Vikupistlar forstjóra

Kippum plástrinum af í hvelli

Við þekkjum öll tilfinninguna að rífa af okkur plástur. Sérstaklega þegar við vorum yngri, þá hræddumst við, sum hver í það minnsta, að rífa af okkur plásturinn. Og gerðum það hægt og varlega. Stundum féllst maður á beiðni foreldranna um að gera það hratt, það var vissulega verra en stóð yfir í mun styttri tíma. Það er síðan huglægt mat hvers og eins að vega og meta kosti og galla, hvorrar aðferðar fyrir sig, mikill sársauki í stuttan tíma eða lítill sársauki í langan tíma. Þó að þetta eigi ekki beina tilvísun í yfirstandandi tilslakanir sóttvarna á vegum ríkisvaldsins, þá finnt mér engu að síður að þetta eigi pínu samleið. Í fyrstu virtust stjórnvöld ætla að rífa plásturinn hægt og rólega af, en mér sýnist verulegur þrýstingur vera á þau að kippa honum snögglega af sárinu. Því fylgja kostir og gallar, eins og flestu í okkar lífi. Eðli máls samkvæmt verða fleiri smit, fleiri forfallaðir til vinnu, fleiri leggjast inn á LSH í einu og svo framvegis ef tilslakanir verða hraðar. En þetta mun líklega standa mun skemur yfir. Mjög svo umtalað hjarðónæmi mun nást á skemmri tíma og þar með verður þessi andstyggðar veira, covid 19, svo gott sem úr leik í þjóðfélaginu. Við eigum engu að síður eftir að eiga við eftirköst hennar um all nokkurt skeið. Heilbrigðisþjónustan á eftir að jafna sig, vinna upp biðlista sem voru nú margir hverjir alltof langir fyrir veiruna, atvinnulíf og þá sérstaklega ferðaþjónustan á eftir að ná jafnvægi og svo mætti lengi telja. Fyrir okkur sem rekum hjúkrunarheimili skiptir miklu máli að þessari baráttu ljúki sem fyrst. Snögg afrifa plástursins mun vissulega valda okkur meiri vandræðum en ella, en til mun skemmri tíma. Nú þegar hafa all nokkrir heimilis- og starfsmenn Grundarheimilanna sýkst af covid 19 en hinir „eiga það eftir“ ef þannig má að orði komast. Og á nokkrum einingum Grundarheimilanna er ástandið talsvert alvarlegt, bæði veikindi heimilis- og starfsmanna og þar af leiðandi erfitt að manna vaktir eins og nauðsyn krefur. Engu að síður tel ég að orðatiltækið „illu er best aflokið“ eigi bara ágætlega við í þessu efni. Eflaust eru einhverjir heimilismenn, aðstandendur þeirra, starfsmenn og stjórnendur Grundarheimilanna ekki sammála mér með þetta, en það er líka bara allt í góðu. Skoðanaskipti eru af hinu góða. Kipppum plástrinum af í hvelli. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Hópsmit á hjúkrunarheimili

Í byrjun þessarar viku greindust tæplega 30 heimilismenn Litlu og Minni Grundar með Covid 19. Eitthvað sem hefði sett alla starfsemi heimilisins á aðra hliðina fyrir rúmlega ári síðan þegar enginn var bólusettur, hvorki heimilismenn né starfsmenn. En nú er öldin önnur, og miklu betri. Þeir sem eru þríbólusettir eru ekki mikið veikir og munu vonandi hrista þetta af sér eins og hverja aðra flensu. Sama er að segja um þá starfsmenn sem smitast, þeir eru lítið eða ekkert veikir. Í umræðunni um bólusetningar gegn Covid 19 hefur margt komið fram og líklega ekki allt alveg samkvæmt sannleikanum. Síðast í gær var fullyrt í fréttum á alnetinu að rannsókn í Skotlandi sýndi fram á að það væru meiri möguleikar á að láta lífið af völdum Covid 19 ef viðkomandi hefði verið bólusettur. Eitthvað sem ég get ekki tekið undir. Enda var ekki vísað til hvaða rannsóknar var um að ræða. En áróður sem þessi kemst eflaust í undirmeðvitund einhverra, þeirra sem lesa til dæmis bara fyrirsagnir og kynna sér ekki málin til fullnustu. Og það er ekki gott, því að mínu mati, athugið ég er ekki læknis- eða hjúkrunarmenntaður, þá hefur bólusetning heimilismanna hjúkrunarheimila bjargað mjög mörgum mannslífum. Án bólusetningarinnar sem við njótum að hafa fengið í dag, hefði eflaust talsverður fjöldi heimilismanna Grundar látið lífið. Eitthvað sem enginn sem rekur hjúkrunarheimili vill að gerist. Bólusetning bjargar mannslífum, á því er enginn vafi í mínum huga. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Verum ósammála en kurteis

