Fréttir

Hagstæður samningur hjúkrunarheimila við SÍ

Í byrjun þessarar viku var gengið frá samningi við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur hjúkrunarheimila landsins til næstu þriggja ára. Óvenjulangur gildistími en tiltölulega stuttur uppsagnarfrestur getur þó alltaf komið hvorum samningsaðila fyrir sig út úr samningnum breytist forsendur á þann veg að annar hvor kjósi slíkt. Nokkur mikilvæg atriði náðust í gegn og má þar meðal annars nefna að svo kallað 2% þak á hækkun daggjalda, vegna aukinnar hjúkrunarþyngdar, er tekið út úr samningnum. Sem þýðir að ef hjúkrunarþyngd eykst um 3 % til dæmis, þá hækkar umönnunarþáttur daggjaldsins um 3% í stað 2% áður. Þá er daggjaldagrunnurinn styrktur um þann milljarð sem kom inn sem aukafjárveiting á síðasta ári, sem er mikilvæg viðurkenning á því að grunnurinn var einfaldlega of lágur. Þá er útlagasjóðurinn hækkaður all verulega og undir hann felldar enn fleiri tilvik kostnaðarauka en áður var, sem er hið best mál. Enn frekara fjármagn á að koma inn í þann sjóð á næsta ári. Einnig má nefna að það kemur aukið fjármagn inn til greiðslu smæðarálags, það er auknar greiðslur til smærri hjúkrunarheimila. Fleira gott mætti nefna en læt duga í bili. Það er nú þannig að þegar farið er í samningaviðræður næst aldrei allt það fram sem lagt er upp með. Og það gildir einnig í þessu tilviki. Húsnæðismálin eru enn og aftur sett til úrvinnslu í nefnd sem á að skila lokaáliti seinni hluta næsta árs. Þetta er í raun óþolandi en þegar viðsemjandinn er bara einn þá getur maður því miður ekki annað en kyngt þessu svona. Það er eitthvað bogið við það, að það þurfi að ræða sérstaklega í nefnd hvort og þá hversu mikið eigi að greiða fyrir notkun á húsnæði hjúkrunarheimila landsins, sem við leggjum ríkinu til við rekstur öldrunarþjónustunnar. Af hverju ræðum við ekki þá sérstaklega hvort og þá hversu mikið eigi að greiða fyrir þann mat sem við veitum okkar heimilismönnum? Eða lyf? Maður spyr sig. En ég ætla ekki að vera í fýlu út af þessu, heldur safna liði (í nefndina góðu, hvað annað) og vinna því brautargengi að sú sjálfsagða krafa fáist viðurkennd og samþykkt, að greiða sanngjarna húsaleigu fyrir allt það húsnæði sem til dæmis Grundarheimilin leggja til við veitingu öldrunarþjónustu á Hringbrautinni og Hveragerði. Svona eins og að við munum áfram útvega okkar heimilismönnum mat og lyf og fá það greitt af hálfu ríkisins að fullu. Það var Sigurjón Norberg Kjærnested framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu sem leiddi þessa samningalotu fyrir hönd samtakanna og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sem gerði hann það afskaplega vel og ég þakka honum kærlega og ásamt öðrum nefndarmönnum og starfsmönnum framangreindra aðila. Starfsmönnum Sjúkratrygginga Íslands og heilbrigðisráðuneytis er einnig þakkað þeirra framlag að ógleymdum heilbrigðisráðherranum, Willum Þór Þórssyni sem lagði sitt af mörkum til að þessi hagstæði samningur yrði að veruleika. Það er ánægjulegt að skynja jákvæðan hug ráðherra til málaflokksins. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Listaháskólinn með námskeið á Grund

Á Grund stendur nú yfir dásamlegt námskeið sem átta heimilismenn Grundar taka þátt í sem og starfsfólk á heimilinu. Það er tónlistardeild Listháskólans sem býður upp á námskeiðið sem ber heitið Tónlist og heilabilun. Stuðst er við verkefnið Music for Life sem hefur verið starfrækt í London í rúmlega tuttugu ár. Kjarni verkefnisins eru tónlistarsmiðjur þar sem allir þátttakendur mætast á jafningjagrundvelli í tónlistarsköpun. Tónlistin verður farvegur samskipta og þátttaka og virkni allra þátttakenda leiðir til sameiginlegs þroska hópsins sem eykur lífsgæði. Magnea Tómasdóttur söngkona, sem hefur sérhæft sig í tónlistariðkun með fólki með heilabilunarsjúkdóma er kennari námskeiðsins, en ásamt henni taka þátt sex nemar frá Listaháskólanum og þrír hljóðfæraleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þau munu leiða hópinn í tónlistarspuna en það hefur sýnt sig að tónlistarþátttaka léttir lund, eykur lífsgæði og færni til samskipta. Þetta er sjötta árið sem þetta frumkvöðlaverkefni hefur verið gert hér á Íslandi

Kisa mín, kisa mín

Nú eru margar rafkisur komnar með fasta búsetu á Grund og heimilisfólkinu finnst virkilega notalegt að fá þær í fang til að klappa og kúra með. Kisurnar mala, mjálma og hreyfa sig og svara góðlátlega þegar þeim er klappað. Þær fara ekki úr hárum og fá bara nýjar rafhlöður þegar þær verða lúnar.

