Kæru aðstandendur

  Í samráði við sóttvarnaryfirvöld gerum við nú tilslakanir á heimsóknarreglum.  Áfram biðjum við gesti að gæta ítrustu árverkni og hafa sóttvarnarráðstafanir í heiðri.
  • Gestir og börn þeirra eru velkomin.
  • Gestir dvelja ekki í sameiginlegum rýmum heimilanna eins og borðstofu og setustofu. 
  • Gestir, börn og heimilismenn hjúkrunarheimilisins eru velkomnir í Kaffi Mörk á meðan sætarými leyfir.
  • Heimilismönnum er heimilt að fara út af heimilinu, í garðinn okkar fallega, í bílferðir og heimsóknir með sínum nánustu. 
  • Gestir bera grímur, spritta hendur og fara beint inn á herbergi þar sem þeir geta tekið grímuna niður.
  • Aðalinngangur í Mörk er opinn milli kl.8-18.

Mikilvægt er að hafa í huga að sömu samkomutakmarkanir gilda í Mörk og almennt í samfélaginu og höfum hugfast að bólusettir einstaklingar geta smitast af Covid og smitað aðra.

Í Mörk er búið að fullbólusetja allflesta heimilismenn og starfsmenn.  Enn er eftir að bólusetja vorboðana okkar ljúfu, starfsmenn sem hófu störf á vormánuðum og eru komnir til að leysa okkur hin af í sumarfrí, ef af líkum lætur fá þau bólusetningu á næstu vikum.

Ég tek heilshugar undir orð Gísla Páls forstjóri Grundarheimilanna það sem hann sagði meðal annars í pistli sínum 30.apríl síðastliðnum að lengsti og erfiðasti vetur á sinni starfsævi væri lokið.  En þeir sem þekkja mig vita að ég er bjartsýnismanneskja að eðlisfari og nú horfir til betri tíðar þar sem sumarið er heldur betur farið að minna á sig og framundan er sól og sumarylur.

Hjartans þakkir fyrir allt og gleðilegt sumar,

Ragnhildur