Fréttir

Taktu auka skrefið

Sigfríður Birna Sigmarsdóttir er starfsmaður okkar hér í Mörk. Hún ætlar að hjóla Jakobsveginn og safna í leiðinni fyrir heimilið Glaumbæ í Mörk. Sjá hér að neðan frekari upplýsingar frá henni um tilhögun ferðarinnar og söfnunina.

Væntanleg stefnumótunarvinna

Stjórn Grundarheimilanna hefur haldið tvo stefnumótunarfundi á ári, yfirleitt í mars og október. Það var að frumkvæði stjórnarformanns Grundarheimilanna Jóhanns J. Ólafssonar að við hófum þessa vinnu með svo markvissum hætti og hefur að mínu mati skilað góðum árangri. Þessir fundir hafa ýmist verið eingöngu með stjórnarmönnum Grundarheimilanna og ráðgjöfum en stundum höfum við útvíkkað hópinn og bætt við hann nokkrum lykilstarfsmönnum heimilanna. Í ár þá verður sá háttur hafður á, að við bjóðum á undirbúningsfund nokkrum heimilismönnum, íbúum íbúðanna og aðstandendum. Sá fundur er haldinn í dag föstudaginn 24. febrúar. Á fundinum leitum við eftir því hvað gengur vel í starfinu og þjónustunni og hvað má fara betur. Til að fá álit sem flestra er auk fundarins efnt til könnunar á meðal aðstandenda og íbúa íbúðanna. Linkurinn er þessi: https://www.surveymonkey.com/r/grund Tekur stutta stund að svara og hentugt að fá svör og viðhorf sem flestra. Niðurstöður undirbúningsfundarins og könnunarinnar verða síðan nýttar til frekari úrvinnslu á stóra stefnumótunardeginum sem er fyrirhugaður um miðjan mars. Á mars fundinum munu auk stjórnar og ráðgjafa mæta nokkrir starfsmenn Grundarheimilanna sem munu marka stefnu þessara heimila og fyrirtækja til næstu ára. Sú stefna er reyndar, eins og áður sagði, skoðuð og eftir atvikum endurskoðuð tvisvar sinnum á ári. Að horfa fram í tímann er bráðnauðsynlegt í öllum fyrirtækjarekstri ásamt því að hlusta á óskir og þarfir þeirra sem búa hjá okkur á Grundarheimilunum þremur eða hjá Íbúðum 60+. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Hattaball á Grund

Það var hattaball á Grund á öskudag. Eins og venjulega þegar Grundarbandið mætir var mikið fjör í hátíðarsalnum og rúsínan í pylsuendanum var svo að hafa dásemdar söngkonuna Hjördísi Geirs með í hópnum. Frábær stund.

Góðir gestir í morgunstund

Á miðvikudögum er boðið upp á morgunstund í hátíðarsal Grundar. Í gær mætti söngkonan Ásta Kristín Pétursdóttir og gladdi okkur með söng. Eftir hádegi kom leikhópur Kvennaskólans í heimsókn, Fúría og söng lög úr sýningunni Ó Ásthildur sem þau eru að setja upp í mars. Takk kærlega fyrir komuna.

Grundarheimilin fengu 15 spjaldtölvur að gjöf

Þór Pálsson framkvæmdastjóri hjá Rafmennt kom færandi hendi á Grund með 15 spjaldtölvur sem voru gjöf til Grundarheimilanna. Rafmennt hefur gefið nemendum sem hefja grunnnám rafiðngreina spjaldtölvu til eigna. Á seinasta ári var ákveðið að breyta um styrk til grunnnámsnema. Þessi spjöld eru afgangur frá þessu verkefni og ákvað stjórn Rafmenntar að gefa þau til góðgerðarmála. Á myndinni er Þór Pálsson fyrir miðju og Sigríður Sigurðardóttir og Kjartan Örn Júlíusson sitt hvoru megin að taka við þessari rausnarlegu gjöf. Rafmennt er þakkað af heilum hug fyrir spjaldtölvurnar og hulstrin sem fylgdu. Þær eiga eftir að koma sér mjög vel á Grundarheimilunum þremur.

Rósir í tilefni konudags

Konudagurinn er á morgun, sunnudag og við tókum aðeins forskot á sæluna í gær og gáfum öllum heimiliskonum Grundarheimilanna rós. Á morgun verður svo boðið upp á konudags ostaköku og konfekt með kaffinu.

Konudagurinn

Konudagurinn er haldinn hátíðlegur næsta sunnudag. Fer ekki í tilurð dagsins en hann er finnst mér svona á pari við bóndadaginn sem er fyrsti dagur í þorra. Á konudegi gefa flestir/sumir karlmenn konum sínum blóm, konfekt eða eitthvað annað fallegt og gott. Það hefur verið allskonar hjá mér í þessu í gegnum árin. Einstaka sinnum blóm, en þó oftar einhver falleg og áhugaverð hönnunarblöð sem minn betri helmingur kann mjög vel að meta. Sjaldan ef nokkkurn tíma konfekt. Við á Grundarheimilunum ákváðum að gefa öllum heimiliskonum heimilanna þriggja rós í tilefni dagsins, var gert á Grund í fyrra og er nú yfirfært á heimilin þrjú. Fallegt. Valentínusardagurinn er svo annar svona konudagur. Haldinn hátíðlegur 14. febrúar ár hvert og er sagður dagur elskenda. Algjört bull finnst mér, amerískur siður sem að seljendur blóma, konfekts og allskonar svona konuvara hafa innleitt og auglýsa grimmt hitt og þetta til að gefa elskunni á þessum degi elskenda. Hef aldrei, og mun aldrei, taka þátt í því rugli. En hugsum hlýtt til okkar ástkvenna og gleðjum þær með einhverjum fallegum hætti á sunnudaginn kemur 😊

Lífshlaupið í Mörk

Lífshlaupið er hafið. Starfsfólk iðju- og sjúkraþjálfunar í Mörk hefur farið um húsið eins og stormsveipur með léttar og skemmtilegar æfingar í vikunni, Það hafa verið frábærar viðtökur bæði hjá heimilis- og starfsfólki.

Lífshlaupið í Ási

Lífshlaupið er hafið í Ási…. Alla vikuna hefur starfsfólk Iðjuþjálfunar ásamt íþróttafræðingnum okkar farið um heimilið með léttar og skemmtilegar æfingar sem allir hafa haft gaman af að spreyta sig á.

Líflegt í sjúkraþjálfun Grundar

Það eru fjölbreyttar æfingar sem heimilisfólkið okkar á Grund tekst á við dag hvern og andrúmsloftið létt og skemmtilegt. Nú er sundlaugin okkar líka að komast í gagnið aftur eftir Covid og lagfæringar.