Fréttir

Heimilispósturinn - desember 2021

Lionsklúbbur Seltjarnarness gefur loftdýnur

Lionsklúbbur Seltjarnarness kom færandi hendi fyrir helgi með tvær loftdýnur handa heimilisfólki. Dýnurnar nýtast mjög vel þegar varna á legusárum og koma sér afskaplega vel hér á Grund. Lionsklúbbnum er innilega þakkað fyrir höfðinglega gjöf

Um að gera að liðka sig eftir morgunmatinn

Það er notalegt að byrja daginn með stólaleikfimi til að liðka sig aðeins fyrir daginn eða það finnst að minnsta kosti mörgum heimilismönnum sem búa á Litlu og Minni Grund. Þessi mynd var tekin í morgun þegar fólk dreif sig í leikfimina eftir morgunmatinn

Dásamlegt dömukaffi

Það er alltaf gaman þegar konur koma saman og spjalla og svo ekki sé nú talað um ef boðið er upp á góðar veitingar líka. Þannig var það hjá heimiliskonum sem búa í vesturhúsi Grundar í síðustu viku. Frábær félagsskapur og dýrindis veitingar.

Workplace

Undanfarnar vikur höfum við á Grundarheimilunum verið að taka upp Workplace sem er samskiptaforrit tengt Facebook en stendur algjörlega sjálfstætt. Helsta hlutverk WP er að með forritinu fæst sameiginlegur vettvangur allra starfsmanna Grundarheimilanna.. Þar að auki er hægt að vera með sérstakar síður fyrir hverja og eina einingu, deild, heimili og svo framvegis þar sem hægt er að koma margvíslegum upplýsingum á framfæri, til dæmis varðandi aukavaktir, óskum um skipti á vöktum og svo framvegis. Þá er WP einnig tilvalið til að skipuleggja og tilkynna skemmtanir og viðburði og ná þannig að þjappa hópum saman. Forritið virkar eins og Facebook sem flestir þekkja og kemur í staðinn fyrir þær Facebook síður sem deildirnar og heimilin hafa notast við hingað til og í stað hefðbundinna tölvupóstsamskipta. Undirritaður forstjóri mun þó væntanlega áfram notast fyrst og fremst við tölvupóstinn varðandi dagleg samskipti og afgreiðslu ýmissa mála. Þess ber þó að geta að ég gat, reyndar með góðri aðstoð Írisar mannauðsstjóra, sett mynd af mér inn á prófílinn minn á WP, geri aðrir betur 😊 WP einfaldar aðgengi að ýmsum hagnýtum upplýsingum, til dæmis nýliðafræðslunni, starfsmannahandbókum og öðrum verklagsreglum. Það allt saman má finna undir Knowledge library. Innleiðing hefur gengið misjafnlega undanfarnar vikur en ég er viss um að notkun forritsins verður vel þess virði. Vonandi verður starfsfólk tengdara og lifir sig meira sem hluta af heild. Fyrsti viðburðurinn á WP verður næsta laugardag. Auðvitað viljum við helst hittast í raunheimum en á meðan ástandið er eins og það er í samfélaginu, þá er þessi vettvangur tilvalinn til að eiga saman skemmtilega kvöldstund. Notum WP og njótum laugardagskvöldsins saman. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Keli fluttur í Mörk

Hrafnkell Kárason sem bjó á Miðbæ á 2-hæð, lést þann 29. október síðastliðinn. Ekkja hans, Dröfn Jónsdóttir og dóttir hans Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, komu nýlega og gáfu heimilinu þennan yndislega gleðigjafa sem malar og mjálmar. Það er búið að gefa honum nafnið Keli og við hlökkum mikið til að njóta samveru hans. Við færum mæðgunum hjartans þakkir.

Tóku þátt í árlegu leynisamprjóni

Einu sinni á ári býður prjónahönnuðurinn Stephen West upp á leynisamprjón þar sem prjónað er sjal sem hann hannar. Fanney Björg Karlsdóttir iðjuþjálfi í Ási er ein þeirra sem tóku þátt núna fjórum öðrum starfsmönnum í Ási.