Umræða í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum er allskonar. Oft á tíðum notað hæsta stig lýsingarorða og ekkert gefið eftir í yfirlýsingum, fúkyrðum og skömmum. Og oftar en ekki er persóna viðkomandi embættis til dæmis, dregin inn í óvægna umræðu í stað þess að gagnrýna og rökræða málefnið sem ágreiningur snýst um. Að sjálfsögðu er ekki ætlast til þess að allir séu sammála, eða allir hafi sama smekk og sem betur fer þá er skoðana- og tjáningafrelsi í landinu. Það eru ekki allir jarðarbúar svo heppnir. En margir hverjir veigra sér við að tjá sínar skoðanir af því að þeir fá skammir, uppnefni, einelti og skítkast af því að þeir eru ekki á sömu skoðun og þeir sem telja sig allt vita og geta. Við sem rekum hjúkrunarheimili landsins höfum verið í miklum öldusjó undanfarin tvö ár. Mikið hefur gengið á, heimsóknarbann, heimsóknartakmarkanir, veikindi heimilis- og starfsmanna, bólusetningar heimilis- og starfsmanna, margskonar takmörkun á starfseminni, erfiðleikar í rekstri og svo mætti lengi telja. Við höfum gert allt sem við getum til að hámarka hag og velsæld þeirra sem búa hjá okkur og starfa. Slíkar aðgerðir eru og munu alltaf verða umdeildar, en þær eru gerðar í góðri trú og byggjast á þeim bestu upplýsingum og gögnum sem fyrir liggja. En þessar ákvarðanir eru eðlilega umdeildar. Og það er fínt að rökræða þær, skiptast á skoðunum og rökum, með og á móti. Ég er meira en til í svoleiðis skoðanaskipti. En það er lágmarkskrafa að vera kurteis. Og lang- langflestir eru það, en ekki alveg allir. Kurteisi kostar ekkert, og skilar alltaf miklu meiri árangri en dónaskapurinn. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Fjárlögin 2022

Fjárlögin fyrir næsta ár komu heldur seint fram þetta árið þar sem ný ríkisstjórn var mynduð á löngum tíma, vegna talningaklúðurs, nóg um það. En þegar við stjórnendur hjúkrunarheimila sáum fjárlagafrumvarpið fór um okkur nokkur hrollur. Þar vantaði að okkar mati að festa í sessi/daggjaldagrunni hjúkrunarheimilanna þann auka milljarð sem var bætt inn í daggjöldin í lok síðasta sumars. Sú viðbót var nauðsynleg og kærkomin fyrir heimili sem mörg hver voru við hungurmörk. Þegar milljarðurinn bættist við, fylgdi því árétting af hálfu fjárveitingavaldsins þess efnis að ekki væri um að ræða viðbót sem mætti búast við að bættist við núverandi daggjaldagrunn þessa árs. Sem betur fer sáu ráðherrar, þingmenn og aðrir þeir sem komu að umræðu og gerð breytingartillagna fjárlaganna ljósið og skiptu um skoðun. Með þessu sýnist mér að rekstrargrunnur hjúkrunarheimilanna sé á verulega traustari grunni en verið hefur í mörg undanfarin ár. Þar að auki var bætt inn í daggjaldagrunninn 1.200 milljónum króna vegna verkefnisins „Bættur vinntími vaktavinnufólks“, eitthvað sem vantaði inn í daggjaldagrunninn í fjárlagafrumvarpinu. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu með Bjarka Þorsteinsson formann og Sigurjón Norberg Kjærnested framkvæmdastjóra í fararbroddi hafa að mínu mati unnið feikn gott og mikilvægt starf fyrir aðildarfélögin og augljóst að þar fara afar hæfir menn. Með ítarlegri umsögn um fjárlagafrumvarpið auk fimm viðbótarerindum henni tengdri til fjárlaganefndar og heilbrigðisráðuneytis tókst að gera þær mjög svo mikilvægu endurbætur á fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár. Hluti umsagnar og erinda skilaði góðum árangri fyrir önnur aðildarfélög SFV en þau sem eru í hjúkrunarheimilisrekstri og er það vel. Mér sýnist einnig að viðhorf nýs heilbrigðisráðherra, Willums Þórs Þórssonar, sé á jákvæðum og góðum nótum og fyrir það ber að þakka. Og eflaust hefur fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, og fjárlaganefnd einnig komið að þessum góðu breytingum og fyrir það er einnig þakkað. Þess ber þó að geta að ekki er búið að semja við hjúkrunarheimilin um rekstur næsta árs og þá væntanlega næstu ára. Núverandi samningur rennur út 1. mars nk. og hafa því samninganefnd SFV og Sambands sveitarfélaga tvo mánuði til að ljúka gerð nýs samnings. Ég bind miklar vonir við að sá samningur verði okkur sem rekum hjúkrunarheimili landsins hagstæður og að áralangur niðurskurður fjárframlaga til okkar verði á enda. Kveðja og gleðilegt nýtt ár, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Jól í skugga veiru

