Fréttir

High Tea veisla

Á mánudögum hefur verið boðið upp á vöfflukaffi í kaffihúsinu okkar fyrir íbúana. Nú er það komið í sumarfrí og var ákveðið að hafa síðasta vöfflukaffið með öðru sniði. Við slógum upp eðal "high tea" veislu með dásamlegum veitingum. Það var góð stemning og vel mætt í þennan síðasta hitting fyrir sumarfrí en vöfflukaffið mun fara aftur af stað í lok ágúst.

Jóhanna Ásdís frá Namibíu

Jóhanna Ásdís Þorvaldsdóttir kom í heimsókn til okkar og sagði frá 7 ára búsetu sinni í Namibíu. Hún sýndi ýmsa muni frá dvöl sinni sem var einstaklega fróðlegt og skemmtilegt að sjá. Takk fyrir að koma til okkar Jóhanna Ásdís og deila reynslu þinni.

Guðrún Gísladóttir í heimsókn

Guðrún Gísladóttir fyrrum forstjóri Grundar kom í heimsókn til okkar í Mörkina. Íbúar hittust í samkomusalnum okkar Mýrinni og tóku á móti Guðrúnu. Hún sagði frá sögu Grundar en á þessu ári fagnar Grund 100 ára afmæli. Við viljum þakka Guðrúnu kærlega fyrir komuna.

Hendi þeir sem henda vilja...

Þarsíðasti föstudagspistill minn fjallaði langt í frá um málefni Grundarheimilanna heldur úrslit sveitarstjórnarkosninganna í Hveragerði. Sem auðvitað er hápólitískt mál í orðsins fyllstu merkingu. Efnið fór greinilega fyrir brjóstið á einhverjum viðtakandanum og sá hinn sami hafði sambandið við Fréttablaðið, kvartaði þar yfir að pistlarnir mínir væru stundum einhverjum viðtakenda þungbær lesning og úr varð talsverð frétt sem auðvitað hefur vakið athygli í nærsamfélagi mínu. Ég hef í gegnum þessa 360 pistla sem ég hef samið og sent vikulega síðustu níu árin, fengið ýmiskonar viðbrögð. Oftast ánægjuleg, sem er gott, eða a.m.k. skoðanaskipti sem mér finnst oft jafnvel enn betra. Einstaka kvartanir um efnistök hafa einnig borist mér í gegnum tíðina og auðvitað þykir mér það miður. Ég hef svarað slíkum athugasemdum eftir bestu getu en stundum hef ég í kjölfarið tekið viðkomandi af viðtakendalistanum svo honum berist ekki fleiri póstar sem mögulega valda óþægindum. Sjálfur fæ ég í innhólfið mitt á hverjum degi allskonar tölvupósta. Misáhugaverða. Þegar ég sé að efnið á ekki erindi til mín ýti ég á delete takkann og pósturinn fer beina leið í ruslið. Ég les aldrei pósta sem ég hef ekki áhuga á og ennþá síður ef efni þeirra veldur mér ónotum. Fékk símtal frá góðum vini mínum og guðsmanni um daginn, í framhaldi af umfjöllun Fréttablaðsins, og hann sagðist nú bara slökkva til dæmis á sjónvarpinu ef það væri eitthvað í því sem honum líkaði ekki. Eða skipti bara um stöð - sem sagt ekki flókið í hans huga. Mér sýndist ég geta lesið úr fréttinni að sumir íbúar Grundarheimilanna eða aðstandendur þeirra vildu gjarnan lesa og fylgjast með pistlum sem tengjast rekstri Grundarheimilanna en helst ekki neitt annað, til dæmis ekkert persónulegt frá mér. Sem ég virði. Þess vegna mun ég héðan í frá tilgreina efni póstanna í „subject“ línu þeirra þannig að vel sjáist hvort þeir fjalla um „innanhússmál“ eða eitthvað allt annað. Þannig geta þeir sem það vilja forðast að kíkja á innihaldið, þ.e. pistilinn sjálfan, ef hann snýst um óskyld mál. Þeim hinum sömu er þannig auðveldað að henda ritsmíðinni óskoðaðri beint út í hafsauga. Líka er sjálfsagt, og raunar bara vel þegið, ef fólk vill senda mér beiðni um að taka sig af póstlista pistlanna. Sjálfur mun ég hins vegar halda mínu striki með áframhaldandi skrif, bæði um málefni Grundarheimilanna og einnig á persónulegum nótum ef andinn blæs mér þeim í brjóst, enda eru pistlarnir fyrir löngu orðnir stór partur af minni rútínu. Ég mun hins vegar reyna að halda mig á mottunni og ganga hægt og varlega um þessar gleðinnar dyr. Svo lengi lærir sem lifir 😊 Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Uppskeruhátíð hjá kórum Grundarheimilanna

