirra af opinberum aðilum og þau taka virkan þátt í umræðunni um velferðarmál þjóðarinnar.
Innilega til hamingju með árin 20 með ósk um áframhaldandi árangur fyrir hönd aðildarfélaganna í hverju því verkefni sem við er að glíma.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
22.04.2022
Viðburðaríkum vetri er lokið. Tvennt stendur upp úr. Heldur leiðinlegt veður og lok Covid 19. Daglegt líf og heimilishald hjúkrunarheimilanna er meira og minna komið í fastar skorður eins og áður var fyrir Covid. Nú bætist inn í tímatalið okkar, fyrir Covid og eftir covid, og við munum eflaust í mörg ár vitna til þessara tveggja ára sem tóku svo hressilega á okkar fallega mannlífi. Kenndi okkur margt, tók margt frá okkur, reynsla sem flestir myndu eðlilega viljað hafa komist hjá en skilur ýmislegt eftir.
Að mínu mati fórum við Íslendingar og þau okkar sem rekum hjúkrunarheimili hér á landi nokkuð vel í gegnum þennan andstyggðar faraldur. Heimsóknarbannið, eins og var rakið í síðasta pistli, var lykillinn að því að ekki fór verr samhliða því að við lærðum allskonar ný samskipti og leiðir til að tækla daglegt líf með öðrum og á stundum betri hætti en áður. Fjarfundaframfarir urðu gífurlegar, eitthvað sem við komum örugglega til með að notfæra okkur áfram um ókomna tíð.
Ég vil nota þetta tækifæri og þakka enn og aftur öllum heimilismönnum Grundarheimilanna, aðstandendum þeirra og okkar framúrskarandi starfsmönnum fyrir það hvernig þið tækluðuð þetta ástand sem varið hefur í rúm tvö ár. Þið eruð algjörlega frábær.
Hitt sem stendur upp úr nýliðnum vetri er veðrið. Hefur ekki verið jafn vont veður og mikill snjór frá árinu 1990, að því er mér finnst og minnir. Á mínu fyrsta formannsári í björgunarsveitinni í Hveragerði var þetta reynslumikill og á köflum annasamur tími. Lokanir á Hellisheiði og ansi margir dagar og nætur við björgun á fólki úr ófærð og óveðri er eftirminnilegt. Að gefa er betra en að þiggja, og við sem störfum í björgunarsveitum landsins náðum svo sannarlega að gefa af okkur í vetur og fyrir það er ég afar þakklátur. Okkur finnst gaman að vera úti í vondu veðri, keyra stóru jeppana okkar í mikilli ófærð og bjarga fólki. En svona seinni part vetrar var þetta orðið nokkuð gott og spennan við framangreint farin að minnka all verulega. En þetta hafðist allt saman og við í björgunarsveitinni fengum all nokkrar krónur í kassann fyrir allar þessar lokanir. Eitthvað sem við komum til með að nýta á skynsamlegan hátt.
Gleðilegt sumar og takk kærlega fyrir eftirminnilegan vetur 😊
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
08.04.2022
Í lok febrúar 2020 barst Covid 19 veiran til landsins. Afar lítið var vitað um veiruna, áhrif hennar á sjúklinga og lækning var ekki til. Eingöngu var hægt að notast við verkjalyf og súrefnisgjöf til að bregðast við mjög alvarlegum og lífshættulegum veikindum sjúklinga. Rekstraraðilar hjúkrunarheimila hér á landi stóðu frammi fyrir mjög alvarlegum vanda. Fréttir utan úr heimi bentu til þess að dánartíðni sjúkdómsins væri há, allt að 10% þeirra sem veiktust dóu, sums staðar 20%. Í ljósi þessa var gripið til algjörs heimsóknarbanns á hjúkrunarheimili landsins fyrri hluta mars mánaðar í fyrra.
Mjög íþyngjandi ráðstöfun
Ákvörðun sem þessi var ekki tekin af neinni léttúð. En svo gripið sé til frasa ársins 2020, þá voru þetta fordæmalausar aðstæður. Aðstæður sem ekkert okkar hafði horfst í augu við áður, engir læknar eða vísindamenn vissu almennilega hvað var á ferðinni, annað en að hér var um að ræða mjög hættulega og banvæna veiru sem barst tiltölulega auðveldlega á milli manna. Það að banna heimsóknir á hjúkrunarheimilin þýddi eðli máls samkvæmt afar dapra tíma fyrir heimilismenn hjúkrunarheimilanna og aðstandendur þeirra. Fyrir langflesta heimilismenn var þetta hræðilegur tími, skiljanlega. Einnig kom þetta heimsóknarbann verulega niður á starfsfólki hjúkrunarheimilanna.