Annað árið í röð höldum við jólin hátíðleg í skugga andstyggilegrar veiru. Í fyrra var þetta eitthvað sem við vissum ekki hvernig ætti að tækla, en í ár erum við reynslunni ríkari. Reyndar eru líklega langflestir ef ekki allir orðnir hundleiðir á þessum endalausu boðum og bönnum sem koma með reglulegu millibili frá æðstu stjórnendum og ábyrgðarmönnum heilbrigðiskerfisins. Þeim til vorkunnar eru þau öll sömul að eiga við veiru sem virðist breyta sér eftir því sem tíminn líður og enginn veit í raun hvaða afleiðingar hvert afbrigði hennar hefur á heilsufar og líðan þeirra sem smitast. Hef trú á doktor Kára Stefánssyni, sem sagði þegar nýjasta afbrigðið kom fram, að líklega yrði það afbrigði meira smitandi en hefði í för með sér vægar einkenni veikinda. Til þess að veira haldi áfram að lifa má hún ekki drepa þá sem hún smitar, veiran virðist „vita þetta“ og þess vegna er þróunin sem Kári lýsir líkleg, í það minnsta að mínu mati. Og er það vel. Ef hans spár ganga eftir verður það versta í það minnsta yfirstaðið þegar kemur að jólunum að ári. En við skulum nú engu að síður reyna að njóta jólanna saman. Því miður hafa komið upp nokkur smit á Grundarheimilunum undanfarið og hefur það í för með sér viðeigandi ráðstafanir, einangrun eininga og deilda og annað það sem slík smit hafa í för með sér. Eins grábölvað og það er nú, þá erum við með þessu að taka meiri hagsmuni fram yfir minni. Líf og heilsa heimilismanna er í okkar huga, sem stjórnum Grundarheimilunum, mikilvægari og dýrmætari en heimsóknir, þó að þær sé vissulega einnig mjög mikilvægar, ekki síst á jólunum. Frumniðurstöður hagfræðilegrar rannsóknar um hagkvæmni heimsóknarbannsins sem var sett á í mars á síðasta ári í rúma þrjá mánuði, benda eindregið til þess að sú ákvörðun hafi verið mjög svo fjárhagslega hagstæð. Nánar um það síðar. En svona er lífið. Sífelldar áskoranir sem við þurfum að takast á við og tækla. Við skulum sameinast um að leysa þau verkefni sem okkur eru falin, góð og slæm. Jafnvel þó það þýði öðruvísi og ekki eins skemmtileg jól og við myndum óska okkur. Kveðja og gleðileg jól og farsælt komandi ár, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Aðventustjórnin