Mjög stór áfangi í Ási

Í Fréttablaðinu síðastliðna helgi auglýstu Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir, Heilbrigðisráðuneytið og Hveragerðisbær eftir umsóknum byggingaraðila (aðalverktökum) um þátttökurétt í lokuðu alútboði á fullnaðarhönnun og byggingu 22 rýma hjúkrunarheimilis í Hveragerði. Þar með er tikkað í stórt box á langri vegferð sem hófst með undirbúningsvinnu Glámu Kím arkitekta í ársbyrjun 2018 þegar ég fór af stað með málið. Fékk frá þeim tillögur og gögn, stjórn Grundar samþykkir síðan í febrúar ári síðar að sækja um leyfi til verksins til heilbrigðisráðuneytis með aðkomu Hveragerðisbæjar. Málið hefur síðan þá mallað í gegnum hið opinbera kerfi á þokkalegum hraða sem hefur svo skilað sér í þessari ánægjulegu niðurstöðu. Á þessu ári verður sem sagt valinn verktaki og vonandi hefst bygging nýja hússins í byrjun næsta árs, það skýrist þó betur þegar líður á árið. Ætli verklok verði ekki að tveimur til þremur árum liðnum. Nýja húsið verður norðan megin við núverandi hjúkrunarheimili og þetta verður mikil breyting á allri aðstöðu hjúkrunarrýma í Ási. Í beinu framhaldi af því að nýja byggingin verði tekin í notkun, munum við síðan breyta þeim níu tvíbýlum sem eru í gamla hjúkrunarheimilinu í eins manns herbergi, hvert með sitt baðherbergi. Þannig verður öllum í því húsi tryggt einbýli með sér baðherbergi, eitthvað sem er sjálfsögð krafa nútímans. Það er mér bæði ljúft og skylt að þakka öllum þeim fjölmörgu aðilum sem hafa komið að vinnslu þessa mikilvæga máls, opinberir embættismenn ríkis og Hveragerðisbæjar, stjórnmálamenn á sveitarfélaga- og landsvísu, mínir góðu samstarfsmenn í Ási ásamt fjölmörgum öðrum. Hafið hugheilar þakkir öll sömul fyrir ykkar góðu störf. Þetta nýja glæsilega hús verður vitnisburður ykkar góðu verka um ókomna tíð. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Gárapar í hvíld á Grund

Það er algengt að fólk komi í hvíld á Grund í nokkrar vikur en það heyrir til undantekninga að gárapar komi í hvildarinnlögn til okkar. Gárarnir láta vel af dvölinni og fagna heimsóknum. Búrið þeirra er í anddyrinu hjá versluninni á Grund. Endilega kíkið við með ykkar aðstandendur og heilsið upp á parið.

Covid aurar

Covid 19 veiran hefur valdið miklum búsifjum um allan heim. Alvarlegust eru dauðsföll og veikindi þeirra sem hafa veikst illa. Nú á seinustu metrunum, vonandi, þessarar veiru, hafa þó einkenni þeirra sem hafa smitast verið afar væg í lang flestum tilfellum. Sem er gott. Efnahagsleg áhrif veirunnar eru gífurleg. Mikil skuldasöfnun ríkissjóðs, þrengingar og gjaldþrot margra fyrirtækja og einstaklinga, niðurskurður í ýmiskonar opinberri þjónustu og svo framvegis. En einhvern veginn höfum við sem samfélag komist í gegnum þetta í eins góðu jafnvægi og hægt er að ætlast til. Geri ekki lítið úr framangreindum vandamálum, en þetta er mitt persónulega mat. Covid er eitthvað sem við höfum öll lært mikið af. Til frambúðar má gera ráð fyrir að við sinnum perónulegum smitvörnum betur en við höfum gert hingað til og vonandi verða stjórnvöld um heim allan betur meðvituð um hvað skal gera þegar veira sem þessi skýtur aftur upp kollinum, hvenær sem það verður nú. Eitt af því sem covid hefur leitt af sér er aukinn rekstrarkostnaður hjúkrunarheimila landsins. Við höfum blessunarlega fengið mest af þeim kostnaði bættan hjá ágætum yfirvöldum þessa lands. Nú á lokametrunum hefur veiran dreift sér víða á þessum heimilum sem veldur, fyrir utan auðvitað veikindum og óþægindum þeirra sem smitast, verulega auknum rekstrarkostnaði. Tvennt veldur. Annars vegar hafa heimilin greitt álag til þeirra starfsmanna sem hafa sinnt heimilismönnum í íþyngjandi hlífðarbúnaði og svo höfum við þurft að grípa til fjölmargra aukavakta þar sem talsverður fjöldi starfsmanna hefur veikst. Kostnaðurinn hleypur á tugum milljóna króna fyrir Grundarheimilin í lok síðasta árs og byrjun þessa. Við höfum sótt um endurgreiðslu vegna þessa kostnaðarauka og fengið jákvæð svör og greiðslur fyrir nær öllu því sem við báðum um. Og fyrir það ber að þakka af heilum hug. Vonandi heldur það ferli áfram á sömu nótum næstu misserin. Við erum ekki kominn alveg í gegnum brimskaflinn, en langleiðina þó og með góðri hjálp yfirvalda tekst okkur að komast heil á höldnu í gegnum þetta allt saman. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Glens og gaman í Mörk

Það er ekki leiðinlegt að búa eða starfa á 2 hæðinni í Mörk, svo mikið er víst. Það var mikið um hlátrasköll og glens í morgun þegar heimilisfólkið var að koma fram og bjóða góðan dag.

Heimilispósturinn - mars 2022

Heit eggjakaka í morgunmat

Stundum er gott að bregða út af vananum og það er einmitt það sem gert var í eldhúsinu á Litlu Grund fyrir síðustu helgi. Þá ákvað starfsfólkið að skella í eggjaköku og bjóða með hafragrautnum og því venjulega sem er á boðstólum á morgnana. Það var almenn ánægja með tilbreytinguna.