Fórna minni hagsmunum fyrir meiri?
En kalt mat stjórnenda hjúkrunarheimilanna, þar á meðal mitt, var að við værum með heimsóknarbanninu að fórna minni hagsmunum, heimsóknum aðstandenda, fyrir meiri hagsmuni, líf og heilsu heimilismannanna. Það sat í mér frá upphafi smá efi um hvort þetta hefði verið skynsamleg og rétt ákvörðun, enda var mjög hún umdeild. Og verandi heilsuhagfræðingur datt mér í hug að láta rannsaka hvort framangreint hagsmunamat væri rétt. Þetta var í lok apríl 2020. Í vikupistli mínum til heimilismanna, starfsmanna og aðstandenda þann 17. apríl 2020 skrifaði ég meðal annars: „Ég hef þó mikinn áhuga á því að gera heilsuhagfræðilega úttekt á áhrifum heimsóknarbannsins. Það er að reyna að meta ávinning af banninu og bera þann ávinning saman við þann skaða sem bannið kann að hafa valdið framangreindum hópum. Þetta er hægt að meta út frá heilsufari og líðan heimilismanna, aðstandenda þeirra og starfsmanna og sjá hvort við komum út í plús eða mínus.” Og með þetta fór ég til hagfræðideildar Háskóla Íslands.
Þáttur HÍ
Þar tók við erindi mínu Tinna Laufey Ásgeirsdóttir prófessor við hagfræðideild HÍ og í samráði við Þórólf Matthíasson, einnig prófessor við hagfræðideild HÍ, voru ráðnir tveir nýútskrifaðir hagfræðingar, þær Bergþóra Þorvaldsdóttir og Guðný Halldórsdóttir í verkið. Þær tvær gerðu yfirgripsmikla rannsókn á Grundarheimilunum þremur, Grund, Ás og Mörk sem fjallar nákvæmlega um það sem ég vildi láta skoða, hvort að heimsóknarbannið hefði verið hagkvæmt. Unnu þær rannsóknina í samráði við prófessorana tvo auk þess sem ég kom lítillega að málum. Vil ég þakka þeim fjórum kærlega fyrir þeirra mikilvæga framlag.
Rannsóknin – hvers virði er mannslífið?
Án þess að fara út í smáatriði þá byggðist rannsóknin á því að meta til fjár þann skaða sem heimsóknarbannið olli og bera þá fjárhæð saman við það tjón sem hlytist af ótímabærum dauðsföllum heimilismanna hjúkrunarheimila. Nú spyrja eflaust sumir, og réttilega upp að vissu marki, er viðeigandi að meta líf fólks til fjár? Mitt svar er já, engin spurning. Því þó að hvert og eitt mannslíf sé ómetanlegt og ekki myndi ég vilja setja verðmiða á börnin mín til dæmis, þá er engu að síður nauðsynlegt að geta metið líf fólks til fjár. Í þeim góða tilgangi að finna út hvort hinar og þessar ráðstafanir, til dæmis umrætt heimsóknarbann, sé fjárhagslega hagkvæmt og skynsamlegt. Að mínu mati er afar erfitt að byggja mat á skynsemi og hagkvæmni heimsóknarbannsins á tilfinningum eða skoðunum einstaklinga. Þá fengjum við eflaust jafn margar niðurstöður og einstaklingarnir eru margir, og þær yrðu allar, í það minnsta flestar órökstuddar. Eitthvað sem að mér finnst ekki nógu markvisst og gott.
Forsendur
Í öllum rannsóknum þarf að gefa sér forsendur og velja aðferðir við útreikninga. Í stuttu máli var beitt viðurkenndum hagfræðilegum aðferðum, skilyrt verðmætamat (e. contingent valuation method), tekjuuppbótaraðferð (e. compensating income variation method) og fórnarskiptaaðferð tíma (e. time trade-off method) til að meta kostnað vegna heimsóknarbannsins, kostnað heimilismanna, aðstandenda og starfsmanna. Tímabilið sem um ræðir er frá mars til og með ágúst 2020. Virði lífs var síðan metið miðað við forsendur OECD leiðrétt miðað við QALY (Quality Adjusted Life Years) stuðulinn, en hann metur gæði þess lífs sem lifað er.