Fyrsta sunnudag í aðventu var kynnt ný ríkisstjórn Íslands undir forystu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Sömu stjórnmálaflokkar og á fyrra kjörtímabili, Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir. Flestir ráðherrar halda ráðherraembætti en tilflutningur þó sumra á milli ráðuneyta. Þá koma tveir nýir ráðherrar inn í hópinn þeir Jón Gunnarsson og Willum Þór Þórsson. Sá síðarnefndi nýr heilbrigðisráðherra en Willum var formaður fjárlaganefndar á síðasta kjörtímabili. Bind miklar vonir við Willum. Hann hefur góða innsýn í fjármál ríkisins og stofnana á fjárlögum og veit vel hvar skórinn kreppir. Meðal annars hjá hjúkrunarheimilum landsins. Stjórnarsáttmálinn er heldur þunn lesning og afar almennt orðaður. Þrátt fyrir að vera 60 blaðsíður þá er orðið hjúkrunarheimili ekki nefnt einu sinni. Í kaflanum um eldra fólk kemur orðið heimahjúkrun einu sinni fyrir. Þar er þó sagt að unnin verði aðgerðaráætlun til fimm ára í samstarfi við sveitarfélög, samtök eldri borgara og þjónustuaðila, jafnt opinbera sem sjálfstætt starfandi. Sú vinna verður væntanlega byggð ofan á og í framhaldi skýrslu eins manns nefndar Halldórs Guðmundssonar. Sem er vel. Sú skýrsla var um margt ágæt og prýðis grunnur til að byggja frekar ofan á. Ég hefði þó kosið aðeins skýrari nálgun á hvað stendur til að gera varðandi rekstur og fjármögnun þeirra rúmu tvö þúsund hjúkrunarrýma sem rekin eru hér á landi. Ég óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í sínum störfum og vonast til að rekstrargrunnur hjúkrunarheimilanna verði tryggður á þessu kjörtímabili, og auðvitað vonandi til langrar framtíðar. Þar ber tvennt hæst. Sanngjarnar greiðslur fyrir þá þjónustu sem veitt er á hjúkrunarheimilunum auk þess sem að húsaleigugreiðslur er eitthvað sem verður að koma í rétt lag. Það er alls ekki sanngjarnt og rétt að ríkið komist upp með að greiða eingöngu þriðjunginn af þeim kostnaði sem hlýst af rekstri húsnæðis hjúkrunarheimilanna. Ef ekki kemur til úrbóta á þeim þætti drabbast núverandi húsnæði niður og verður ónothæft til hjúkrunaheimilisreksturs í framtíðinni. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna P.s. Í sáttmálanum er engin dagsetning sem segir til um hvenær hann er gerður eða til hvaða tímabils hann nær. Eitthvað sem afi minn heitinn Gísli Sigurbjörnsson hefði nú aldeilis ekki verið sáttur við. Og ekki ég heldur. Allt sem maður gefur frá sér á prenti eða alneti, tala nú ekki um ríkisstjórnarsáttmáli þriggja stjórnmálaflokka, verðskuldar dagsetningu. Sérstakt.

Workplace

Undanfarnar vikur höfum við á Grundarheimilunum verið að taka upp Workplace sem er samskiptaforrit tengt Facebook en stendur algjörlega sjálfstætt. Helsta hlutverk WP er að með forritinu fæst sameiginlegur vettvangur allra starfsmanna Grundarheimilanna.. Þar að auki er hægt að vera með sérstakar síður fyrir hverja og eina einingu, deild, heimili og svo framvegis þar sem hægt er að koma margvíslegum upplýsingum á framfæri, til dæmis varðandi aukavaktir, óskum um skipti á vöktum og svo framvegis. Þá er WP einnig tilvalið til að skipuleggja og tilkynna skemmtanir og viðburði og ná þannig að þjappa hópum saman. Forritið virkar eins og Facebook sem flestir þekkja og kemur í staðinn fyrir þær Facebook síður sem deildirnar og heimilin hafa notast við hingað til og í stað hefðbundinna tölvupóstsamskipta. Undirritaður forstjóri mun þó væntanlega áfram notast fyrst og fremst við tölvupóstinn varðandi dagleg samskipti og afgreiðslu ýmissa mála. Þess ber þó að geta að ég gat, reyndar með góðri aðstoð Írisar mannauðsstjóra, sett mynd af mér inn á prófílinn minn á WP, geri aðrir betur 😊 WP einfaldar aðgengi að ýmsum hagnýtum upplýsingum, til dæmis nýliðafræðslunni, starfsmannahandbókum og öðrum verklagsreglum. Það allt saman má finna undir Knowledge library. Innleiðing hefur gengið misjafnlega undanfarnar vikur en ég er viss um að notkun forritsins verður vel þess virði. Vonandi verður starfsfólk tengdara og lifir sig meira sem hluta af heild. Fyrsti viðburðurinn á WP verður næsta laugardag. Auðvitað viljum við helst hittast í raunheimum en á meðan ástandið er eins og það er í samfélaginu, þá er þessi vettvangur tilvalinn til að eiga saman skemmtilega kvöldstund. Notum WP og njótum laugardagskvöldsins saman. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Fleiri hjúkrunarrými? Já takk