Fleiri hjúkrunarrými? Já takk

Enn og aftur berast neyðarköll frá Landspítalanum. Nú síðast frá forstjóranum sjálfum sem haft var eftir rétt nýlega orðrétt á alnetinu: „Þetta stendur og fellur með að það þarf að fjölga hjúkrunarrýmum“. Eðlilega, covid 19 hefur tekið flugið á ný og allt of mörg rými á þjóðarsjúkrahúsinu eru setin, eða legin, af einstaklingum sem eru flestir búnir að fá sína greiningu og eftir atvikum lækningu, og þurfa að komast í varanlega dvöl á hjúkrunarheimili. Þessi neyðarköll stjórnenda LSH hafa endurómað þá rúma þrjá áratugi sem ég hef sinnt stjórnunarstörfum í öldrunarþjónustu hér á landi. Og sýnist að köllin komi til með að endurtaka sig reglulega um ókomna tíð, í það minnsta á meðan ég verð í mínu starfi. Því miður virðist ekki skipta máli hvort covid faraldur geysi, ég fann á alnetinu margar tilvitnanir mörg ár aftur í tímann á sömu nótum þegar ég leitaði eftir nýjustu ummælum forstjóra LSH. Það er alveg með ólíkindum að þessi staða skuli koma upp með svo reglubundnum hætti. Það er ekki eins og að tölfræðin, aldurssamsetning þjóðarinnar eða aðrar viðeigandi upplýsingar liggi ekki fyrir. Þessir einstaklingar fæddust á fyrri hluta síðustu aldar og hafa verið til í 70 – 90 ár. Og það er frekar einföld stærðfræði að reikna út hversu margir einstaklingar á þeim aldri þurfi á dvöl á hjúkrunarheimili að halda. En einhvern veginn tekst ráðamönnum landsins að klúðra þeim útreikningi, eða það sem verra er, að þeir reikni þetta jafnvel ekkert út. Reglulega er blásið í lúðra og tilkynnt með pomp og prakt að nú skuli þessi mál öll sömul leyst með aukinni heimahjúkrun og heimaþjónustu. Og jafn oft hafa þessi fögru fyrirheit beðið skipsbrot, í það minnsta steytt á skeri. Vissulega hefur orðið aukning í heimahjúkrun og heimaþjónustu sem ber að þakka fyrir og er hið besta mál, en bara ekki nægilega mikið til þess að minnka sívaxandi eftirspurn eftir hjúkrunarrýmum, þannig að þau dugi til. Vonandi sér ný ríkisstjórn ljósið og gerir bragarbót á uppbyggingu, umgjörð og rekstrarumhverfi hjúkrunarheimila landsins. Þeir sem eru komnir á efri ár, eru hrumir og bíða á LSH eftir plássi á hjúkrunarheimili, eiga það skilið. Þeir sem bíða eftir nauðsynlegum aðgerðum á LSH og komast ekki í þær vegna framangreindra sem bíða í rúmunum þar, eiga það skilið. Við eigum það öll skilið. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Viðurkenningar veittar í Mörk

Fyrir skömmu var haldið árlegt starfsmannakvöld í Mörk þar sem veittar voru starfsaldursviðurkenningar og fyrrum starsmenn heiðraðir. Það er einnig venja að bjóða starfsmönnum að borða saman kvöldverð og spila síðan að lokum um glæsilega bingóvinninga.

Fyrrum starfsmenn heiðraðir

Eins og venja er á starfsmannakvöldum Grundarheimilanna eru fyrrum starfsmenn heiðraðir. Þessi mynd var tekin af fyrrverandi starfsfólki Grundar þegar Gísli Páll Pálsson þakkaði þeim vel unnin störf og færði þeim blómvönd sem þakklætisvott.