Niðurstaða
Grein sem þessi býður ekki upp á að fara út í útreikningana en í stuttu máli þá er niðurstaðan sú að ef sjö mannslátum eða fleiri á Grundarheimilunum þremur hefði verið forðað, vegna tilkomu heimsóknarbannsins, þá var sú ákvörðun að banna alfarið heimsóknir á heimilin þrjú hagkvæm. Miðað við vænta dánartíðni upp á 10%, athugið þetta var í upphafi faraldurs, þá hefðu um það bil 40 manns látist á heimilunum þremur. Enginn lést úr Covid 19 á Grundarheimilunum á meðan heimsóknarbannið var í gildi árið 2020. Það er því óyggjandi niðurstaða að heimsóknarbannið var hagkvæmt. Þetta eru staðreyndir miðað við ákveðnar forsendur. En auðvitað getur hver og einn haft sína skoðun, og í einhverjum tilfellum allt aðra en niðurstöður gefa til kynna, hvort að heimsóknarbannið hafi verið hagkvæmt. Einnig eru eflaust einhverjir sem koma til með að fordæma útreikninga á virði mannslífa, en það er eitthvað sem ég ræð ekki við, það er bara svoleiðis. Með útreikningunum er ég ekki að fullyrða að mannslíf sé svona og svona margra króna virði, eða ómetanlegt. Í rannsókninni notum við eingöngu opinberar tölur um virði mannslífa til að fá niðurstöðu í málið. Vona að þetta skiljist með þessum hætti.
Framtíðin
Tilgangur rannsóknarinnar var jú eins og upphaflega var getið að meta hagkvæmni heimsóknarbannsins. En ekki síður að geta hjálpað til við ákvörðunartöku síðar meir, þegar næsti heimsfaraldur skellur á, hvenær svo sem það verður. Þá geta ráðamenn landsins, stjórnendur í heilbrigðiskerfinu og aðrir þeir sem koma að málum þá, skoðað forsendur rannsóknar, eftir atvikum breyta einhverjum forsendum sem breyta þarf, til dæmis dánartíðni, og meta og rökstyðja þær aðgerðir sem gripið verður væntanlega til á hjúkrunarheimilum og öðrum heilbrigðisstofnunum landsins. Tel líklegt að það verði með þeim hætti hægt að grípa til markvissra aðgerða, byggðar á rannsókn og rökum, ekki bara tilfinningum.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
P.s. Til þeirra sem nenntu að lesa alla leið. Efnið var það umfangsmikið og mikilvægt að mínu mati að það „kostaði“ langan pistil. Yfirleitt eru þeir þriðjungur af þessu.
01.04.2022
Í byrjun þessarar viku var gengið frá samningi við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur hjúkrunarheimila landsins til næstu þriggja ára. Óvenjulangur gildistími en tiltölulega stuttur uppsagnarfrestur getur þó alltaf komið hvorum samningsaðila fyrir sig út úr samningnum breytist forsendur á þann veg að annar hvor kjósi slíkt.
Nokkur mikilvæg atriði náðust í gegn og má þar meðal annars nefna að svo kallað 2% þak á hækkun daggjalda, vegna aukinnar hjúkrunarþyngdar, er tekið út úr samningnum. Sem þýðir að ef hjúkrunarþyngd eykst um 3 % til dæmis, þá hækkar umönnunarþáttur daggjaldsins um 3% í stað 2% áður. Þá er daggjaldagrunnurinn styrktur um þann milljarð sem kom inn sem aukafjárveiting á síðasta ári, sem er mikilvæg viðurkenning á því að grunnurinn var einfaldlega of lágur. Þá er útlagasjóðurinn hækkaður all verulega og undir hann felldar enn fleiri tilvik kostnaðarauka en áður var, sem er hið best mál. Enn frekara fjármagn á að koma inn í þann sjóð á næsta ári. Einnig má nefna að það kemur aukið fjármagn inn til greiðslu smæðarálags, það er auknar greiðslur til smærri hjúkrunarheimila. Fleira gott mætti nefna en læt duga í bili.