Enn og aftur berast neyðarköll frá Landspítalanum. Nú síðast frá forstjóranum sjálfum sem haft var eftir rétt nýlega orðrétt á alnetinu: „Þetta stendur og fellur með að það þarf að fjölga hjúkrunarrýmum“. Eðlilega, covid 19 hefur tekið flugið á ný og allt of mörg rými á þjóðarsjúkrahúsinu eru setin, eða legin, af einstaklingum sem eru flestir búnir að fá sína greiningu og eftir atvikum lækningu, og þurfa að komast í varanlega dvöl á hjúkrunarheimili. Þessi neyðarköll stjórnenda LSH hafa endurómað þá rúma þrjá áratugi sem ég hef sinnt stjórnunarstörfum í öldrunarþjónustu hér á landi. Og sýnist að köllin komi til með að endurtaka sig reglulega um ókomna tíð, í það minnsta á meðan ég verð í mínu starfi. Því miður virðist ekki skipta máli hvort covid faraldur geysi, ég fann á alnetinu margar tilvitnanir mörg ár aftur í tímann á sömu nótum þegar ég leitaði eftir nýjustu ummælum forstjóra LSH. Það er alveg með ólíkindum að þessi staða skuli koma upp með svo reglubundnum hætti. Það er ekki eins og að tölfræðin, aldurssamsetning þjóðarinnar eða aðrar viðeigandi upplýsingar liggi ekki fyrir. Þessir einstaklingar fæddust á fyrri hluta síðustu aldar og hafa verið til í 70 – 90 ár. Og það er frekar einföld stærðfræði að reikna út hversu margir einstaklingar á þeim aldri þurfi á dvöl á hjúkrunarheimili að halda. En einhvern veginn tekst ráðamönnum landsins að klúðra þeim útreikningi, eða það sem verra er, að þeir reikni þetta jafnvel ekkert út. Reglulega er blásið í lúðra og tilkynnt með pomp og prakt að nú skuli þessi mál öll sömul leyst með aukinni heimahjúkrun og heimaþjónustu. Og jafn oft hafa þessi fögru fyrirheit beðið skipsbrot, í það minnsta steytt á skeri. Vissulega hefur orðið aukning í heimahjúkrun og heimaþjónustu sem ber að þakka fyrir og er hið besta mál, en bara ekki nægilega mikið til þess að minnka sívaxandi eftirspurn eftir hjúkrunarrýmum, þannig að þau dugi til. Vonandi sér ný ríkisstjórn ljósið og gerir bragarbót á uppbyggingu, umgjörð og rekstrarumhverfi hjúkrunarheimila landsins. Þeir sem eru komnir á efri ár, eru hrumir og bíða á LSH eftir plássi á hjúkrunarheimili, eiga það skilið. Þeir sem bíða eftir nauðsynlegum aðgerðum á LSH og komast ekki í þær vegna framangreindra sem bíða í rúmunum þar, eiga það skilið. Við eigum það öll skilið. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

