Fréttir

Málþing í gær

Í gær stóðu Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu að málþingi um greiningu á rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila í tilefni af útkomu svo kallaðrar Gylfaskýrslu. Heilbrigðisráðherra ávarpaði samkomuna, Gylfi Magnússon fór rækilega yfir niðurstöður skýrslunnar, Haraldur Benediktsson varaformaður fjárlaganefndar og Helga Vala Helgadóttir formaður velferðarnefndar voru fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu. Ingibjörg Hjaltadóttir sérfræðingur í öldrunarhjúkrun kynnti fyrir fundarmönnum heilsufar og neikvæða þróun þess hjá heimilismönnum hjúkrunarheimila og Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga fór yfir málefnið út frá sjónarmiði sveitarfélaganna. Í máli Gylfa kom meðal annars fram að 87% hjúkrunarheimila landsins voru rekin með halla árið 2019 og hefðu daggjöld þurft að hækka á því ári um 6,3% þannig að þau væru réttu megin við núllið. Einnig að nær öll heimilin ættu langt í land með að ná lágmarks umönnunarklukkustundum heimilismanna eins og embætti landlæknis skilgreinir það. Fleira miður gott fylgdi. Engu að síður kom einnig margt gott fram á málþinginu. Meðal annars það að á næstunni verður lagt fram á Alþingi fjáraukafrumvarp sem inniheldur vonandi eitthvað sem skiptir aðildarfélög SFV máli. Fyrir utan vænta hækkun daggjalda vegna styttri vinnutíma vaktavinnufólks, vonast ég til að þess að með þessum auknu tekjum hjúkrunarheimilanna verði fleiri þeirra rekin með afgangi í ár en verið hefur undanfarin misseri. Þetta er þó sýnd veiði, en ekki gefin. Áður hefur verið lofað að koma til móts við rekstrarvanda aðildarfélaga SFV, en ekki alltaf staðist, því miður. Tek undir orð heilbrigðisráðherra á þá leið að það þurfi að skoða möguleika þess að nýta sem best það takmarkaða fjármagn sem er til skiptanna við veitingu öldrunarþjónustu. Og þar er ráðherrann að vísa til eins manns nefndarinnar sem Halldór Guðmundsson á Akureyri skipar. Bind miklar vonir við niðurstöðu þeirrar nefndar en það kemur þó ekki til með að bjarga núverandi neyðarástandi hjúkrunarheimilanna. Til þess þarf að grípa til skjótra ráðstafana. Góð orð Haraldar Benediktssonar varaformanns fjárlaganefndar á málþinginu í gær gefa væntingar um að stjórnarmeirihlutinn hafi séð ljósið, og ætli að koma hjúkrunarheimilunum til bjargar. Betra er seint en aldrei. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna og formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu

Kæru aðstandendur

Nú er grímunotkun valkvæð í Mörk með þeirri undantekningu þó að óbólusettir starfsmenn nota andlitsgrímu þegar þau eru í mikilli nánd eða innan við 1 meter við heimilisfólk í tíu mínútur eða lengur. Við hlökkkum til að mæta ykkur með bros á vör 😊 Sumarkveðja, Ragnhildur

Hjóluðu 739 kílómetra

Markarliðið í Hjólað í vinnuna lenti í 62.sæti í kílómetrakeppninni Lið Markar hjólaði alls 47 daga og var heildarvegalengd hjá Mörkinni 738.8 km. Markarliðið skipuðu Ragnhildur, Sigríður og Guðrún sem eru á myndinni en á myndina vantar tvo liðsfélaga Líney og Einar.

Bollakökur og fleira

Nú í vikunni fór ég ásamt fulltrúum mannauðsdeildar Grundarheimilanna með bollakökur og appelsín og kók í gleri til þeirra starfsmanna sem voru í vinnunni á Grundarheimilunum þremur. Náðum ekki til alveg allra. Það var gaman að fá að hitta svona marga starfsmenn, eitthvað sem ég hef forðast að gera undanfarið ár vegna Covid 19. Þess utan er ég nú ekki týpan í að vísitera einstaka einingar/heimili Grundarheimilanna bara til að spjalla. Finnst alltaf að ég þurfi að hafa eitthvað erindi, eitthvað að gera. Ekki alveg eins og móðir mín og fyrrum forstjóri Grundar, sem var og er alveg dásamleg í að rölta um heimilið og spjalla við heimilis- og starfsfólkið með sinni alúð og hlýju. En svo er það einhvern veginn þannig, að þegar ég er kominn af stað, þá er þetta bara ferlega skemmtilegt. Og gagnlegt. Maður kynnist alltaf einhverjum nýjum og fær aðra sýn á hitt og þetta í daglegum rekstri heimilanna. Hugmyndin að bollakökunum kom frá mannauðsdeildinni og er hugsuð sem smá þakklætisvottur til starfsmanna Grundarheimilanna fyrir erfiðan en árangursríkan vetur. Mjög flott hugmynd Íris, Dennis og Ingibjörg. En ekki fleiri orð um veturinn, hann er búinn og sólríkt sumarið framundan. Ítreka ég enn og aftur þakklæti mitt til allra starfsmanna Grundarheimilanna sem hafa staðið sig eins og hetjur undanfarin misseri. Heyrði á nokkrum stöðum vangaveltur af hverju heimilisfólkið fengi ekki líka bollakökur. Skiljanlegt. En þessi atburður beindist sem sagt eingöngu að starfsfólkinu í þetta skiptið, það koma önnur tækifæri og aðrir viðburðir til að gleðja heimilisfólkið. Starfsfólkið á þetta svo sannarlega skilið en þar með er ekki sagt að það megi/eigi ekki að gleðja heimilisfólkið, síður en svo. Við notum önnur tækifæri til þess í sumar. Sitthvað fleira stendur til að gera fyrir okkar góða starfsfólk í sumar, kemur í ljós hvað það verður. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Kæru aðstandendur

Í næstu eigum við von á að starfsfólk fái síðari bólusetningu og getum við þá slakað á heimsóknarreglum upp úr mánaðarmótum mai/júní. Þangað til verða óbreyttar heimsóknarreglur. Það þýðir að enn eru tvær heimsóknir á dag og börn undir 18 ára mega því miður ekki koma í heimsóknir. Heimsóknartímar eru óbreyttir frá 13-18. Heimsóknir eru bundnar við herbergi heimilismanna og útisvæði. Veðrið hefur verið hagstætt og hvetjum við ykkur til að nýta heimsóknartímann til útiveru. Það gerir öllum svo gott. Við biðjum gesti að gæta ítrustu árverkni og hafa sóttvarnarráðstafanir í heiðri. Gestir noti andlitsgrímur og spritti sig við komu á heimilið. Höfum hugfast að bólusettir einstaklingar geta smitast af Covid og smitað aðra. Enn og aftur þakka ég ykkur öllum fyrir góða samvinnu þennan erfiða vetur, það er bjart framundan😊 Kveðja Mússa

Gleðilegt sumar frábæra starfsfólk

Gleðilegt sumar - þið eruð frábær er tilefnið nú þegar forstjóri Grundarheimilanna, Gísli Páll Pálsson, fer á milli heimila og deilda og óskar starfsfólki sínu gleðilegs sumar og býður upp á hressingu. "Það er ekki sjálfgefið að hafa á að skipa jafn frábæru starfsfólki og við höfum á okkar heimilum og svo er komið sumar og sólin skín. Ekki hægt að hugsa sér betra tilefni til að fá sér köku og fagna; segir hann og brosir. Hér er hann ásamt starfsmönnunum Ingibjörgu, Jóhönnu og Dennis.

Hnoðri heimsækir dýralækninn

Dagbjört og Steinunn Svanborg í Bæjarási fóru með Hnoðra í árlegt eftirlit til dýralæknis á Selfossi. Hnoðri, sem er að verða 12 ára, stóð sig með prýði, var stilltur og heyrðist ekki múkk frá honum. Hann fékk b-vítamín og ormalyf og svo þarf að passa upp á að hann fái nóg að éta því hann hefur aðeins lést.