Það er nú þannig að þegar farið er í samningaviðræður næst aldrei allt það fram sem lagt er upp með. Og það gildir einnig í þessu tilviki. Húsnæðismálin eru enn og aftur sett til úrvinnslu í nefnd sem á að skila lokaáliti seinni hluta næsta árs. Þetta er í raun óþolandi en þegar viðsemjandinn er bara einn þá getur maður því miður ekki annað en kyngt þessu svona. Það er eitthvað bogið við það, að það þurfi að ræða sérstaklega í nefnd hvort og þá hversu mikið eigi að greiða fyrir notkun á húsnæði hjúkrunarheimila landsins, sem við leggjum ríkinu til við rekstur öldrunarþjónustunnar. Af hverju ræðum við ekki þá sérstaklega hvort og þá hversu mikið eigi að greiða fyrir þann mat sem við veitum okkar heimilismönnum? Eða lyf? Maður spyr sig. En ég ætla ekki að vera í fýlu út af þessu, heldur safna liði (í nefndina góðu, hvað annað) og vinna því brautargengi að sú sjálfsagða krafa fáist viðurkennd og samþykkt, að greiða sanngjarna húsaleigu fyrir allt það húsnæði sem til dæmis Grundarheimilin leggja til við veitingu öldrunarþjónustu á Hringbrautinni og Hveragerði. Svona eins og að við munum áfram útvega okkar heimilismönnum mat og lyf og fá það greitt af hálfu ríkisins að fullu.
Það var Sigurjón Norberg Kjærnested framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu sem leiddi þessa samningalotu fyrir hönd samtakanna og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sem gerði hann það afskaplega vel og ég þakka honum kærlega og ásamt öðrum nefndarmönnum og starfsmönnum framangreindra aðila. Starfsmönnum Sjúkratrygginga Íslands og heilbrigðisráðuneytis er einnig þakkað þeirra framlag að ógleymdum heilbrigðisráðherranum, Willum Þór Þórssyni sem lagði sitt af mörkum til að þessi hagstæði samningur yrði að veruleika. Það er ánægjulegt að skynja jákvæðan hug ráðherra til málaflokksins.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
25.03.2022
Í Fréttablaðinu síðastliðna helgi auglýstu Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir, Heilbrigðisráðuneytið og Hveragerðisbær eftir umsóknum byggingaraðila (aðalverktökum) um þátttökurétt í lokuðu alútboði á fullnaðarhönnun og byggingu 22 rýma hjúkrunarheimilis í Hveragerði. Þar með er tikkað í stórt box á langri vegferð sem hófst með undirbúningsvinnu Glámu Kím arkitekta í ársbyrjun 2018 þegar ég fór af stað með málið. Fékk frá þeim tillögur og gögn, stjórn Grundar samþykkir síðan í febrúar ári síðar að sækja um leyfi til verksins til heilbrigðisráðuneytis með aðkomu Hveragerðisbæjar.
Málið hefur síðan þá mallað í gegnum hið opinbera kerfi á þokkalegum hraða sem hefur svo skilað sér í þessari ánægjulegu niðurstöðu. Á þessu ári verður sem sagt valinn verktaki og vonandi hefst bygging nýja hússins í byrjun næsta árs, það skýrist þó betur þegar líður á árið. Ætli verklok verði ekki að tveimur til þremur árum liðnum.
Nýja húsið verður norðan megin við núverandi hjúkrunarheimili og þetta verður mikil breyting á allri aðstöðu hjúkrunarrýma í Ási. Í beinu framhaldi af því að nýja byggingin verði tekin í notkun, munum við síðan breyta þeim níu tvíbýlum sem eru í gamla hjúkrunarheimilinu í eins manns herbergi, hvert með sitt baðherbergi. Þannig verður öllum í því húsi tryggt einbýli með sér baðherbergi, eitthvað sem er sjálfsögð krafa nútímans.
Það er mér bæði ljúft og skylt að þakka öllum þeim fjölmörgu aðilum sem hafa komið að vinnslu þessa mikilvæga máls, opinberir embættismenn ríkis og Hveragerðisbæjar, stjórnmálamenn á sveitarfélaga- og landsvísu, mínir góðu samstarfsmenn í Ási ásamt fjölmörgum öðrum. Hafið hugheilar þakkir öll sömul fyrir ykkar góðu störf. Þetta nýja glæsilega hús verður vitnisburður ykkar góðu verka um ókomna tíð.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
04.03.2022
Covid 19 veiran hefur valdið miklum búsifjum um allan heim. Alvarlegust eru dauðsföll og veikindi þeirra sem hafa veikst illa. Nú á seinustu metrunum, vonandi, þessarar veiru, hafa þó einkenni þeirra sem hafa smitast verið afar væg í lang flestum tilfellum. Sem er gott.