99 ára afmæli Grundar í dag

Í dag, 29. október fagnar Grund 99 ára afmæli. Það var fyrir 99 árum að húsið við Grund var vígt en það stóð þar sem Kaplaskjólsvegur er í dag. Húsið var með átta svefnstofur fyrir 23 heimilismenn, tvö herbergi fyrir ráðskonu og starfsstúlkur, eina setustofu, búr og eldhús. Nýtt hús var svo byggt við Hringbrautina og var tekið í notkun árið 1930. Margt, nær allt, hefur breyst á þessari tæpu öld sem Grund hefur sinnt öldruðum hér á landi. Húsakostur, rúm, hjálpartæki, lyf og hvað annað sem er notað við daglegan rekstur hjúkrunarheimilis. En eitt breytist ekki, það er hjartalag starfsmannanna. Við á Grund höfum alla tíð verið afskaplega heppin með allt það starfsfólk sem hefur sinnt þeim þúsundum heimilismanna sem hafa dvalið hjá okkur þessa tæpu öld. Og heppnin varðandi starfsfólkið hefur fylgt okkur á hin Grundarheimilin tvö, Ás frá 1952 og Mörk frá 2010. Öll þessi 99 ár hefur áhersla verið lögð á framúrskarandi þjónustu við heimilisfólkið ásamt því að starfsemin hefur verið byggð upp og efld. Eins og áður segir þá tók Ás til starfa í júlí 1952 og Mörk í ágúst 2010. Í dag eru heimilismennirnir á Grundarheimilunum þremur tæplega 400. Þar að auki eigum við og leigjum út rúmlega 150 íbúðir til 60 ára og eldri í Mörkinni við Suðurlandsbraut. Þá rekum við okkar eigið þvottahús í Hveragerði. Samtals vinna um það bil 700 manns hjá fyrirtækjunum sex og heildarvelta þeirra í fyrra nam rétt tæpum sex milljörðum króna. Umfangsmikill rekstur í alla staði sem nær vonandi að vaxa og dafna enn frekar á komandi árum. En meginmarkmið Grundarheimilanna er ávallt og verður að veita heimilisfólki framúrskarandi þjónustu og gera allt hvað hægt er til að þeir geti notið lífsins eins vel og kostur er, oft við misjafna heilsu. Það verður gaman að fá að halda upp á aldarafmælið á næsta ári. Unnið er að ritun 100 ára sögu Grundar og gerð heimildamyndar um heimilið er í farvatninu. Fleira skemmtilegt verður gert á afmælisárinu, kemur í ljós eftir því sem að líður á næsta ár. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Pissað í skóinn

Fékk símhringingu frá Sjúkratryggingum Íslands, eða heilbrigðisráðuneytinu, man það ekki alveg, fyrir nokkrum vikum. Tilefnið var mjög erfið staða Landspítalans á þá leið að þar dveldu allt of margir aldraðir einstaklingar, sem ættu frekar að búa á hjúkrunarheimili en að eyða síðustu ævidögunum á hátæknisjúkrahúsi. Sem er sko algjörlega satt. En símtalinu fylgdi ótrúleg beiðni. Hvort við gætum ekki bætt við rúmum í einstaklingsherbergi Grundar þannig að það kæmust tveir heimilismenn í eins manns herbergi. Hoppað áratugi aftur í tímann í einu símtali. Og pissað rækilega í báða skóna. Ég trúði varla því sem ég heyrði, en þetta er dagsatt. Við á Grundarheimilunum, á Grund og í Ási, höfum sl. áratugi verið að fækka tvíbýlum og útbúið eins manns herbergi með sér baðherbergi fyrir hvern og einn. Nokkur tvíbýli eru enn á Grund og sömu sögu er að segja úr Ási. Við stefnum að því að þau verði öll úr sögunni á næstu árum. En þarna var sem sagt verið að snúa við jákvæðri og skynsamlegri þróun undanfarinna ára á augabragði. Einhverjir gætu sagt að þetta yrði bara til bráðabirgða og stæði stutt yfir. En lítið til dæmis á Vífilsstaði sem Landspítalinn rekur. Hefðbundnum hjúkrunarheimilisrekstri var hætt þar árið 2010, enda húsnæðið og öll aðstaða allsendis ófullnægjandi til slíks. En viti menn, í lok árs 2013 var opnuð þar biðdeild LSH, til bráðabirgða og er enn rekið sem slík fyrir þá sem hafa lokið meðferð á sjúkrahúsinu og bíða þess að komast í varanlega dvöl á hjúkrunarheimili. Þar búa í dag 42 einstaklingar. Átta ára bráðabirgðaúrræði? Hvað ætli langtímaúrræði nái yfir langan tíma? Stjórnvöld hafa dregið lappirnar varðandi uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma á suðvesturhorni landsins um langt árabil. Reglulega dúkkar upp umræða meðal opinberra aðila um aukna heimahjúkrun og heimaþjónustu, en eins og hingað til eru slík vilyrði því miður frekar á orði en borði. Aukin þjónusta heim er að sjálfsögðu af hinu góða en hún dugar ekki til því aldurssamsetning þjóðarinnar er með þeim hætti að við þurfum einnig ný hjúkrunarrými. Vonandi sér ný ríkisstjórn ljósið og dregur til baka þessar forneskjulegu hugmyndir um að fjölga einstaklingum í þeim herbergjum sem núverandi heimilismenn hjúkrunarheimila búa í í dag. Pissið verður fljótt kalt í skónum. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna