Fréttir

Frétta-, alnets- og samfélagsmiðlabindindi

Síðastliðinn laugardag tapaði D-listinn í Hveragerði helmingi bæjarfulltrúa sinna í bæjarstjórn Hveragerðis og þar með þeim hreina meirihluta sem hann hefur haft undanfarin 16 ár. Fengum tvo af sjö. Eins og síðastliðnar fimm kosningabaráttur, frá árinu 2002, var ég kosningastjóri þessa flotta fólks nú í vor sem bauð fram krafta sína til að stýra bænum. Á sunnudeginum var ég aðeins beygður, fannst ég ekki hafa staðið mig og langaði einhvern veginn ekki að fylgjast með fjöl- og samfélagsmiðlum (sem séra Pétur vinur minn kallar reyndar sundurfélagsmiðla, nokkuð til í því) þann daginn. Og líðanin varð smám saman betri. Eftir því sem fleiri dagar liðu í þessu bindindi hefur mér áskotnast talsvert meiri tími til allskonar. Maður gerir sér ekki grein fyrir því hversu ávanabindandi öll þessi netnotkun er, fylgjast með á facebook, mbl.is, visir.is og hvað þeir heita nú allir þessir netmiðlar. Áhugi á eða áhyggjur af því hvort Dagur, Einar eða Hildur (í stafrófsröð til að gæta fyllsta hlutleysis) verði borgarstjóri í Reykjavík eða hver verður ráðinn bæjarstjóri í Árborg. Kannski verður nafni minn þar áfram. Veit vel að bindindi sem þetta mun ekki halda hjá mér um ókomna tíð, en ég hefði ekki trúað því hversu góð tilfinningin er og ég mun eflaust fara í samskonar „afvötnun“ einhvern tíma seinna á lífsleiðinni. Vinnu minnar vegna þykir mér líklegt að ég neyðist til að kíkja eitthvað á fréttir í næstu viku, kannski ekki fyrr en í þar næstu. Tel líklegt að það muni einhver segja mér, jafnvel aðeins gegn vilja mínum, hver verði næsti borgarstjóri þegar það liggur fyrir. Kemur í ljós. D-listinn kemur ekki að stjórn bæjarins næstu fjögur árin og Alda, eiginkona mín sem er í öðru sæti listans og í minnihluta, kemur þar með til með að hafa meiri tíma fyrir okkur hjónin, meira golf, meiri frítíma, meiri samveru og miklu betra líf. Það er nefnilega þannig að það geta falist sigrar í ósigrum. Og þannig lít ég á úrslitin um síðastliðna helgi. Ég græði persónulega heilmikið á því að við í D-listanum töpuðum meirihlutanum. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Og húsið ómaði af söng

Gospel söngur á Grund

Í vikunni fengum við góða geti frá Michigan í Bandaríkjunum til að syngja í hátíðasal heimilisins. Margir heimilismenn lögðu leið sína á tónleikana. Um var að ræða átta manna gospel hóp frá Andrews háskólanum í Michigan.

Framkvæmdir Grundarheimilanna 2022

Í ár sækja Grundarheimilin í Framkvæmdasjóð aldraðra um framlag upp á 152 milljónir vegna framkvæmda upp á 380 milljónir. Sjóðurinn styrkir framkvæmdir sem bæta aðstöðu heimilismanna á hjúkrunarheimilum um 40%. Stærsta einstaka framkvæmdin er suðurgarður Grundar. Þar er fyrirhugað að opna leið úr núverandi starfsmannaborðstofu á jarðhæð út í garðinn og reisa þar rúmlega 100 fermetra veitingaskála. Þar verður hægt að kaupa veitingar og njóta skálans og garðsins sem verður útbúinn fallegum bekkjum, leiktækjum og gróðri. Einnig verður rýmið þannig úr garði gert að það verður „mannhelt“ þeim sem eru með minnisglöp og eru ekki alveg með á nótunum. Áætlaður kostnaður við breytingarnar á garðinum er um það bil 150 milljónir. Næst stærsta framkvæmdin er breyting á svokölluðum stubbi frá þeim breytingum sem síðast voru í gangi frá A2 til vesturs að borðstofunni á annarri hæð. Þar að auki verður norðurhluta borðstofunnar breytt í tvö einsmanns herbergi, hvort með sínu baðherbergi. Þetta kostar 106 milljónir. Með þessu bætist enn í eins manns herbergin á Grund með sér baðherbergi. Þriðja í röðinni er endurnýjun á lyftu á Minni Grund sem er kominn til ára sinna. 33 millur þar. Árlega er síðan skipt um nokkra tugi glugga á Hringbraut 50 og í ár er gert ráð fyrir 27 milljónum í þá framkvæmd. Níu aðrar framkvæmdir eru ráðgerðar á Grund, Mörk og Ási. Framkvæmdir sem þessar eru allar til þess fallnar að bæta aðstöðu heimilismanna Grundarheimilanna. Í gegnum árin hafa þessar framkvæmdir numið mörg hundruð milljónum króna og hverri krónu er vel varið. Með þessu erum við reyndar að fækka rýmum á Grund þar sem hvert herbergi fær sér baðherbergi, og slíkt kostar pláss. Vonandi sér stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra þessi mál í sama ljósi og stjórn Grundar og veitir öllum þessum brýnu framkvæmdum styrk og þar með brautargengi. Við þurfum svo sannarlega á því að halda. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Púttvöllurinn opinn

Púttvöllurinn hefur verið opnaður á ný. Í tilefni af því hittist pútthópurinn í síðustu viku og tók saman fyrsta pútt ársins.

Sumarsól í Mörk

Heimilisfólkið í Mörk hefur verið að búa til fallegt listaverk fyrir anddyrið. Páskaskreytingin vék fyrir þessari dásamlegu sumarsól. Frábær samvinna við að setja saman listaverkið, sem minnir á sumarið og tíðina sem í vændum er.

Skemmtileg heimsókn

Sönghópurinn Tjaldur söng nokkur lög með heimilisfólkinu á hjúkrunarheimilinu í Ási á dögunum. Hress hópur og mikil upplyfting að fá svona skemmtilega heimsókn í hús. Takk fyrir okkur.