Efnahagsleg áhrif veirunnar eru gífurleg. Mikil skuldasöfnun ríkissjóðs, þrengingar og gjaldþrot margra fyrirtækja og einstaklinga, niðurskurður í ýmiskonar opinberri þjónustu og svo framvegis. En einhvern veginn höfum við sem samfélag komist í gegnum þetta í eins góðu jafnvægi og hægt er að ætlast til. Geri ekki lítið úr framangreindum vandamálum, en þetta er mitt persónulega mat.
Covid er eitthvað sem við höfum öll lært mikið af. Til frambúðar má gera ráð fyrir að við sinnum perónulegum smitvörnum betur en við höfum gert hingað til og vonandi verða stjórnvöld um heim allan betur meðvituð um hvað skal gera þegar veira sem þessi skýtur aftur upp kollinum, hvenær sem það verður nú.
Eitt af því sem covid hefur leitt af sér er aukinn rekstrarkostnaður hjúkrunarheimila landsins. Við höfum blessunarlega fengið mest af þeim kostnaði bættan hjá ágætum yfirvöldum þessa lands. Nú á lokametrunum hefur veiran dreift sér víða á þessum heimilum sem veldur, fyrir utan auðvitað veikindum og óþægindum þeirra sem smitast, verulega auknum rekstrarkostnaði. Tvennt veldur. Annars vegar hafa heimilin greitt álag til þeirra starfsmanna sem hafa sinnt heimilismönnum í íþyngjandi hlífðarbúnaði og svo höfum við þurft að grípa til fjölmargra aukavakta þar sem talsverður fjöldi starfsmanna hefur veikst. Kostnaðurinn hleypur á tugum milljóna króna fyrir Grundarheimilin í lok síðasta árs og byrjun þessa.
Við höfum sótt um endurgreiðslu vegna þessa kostnaðarauka og fengið jákvæð svör og greiðslur fyrir nær öllu því sem við báðum um. Og fyrir það ber að þakka af heilum hug. Vonandi heldur það ferli áfram á sömu nótum næstu misserin. Við erum ekki kominn alveg í gegnum brimskaflinn, en langleiðina þó og með góðri hjálp yfirvalda tekst okkur að komast heil á höldnu í gegnum þetta allt saman.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
25.02.2022
Ég er formaður Hjálparsveitar skáta Hveragerði. Og hef sinnt björgunarstörfum undanfarin sjö ár. Það er feikn gefandi að fá að bjarga, hjálpa til. En fátt er þó meira gefandi en að bjarga mannslífi. Var einn nokkurra björgunarmanna síðastliðinn laugardag að grafa ungan dreng úr snjóflóði í Hamrinum í Hveragerði. Með samhentu átaki okkar björgunarmanna í Hveragerði og félaga okkar í Björgunarfélagi Árborgar þá tókst að bjarga drengnum úr flóðinu, tiltölulega lítið sködduðum. Stóri bróðir hans, sem var að leika sér með honum í snjóhengjunum í Hamrinum, brást hárrétt við með því að fjarlægja snjó frá andliti bróðursins og hringja strax í einn einn tvo, 112. Þannig var það auðvitað í raun hann sem bjargaði lífi hans í byrjun, við tókum bara við björguninni þegar við mættum á staðinn.
Björgunarsveitin í Hveragerði er tiltölulega lítil sveit, enda rétt rúmlega 3.000 manna bæjarfélag á bak við okkur. En þeir góðu félagar sem eru í sveitinni eru mjög samhentir og duglegir við að æfa og mæta í þau útköll sem okkur berast í símana okkar með smáskilaboðum frá Neyðarlínu. Þar að auki stendur bæjarstjórn og allir bæjarbúar þétt að baki sveitinni. Bæjarstjórnin með hagstæðum og góðum samningi með föstum fjárframlögum til okkar og allur almenningur styður okkur með ráðum og dáð, og peningum, með kaupum á Neyðarkalli, flugeldum og hverju öðru því sem við gerum til að afla okkur fjár. Fyrir það erum við mjög þakklát, þannig getum við rekið sveitina og búið hana bestu tækjum og búnaði sem völ er á.