Nýverið var sannkölluð uppskeruhátíð hjá kórunum í Mörk og á Grund en kórarnir sameinuðust og héldu í vorferð. Ferðinni var heitið í Ás í Hveragerði þar sem sungið var fyrir heimilismenn og lífsins notið í sól og blíðu. Frábær ferð þar sem tónleikagestir nutu sem og kórarnir.

Grill og gaman

Einn góðviðrisdaginn fyrir skömmu var blásið til grillveislu á þriðju hæðinni í Mörk. Andrúmsloftið dásamlegt og allir lögðust á eitt með að hafa daginn litríkan og skemmtilegan.

Niðurstöður þjónustukannana Grundarheimilanna

Hér meðfylgjandi eru niðurstöður úr þjónustkönnunum sem voru lagðar fyrir heimilsmenn og aðstandendur þeirra á öllum þremur Grundarheimilunum í janúar 2022. Þessi könnun byggir á staðlaðri og þýddri könnun frá Edensamtökunum og hjálpar okkur við innra gæðastarf á heimilinu. Það er okkur mjög mikilvægt að fá að vita hvaða hluti við erum að gera vel en ekki síður hvar við getum bætt okkur. Vissulega vonuðumst við eftir meiri þátttöku en viljum við þakka kærlega öllum þeim sem tóku þátt.

Spörum orku, og aura

Þessa dagana er sól hvað hæst á lofti og nær hámarki eftir þrjár vikur. Einnig hefur verið þokkalega hlýtt undanfarna daga. Mikilli sól og hlýindum utandyra fylgja oftast nær mikill hiti og birta innandyra. Auðvitað aðeins háð húsnæði, gluggum og þess háttar. Orkunotkun á þessum tíma er meiri en okkur grunar. Þetta benti stjórnarformaður Grundar mér réttilega á fyrir all nokkrum árum. Við hugsum ekki mikið út í orkusóun í góðviðri. Á köldum vetrardögum pössum við upp á að vera með flesta glugga lokaða og að hafa hurðir ekki opnar út að óþörfu. En á sumrin vilja þessir hlutir gleymast. Okkur finnst heitt í herberginu og opnum gluggann til að laga málið. En gleymum ef til vill að skoða hvort ofninn sé stilltur á fjóra eða fimm. Og um leið og við hleypum kaldara lofti inn í herbergið skynjar ofninn það og hitinn hækkar. Augljós sóun eins og hún gerist best - eða reyndar verst. Þetta finnst mér miður. Og svo ægilega tilgangslaust að hita upp herbergi bara til að hleypa hitanum út, bruðla með orku og kasta peningum, nánast bókstaflega, út um gluggann. Svipað gildir um ljósin. Við erum vanaföst og líklega kveikjum við oft á tíðum ljósin frekar af vana en þörf. Maður tekur stundum ekkert eftir því hvort það er kveikt eða slökkt á björtum sumardegi og þá erum við enn og aftur að sóa orku og fjármunum með óþarfa lýsingu. Mér þætti vænt um ef við tækjum okkur saman um að minnka orkusóun Grundarheimilanna, jafnt nú í sumar sem til lengri framtíðar. Með því spörum við í senn takmarkaða orku heimsins og talsverða fjármuni í rekstri heimilanna. Byrjum á því að athuga hvort lækka megi í ofninum áður en við opnum gluggann. Áður en við kveikjum ljósin væri gott að við sannfærðum okkur um að það sé nauðsynlegt. Saman getum við áorkað heilmiklu í sparnaði fyrir umhverfi okkar og budduna. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna