Fréttir

Nemendur úr Vesturbæjarskóla sungu jólalögin

Það var ánægjuleg heimsóknin sem við fengum á Litlu og Minni Grund fyrir jólin. Nemendur úr 6. bekk i Vesturbæjarskóla komu og sungu jólalögin fyrir heimilismenn. Þvílík gleði sem skein úr andlitum fólksins við að hlusta á þessi yndislegu ungmenni syngja inn jólin hjá okkur. Takk kærlega fyrir frábæra heimsókn. Hlökkum til að sjá ykkur næst.

Jól í skugga veiru

Annað árið í röð höldum við jólin hátíðleg í skugga andstyggilegrar veiru. Í fyrra var þetta eitthvað sem við vissum ekki hvernig ætti að tækla, en í ár erum við reynslunni ríkari. Reyndar eru líklega langflestir ef ekki allir orðnir hundleiðir á þessum endalausu boðum og bönnum sem koma með reglulegu millibili frá æðstu stjórnendum og ábyrgðarmönnum heilbrigðiskerfisins. Þeim til vorkunnar eru þau öll sömul að eiga við veiru sem virðist breyta sér eftir því sem tíminn líður og enginn veit í raun hvaða afleiðingar hvert afbrigði hennar hefur á heilsufar og líðan þeirra sem smitast. Hef trú á doktor Kára Stefánssyni, sem sagði þegar nýjasta afbrigðið kom fram, að líklega yrði það afbrigði meira smitandi en hefði í för með sér vægar einkenni veikinda. Til þess að veira haldi áfram að lifa má hún ekki drepa þá sem hún smitar, veiran virðist „vita þetta“ og þess vegna er þróunin sem Kári lýsir líkleg, í það minnsta að mínu mati. Og er það vel. Ef hans spár ganga eftir verður það versta í það minnsta yfirstaðið þegar kemur að jólunum að ári. En við skulum nú engu að síður reyna að njóta jólanna saman. Því miður hafa komið upp nokkur smit á Grundarheimilunum undanfarið og hefur það í för með sér viðeigandi ráðstafanir, einangrun eininga og deilda og annað það sem slík smit hafa í för með sér. Eins grábölvað og það er nú, þá erum við með þessu að taka meiri hagsmuni fram yfir minni. Líf og heilsa heimilismanna er í okkar huga, sem stjórnum Grundarheimilunum, mikilvægari og dýrmætari en heimsóknir, þó að þær sé vissulega einnig mjög mikilvægar, ekki síst á jólunum. Frumniðurstöður hagfræðilegrar rannsóknar um hagkvæmni heimsóknarbannsins sem var sett á í mars á síðasta ári í rúma þrjá mánuði, benda eindregið til þess að sú ákvörðun hafi verið mjög svo fjárhagslega hagstæð. Nánar um það síðar. En svona er lífið. Sífelldar áskoranir sem við þurfum að takast á við og tækla. Við skulum sameinast um að leysa þau verkefni sem okkur eru falin, góð og slæm. Jafnvel þó það þýði öðruvísi og ekki eins skemmtileg jól og við myndum óska okkur. Kveðja og gleðileg jól og farsælt komandi ár, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Laufabrauð og lestur

Notaleg stund í gær í austurhúsi Grundar þar sem heimilisfólk sat saman og skar út laufabrauð, las Heimilispóstinn og prjónaði. Já aðventan er ósköp notaleg hér hjá okkur á Grund.

Heimilisfólk útbýr jólasendingu til aðstandenda

Heimilisfólk var að pakka jólaútgáfu Heimilispóstsins í gær sem fara á til aðstandenda í pósti.

Pakka Heimilispósti til aðstandenda

Heimilisfólk var að pakka jólaútgáfu Heimilispóstisins í gær sem fara á til aðstandenda í pósti. Dásamleg stund þar sem spjallað var um allt milli himins og jarðar og ánægjan ekki síst fólgin í að geta orðið að liði og hafa hlutverk.

Jólabingó og jólalög

Það er ljúf aðventan í Ási eins og alltaf. Sr Pétur Þorsteinsson kom og söng með heimilisfólki jólalögin. Smákökubaksturinn hélt áfram og svo voru bakaðar súkkulaðibitakökur í haugum. Það var spilað jólabingó og vinningarnir glæsilegir en ýmis fyrirtæki í Hveragerði og næsta nágrenni gáfu veglega vinninga. Þeim er kærlega þakkað fyrir stuðninginn.

Kæru heimilismenn og aðstandendur

Nú verðum við að taka höndum saman, sem aldrei fyrr, til þess að verja heimilisfólk og starfsfólk smiti. Eftirfarandi reglur gilda frá 21.desember:

Rafkisur flytja á Grund

Átta rafkisur fluttu nýlega á Grund og láta vel af sér. Þær eyða deginum í fangi heimilisfólks, mala og kúra þar í góðu yfirlæti. Heimilisfólk er nokkuð ánægt með þessa nýju íbúa heimilisins og finnst virkilega gott að hafa þá nálægt.

Kæru aðstandendur

Það er búið að aflétta sóttkví og heimilis-og starfsfólk að ná heilsu eftir Covid smit sem kom upp hér á Grund og við erum þakklát fyrir það. Nú er orðið mjög jólalegt allt í kringum okkur enda aðfangadagur eftir viku og gestagangur alltaf heldur meiri fyrir og um hátíðarnar. Mig langar því enn og aftur að minna á sóttvarnir en smittölur eru háar í samfélaginu og okkur mikið í mun að fá ekki aðra covid sýkingu á Grund. Heimsóknarreglur hafa ekki breyst hjá okkur þó eiga allir gestir að bera andlitsgrímu á meðan á heimsókn stendur. Börn mega koma en þó bendum við á að börn eru oft einkennalaus og því biðjum við alla að sýna skynsemi í þessu, halda heimsóknum þeirra í lágmarki og biðjum um að börn beri einnig andlitsgrímur. Eftir sem áður geta heimilismenn farið út með ykkur en gæta verður fyllstu varúðar og við mælum ekki með að fólk fari í fjölmennar veislur um hátíðirnar. Ég set fréttabréf með í viðhengi en það var sent útí vikunni. Endilega hafið samband við mig eða starfsfólk deilda ef einhverja spurningar eru. Með von um allair njóti aðventunnar.

Púttað í snjó

Hér má sjá ástríðufulla kylfinga á púttvellinum í Mörk í lok nóvember. Þau láta ekki smá snjókomu stoppa sig, klæða sig bara eftir veðri. Púttvöllurinn er mikið notaður hjá okkur en á þriðjudögum hittast nokkrir íbúar og taka saman pútt, að því loknu fara þau í Kaffi Mörk og fá sér veitingar. Púttvöllurinn er kominn í smá vetrarfrí núna en verður opnaður aftur þegar fer að vora.