Fréttir

Heimilismenn buðu aðstandendum í afmæliskaffi

Alla síðustu viku buðu heimilismenn aðstandendum í afmæliskaffi til að halda upp á aldarafmæli heimilisins. Á mánudag var afmæliskaffi í Mörk, á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag á Grund og á föstudag í Ási. Það voru dúkuð borð, fánar og blóm og boðið upp á heitt súkkulaði og allskyns meðlæti. Gísli Páll Pálsson forstjóri Grundarheimilanna flutti ræðu og á Grund tók Grundarkórinn lagið alla dagana þrjá og Sigrún Erla Grétarsdóttir söng nokkur lög við undirleik Kristófers H. Gíslasonar. Notaleg samverustund heimilismanna með sínu fólki á þessum stóru tímamótum Grundar. Ljósmyndir tók Viktoría Sól Birgisdóttir.

100 ára afmæli Grundar fagnað

Það ríkti góð stemning í hátíðarsal Grundar þann 29. október síðastliðinn þegar heimilið fagnaði 100 ára afmæli. Boðsgestir streymdu í salinn um miðjan dag til að heiðra heimilið, fluttu ávörp og komu færandi hendi með blóm og aðrar góðar gjafir. Móttakan hófst með ávarpi forseta Íslands, þá ræðu Jóhanns J. Ólafssonar stjórnarformanns Grundar, ræðu Gísla Páls Pálssonar forstjóra Grundarheimilanna og ræðu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Gissur Páll Gissurarson söng nokkur lög og endaði á afmælissöngnum. Þá veitti Öldrunarráð Íslands styrk sem ráiðið veitir árlega í nafni Gísla Sigurbjörnssonar fyrrum forstjóra Grundar og formaður Sjómannadagsráðs Ariel Pétursson færði afmælisbarninu táknræna styttu og Dirk Jarré formaður Eurag, evrópskra öldrunarsamtaka færði heimilinu listaverk.

Bleik Grundarheimili

Öll Grundarheimilin skarta bleiku í ár, í afmælismánuði Grundar sem fagnar aldarafmæli á morgun, laugardaginn 29. október.

100 ára afmæli Grundar

Á morgun laugardaginn 29. október á Grund 100 ára afmæli. Upphafið má rekja til líknarfélagsins Samverjans sem Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason langafi minn hafði forgöngu um ásamt fleiri góðum mönnum. Félagið hélt skemmtisamkomur og safnaði þannig fé auk þess að fá gjafafé frá Reykvíkingum. Býlið Grund við Sauðagerðistún var keypt og tekið í notkun þann 29. október árið 1922. Grund við Hringbraut var síðan byggð og tekin í notkun í september 1930. Haraldur Sigurðsson ráðsmaður Grundar féll frá haustið 1934 eftir skammvinn veikindi og í hans stað var ráðinn tímabundið afi minn Gísli Sigurbjörnsson til að stýra Grund. Það gerði hann í 60 ár en hann féll frá í janúar 1994. Mjög löng tímabundin ráðning. Móðir mín Guðrún Birna tók við Grund og var forstjóri heimilisins í 25 ár eða til 1. júlí 2019. Grund var lengi eina hjúkrunarheimili landsins og leiðandi í slíkri þjónustu um áratugaskeið. Afi heitinn byggði Grund upp, stofnaði til elliheimilisrekstrar í Hveragerði árið 1952 í samstarfi við Árnesinga og byggði við og bætti þar í bæ auk þess að auka verulega við húsakost við Hringbrautina. Grundarheimilin í dag eru þrjú, Grund, Ás og Mörk. Starfsemi í Mörkinni hófst árið 2010 þegar við tókum að okkur rekstur 113 rúma hjúkrunarheimilis við Suðurlandsbraut 66 auk þess að kaupa af Landsbankanum 78 íbúðir og leigja þær út til 60 ára og eldri. Sú starfsemi stækkaði verulega að umfangi árið 2018 þegar við byggðum 74 slíkar íbúðir til viðbótar þeim sem fyrir eru. Á Grund stendur til að halda áfram breytingum herbergja þannig að allir heimilismenn eigi kost á eins manns herbergi með sér baðherbergi. Þá stendur til að byggja kaffihús í suðurgarði Grundar þar sem gengið verður út frá núverandi matsal starfsmanna. Hægt verður að ganga út úr kaffihúsinu út í garð þar sem verða bekkir, runnar, blóm og tré og hægt að eiga þar notalega stund með kaffi og kleinu eða léttvínsglas. Framtíð Grundarheimilanna er björt. Það er góður bisniss að sinna öldrunarþjónustu hér á landi. Aldurssamsetning þjóðarinnar er með þeim hætti að við okkur blasa óþrjótandi tækifæri til að veita margskonar öldrunarþjónustu, jafnt á vegum hins opinbera sem og á einkamarkaði. Ég óska okkur öllum innilega til hamingju með árin eitt hundrað. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Heilsustyrkur