Þessi vetur hefur verið heldur annasamur. Mörgum sinnum höfum við lokað Hellisheiðinni og farið í slatta af óveðursútköllum. Síðastliðinn mánudag lenti ég svo í því að selflytja farþega úr rútu sem fór út af í Skíðaskálabrekkunni í snarvitlausu veðri. Farþegarnir voru erlendir ferðamenn og margir hverjir frekar skelkaðir þegar ég kom um borð í rútuna. En með brosi og yfirvegun voru þeir allir fluttir með björgunarsveitarbílum í Hellisheiðarvirkjun þar sem þeir dvöldu í góðu yfirlæti þangað til að þeir voru sóttir seinna um kvöldið þegar veðrinu slotaði.
Þakklæti og gleði foreldra og aðstandenda litla drengsins var ósvikið og innilegt eftir björgunina. Einnig skein ósvikið og mikið þakklæti úr augum ferðamannanna í rútunni og bílstjóra hennar. Að finna slíkt gefur lífinu, já björgunarsveitarlífinu, mikið gildi.
Förum varlega í vonda veðrinu í dag, og ef fleiri slíkir dagar koma seinna í vetur.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
18.02.2022
Fyrsta færanlega samskiptatækið mitt í vinnunni fyrir um það bil 30 árum var símboði. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá var þetta lítið tæki sem sendi manni símanúmer sem maður svo hringdi í þegar maður komst í síma. Bylting. Þá fékk ég mér NMT síma í bílinn nokkrum árum síðar, mikill hlunkur en skipti ekki máli þar sem tækið var í bílnum. Hægt að hringja úr bílnum. Önnur bylting. Þá fékk ég mér farsíma fyrir líklega um 20 árum, og þá hægt að hringja hvar sem maður var, svo framarlega sem það væri símasamband. Þriðja byltingin. Svo komu fram á sjónarsviðið fyrir um það bil áratug snjallsímar. Í raun litlar tölvur og símtæki, hægt að hringja, skoða alnetið, afgreiða tölvupóst og margt fleira. Fjórða byltingin. Sem ég hef þrjóskast við að taka í notkun.
Mótþróinn við að fá mér snjallsíma hefur byggst fyrst og fremst á því að ég hef viljað forðast að vera alltaf í vinnunni. Fá tölvupóstinn í símann er eitur í mínum beinum. Og vera beintengdur alnetinu er líka eitthvað sem hefur ekki heillað mig. Ég er fíkill, laus við brennivínið og á það til að vinna aðeins of mikið, eða kannski á röngum tíma sólarhringsins. Og þess vegna hef ég ekki fengið mér svona fínan snjallsíma hingað til. Fékk mér á síðasta ári Noka 105 takkasíma hjá Nova, 5.900 kr. Sumir hafa sagt við mig að það sé hægt að stilla þessi fínu snjallsímatæki þannig að þau taki ekki á móti tölvupóstum og þess háttar, en slíkt virkar ekki fyrir fíkilinn.
Um daginn fékk ég talsvert áfall. Var í björgunarsveitarútkalli og þau byggjast öll á upplýsingum í og úr snjallsímum. Og öppum tengdum þeim. Ég snjallsímalaus, hugsanlega að missa af því að bjarga fólki úr lífsháska, af því að ég var svo þrjóskur að fá mér ekki snjallsíma. Þess utan var ég farinn að senda hina og þessa til að taka fyrir mig myndir og senda mér, útvega upplýsingar í gegnum snjallsímana þeirra og þannig mætti lengi telja. Einnig lagt ýmislegt á mig til að fá senda til mín tölvupósta með óhefðbundnum hætti til að geta sinnt vinnu minni sómasamlega. Og þó ég sé frekar þrjóskur, þá er ég ekkert mjög illa gefinn. Hef stýrt mínu lífi á þann veg að hámarka eigin not og gæði og lifa þannig lífinu lifandi. Hagfræðinámið kenndi mér þetta og hefur kannski alltaf verið þannig á bak við annað eyrað. Nú er svo komið að ég tel hag mínum, og reyndar fleiri í kringum mig, betur borgið með því að ná mér fljótlega í snjallsíma og nota hann í starfi og leik um ókomna tíð.
Hef þó enn mikinn vara á því að ánetjast ekki alfarið slíku tæki með hangsi á alnetinu, facebook og þess háttar þegar maður hefur lausa stund. En eitt síðasta vígi gamla góða takkasímans er fallið 😊
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna