Allar fréttir

Slökun í Bæjarási

Notalegur morgun í Bæjarási þegar Fanney iðjuþjálfi heimsótti heimilisfólkið þar og bauð upp á slökun. Heitir bakstrar á axlir og hlýjir ullarvettlingar á hendur. Ljúf rödd sem leiddi heimilisfólkið smám saman í kyrrð og ró

Bíó í hátíðasal

Í gær var boðið upp á bíósýningu í hátíðasal Grundar þar sem sýnd var heimildamyndin sem gerð var um Grund á hundrað ára afmæli heimilisins árið 2022. Heimiismenn voru áhugasemir og boðið var upp á hressingu í hléi eins og vera ber.

Æfingar í sundlauginni á Grund

Sumarið 1954 var tekin í notkun sundlaug á Grund og enn er hún í notkun. Hún er ekki stór en hún er heit og notaleg. Það er dásamlegt að gera æfingar í sundlauginni sem opin er tvisvar í viku. Áhugasamir heimilismenn eða aðstandendur þeirra hafi samband við sjúkraþjálfunina eða í gegnum deildarstjóra til að fá tíma í lauginni. Það er lyfta ofan í laugina fyrir þá sem þurfa

Hattaball Grundar

Það var fjör á hattaballi Grundar á öskudag. Allir sem vettlingi gátu valdið skörtuðu skrautlegum höfuðfötum og sumir fóru meira að segja í búning til að lífga upp á tilveruna. Við erum svo heppin hér á Grund að eiga orðið myndarlegt safn af höttum sem við lánum þeim heimlismönnum og starfsfólki sem ekki á. Hið vinsæla Grundarband lék fyrir dansi en harmonikkuleikararnir koma til okkar í sjálfboðavinnu í hverjum mánuði og gleðja okkur með harmonikkuleik.

Öskudagur tekinn með trompi

Öskudagurinn var tekinn með trompi í Mörk og bæði starfsfólk og heimilisfólk lífguðu upp á daginn með að skarta búningum. Börn frá leikskólanum Steinahlíð komu svo í heimsókn og slógu köttinn úr tunnunni og þá færðist fjör í leikinn í húsinu hjá okkur.

Gáfu öllum heimiliskonum rós

Í tilefni konudags í gær fengu allar heimiliskonur á Grundarheimilunum rós að gjöf. 🥰 Tæplega þrjú hundruð rósir sem heimiliskonur fengu eru gjöf frá Ræktunarstöðinni í Hveragerði og að sögn Jóhanns Ísleifssonar blómabónda var ljúft að geta glatt heimiliskonurnar með þessari rósasendingu. Í fyrra gáfu þeir líka rósir á heimilin á konudaginn. Grundarheimilin þakka Ræktunarstöðinni fyrir þessa hlýju og fallegu gjöf.🌹

Fjör á heilsudögum í Mörk

Það standa yfir heilsudagar í Mörk þessa dagana. Heimilisfólkið hefur tekið þátt í ýmsum óhefðbundnum æfingum og haft gaman af. Það er dansað, blöðrur gegna hlutverki og svo eru ýmsir boltaleikir vinsælir. Það er ekki annað að sjá en heimilisfólkið elski þessa tilbreytingu.

Heilsudagar á Grund

Það standa yfir heilsudagar á Grund þessa dagana. Heimilisfólkið hefur tekið þátt í ýmsum óhefðbundnum æfingum og haft gaman af. Hér eru það blöðrur sem gegna lykilhlutverki og eitthvað koma líka gosflöskur við

Undirbúa Lífshlaupið í næstu viku

Í næstu viku er Lífshlaupsvika á Grund og þessa dagana er verið að undirbúa hana. Heimiliskonur á Litlu og Minni Grund máluðu plastflöskur í gríð og erg nú í vikunni. Þær verða svo fylltar af hráum hrísgrjónum, þeim stillt upp og farið í keilu með þær. Endurnýta og hreyfa sig.

Danskir nemendur í Mörk

Grundarheimilin eru í samvinnu við nokkra skóla í Danmörku sem bjóða upp á nám í félags- og heilbrigðisþjálfun. Dönsku nemendurnir hafa komið í starfsþjálfunina í Mörk. Þeir eru á Erasmus styrk sem skólarnir sækja um. Nemendur sjá um að finna sér húsnæði í Reykjavík og eru oftast í fjórar vikur í Mörk. Þeir taka þátt í öllum daglegum umönnunarstörfum og fá leiðsögn og vinna þeirra er þá hluti af verklegri þjálfun hjá þeim. Undanfarin misseri hafa verið að koma nemendur alla vetrarmánuðina hingað í Mörk eða um átta til tíu nemendur á ári. Í dag kveðja þrjár danskar stúlkur okkur, þær Nina Sørensen Sabrina Navne Ølund og Emma Myrén en þær eru nemendur við Social og sundhedsskolen á Fjóni. Við hittum Nínu og Sabrínu stuttlega í gær. Þær eru afskaplega ánægðar með dvölina og hefðu alveg getað hugsað sér að vinna hjá okkur lengur. Glöggt er gests augað svo við spurðum hvernig þeim líkaði að vinna hér. "Það er svo notalegt og afslappað andrúmsloftið hér í Mörk. Það eru viðbrigði frá því sem við eigum að venjast þar sem streita einkennir meira vinnuumhverfið. Í Danmörku þarf að koma öllum fram í morgunmat á réttum tíma og vinna verkin hratt en hér ræður heimilisfólkið meira ferðinni sjálft og fer á fætur þegar því hentar", segir Nína. Sabrína tekur undir og segir að morgunvaktir séu líka miklu betur mannaðar hér, þrír til fjórir sem sinna hverri heimiliseiningu á meðan það eru tveir í Danmörku sem sinna sama fjölda. "Heima eru starfsmenn yfirleitt í einkennisbúningi og má ekki slettast á þá bleyta þá þarf að skipta um föt og það verður allt stofnanalegra þannig. Það er þetta heimilislega andrúmsloft sem er svo notalegt og gefandi", segir Sabrina. Að lokum benda þær á að heimilisfólk sé yfirleitt miklu hressara hér en í Danmörku. "Það eru margir heimilismenn hérna sem geta tekið þátt í ýmsu og gert hluti á meðan fólk sem fer á hjúkrunarheimili í Danmörku er orðið mjög veikt þegar það kemur á hjúkrunarheimili."