Grundarheimilin vilja stuðla að bættri heilsu starfsmanna með greiðsluþátttöku í heilsurækt og hreyfingu þeirra. Grundarheimilin greiða öllum starfsmönnum heilsustyrk eftir ákveðnum reglum þar sem hverjum starfsmanni býðst styrkur upp á 20.000 krónur á ári. Til að fá þennan styrk þurfa starfsmenn að skila inn kvittun vegna aðgangs að líkamsrækt, sundlaug eða einhverri annarri heilsueflandi hreyfingu. Þessum kvittunum þarf að skila til launafulltrúa á netfangið laun@grund.is. Einnig er hægt að hafa samband við mannauðsdeildina á mannaudur@grund.is ef einhverjar spurningar vakna. Styrkurinn er fyrst veittur eftir sex mánuði í starfi og er veittur í samræmi við starfshlutfall. Styrkinn er einnig hægt að nýta til að greiða fyrir sálfræðiþjónustu og hafa nokkrir starfsmenn þegar nýtt sér þennan nýja möguleika, sem er vel. Starfsmönnum sem alla jafna notast við almenningssamgöngur til og frá vinnu býðst að láta styrkinn ganga upp í strætókort. Ég hvet alla starfsmenn Grundarheimilanna til að nýta sér þennan styrk og sækja árlega þessar 20 þúsund krónur sem bíða. Langflestir stunda einhverskonar hreyfingu sem kostar peninga og þetta er kjörin leið til að minnka þann kostnað. Hreyfum okkur, styrkjum heilsuna og látum okkur líða vel. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Fólk og fjársjóðir

Thelma Hafþórsdóttir Byrd er iðjuþjálfi í Mörk og hér skrifar hún fallega hugleiðingu um fólk og fjársjóði.

Síðbúin en kærkomin svör

Nýlega fengum við á Grundarheimilunum mjög svo síðbúin svör frá stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra um styrk sjóðins til ýmissa brýnna framkvæmda á heimilunum þremur. Oft hafa svörin komið í seinna fallinu en aldrei eins og nú. Þetta eru framkvæmdir yfirstandandi árs sem við fáum svo sein svör við. Skýring; það var skipuð ný stjórn í byrjun árs vegna ráðherraskipta og sú stjórn var ekkert mikið að funda. Hvers vegna veit ég ekki og skiptir engu máli. Aðalatriði er að svörin eru komin hús og 13 af 14 voru jákvæð. Þar ber hæst að nefna tvö verkefni. Breyting á hluta af annarri hæð í austurhúsinu á Grund á þá leið að þar verða til fimm einbýli með baðherbergi í stað núverandi sex rýma sem ekki eru með sér baðherbergi. Þetta næst með því að taka norðurhluta borðstofunnar á annarri hæðinni og koma þar fyrir tveimur eins manns herbergjum, hvort með sitt baðherbergið. Þetta eru hænuskref í rétta átt, það er að það verði hægt að bjóða ÖLLUM heimilismönnum Grundar, og Grundarheimilanna reyndar allra, einbýli með sér baðherbergi. Forsenda fyrir því að ljúka þessum breytingum á næstu árum er að ríkið greiði sanngjarna húsaleigu fyrir það húsnæði sem Grundarheimilin við Hringbraut og í Hveragerði útvega ríkinu til reksturs hjúkrunarheimila, lögbundinnar þjónustu sem ríkið ber ábyrgð á. Meira um húsaleiguna síðar. Hitt stóra verkefnið, sem er alveg risastórt, er bygging veitingaskála í suðurgarði Grundar, í u-inu. Þangað verður innangengt úr núverandi matsal starfsmanna á jarðhæð. Skálinn verður í vesturhluta garðsins með útisvæði austan megin, setbekki, leiktæki, gróður og fallegt umhverfi. Þar verður hægt að kaupa sér eitthvað létt í hádeginu, kaffiveitingar og svo bjór eða léttvínsglas seinni part dags. Þessi aðstaða verður fyrsta flokks og tilvalið fyrir heimilismenn að bjóða aðstandendum sínum upp á kaffi og kruðerí eða einn ískaldan öl. Þessar framkvæmdir fara af stað næsta vor og lýkur vonandi seinni hluta næsta árs. Fyrir hönd Grundarheimilanna þakka ég stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra og heilbrigðisráðherra kærlega fyrir framlögin góðu til að bæta aðstöðu heimilismanna okkar. Þessi ákvörðun um framlögin er þeim til mikils sóma. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Fræðsla fyrir starfsfólk Grundarheimilanna

Um þrjátíu starfsmenn Grundarheimilanna sóttu fræðslu sem líknarteymi LSH hélt í síðustu viku í hátíðarsal Grundar. Að auki voru 19 starfsmenn í fjartengingu. Gagnleg og góð fræðsla.

Heimilispósturinn - október 2022