Til aðstandenda

Í samráði við sóttvarnaryfirvöld gerum við nú tilslakanir á heimsóknarreglum. Áfram biðjum við gesti að gæta ítrustu árverkni og hafa sóttvarnarráðstafanir í heiðri. • Gestir og börn þeirra eru velkomin. • Gestir dvelja ekki í sameiginlegum rýmum heimilanna eins og borðstofu og setustofu. • Heimilismönnum er heimilt að fara út af heimilinu, í gönguferðir, í bíltúra og heimsóknir með sínum nánustu en gæta vel að sóttvörnum og spritta hendur við heimkomu. • Gestir bera grímur, spritta hendur og fara beint inn á herbergi þar sem þeir geta tekið grímuna niður. Gestir mega ekki koma í heimsókn ef þeir: a. Eru í sóttkví en gera má undanþágur vegna lífslokameðferðar eða skyndilegra veikinda. b. Eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu úr sýnatöku). c. Hafa dvalið erlendis og ekki eru liðnir 14 dagar frá heimkomu. Þetta ákvæði gildir þó ekki um fullbólusetta eða þá sem hafa fengið COVID-19. Eru þeir velkomnir í heimsókn svo fremi sem þeir framvísa gildum vottorðum og gæti vel að handhreinsun. d. Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift. e. Eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang). Mikilvægt er að hafa í huga að sömu samkomutakmarkanir gilda í Ási og almennt í samfélaginu og höfum hugfast að bólusettir einstaklingar geta smitast af Covid og smitað aðra. Í Ási er búið að fullbólusetja allflesta heimilismenn og starfsmenn. Enn á eftir að bólusetja einhverja af vorboðunum okkar ljúfu, starfsmenn sem hófu störf á vormánuðum og eru komnir til að leysa okkur hin af í sumarfríi, ef af líkum lætur fá þau bólusetningu á næstu vikum. Þó kalt hafi verið í veðri í morgun er sumarið heldur betur farið að minna á sig, trén að laufgast og grasið að grænka. Við sjáum fram á betri tíð eftir langan og erfiðan vetur. Hjartans þakkir fyrir allt og gleðilegt sumar, Birna

Kæru aðstandendur

Í samráði við sóttvarnaryfirvöld gerum við nú tilslakanir á heimsóknarreglum. Áfram biðjum við gesti að gæta ítrustu árverkni og hafa sóttvarnarráðstafanir í heiðri. Gestir og börn þeirra eru velkomin. Gestir dvelja ekki í sameiginlegum rýmum heimilanna eins og borðstofu og setustofu. Gestir, börn og heimilismenn hjúkrunarheimilisins eru velkomnir í Kaffi Mörk á meðan sætarými leyfir. Heimilismönnum er heimilt að fara út af heimilinu, í garðinn okkar fallega, í bílferðir og heimsóknir með sínum nánustu. Gestir bera grímur, spritta hendur og fara beint inn á herbergi þar sem þeir geta tekið grímuna niður. Aðalinngangur í Mörk er opinn milli kl.8-18. Mikilvægt er að hafa í huga að sömu samkomutakmarkanir gilda í Mörk og almennt í samfélaginu og höfum hugfast að bólusettir einstaklingar geta smitast af Covid og smitað aðra. Í Mörk er búið að fullbólusetja allflesta heimilismenn og starfsmenn. Enn er eftir að bólusetja vorboðana okkar ljúfu, starfsmenn sem hófu störf á vormánuðum og eru komnir til að leysa okkur hin af í sumarfrí, ef af líkum lætur fá þau bólusetningu á næstu vikum. Ég tek heilshugar undir orð Gísla Páls forstjóri Grundarheimilanna það sem hann sagði meðal annars í pistli sínum 30.apríl síðastliðnum að lengsti og erfiðasti vetur á sinni starfsævi væri lokið. En þeir sem þekkja mig vita að ég er bjartsýnismanneskja að eðlisfari og nú horfir til betri tíðar þar sem sumarið er heldur betur farið að minna á sig og framundan er sól og sumarylur. Hjartans þakkir fyrir allt og gleðilegt sumar, Ragnhildur

Breytingum á A-2 fagnað

Í síðustu viku var haldið upp á breytingar sem gerðar hafa verið á annari hæð í austurhúsi Grundar, Þar eru nú komin sex ný einbýli með sér baðherbergjum og búið að rýmka í setustofu og á gangi. Frábærar breytingar sem miða að sjálfsögðu að því að betur fari um heimilismennina.